Molar um málfar og miðla 1605

  Áskell skrifaði (28.10,.2014): ,,Í frétt á mbl.is segir í upphafi að Ísland sé í "...fyrsta sæti á lista World Economic For­um líkt og und­an­far­in ár..." En hvað er World Economic Forum? Ég skil orðin en þekki ekki fyrirbærið. Án efa lýsir það umtalsverðum þekkingarskorti en þá verður svo að vera. Ef ýtt er á slóð sem fylgir fréttinni flyst lesandinn yfir á síðu á ensku. Hefðir þú, Eiður, látið þessa frétt fara svona út?

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/28/island_i_fyrsta_saeti_eins_og_venjulega/

– Þakka þér línurnar, Áskell. Vonandi hefði ég haft dómgreind , eða mínir yfirmenn á sínum tíma, til að láta þetta ekki birtast svona.

 

Á miðvikudagsmorgni (29.10.2014) var í Ríkisútvarpinu sagt frá þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Þar tók fréttamaður þannig til orða að milli funda notaði fólk tækifærið til að mingla. Molaskrifari sótti mörg Norðurlandaráðsþing á árum áður. Bæði sem fréttamaður og seinna þingmaður. Þar blandaði hann geði við ýmsa, hitti marga og eignaðist góða vini. Hann minnist þess ekki að hafa verið að mingla eins og fréttamaður talaði um. Enda er það tiltölulega nýleg og algjörlega óþörf enskusletta í íslensku máli.

 

Margt er það og merkilegt sem lesa má á mbl.is. Þar var (29.10.2014) sagt frá manni sem var andlega fjarverandi. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/29/aetladi_ad_sofa_i_budinni/

Úr sama miðli sama dag: Haft er eft­ir tals­manni slökkviliðsins að maður­inn hafi fund­ist án meðvit­un­ar og hann hafi ekki andað. Á væntanlega að vera án meðvitundar! Meðvitundarlaus.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/10/29/festist_a_girdingu_og_let_lifid/

 

Æ algengara verður að sjá orðtökum ruglað saman. Bloggari skrifaði (29.10.2014): Nú stendur Brownback uppi með sárt ennið. Venja er að tala um að sitja eftir með sárt ennið. Verða fyrir miklum vonbrigðum. Missa af einhverjum happafeng.

 

Fréttamenn eiga að kunna sæmileg skil á notkun forsetninga með staðanöfnum á Íslandi. Í fréttum Ríkisútvarps (30.10.2014) var sagt á Stykkishólmi. Föst málvenja er að segja í Stykkishólmi. Nýlega var þar einnig sagt í Höfn í Hornafirði. Málvenja er að segja á Höfn í Hornafirði.

 

Næstu Molar á mánudag.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1604

  Rafn skrifaði (29.10.2014): ,,Í mola nr. 1603 er vikið að enskuslettunni „tax free“ og mis- og ofnotkun hennar. Ofan á þessa mis- og ofnotkun bætist, að notendur slettunnar virðast alls ekki skilja þá slettu, sem þeir eru þó að nota. Samkvæmt almennum málskilningi er „tax free“ notað um verð án virðisaukaskatts, það er um verð með 20,32% afslætti, það er söluverð 79,68% upphaflegs verðs miðað við almennt virðisaukaskattshlutfall á Íslandi.

Í mjög mörgum tilvikum er hins vegar boðið upp á „tax free“ af verði auglýstrar vöru. 
Það hlýtur samkvæmt almennum málskilningi að merkja, að varan sé lækkuð um „tax free“ verð eða um 79,68% og nýtt söluverð því 20,32% fyrra verðs. Ég hefi grun um, að sú sé þó ekki meining auglýsenda, en þetta mælir ekki síður, en almenn málfarsrök gegn notkun slettunnar, sem meira að segja notendur hennar virðast ekki skilja.” - Þakka bréfið, Rafn.

