29.1.2016 | 11:40
Molar um málfar og miðla 1876
AÐ BREGÐA OG AÐ BREGÐAST
Af mbl.is (27.01.2016): ,, Sagði saksóknari að það hafi verið mat starfsmanna tollsins að svo hafi virst sem dótturinni hafi brugðist mjög þegar bent var á fíkniefnin. Þetta orðalag er út í hött. Hér hefði átt að standa , til dæmis, að dótturinni hafi virst mjög brugðið, þegar bent var á fíkniefnin.
AUK ÞESS SEM ...
Úr frétt á mbl.s (27.01.2016):,, Bíll tveggja annarra ferðamanna fór út af í hálku efst í Jökuldal. Þeir sluppu við meiðsli, auk þess sem bíllinn skemmdist ekki. Auk þess sem... Ha? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/01/27/ferdamenn_i_vanda_a_austurlandi/
Koma þurfti tveimur erlendum ferðamönnum til hjálpar á veginum yfir Öxi. Þorðu ekki að hreyfa bílinn vegna hálku. Komust hvorki lönd né strönd. Höfðu ekið fram hjá þremur viðvörunarskiltum. Skilyrðislaust á að senda svona hálfvitum reikning. Reikna aðstoðina fullu verði.
ENN UM OPNUN
Af forsíðu visir.is (27.01.2016): ,, Nýtt útibú Íslandsbanka mun opna næstkomandi haust í Norðurturni Smáralindar. Þetta nýja útibú verður opnað, það mun hefja starfsemi í haust. Útibúið opnar hvorki eitt né neitt.
RÉTTAR SLETTUR
Hér hefur stundum verið vikið að enskuslettum, sem oft eru óþægilega algengar í máli eins þriggja umsjónarmanna morgunþáttar Rásar tvö.
Á miðvikudag (27.01.2016) fengu hlustendur að heyra hve mjög það færi í taugar þessa útvarpsmanns, þegar fólk segði grúbba en ekki grúppa. Sletturnar verða auðvitað að vera réttar. Orðið hópur var nefnt til sögunnar, en vakti ekki umræður.
GARÐURINN
Í fjögur fréttum Ríkisútvarpsins (27.01.2016) vitnaði fréttamaður í alþingismann: ,, Hann sagði stjórnendur bankans höggva á garðinn þar sem hann sé lægstur. Átt var við að Landsbankinn hefði sagt fötluðum starfsmanni upp störfum. Gefið honum kost á starfslokasamningi eða uppsögn, brottrekstri. Fluttur var stuttur kafli úr ræðu þingmannsins. Hann tók ekki svona til orða. Sumpart var upptakan ógreinileg. Sjá: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/siddegisfrettir/20160127 Fréttin hefst á 1:40
Mikilvægt er að fara rétt með orðtök. Við tölum ekki um að höggva á garðinn, enda er það út í hött. Við tölum um að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Oftast í merkingunni að ráðast á minnimáttar.
Þetta starfslokatilboð/uppsögn er Landsbankanum til skammar , - og var ekki á bætandi.
STÖÐVAR Á VETTVANG
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (28.01.2016) var sagt frá eldsvoðum og vatnsleka og þannig tekið til orða ,að tvær stöðvar hefðu verið sendar á vettvang. Hefur heyrst áður. Slökkvistöðvar voru auðvitað hvorki sendar eitt né neitt. Lið frá tveimur stöðvum var sent á vettvang. Þetta var betur orðað á mbl.is ,, Kalla þurfti út mannskap af tveimur slökkviliðsstöðvum, alls tíu manns, og aukabúnað til þess að hreinsa upp vatn.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2016 | 07:45
Molar um málfar og miðla 1875
VERÐFELLING HUGTAKA
Þorvaldur skrifaði (27.01.2016): ,, Sæll Eiður. Hlustaði á íþróttaþáttinn eftir fréttir ríkisútvarpsins á meðan ég beið eftir veðrinu. Þar sagðist fréttamanni svo frá, að Danir og Þjóðverjar hefðu leikið algjöran úrslitaleik um sæti í undanúrslitum. Dálítil verðfelling á hugtakinu úrslit, ekki satt? Jú, rétt er það, Þorvaldur. Þakka ábendinguna.
GRAUTUR - RED - TALENT
Auglýsendur ganga sumir hverjir nokkuð langt í að spilla tungunni. Mjög algengt er orðið að sjá hrært sama íslensku og ensku í sömu auglýsingunni. Vodafone auglýsir þjónustuleið, eða áskrift, sem fyrirtækið kallar Red frelsi. Hversvegna ekki Rautt frelsi?
Ráðningarfyrirtæki ,sem kallar sig Talent upp á ensku ,(enska orðið talent þýðir hæfileikar) birtir grautarauglýsingu í Fréttablaðinu á þriðjudag (26.01.2016). Hún hljóðar svona: Ertu að leita að talent?
Svo má auðvitað minna á þætti Stöðvar sem heita eða hétu: Ísland Got Talent. Svona grautur er vísvitandi skemmdarverk á móðurmálinu.
RÚV -, HVAÐ ?
,,Nýlega greindi RÚV frá því .., sagði einn af fréttamönum Ríkisútvarpsins í Speglinum nýlega ( 26.01.2016). Hvaða RÚV? Það er alveg óljóst hvenær þessi skammstöfun er notuð um Ríkisútvarpið allt, sjónvarpið eingöngu eða aðeins um fréttastofu Ríkisútvarpsins. Vill ekki útvarpsstjóri koma þessu á hreint? Skýra hvað skammstöfunin merkir? Er það svo að enn sé bannað í Efstaleiti að kalla stofnunina sínu rétta og lögbundna nafni?
FERSKARA EN FERSKT
Stórfyrirtækið Findus auglýsir frosið grænmeti í sjónvarpi (Ríkissjónvarpið 26.01.2016). Í auglýsingunni er okkur sagt, að frosið grænmeti sé ferskara en ferskt. Þetta er augljóslega röng, ósönn, fullyrðing. Frosið grænmeti getur aldrei verið ferskara en ferskt ófrosið grænmeti. Hversvegna láta rétt yfirvöld og Neytendasamtökin það viðgangast, að neytendum sé sagt ósatt?
Þetta hefur verið nefnt áður í Molum.
NEW YORK NEW YORK
Skemmtilegur pistill Magnúsar Halldórssonar blaðamanns frá New York um New York í morgunþætti Rásar tvö á miðvikudag (27.01.2016).
VÖRUBÍLL VALT
Rafn benti á þessa frétt á mbl.is (26.01.2016) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/01/26/slasadist_thegar_vorubill_valt/
Í myndatexta með fréttinni segir að vörubíll hafi oltið í Mosfellsbæ, en í fréttinni segir að bíllinn hafi oltið í Reykjavík. Þarna vantar eitthvað upp á samvinnu og samræmi. Þakka ábendinguna, Rafn.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2016 | 09:48
Molar um málfar og miðla 1874
ÞÖRF FYRIR EITTHVAÐ
Í fréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (23.01.2016) var fjallað um fjölgun bálfara. Þar var sagt ,: ,,... hægt hefur á þörfinni fyrir nýju landi undir kirkjugarða. Þetta hefði mátt orða betur. Til dæmis með því að segja: Þörfin fyrir nýtt land undir kirkjugarða vex nú
hægar en áður.
AIRBUS OG BOEING
Í fjögur fréttum Ríkisútvarps á sunnudag (24.01.2016) var sagt frá því að Íranar ætluðu að kaupa 114 farþegaþotur frá Airbus , nú þegar losað hefur verið um fjármuni þeirra erlendis. Í lok fréttarinnar var sagt að skrifað yrði undir samninga við fulltrúa Boeing í París. Það var og.
Þarna hefur yfirlestur ekki verið til staðar, - eða ekki vandlega lesið. Þetta var seinna rétt á fréttavefnum. http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/siddegisfrettir/20160124 Skrifa átti undir samninga við seljendur, Airbusverksmiðjurnar.
MÉR HUGNAST
Úr frétt á mbl.is (25.01.2016): ,,Landsbankinn, sem var einn eiganda á þeim tíma hugnaðist ekki þessi aukna áhætta og áherslubreyting.