 

Í huga Molaskrifara hefur orðið einkavæðing tvennskonar merkingu. Orðabókin birtir aðeins aðra: Að selja fyrirtæki í opinberri eigu til einkaaðila (einstaklinga eða fyrirtækja). Molaskrifari er á því, að sögnin að einkavæði þýði einnig að fela einkaaðilum, fyrirtækjum eða einstaklingum að annast þjónustu, sem hið opinbera, ríki eða sveitarfélög hafa áður haft með höndum. Í því þarf ekki að felast neins konar sala, einkaleyfi eða einokun. Mörg slík fyrirtæki starfa hér samhliða fyrirtækjum, sem rekin eru af ríki eða sveitarfélögum.

Orðið einkavæðing hefur hinsvegar fengið neikvæða merkingu í málinu, ekki síst vegna þess að stjórnmálamenn hafa ,,selt” eða fært vinum sínum á silfurfati eignir úr eigu hins opinbera. Þarf að nefna einkavæðingu ríkisbankanna? Þar hefur ágætlega verið sagt að um einkavinavæðingu hafi verið að ræða.

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (28.10.2014) var rætt um heilbrigðismál, meðal annars þjónustu við aldraða. Fagna ber málfarsumræðu á þessum vettvangi. Hjá umsjónarmönnum þótti Molaskrifara koma fram fremur neikvæður tónn í orðinu einkavæðing. Viðmælandi þeirra benti þeim á að einkavæðing í þessum efnum hefði verið hér við lýði frá árinu 1922 (Grund) . Nú um stundir er hjúkrunarþjónusta við aldraða rekin af einkaaðilum með frábærum árangri, þannig að til mikillar fyrirmyndar er (Sóltún, til dæmis). Ekkert er að því að opinber rekstur og einkarekstur dafni hlið við hlið. Við höfum að vísu séð hörmuleg dæmi um stórfelld fjármálamistök í einkareknum rekstri á þessu sviði (Eir). Þar var ekki við kerfið að sakast, heldur þá sem áttu að stýra kerfinu og hafa stjórn á fjármálunum.

 Í Noregi er til dæmis alls ekki öll þjónusta heilbrigðiskerfisins á vegum hins opinbera eins og oft er látið í veðri vaka. Molaskrifari og eiginkona hans bjuggu í Noregi í fimm ár. Nutu þar þjónustu einkarekinnar heilsugæslustöðvar , - hún var næst okkur. Fengum þar góða þjónustu og ekki varð þess vart að neinn styrr stæði um þann rekstur. Í Kanada áttum við góð samskipti við heilsugæslustöð í eigu tveggja lækna, bræðra sem voru af íslensku bergi brotnir. Ekki virtist einkareksturinn valda vandræðum þar.

 Stundum fá orð neikvæða, gildishlaðna merkingu að ósekju. Víkka þarf merkingarsvið orðsins einkavæðing í Íslenskri orðabók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1603

  Af mbl.is (25.10.2014): ,,Val­hnet­ur í Kína hafa hækkað gríðarlega í verði und­an­far­in ár og er svo komið að kíló af val­hnet­um kost­ar meira en kíló af gulli. Í mörg ár hef­ur hnet­an táknað vel­meg­un og vel­gengni”. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/10/25/vist_vaxa_peningar_a_trjanum/

Hér hefur ef til vill eitthvað skolast til. Á netinu má sjá að eitt kíló af gulli kostar um 4,7 milljónir íslenskra króna. Varla getur valhnetukílóið verið svo dýrt, - eða hvað?

 

Gott var að heyra málfarsráðunaut og umsjónarmenn Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (28.10.2014) fjalla um enskuslettuna tax-free sem dynur á okkur í auglýsingum í öllum fjölmiðlum, - næstum hvern einasta dag. Í þessum Molum hefur verið amast við þessari slettu árum saman. Ekki minnist Molaskrifari þess að hafa fengið undirtektir við þau skrif í Ríkisútvarpinu fyrr en nú. Betra er seint en aldrei. Hvað er til ráða? Tvennt er til ráða. Ríkisútvarpið á að neita að taka við auglýsingum þar sem þessi enskusletta er notuð. Eiga ekki auglýsingar að vera á vönduðu íslensku máli? Sáraeinfalt og auðvelt. Svo eiga auglýsingastofur að taka höndum saman og hætta að nota slettuna í auglýsingum, sem þær hanna eða semja. Þetta er alls ekki flókið.