Einhverjum hugnast (ekki) eitthvað. Þess vegna hefði átt að standa hér: - Landsbankanum hugnaðist ekki þessi aukna áhætta og áherslubreyting.
http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/01/25/vidskipti_tengd_klami_og_vedmalum/
AÐ VERA Á VAGNINUM OG FLEIRA
Oft hefur verið bent á hér að málfari er á stundum ábótavant í morgunþætti Rásar tvö. Á þriðjudagsmorgni (25.01.2016) talaði einn umsjónarmanna um mann sem hefði farið í meðferð og hefði haldið sig á vagninum síðan. Ekki er Molaskrifari viss um að allir hafi skilið þetta. Þetta er hráþýðing úr amerísku talmáli. Að vera á vagninum, to be on the wagon, þýddi upphaflega að vera í áfengisbindindi, halda sig frá áfengi, neyta ekki áfengis, - en nú þetta ekki bara notað um að halda sig frá áfengi heldur einnig frá öðrum fíkniefnum og eiturlyfjum. Molaskrifari hefur ekki heyrt það notað í íslensku talmáli að vera á vagninum um að vera í bindindi. Að vera á vatnsvagninum, drekka ekki áfengivar merkingin. Upphaflegi vagninn, sem átt var við, var vatnsvagn, sem flutti vatn til að binda ryk á malargötum. Krakkar í Reykjavík, fyrir daga malbikunar töluðu um sprautubílinn og þótti koma hans mikil tilbreyting!
Í þessum sama þætti var fróðlegt málskot, þar sem málfarsráðunautur lagði ýmislegt gott til málanna, meðal annars um rétta notkun orðtaka. Í spjallinu var sagt að skörin væri farin að færast upp á bekkinn. Rétt er orðtakið að skörin sé farin að færast upp í bekkinn. Góð skýring á þessu er í Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson , bls.784. ,,Skör er þrep fyrir neðan pall/bekk, en minni háttar fólk sat á skörinni. Skör er hér tákn þess er má sín lítils og vísar líkingin til þess er minni háttar fólk vogaði sér að setjast upp í bekkinn.
Í lokin: Leikin var sænsk tónlist í þessum þætti. Allt gott um það, en tónminni stjórnenda náði ekki langt aftur, náði til dæmis ekki til til söngkonunnar Alice Babs (1924-2014) Hún var ein frægasta söngkona Svía á liðinni öld, jafnvíg á dægurlög, djass og sígilda tónlist. Kannski ekki jafn fræg og óperusöngkonurnar Birgit Nilsson og Elisabeth Söderström. Alice Babs vann meðal annars mikið með Duke Ellington. Um hana hafa verið gerðir frábærir sjónvarpsþættir. En þetta þykir sjálfsagt nöldur aftan úr fornöld!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2016 | 08:25
Molar um málfar og miðla 1873
LESTUR VEÐURFRÉTTA
Skúli Brynjólfur Steinþórsson skrifaði sl. föstudag (22.01.2016): ,,Heill og sæll,
ég sendi veðurstofunni fyrirspurn um hvort ekki væri hægt að láta þá lesa veðurfréttir sem hefðu góðan íslenskan framburð, engin svör. Það er ef til vill ekki hægt að ætlast til þess að fólk tali góða íslensku í vinnunni , en þegar er verið að útvarpa til allrar þjóðarinnar í lengri tíma finnst mér að það skipti máli að sé á góðri íslensku.- Þakka bréfið, Skúli Brynjólfur. Einkennilegt að Veðurstofan skuli ekki svara kurteislegri fyrirspurn. Svo er það rétt, sem þú sagði í tölvupósti síðar, að lestur í útvarpi á auðvitað alltaf að vera til fyrirmyndar,- getur beint og óbeint stuðlað að bættri framsögn og lestri.
Á fimmtudagskvöld eftir tíu fréttir (21.01.2016) voru veðurfregnir til dæmis að taka ekki vel lesnar. Sá sem las sagði aftur og aftur um vindhraða , metrar sekúndu, - ekki metrar á sekúndu. Líka gerist það stundum, að veðurfréttir eru lesnar með mjög einkennilegri hrynjandi, allar setningar enda á lækkandi tóni, - mjög óeðlilegt og hvimleitt. Yfirmenn á Veðurstofunni hljóta að heyra þetta. Hef reyndar nefnt þetta áður. Veðurstofa Íslands þarf að vanda val þeirra, sem lesa veðurfréttir. Þá er ekki verið að amast við þótt lesið sé með hreim, ef lesturinn er skýr og skiljanlegur.
ORÐRÓMUR - SLÚÐUR
Geir Magnússon skrifaði (22.01.2016):
,,Á hverjum morgni opna ég mbl.is og það bregst varla að ég
rekst á handverk Una Danska, en það kalla ég þessa krakka, sem vita ekki að ákveðinn greinir í íslenzku er viðtengdur. Krakkarnir byrja allar fréttir á hin eða hinn.Nýlega var svo grein um vísindamenn, sem telja sig hafa fundið sönnun fyrir þeirri kenningu Einsteins að aðdráttaraflið í alheimnum gangi í bylgjum.
Þetta hefur ekki verið sannreynt og að hætti góðra vísindamanna hefur ennþá ekkert verið staðhæft, en orðrómur er um þetta.
Einhver krakkinn þýddi erlenda, líklega enska, frétt um þetta
og sagði í fyrirsögn að slúðrað væri um þetta. Ég hringdi í
vinkonu mína hjá mbl.is og benti henni á að enska orðið rumor þýddi ekki slúður, orðið gossip væri notað um það. Hún ræddi við þýðandann, sem brást hinn versti við og sagði að orðið slúður væri rétt þýðing.
Hvað er hægt að gera við svona fólk?
Skyldi Davíð vera maðurinn til að tala við um þetta?
Molaskrifari þakkar bréfið. Davíð mundi áreiðanlega taka þér vel.
AUGNABLIKIÐ
Það hefur áður verið nefnt hér, að þættirnir sem sýndir eru í Ríkissjónvarpið á föstudagskvöldum, Augnablik úr 50 ára sögu sjónvarpsins eru öndvegisefni. Þar er stiklað á stóru úr gömlum skemmtiþáttum og auglýsingum. Vel valið og vel fram sett. Þættirnir eru samt í styttra lagi. Þeir mættu að skaðlausu vera 40 mínútur, - nóg er til af öndvegisefni með úrvals listafólki eins og við sáum á föstudagskvöldið (22.01.2016). Þetta efni stendur undir 40 mínútna þáttum og vel það.
SIGMUNDUR VILL MAKASKIPTI
Þessa fyrirsögn sá ég á netinu fyrir helgina. Að forsætisráðherra vildi makaskipti. Rétt, en kannski villandi í huga sumra. Makaskipti eru samningsbundin skipti eigenda (einkum) á fasteignum.
ÁRSGRUNDVÖLLURINN OG SNJÓSTORMUR
Óþurftarorðið ársgrundöllur skýtur alltaf upp kollinum í fréttum öðru hverju. Í fréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (23.01.2016) var fjallað um skógrækt. Þar var sagt: ,,Helmingi færri trjáplöntum er plantað á ársgrundvelli... Hér hefði ekki farið illa á að segja: Helmingi færri trjáplöntur eru nú gróðursettar á ári .... Annað óþurftarorð kom við sögu í útvarpsfréttum af stórhríð og fannfergi vestra. Það var auðvitað snjóstormur. Erfitt að uppræta þetta.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2016 | 08:50
Molar um málfar og miðla 1872
DÝR RÁÐHERRA
Á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu (22.01.2016) er fyrirsögn á frétt: Ákvörðun ráðherra var dýr. Hæstiréttur Íslands hafði dæmt íslenska ríkið til að endurgreiða þremur fyrirtækjum oftekin gjöld upp á hálfan milljarð. Gjöldin voru vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum. Í öðrum miðlum hefur komið fram að langtum fleiri fyrirtæki kunni að eiga rétt á endurgreiðslum frá ríkinu af þessu sama tilefni. Kannski samtals einn og hálfan milljarð eða svo.
Það sem er athyglisvert við fréttina er að nafn hins dýra ráðherra kemur hvergi fram.
Er þetta ekki enn eitt dæmið um hvernig ríkisvaldið purkunarlaust notar staðnað og úrelt verndarkerfi landbúnaðarins til að beita neytendur ofbeldi. Hefur enginn stjórnmálaflokkur kjark til að breyta þessu?
VEÐURSKRIF
Vonandi eru blaðamenn ekki hættir að geta skrifað um veðurfar á sæmilegri íslensku? Frétt á mbl. is ( 22.01.2016) undir fyrirsögninni Lamandi stormur í vændum hófst svona: ,, Mikill stormur er á leiðinni upp að austurströnd Bandaríkjanna og er búist við að honum fylgi mikil snjókoma meðal annars í höfuðborginni Washington. Reiknað er með um 60 cm snjólagi innan fárra klukkustunda eftir að stormurinn skellur á í kvöld. Viðvörun um storminn, sem sagður er hugsanlega hafa lamandi áhrif á samgöngur, var send út í dag á svæðum þar sem samtals yfir 50 milljónir manna búa.