 

...þar sem venja er fyrir því að baka vöfflur, var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarps (27.10.2014). Hér hefði nægt að segja: ... þar sem venja er að baka vöfflur. Ekki er venja að segja að venja sé fyrir einhverju ! Hinsvegar er stundum sagt að hefð sé fyrir einhverju.

 

 Það var ágætlega orðað í fréttum Ríkissjónvarps (27.10.2014) þegar talað var um að lenda milli skips og bryggju í kerfinu, tilvik þar sem ekkert var hægt að gera vegna þess að engar reglur voru til um það mál sem um var að ræða. Það var hinsvegar ekki eins vel orðað að mari Molaskrifara, þegar talað var um að Læknavaktin hefði opnað klukkan fimm. Í seinni fréttum Ríkissjónvarps (28.10.2014) var sagt frá snjóflóði, sem féll á veginn í Ólafsfjarðarmúla. Vegfarendur voru beðnir að aka varlega og stöðva ekki að óþörfu. Molaskrifari hefði sagt , - stansa ekki að óþörfu. Nema ekki staðar að óþörfu.

 

 Framför. Seinni fréttum Ríkissjónvarps seinkaði um fjórar mínútur á mánudagskvöld (27.10.2014). Seinkunin var tilkynnt á skjáborða og fréttaþulur baðst afsökunar í upphafi fréttatímans. Þannig á þetta einmitt að vera, ef dagskrá fer úr skorðum.

 

Trúlofaðist kærastanum, sagði í fyrirsögn á mbl.is (28.10.2014). Það var og! http://www.mbl.is/folk/frettir/2014/10/28/trulofadist_kaerastanum/

 

Málvöndun er ekki beinlínis í hávegum höfð í Virkum morgnum, morgunþætti Rásar tvö. Aðfaranótt miðvikudags (29.10.2014) var flutt  endurtekið efni úr þeim þætti. Þar var einhverskonar sölumennska  í gangi. Þá sagði umsjónarmaður: Þessum einstaklingi vantar ....   Það var og.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1602

  Fyrrverandi kollega skrifaði (26.10.2014): ,,Við dagleg fréttaskrif er mikil hætta á því að menn festi sig í alls kyns vondu málfari, sem síðan gengur aftur og aftur eins og illvígur draugur. Því er mikilvægt að reglulega séu fréttir skoðaðar af þar til bæru fólki, sem síðan bendir fréttamönnum á hvað betur mætti fara. Þarna á ég við málfarsráðunauta, en svo virðist sem fréttastofur hafi ekki lengur efni á slíkum lúxus. Síðast núna áðan í hádegisfréttatíma Ríkisútvarpsins (26.10.2014) talaði fréttamaður um að bjóða ætti almenningi aðgang að ferðamannastöðum gjaldfrjálst. Fer ekki mun betur á því að bjóða fólki inn á ferðamannastaði frítt? Eða bjóða almenningi frían aðgang að Gullfossi og Geysi ? Þetta gjaldfrelsi er að festa sig í sessi, svona eins og orðskrípið áhafnarmeðlimur, sem enginn virðist lengur hafa afl til að berjast gegn.” Molaskrifari þakkar gömlum vini þarfar og réttmætar ábendingar.

 

Hér hefur löngum verið kvartað yfir því að ekki væru fréttir í Ríkisútvarpinu frá því klukkan tólf á miðnætti til klukkan sjö að morgni og það þótt fréttamaður væri á vakt á alla nóttina. Úr þessu hefur nú verið bætt og það bera að þakka. Batnandi manni er best að lifa, stendur einhversstaðar.