Á fréttavef BBC var sagt: ,,More than 50 million people have been warned of a "potentially paralysing storm" late on Friday that will bring 24in (60cm) of snow within hours. Þar var líka talað um snowstorm og blizzard, - ekki bara storm eins og á mbl.is
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/01/22/lamandi_stormur_i_vaendum/
VANDI
Í fréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (23.01.2016) var sagt: ,, Stoðkerfis- og geðrænir vandar hafa á sama tíma .... Við þetta er það að athuga að orðið vandi er eintöluorð. Það er ekki til í fleirtölu. Líklega gætir vaxandi tilhneigingar til að nota nafnorð í fleirtölu, sem eingöngu eru til í eintölu. Maður,sem rætt var við í morgunþætti Rásar tvö (25.01.2016) sagði,, ... því fleiri menntunir .... Hann átti við, - því fleiri háskólagráður ...
KÖKUFORM TIL LEIGU
Í fréttum Stöðvar tvö á laugardagskvöld (23.01.2016) var fjallað um þá nýjung í starfi bóksafnsins á Selfossi að leigja fólki kökuform. Fréttamaður sagði: ,, .... kökuformin sem fólk kemur til að leigja út. Fólk kemur ekki á bókasafnið til að leigja út kökuform. Fólk kemur á bókasafnið til að nálgast kökuform, sem safnið leigir út.
HVERSVEGNA ÞAGÐI KSÍ?
Á baksíðu DV ( sem troðið er inn til manns, þrátt fyrir uppsögn á áskrift) er haft eftir formanni Knattspyrnusambands Íslands í fyrirsögn á baksíðu um alþjóðlega fótboltaspillingu: Spilling var á allra vitorði í tvo áratugi. Hversvegna þögðu Íslendingar? Hversvegna þagði KSÍ?
Es. Inni í þessu blaði er svokallað,,Kynningarblað, sem er stútfullt af greinum sem sennilega er borgað er fyrir að birta. Sömu sögu er að segja um Fréttatímann. Það er ekki endilega auðvelt fyrir alla að greina milli ritstjórnarefnis og efni sem greitt er fyrir að birta. Þetta gildir reyndar um fleiri blöð. Miður heppileg þróun.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2016 | 07:43
Molar um málfar og miðla 1871
EKKI TIL FYRIRMYNDAR
Sigurður Sigurðarson sendi eftirfarandi (20.01.2016): ,,Sæll,
Þessi pistill á einhverjum vef, sem nefnist Fréttanetið, er ekki til fyrirmyndar. Kíktu á. http://frettanetid.is/enginn-tharf-a-mjolk-ad-halda/
,, ... 15% barna frá Kákasus ríkjunum geta ekki melt sykrurnar (laktósann) í mjólkinni. Kákasusríkin??? Þarna hefur þýðandinn sennilega ekki skilið enska orðið caucasian - hvítur , - af evrópskum uppruna. Rétt er það, Sigurður. Þakka ábendinguna.
HVATNING OG SKORTUR
Fyrirsögn af hringbraut.is (20.01.2016): Birgitta ati þingmenn auri og lygum. Það er ekki verið að hvetja Birgittu (Jónsdóttur) til að ata þingmenn auri og lygum eins og vænta mætti af lestri fyrirsagnarinnar. Þingbróðir Birgittu, Ásmundur Friðriksson, var að væna hana um að ata þingmenn auri og lygum. Því miður nokkuð alengt að sjá samskonar orðalag í fyrirsögnum.
Önnur undarleg fyrirsögn. Nú á vef Ríkisútvarpsins (20.01.2016): Á ekki að ríkja skortur hjá börnum á Íslandi. Þetta hljómar eins og spurning. Vantar bara spurningarmerkið. http://www.ruv.is/frett/a-ekki-ad-rikja-skortur-hja-bornum-a-islandi
Ætti fremur að vera: Ekki á að ríkja skortur hjá börnum á Íslandi. Hvar er yfirlesturinn?.
AFSKIPTI
Í þessari frétt á vef Ríkisútvarpsins (20.01.2016) er tvívegis talað um að skipta sér að einhverju, í stað þess að skipta sér af einhverju, hafa afskipti af einhverju, blanda sér í í eitthvað. Sjá: http://www.ruv.is/frett/eins-og-ad-fara-i-fotunum-i-sund
,, Nadja segir að eins og í sundlaugum Íslands þar sem fólk skiptir sér að þeim ferðamönnum sem þvo sér ekki fyrir sundið, þá væri varla hægt að fara í sundfötum í almenningssánu í Finnlandi án þess einhver skipti sér að því og í bréfinu segir:
Enginn les yfir.