Nú eru fréttir á Rás tvö klukkan eitt, tvö, fimm og sex að morgni og síðan sjöfréttir. Þetta er góður áfangi. En hversvegna ekki líka fréttir klukkan þrjú og fjögur? Þær koma vonandi senn.

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (25.10.2014) var sagt að Landhelgisgæslan og norski herinn og hafi átt í þegjandi samkomulagi um ... Þetta var reyndar margtuggið í seinni fréttatímum. Molaskrifara hefði þótt betra orðalag að tala um að milli Landhelgisgæslunnar og norska hersins hafi verið, hafi ríkt, þegjandi samkomulag um ... Molaskrifari kannast ekki við orðalagið að eiga í samkomulagi við einhvern.

 

Í frétt Stöðvar tvö um könnun á afstöðu fólks  til byggingar nýs Landspítala 25.10.2014) var spurt hvort fólk þætti mikilvægara að ríkið borgaði niður skuldir eða ... Þannig á reyndur fréttamaður ekki að taka til orða. Hann hefði átt að spyrja hvort fólki þætti mikilvægara að ...

 

Í Óskalögum þjóðarinnar í Ríkissjónvarpinu á laugardagskvöld sagði stjórnandi okkur að rassvasasímar væru svolítið (soldið) inn. Átti við að slíkir símar væru vinsælir. Hrátt úr ensku. Stjórnendur sjónvarpsþátta eiga vanda málfar sitt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1601

 Ná sátt um jarðaför Palestínumanns, sagði í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (26.10.2014) http://www.ruv.is/frett/na-satt-um-jardafor-palestinumanns

Orðið jarðaför var einnig notað í meginmáli fréttarinnar. Þetta var því ekki innsláttarvilla. Heldur vankunáttuvilla. Þarna hefði átt að tala um jarðarför. Færeyingar tala um jarðarferð, útför

 

Taktleysi og ósmekkvísi stjórnenda Hraðfréttaþáttar Ríkissjónvarpsins á föstudagskvöld (24.10.2014) kristallaðist í kirkjugarðsatriðinu sem þar var flutt. Ófyndið. Ósmekklegt. Stjórnendur Ríkisútvarpsins ættu nú að sjá sóma sinn í að jarðsetja svokallaðar Hraðfréttir í kirkjugarði misheppnaðara sjónvarpsþátta. Hann hlýtur að vera til.

 

Skoðanakannanir um sjónvarpsáhorf og útvarpshlustun, um það hve margir horfa/hlusta á tiltekið efni eru oft fróðlegar, en segja aðeins hálfa sögu. Einnig þarf að spyrja hvað fólki finnst um efnið. Gott, slæmt, eða sæmilegt.

 

Samkvæmt sáttasemjara , var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (23.10.2014). Betra hefði verið, að mati Molaskrifara að segja , að sögn sáttasemjara. Þá var talað um tíða komu skemmtiferðaskipa. betra hefði verið, - tíðar komur skemmtiferðaskipa. Í Speglinum varð ágætum fréttamanni á að segja, - fyrir ýmsar sakir, allt frá skattsvikum og ólöglegum fyrirtækjarekstri til njósna og landráðs. – Orðið landráð er fleiritöluorð. Ekki til í eintölu.

 

T.H. bendir á þetta og segir: Ýmislegt er nú haldið upp á! http://revive.visir.is/www/images/92322e56123e8a83e33622882523f060.jpg

Það má með sanni segja! Fyrirtæki eða vefsíða er eins árs og heldur upp á lagersölu af því tilefni !!! Þakka ábendinguna.

 

Það hefur áður verið sagt hér og skal áréttað að þættir Gísla Arnar Garðarssonar og hans fólks, Nautnir norðursins eru afburða gott efni. Vel útfærð hugmynd. Þessir þættir eiga eftir að fara víða. Molaskrifara þótti hinsvegar ekki mikið koma til danska sykur- og sætabrauðsþáttarins um karamellugerð ,sem sýndur var sl. fimmtudagskvöld. Eina bótin var að hann var stuttur. Svo sérsinna er Molaskrifari, að hann fékk vatn í muninn, þegar snæddur var lútfiskur í þætti Gísla Arnar!

 

Trendsetterinn er nýjasti tískubloggarinn, sagði á svokölluðu Smartlandi mbl.is (24.10.2014). Alltaf í fararbroddi þegar kemur að vönduðu málfari! http://www.mbl.is/smartland/frami/2014/10/24/trendsetterinn_er_nyjasti_tiskubloggari_islands/

 

Á sunnudagskvöld (26.10.2014) lauk vandaðri þáttaröð Ríkissjónvarps um landnám og afkomendur Íslendinga í Vesturheimi. Þessir þættir voru vel undirbúnir og vel unnir. Til sóma í hvívetna. Þökk sé Agli Helgasyni og hans góða samstarfsfólki. Ekki er þar minnstur hlutur Ragnheiðar Thorsteinsson.  Molaskrifari lítur svo á að þessir þættir séu áfangi, - góður áfangi í að segja þjóðinni þessa merku sögu. Margt er nefnilega enn ósagt um sögu landnemanna, afrek þeirra og afkomendur. Það þurfum við að fá að sjá og heyra.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1600

 Það var eitt og annað athugavert við málfar i  eftirfarandi frétt af vef Ríkisútvarpsins (22.10.2014) um deilur vegna skipsins Fernöndu sem eldur kom upp í fyrir um ári. Landhelgisgæslan bjargaði áhöfninni frækilega  og skipið var dregið til hafnar. Það var síðan bútað niður í brotajárn. http://www.ruv.is/frett/faer-ekki-130-milljonir-vegna-fernondu

Fréttin var lesin í seinni fréttum sjónvarps á miðvikudagskvöld.

Sagt var:,-  ,,,mörgum tugum lítra af olíu var dælt úr því”. Rangt. Olíumagnið var margfalt meira. Fram kom á fréttavef Ríkisútvarpsins í byrjun nóvember í fyrra að um 100 tonn af olíu væru enn í tönkum skipsins. Sagt var að málið væri ,, nú statt hjá lögfræðingum Landhelgisgæslunnar”. Statt hjá lögfræðingum? Lögfræðingar Landhelgisgæslunnar fjalla nú um málið. Loks var talað um ,,björgunarlaun vegna skipsverjanna ellefu”. Orðið skipsverji kannast Molaskrifari ekki við. Orðið skipsmaður hefur hann hinsvegar heyrt notað um skipverja. Fjölmennasta fréttastofa landsins  á að  vanda betur til verka.

 

Hógvært samtal Jóhannesar Kr. Kristjánssonar við Landspítalafólk í Kastljósi á miðvikudagskvöld 22.10.2014) var hrollvekjandi. Ekki voru þó notuð stóru orðin, en alvara málsins komst vel til skila. Mörgum hefur áreiðanlega verið brugðið. Svo tala menn í alvöru um að eyðileggja verðmætt samgöngumannvirki sem Reykjavíkurflugvöllur er til að fullnægja duttlungum skammsýnna stjórnmálamanna í Reykjavík. Við gerum ekki hvort tveggja í senn að byggja nýjan Landspítala og gera nýjan flugvöll. Við höfum ekki ráð á því. Valið ætti ekki að vera erfitt.

Landspítalamálinu var svo vel fylgt eftir í Kastljósi gærkvöldsins. Viðmót Páls Matthíassonar forstjóra Landspítalans hæfði alvöru málsins. Stóryrðalaust gerði hann okkur ljósa alvöru málsins og kurteislega brást hann við illa ígrunduðum og allt að því dónalegum fullyrðingum Vigdísar Hauksdóttur formanns fjárlaganefndar. Takk Jóhannes Kr. Takk Kastljós.