STÖÐUGAR FRAMFARIR
Í morgunþætti Rásar tvö (22.01.2016) í Ríkisútvarpinu sagði einn umsjónarmanna, að dönsku konungshjónin hétu Jóakim og María. Þetta er allt í stöðugri framför. Stundum er betra að hugsa fyrst og tala svo. Eða bara vita.
HIÐ MARGRÓMAÐA
Í fréttum Ríkisútvarps kl. 16 00 á fimmtudag (21.01.2016) var sagt meðal annars: ,, ... sem framleiðir hið margrómaða Gunnars majoens. Nú fann Molaskrifari ekki orðið margrómaður í íslenskri orðabók , en sögnin að róma þýðir að lofa hrósa , að vera vel rómaður, er að vera nafnfrægur. Margrómaður þýðir þá líklega mjög hrósverður. Fréttastofan á ekki að leggja dóm á framleiðsluvörur frekar en annað.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2016 | 09:34
Molar um málfar og miðla 1870
AÐ KVÆNAST
Sigurður Oddgeirsson, gamall vinur og skólabróðir, skrifaði frá Danmörku:,, Af mbl.is í dag (20.01.2016)
Enskur maður hefur leitað á náðir bresku ríkisstjórnarinnar eftir að honum væri tjáð að í dánarvottorði eiginmanns hans myndi vera skráð að hann hefði aldrei kvænst.
Hér kemur fram vanþekking á móðurmálinu.
Hvernig í ósköpunum eiga hommar að geta kvænst.
Orðið að kvænast þýðir að leita sér kvonfangs eða með öðrum orðum að leita sér að eiginkonu.
Væri í setningunni sýnir vankunnáttu í notkun viðtengingarháttar. Þarna á að vera var tjáð.
Eða hvað? Auðvitað. Réttar ábendingar. Væri - var reyndar leiðrétt síða á mbl.is. Þakka bréfið, Sigurður.
SMARTLAND BREGST EKKI
Af Smartlandi Mörtu Maríu á mbl.is (1901.2016):,, Helsta skýringin á leynd sambandsins var vegna þess að Ólafi föður Haraldur leist ekki á ráðahaginn og fannst Sonja ekki samboðin syni sínum. . Föður Haraldar leist ekki á ráðahaginn. Skýringin á leynd sambandsins var ... , - skýringin var ekki vegna þess að ... skýringin var sú, að ...
ÞJÓÐ Í SÁRUM
,,Íslenska þjóðin er í sárum, sagði fréttamaður Ríkisútvarpsinsí níu fréttum að morgni miðvikudags (20.01.2016). Hann átti við að margir væru ósáttir eftir tap í boltaleik gegn Króötum kvöldið áður. Þetta er kannski ágætt dæmi um það hvernig tekist hefur með allgóðum árangri að boltaæra talsverðan hluta þjóðarinnar. Sú spurning vaknar hinsvegar hvað fréttamaðurinn hefði sagt, ef alvarlegir atburðir hefðu gerst. Verðbólga orðanna er vond eins og önnur verðbólga.
Í HEIMSÓKNARSKYNI
Úr frétt í Morgunblaðinu (20.01.2016):,, En ef ég byggi upp nýtt líf hér,, aðlagast samfélaginu og börnin hafa næg tækifæri, sé ég ekki ástæðu til þess að flytja aftur heim til Sýrlands að loknu stríðinu, nema í heimsóknarskyni. Að flytja heim í heimsóknarskyni! Ögn skárra hefði til dæmis verið: ... fara aftur heim til Sýrlands, nema þá í heimsókn.
VINSAMLEG TILMÆLI
Það eru vinsamleg tilmæli til Ríkisútvarpsins, að látið verði af þeim leiða sið að garga á okkur í svokölluðum leiknum auglýsingum, sem jafnan eru fluttar rétt á undan aðalfréttatímum Ríkisútvarpsins. Hljóðstyrkur í útsendingu er greinilega aukinn, þegar kemur að garginu. Maður hrekkur í kút. Á sér einskis ills von. Ljótur siður og leiður. En hér sennilega til of mikils mælst.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.1.2016 | 10:11
Molar um málfar og miðla 1869
KJÓSA GREIÐA ATKVÆÐI
Nokkrum sinnum hefur verið vikið að því í Molum hvernig í vaxandi mæli því er ruglað saman því að greiða atkvæði og að kjósa. Í frétt í Morgunblaðinu (18.01.2016) er vitnað í ritara Sjálfstæðisflokksins: ,, Sagði hún málið í dag vera útrætt og að best væri ef Alþingi myndi taka fyrir áfengisfrumvarpið og kjósa um það. Á Alþingi er ekki kosið um lagafrumvörp. Þar eru greidd atkvæði um laga frumvörp en kosið í ráð og nefndir.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/01/18/ekki_spurning_um_frelsi_eda_rikisrekstur/
NESKAUPSTAÐUR
Jóhannes benti (19.01.2016) á frétt á mbl.is: Hann segir: Fyrsta frétt á mbl.is:http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/01/19/laekkar_tekjur_120_manns_a_neskaupsstad/
Ótrúlegt að Kaupstaðurinn á Nesinu skuli alltaf vera skrifaður með tveimur essum. Þakka Jóhannesi ábendinguna. Neskaupstaður á þetta að vera. Þar að auki má nefna að snemma í blaðamennskunni var Molaskrifara kennt að segja í Neskaupstað, ekki á Neskaupstað. Maður fer í kaupstað, ekki á kaupstað.
ÞEIR SKULLU UPP ÚR!
Af visir.is (19.01.2016): ,, Umsjónarmenn Bítisins á Bylgjunni áttu í vandræðum með að hemja hláturinn í morgun þegar þeir voru að skoða uppskrift stjörnukokksins og skaphundsins Gordon Ramsey að ommelettu.
Þeir Heimir Karls og Gulli Helga skullu ítrekað upp úr þegar þeir renndu yfir aðferðina. Það var og. Upp úr hverju skullu þeir? Skelltu þeir ekki upp úr? Fóru að hlæja?
http://www.visir.is/i-hlaturskasti-vegna-ommelettuuppskriftar-gordon-ramsey/article/2015150119333
,,RÚV OKKAR ALLRA, - EÐA HVAÐ ?
Það dynur á okkur í auglýsingum, að Ríkisútvarpið sé okkar allra. ,,RÚV okkar allra, segja þeir.
Í gærkvöldi (19.01.2016) hófst íþróttaútsending klukkan rúmlega fimm með boltaleik þar sem Ísland kom ekkert við sögu. Þar áttust við Noregur og Hvítarússland. Ríkissjónvarpið sýndi allan leikinn í beinni útsendingu. Norska ríkissjónvarpið, NRK1, NRK2,NRK3 sá enga ástæðu til að sýna þennan leik. Enda stjórna íþróttadeildirnar þeim ríkisreknu sjónvarpsstöðvum ekki. Eftir boltafjas tók við niðurskorinn fréttatími með enn niðurskornari veðurfréttum ( Við verðum víst að hleypa fréttunum að, sagði umsjónarmaður svokallaðri EM-stofu efnislega). Klukkan 19 20 hófst boltaleikur að nýju. Nú kom Ísland við sögu. Gott og vel En hversvegna í ósköpunum fékk ekki dagskráin að halda sér fram þeim leik? Þessu lauk svo undir hálftíu með harmagráti.
Nú er fyrirsjáanlegt langt inn í framtíðina, að Ríkissjónvarpið verður undirlagt af boltaleikjum og evróvisjónpoppi í öllum mögulegum og ómögulegum myndum. Já, þetta er örugglega ,,RÚV okkar allra eins og þeir segja í auglýsingunni eða hvað? Það er búið að hálfæra þjóðina. Boltaleikir og popptónlist með verksmiðjukeim eru í öndvegi í þessu ,,sjónvarpi allra landsmanna. Stjórnendur Ríkisútvarpsins bera ábyrgð á því.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2016 | 10:22
Molar um málfar og miðla 1868
UM HÁLSBINDI
Það var ekki mikið að gerast í þjóðlífinu á mánudagsmorgni (16.01.2016) þegar löng umræða fór fram í morgunþætti Rásar tvö um hálsbindi, sem maður hafi sést með í sjónvarpi daginn áður. Svokallaður sérfræðingur var kallaður til. Málið rætt í þaula. Kannski fannst einhverjum þetta skemmtileg umræða. Seinna kom í ljós að bindið hafði verið sótt vestur til Ameríku og kostað tvö eða þrjú þúsund dollara. Kannski var þetta allt grín.
Maðurinn með hálsbindið náði tilgangi sínum. Vakti athygli á sér og hálstauinu.
ENGINN YFIRLESTUR?
Af dv.is (18.01.2016): ,,Hópuppsagnir blasa við ef skólastjórinn snýr aftur - Segja að engin laus sé í sjónmáli vegna ágreinings - Bekkjafulltrúaráð lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðunni. Engin lausn í sjónmáli hefði þetta auðvitað átt að vera.