 

Rafn vitnar í fréttavefinn visir.is (23.10.2014), en þar segir: ,,Fyrsti bíllinn sem Jaguar/Land Rover framleiðir í verksmiðjunni er Range Rover Evoque, en einn fimmti af hverjum framleiddum slíkum bíl selst nú í Kína. Kína er stærsti markaður fyrir Jaguar/Land Rover bíla og þar seljast nú yfir 100.000 bílar á ári.” Rafn spyr: ,, Væri ekki heppilegra að selja fimmta hvern bíl í Kína, fremur en láta Kínverja kaupa fimmtung hvers einasta bíls? Væntanlega þarf nú að semja við Kínverja um afnot af hinum 80% hlutnum í hverjum bíl, nema Kínverjar endurselji fimmtung sinn”. Molaskrifari þakkar Rafni bréfið. Von er að spurt sé. Sjá: http://www.visir.is/range-rover-framleiddur-i-kina/article/2014141029512

Molaskrifara þykir jafnan vænt um það, þegar honum eru þökkuð Molaskrifin eða vinsamlega að þeim vikið. Það var gert í Staksteinum Morgunblaðsins á þriðjudag (21.10.2014). Hefur þó ekki alltaf verið farið mjúkum höndum um málfar í Morgunblaðinu í þessum Molum. Molaskrifari þakkar fyrir sig.

 

Næstu Molar á mánudag.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1599

 Molavin sendi eftirfarandi (21.10.2014) : "Ekki liggur ljóst fyrir hversu háar upphæðir maðurinn er talinn hafa stungið undan." Þetta er úr Vísisfrétt 21.10.2014. Dæmi af þessu tagi, þar sem fréttamenn kunna ekki að beita einföldustu beygingarreglum, má finna daglega í fjölmiðlum. Þarna ætti vitaskuld að standa: "...hversu háum upphæðum..." Enn betra væri að segja "hversu miklu fé..." Vinnuálag og hraði er engin afsökun. Þetta er fúsk, sem er því miður orðið upp á síðkastið einkenni íslenskra fjölmiðla. Á erlendum miðlum gilda oftast skýrar reglur um málfar og stíl og þar er ritstjórn m.a. fólgin í því að lesa fréttir yfir og lagfæra þær ef við á. Af hverju sætta Íslendingar sig við fúsk?”

Molaskrifari þakkar gott bréf. Við eigum ekki að sætta okkur við fúsk við eigum að gera kröfur til fjölmiðla. Kröfur um vandað málfar. Því svo læra börnin málið sem það er fyrir þeim haft.

 

Molavin beindi einnig athygli skrifara á frétt á vef Ríkisútvarpsins á þriðjudag (21.10.2014) en fyrirsögn fréttarinnar er: Skildi sálu sína eftir við ánna. Það er eiginlega erfitt að trúa þessu. En svona birti Ríkisútgarpið okkur þetta á vef sínum: http://www.ruv.is/mannlif/skildi-salu-sina-eftir-vid-anna

Við ána. Lýsandi dæmi um vond vinnubrögð. Skort á verkstjórn. Ekkert eftirlit með framleiðslunni. Ekkert gæðaeftirlit.

 

 

Í fréttum Stöðvar tvö (21.10.2014) um enn eina kafbátaleitina í sænska skerjagarðinum var talað um skip sem væru í landhelgi án tilkynningar. Heldur fannst Molaskrifara þetta klaufalega orðað. Átt var við skip í landhelgi sem ekki höfðu tilkynnt yfirvöldum um ferðir sínar.

 

í fréttum Ríkissjónvarps (21.10.2014) var  sagt frá því að álftir ætu upp til agna korn á tugum hektara hjá kornræktarbændum. Tjón af þeirra völdum væri því umtalsvert en lítið unnt að gera því álftin væri hvarvetna alfriðuð vegna þess að hún væri fallegur fugl og syngi vel. Molaskrifar tekur undir það að falleg er álftin og heyrði ekki Steingrímur Thorsteinsson svanasöng á heiði? Þau hljóð sem Molaskrifari hefur heyrt frá álftum í byggð eða grennd við byggð getur hann þó varla flokkað undir söng, en það er kannski sérviska. Sumir kalla það garg. En kannski syngur svanurinn hvergi nema á heiðum?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1598

  K.Þ. skrifaði (20.10.2014): ,,Ég var að lesa blogg: 

http://jonmagnusson.blog.is/blog/jonmagnusson/entry/1477456/

Þessi texti vakti athygli mína: 

"Sigmundi hefur allt frá því að kjósendur í Norðausturkjördæmi sýndu honum þann sóma að kjósa hann þingmann sinn fundist að æ sé gjöf til gjalda."

Hvernig er annars þetta máltæki? Ég hélt að það væri "Æ sér gjöf til gjalda" og því ætti að standa "sjái" í þessum texta, en ekki "Æ er gjöf til gjalda". Þetta er greinilega vandmeðfarið.” Molaskrifari getur litlu svarað öðru en að vísa til orðabókarinnar þar sem segir: Æ sér gjöf til gjalda, sá sem gefur gjöf býst við endurgjaldi. Hann hefði hinsvegar ekki hnotið um orðalagið sem notað er í blogginu, sem til er vitnað.

 

Molaskrifara finnst það óskiljanleg og órökstudd ákvörðun dagskrárstjórnenda Ríkisjónvarps að flytja veðurfregnir aftur fyrir sérstakan íþróttafréttaþátt í lok kvöldfréttatímans. Þannig er eiginlega verið að neyða þá sem vilja horfa á veðurfréttir til að horfa fyrst á íþróttafréttir. Hver óskaði eftir þessari breytingu? Er þetta bara enn eitt dæmið um völd íþróttadeildarinnar í Ríkissjónvarpinu í Efstaleiti yfir dagskránni?

 

Molaskrifari er svo íhaldssamur, að þegar talað er í fréttum um hækkandi verðlag á heilbrigðisþjónustu finnst honum ekki við hæfi að tala um að  tilgreind þjónusta sé ,,tæpum þúsund kalli dýrari, en ...” Svona var til orða tekið í seinni fréttum Ríkissjónvarps (20.10.2014). Vanda ber málfar í fréttum. Þótt gott og gilt sé að tala um þúsundkalla í  spjalli milli manna  á það orð ekki erindi í fréttatexta.

 

Hér er svo annað bréf frá K.Þ. (20.010.2014) , sem tengist dæmi er hann nýlega benti á:

 

http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/10/20/bjarni-ser-fyrir-ser-fljotandi-gjaldmidil-med-varudarradstofunum-afnam-hafta-i-skrefum/

"Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir vel koma til greina að byrjað verði að afnema gjaldeyrishöft í skrefum áður en stærstu vandamálin þeim tengdum verða leyst."

Enn vefst þetta sama orðalag fyrir blaðamönnum. Það er eins og að þegar orðið "tengdur" er notað í texta þá fari blaðamenn í beygingarfrí og riti orðmyndina "tengdum" án hugsunar!”

Molaskrifari Þakkar K. Þ ábendinguna.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1597

 Molavin skrifaði (19.10.2014) : "Stærstum hluta þeirra, sem hættu (í framhaldsskólum)..." sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 (17.10.2014). Hér væri ekki aðeins réttara heldur einnig skýrara mál að segja: Flestir þeirra, sem hættu. Þetta er ekki beinlínis dæmi um rangt mál (en þó villandi) en samt vinsamleg ábending um að fréttamenn þurfi að hugsa áður en þeir skrifa. Það má forðast óþarfa málalengingar með því að lesa textann yfir og hugleiða hvort megi bæta hann áður en ýtt er á ENTER.”  Molaskrifari þakkar þarfa ábendingu.

 

Það var kannski misheyrn hjá Molaskrifara á sunnudagskvöld (20.10.2014) er honum heyrðist  sagt í  fréttum Ríkisútvarps á sunnudagskvöld þar sem fjallað var um lokun Hvalfjarðarganga , að því er framkemur í tilkynningu frá Spöli. Þessi fréttatími er ekki aðgengilegur á vef Ríkisútvarpsins. – Molaskrifari hefur nú séð á fésbók að þetta var ekki misheyrn. Fleiri heyrðu þetta. 