Og, - í sama miðli sama dag: ,, Tveir sextán ára unglingar léstur í snjóflóðinu auk skíðamanns sem var nærri. Létust í snjóflóðinu átti þetta að vera.
Ekki mikill metnaður til að vanda sig, - gera vel.
AÐ FARAST ÚR HUNGURSNEYÐ
Rósa S. Jónsdóttir skrifaði Molum (18.01.2016). Hún vísar í frétt á mbl.is þann sama dag og segir: ,,Að farast úr hungursneyð er ekki alveg í samræmi við mína málvitund.. Þetta er heldur ekki í samræmi við málkennd Molaskrifara. Þakka ábendinguna.
Í fréttinni segir: ,, Fimm manns hafa farist úr hungursneyð undanfarna viku í bænum Madaya í Sýrlandi þrátt fyrir að tvær neyðarsendingar með mat hafi komið með bílalestum til bæjarins. Fólkið dó úr hungri svalt í hel.
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/01/18/fimm_forust_ur_hungursneyd/
CARLSBERG Í KASTLJÓSI
Löng bjórauglýsing, Carlsberg, var í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi (18.01.2016). Hvaða erindi átti þetta einstaklega lítið merkilega viðtal við þrjá karla í þátt, sem kallaður er ,,beittur fréttaskýringaþáttur? Erfitt að sjá það. Skrifari sá það ekki.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2016 | 09:01
Molar um málfar og miðla 1867
STYR Í STRAUMSVÍK
Þegar styr stendur um eitthvað, þá er deilt um eitthvað. Í Spegli Ríkisútvarpsins (15.01.2016) sagði fréttamaður í umfjöllun um vinnudeildur í Straumsvík: ,,Styrinn snýst um kröfu álversins að fyrirtækið verði heimilt að láta verktaka vinna tiltekin störf í álverinu ... Hér hefði fremur átt að segja: ,,Styrinn stendur um kröfu álversins að fyrirtækinu verði heimilt að láta verktaka vinna tiltekin störf ... . Ríkisútvarpið á að vera til fyrirmyndar um málfar.
VIÐ SAMA HEYGARÐS ....
Molaskrifari heldur sig við sama heygarðshornið. Hann skilur ekki hversvegna þurfti að seinka fréttum í Ríkissjónvarpinu um ellefu mínútur á laugardagskvöld vegna þess að Spánverjar og Þjóðverjar voru að leika handknattleik. Hversvegna var þessi boltaleikur ekki sýnt á íþróttarásinni? Til hvers er hún?
Það var ekki einu sinni hægt að afsaka þetta með því að íslenska landsliðið, eða íslenskt lið, væri að leika.
Skotið var upp skjáborða þar sem sagði: Fréttir hefjast að leik loknum. Það var ekki rétt. Að leik loknum hófust auglýsingar. Síðan hófust fréttir. Þarf útvarpsstjóra? Þarf dagskrárstjóra? Getur íþróttadeildin ekki bara séð um þetta? Hún ræður dagskránni hvort sem er.
BRENNIVÍN Í BÓNUS
Úr skrifum á visir.is (17.01.2016) um samræður Kára Stefánssonar og flutningsmanns brennivíns- í-Bónus-frumvarpsins: ,,Sagði hann það ekki vera reynsluna á Íslandi þar sem einkaaðilinn hefði síðastliðin ár fjölgað vínveitingaleyfum um 700 prósent síðastliðin ár en engu að síður væri neyslan minni en árið 2007.
Og þeir sömu sem eru að berjast gegn frumvarpinu hafa ekki komið með sömu staðreyndir til að nota gegn frumvarpinu til að sýna að einkaaðilinn hefur fjölgað vínveitingaleyfum um 700 prósent. ...
Molaskrifari verður að játa að hann nær þessu ekki alveg.
LENGRI AUGNABLIK
Molaskrifari veit með vissu að mjög margir, ekki síst eldri borgarar, sem muna árdaga sjónvarps á Íslandi hafa gaman af þáttunum, sem sýndir eru á föstudagskvöldum í tilefni hálfrar aldar afmælis Sjónvarpsins. Augnablik úr 50 ára sögu Sjónvarps, heita þeir.
Þessir þættir mættu alveg að skaðlausu vera helmingi lengri. Þeir eru vel gerðir og skemmtilega fram settir. Gamlir skemmtiþættir , - og auglýsingar - standa vel fyrir sínu.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)