 

Sigurður Sigurðarson skrifaði (20.10.2014): ,,Sæll,

Var að lesa íþróttablað Moggans og rakst þá á þetta á bls. 1, undir fyrirsögninni „Rúnar á leið í viðræður“:

 

„Við erum í viðræðum við langflesta af þeim leikmönnum sem eru með lausa samninga og ég held að það verði minni breytingar á leikmannahópnum í Vesturbænum en margir halda. Það er ekki ljóst að neinn af okkar leikmönnum sem eru samningslausir sé að fara,“ sagði Baldur.

 

Hefur þú einhvern skilning á niðurlaginu, þessu feitletraða. Ég veit sosum að þú ert ekki mikið fyrir fótbolta en það ætti ekki að skipta máli.”  Molaskrifari þakkar Sigurði bréfið og játar skilningsleysi sitt.

 

Eina fréttin af fundi kjördæmisráðs Framsóknarmanna á norðausturlandi um helgina, sem náði eyrum fjölmiðla, var um beinagrind. Beinagrind af hval. Fréttin var um að forsætisráðherra SDG hefði tilkynnt flokksfólki sínu, að beinagrind  steypireyðarinnar sem rak hér á land fengi samastað á Hvalasafninu á Húsavík.  Þetta þótt mikil frétt. Svo kom í ljós að þetta var ekki rétt. Beinagrindin átti bara að hafa viðdvöl á Húsavík og fara svo til Reykjavíkur á Náttúruminjasafn Íslands. Eftirlíking af beinagrindinni verður víst geymd á Húsavík.  Undarleg fréttaskrif!


Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

 

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1596

 Molavin sendi eftirfarandi : "...í svari við fyrirspurn Silju Dögg Gunnarsdóttur, þingmanni..." - Svo sagði orðrétt í fimmfréttum Ríkisútvarpsins í gær, (15.10.2014) þegar fjallað var um þingstörf, líkt og heyra má í upptöku á vefsíðu. Það er varla lengur við "fréttabörn" að sakast þegar hvorki vaktstjóri, fréttastjóri né málfarsráðunautur telja ástæðu til þess að fylgjast með færni fréttamanna og fréttaþula í meðferð móðurmálsins. Eignarfallsmynd nafnsins og nafnorðsins dögg er “daggar” (sbr. daggardropi) og þingmaður er “þingmann” í eignarfalli. Kæruleysi og fúsk eiga ekki við hjá stofnun, sem nýtur enn þeirrar virðingar landsmanna að vera talin hafa það hlutverk að vera brjóstvörn móðurmálsins. – Molaskrifari þakkar þessa þörfu ádrepu.

 

Af mbl.is (17.10.2014) http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/10/17/stal_og_klessti_bil_bjargvaettar_sins/

Í fréttinni segir: ,,...en bíl­stjór­inn sem hann kom til bjarg­ar stal og klessti bíl hans, sem hann hafði lagt skammt frá”. Sjálfsagt er þetta nú orðið viðtekið orðalag um að skemma eða beygla bíl. Og skömminni skárra en að tala um að klessa á, -sem stundum hefur verið kallað leikskólamál í þessum Molum.

 

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (19.10.2014) heyrði Molaskrifar ekki betur en talað væri um óreiðarlögreglu. Rétt hefði verið að tala um óeirðalögreglu. Í sama fréttatíma var sagt að búast mætti við hálkumyndun. Var ekki búist við hálku?

 

Beðið skal með að segja margt um fyrsta þáttinn í þáttaröðinni Óskalög þjóðarinnar sem Ríkissjónvarpið sýndi á laugardagskvöld. Óþarft var að sletta á okkur ensku um ,,breaking news”, þegar lesið var upp úr gömlu dagblaðið.

Og ekki var betra að heyra stjórnendur velta vöngum yfir því hvort dægurlagasöngvarinn góðkunni Haukur Morthens sem lengi starfaði sem stefnuvottur , hefði verið einhverskonar handrukkari!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband