30.1.2015 | 07:22
Molar um málfar og miðla 1664
Trausti Harðarson vakti athygli á þessari frétt (29.01.2015) á dv.is: http://www.dv.is/frettir/2015/1/29/straeto-bs-breytir-leidakerfinu-nemendur-geta-loksins-maett-rettum-tima/
"Verð með strætó til Reykjavíkur kostar 1.400 kr.-"
Jæja já!
Er kannski hægt að kaupa tvö verð í einu? - Ja, hérna. Er nú verðið farið að kosta? Þakka ábendinguna, Trausti.
Guðmundur Guðlaugsson skrifaði (29.01.2015): ,,Oft og iðulega heyrist í Ríkisútvarpinu orðalag eitthvað þessu líkt, að eitthvert ríki(þessa dagana Grikkland) ætli að fara úr evrunni eða ganga úr evrunni.
Ég veit ekki hvort þú hefur veitt þessu athygli en mér finnst þetta orðalag fyrir neðan allar hellur. Ég hélt að ríki hættu að nota þennan gjaldmiðil eða hinn.
Ef við Íslendingar ætluðum að taka upp nýjan gjaldmiðil og hætta að nota krónu þá yrði sennilega sagt í fréttatímum að Íslendingar ætli að ganga úr krónunni.
Er ekki starfandi málfarsráðunautur hjá Ríkisútvarpinu? Molaskrifari þakkar Guðmundi góða ábendingu. Hjá Ríkisútvarpinu starfar málfarsráðnautur. Rétt er það. Vonandi les hann þetta.
Ekki verður annað sagt en að alþingismaðurinn Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar vandi málfar sitt. Þetta er úr DV (28.01.2015) : ,, Vigdís Hauksdóttir segir að áhlaupið hafi orðið til þess að hún fái aldrei framar póst frá Landvernd. Þeir sem stunda þetta eru bara flokkaðir forever, segir hún við DV ... Kannski hefur eitthvað skolast til hjá blaðamanninum, eða þetta er prentvilla, konan sagði sennilega blokkaðir forever. Hún átti við að lokað væri á tölvupóst frá þeim sem þarna eiga hlut að máli. Sjá: http://www.dv.is/frettir/2015/1/28/vigdis-blokkadi-landvernd/
Óþarfar enskuslettur hjá þingmanninum.
Ræddu um langvarandi og traust ríkjanna, var fyrirsögn á visir.is (28.01.2015). Um þessa fyrirsögn er svo sem ekki mikið annað að segja en að hún er asnaleg og ónothæf. Langvarandi hvað? http://www.visir.is/raeddu-um-langvarandi-og-traust-rikjanna/article/2015150128945
Gæðaeftirlitinu, yfirlestri ábótavant, sem er reyndar ekki nýtt.
Molaskrifari gerir það að tillögu sinni að Egill Helgason og hans góða samstarfsfólk hjá Ríkissjónvarpinu verði gert út af örkinni með nesti og nýja skó til efnisöflunar í Færeyjum næsta sumar. Það er löngu tímabært að gera mannlífi og menningu í Færeyjum verðug skil í sjónvarpinu, - og bæta fyrir þættina frá Færeyjum, flandurþættina, sem sýndir voru í fyrra, - þeir voru hvorki fugl né fiskur og er þá einkar mildilega til orða tekið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2015 | 10:00
Molar um málfar og miðla 1663
Enn einu sinni var fréttastofa Ríkissjónvarpsins niðurlægð í gærkveldi (28.01.2015). Þá var fréttunum ýtt til hliðar vegna boltaleiks í Katar. Ísland er ekki lengur meðal þátttakenda þar. Fréttastjóri og fréttamenn virðast taka því sem sjálfsögðum hlut að fréttastofan sé niðurlægð, þegar íþróttir eru annars vegar.
Molaskrifara finnst hlutskipti fréttastofunnar bágt í þessari þjóðarstofnun þar sem við sjáum aftur og aftur, að raunveruleg yfirstjórn fréttastofu Ríkissjónvarpsins er í höndum íþróttastjórans, - ekki fréttastjórans eða útvarpsstjórans.
Molavin skrifaði (27.01.2015): - "Heimilið verður jafnað við jörðu" segir í frétt DV (27.1.2015) um áform bæjaryfirvalda í bandarískum bæ að jafna við jörðu hús, þar sem ungur fjöldamorðingi bjó. Ýmsum þeirra, sem stunda blaðamennsku nú um stundir gengur illa að læra, þótt leiðbeint sé í þessu bloggi, sem og á Fasbókinni. Að gera greinarmun á húsi og heimili hlýtur að teljast til grundvallaratriða, sem þeir verða að kunna, sem takast á hendur að skrifa fréttir fyrir allan almenning. Vankunnátta og fúsk af þessu tagi og viljaleysið til þess að læra af ábendingum annarra virðist því miður vera séríslenzkt fyrirbæri. En sökin skrifast fyrst og fremst á þá, sem bera ábyrgð á fréttaskrifum, þ.e. ritstjóra miðlanna Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er hverju orði sannara og hefur oftar en einu sinni verið nefnt í Molum.
Þorvaldur skrifaði (27.01.2015):
,,Var að lesa útvegsblað Mogga, þar segir frá aflabrögðum í Grindavík. Greininni fylgir mynd af nokkrum ufsatittum, undir myndinni stendur: "Þessi væna ýsa kom upp úr norðlenskum ísfisktogara sem landaði í Grindavík" Fisktegundafræðingur blaðsins hefur sýnilega verið vant við látinn.. Það hárrétt hjá Þorvaldi að á myndinni myndin er ekki ýsa heldur ufsi. Þetta er hinsvegar ekki útvegsblað Mogga, heldur blað, Aldan fréttablað um sjávarútveg, sem dreift er með Morgunblaðinu , gefið út af fyrirtæki sem heitir Fótspor ehf. og Mogga þannig óviðkomandi. Vonandi þekkja blaðamenn Öldunnar í sundur þorsk og ýsu.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (27.01.2015) var sagt að rúmlega ein milljón manna hefði fallið í Auschwitz. Það ber að mati Molaskrifara hvorki vott um góða málkennd né söguþekkingu að segja, að fólkið sem lét lífið í útrýmingarbúðum nazista í Auschwitz hafi fallið. Fólkið var drepið.
Það var vel til fundið að gera skáksnillinginn Friðrik Ólafsson, að heiðursborgara Reykjavíkur, þegar hann varð áttæður, Og þó fyrr hefði verið. Molaskrifari man mæta vel hvernig þjóðin fylgdist með stórkostlegri framgöngu hans á skákmótinu í Hastings um áramótin 1953/1954, en Friðrik var þá á nítjánda ári. Á hverjum degi beið maður frétta í útvarpinu frá Hastings, án þess þó að vera sérstakur áhugamaður um skák.
Aðrir sem útnefndir hafa verið heiðursborgarar höfuðborgarinnar eru: Séra Bjarni Jónsson (1961), Kristján Sveinsson augnlæknir (1975), Vigdís Finnbogadóttir (2010) og Guðmundur Guðmundsson, Erró (2012). Allt er þetta verðskuldað Fyrrverandi borgarstjóri bætti svo Yoko Ono í þennan hóp (2013). Hvað er hún að gera í þessum hópi? Hvað hefur sú kona gert til að verðskulda þann heiður að vera heiðursborgari í Reykjavík? Hún er einkum fræg fyrir ekkjudóm, - ekkja John Lennons, þess rómaða Bítils.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.1.2015 | 08:09
Molar um málfar og miðla 1662
Sjónvarpsáhorfandi skrifaði Molum (26.01.2015): ,,Eins og sjálfsagt margir sækist ég eftir því að horfa á Landann í sjónvarpinu og hef talið gott efni. Stundum spillist það. Í kvöld horfði ég á þáttinn, en naut hans ekki af þeirri ástæðu einni, að umsjónarkonan kom ekki máli sínu á framfæri með nægilega skiljanlegum hætti og tapaði ég því miklu af því sem hún bar á borð. Skorturinn á skiljanleika tel ég að sé annarsvegar vegna framburðar viðkomandi og að hinu leitinu vegna þess að stjórn á hljóðgæðum sé ábótavant amk. miðað við framsöguna. Aðrir í þættinum komu sínu vel til skila. Viðurkennt skal að ég er af eldri kantinum, en úrskurðaður svo heyrnargóður að ekki sé ástæða til neinna aðgerða. Er því sannfærður um að ég sé ekki einn um að óska eftir úrbót.
Molaskrifari getur heils hugar tekið undir þetta. Upplifði þetta eins. Þakkar bréfið og er þessu hér með komið á framfæri.
Trausti Harðarson benti á þesssa frétt á dv.is (25.01.2015) : http://www.dv.is/lifsstill/2015/1/25/tyggjo-passar-tennurnar/
Trausti segir: ,,Svo virðist, sem þörf sé á að útskýra muninn á "að finna upp" og "að finna upp á", fyrir blaðamanni. Í fréttinni segir: ,,Vísindamenn vonast til þess að geta fundið upp á tyggjói sem nái til hættulegustu bakteríanna. Réttmæt athugasemd hjá Trausta.
Þakkir fyrir þáttinn Á reki með KK á laugardagsmorgnum á Rás eitt. Það bregst ekki að Molaskrifari heyri þar tónlist og fróðleik sem honum er að skapi. Til dæmis um norsku jasssöngkonuna ágætu, Noru Brocksted sl. laugardag (24.01.2015).
Á mánudagskvöld var spáð fannfergi og vondu veðri í norðaustur hluta Bandaríkjanna. Í fréttum var talað um snjóbyl og hríðarbyl. Þekkja fréttamenn ekki orðið stórhríð? Raunar varð minna úr veðrinu en spáð var.
Þau reynast mörgum fréttaskrifaranum erfið fleirtölu orðin. Í undirfyrirsögn í Fréttablaðinu (24.01.2015) stóð: ,, Helgi Pétursson fjölmiðlamaður og fyrrverandi Ríótríósfélagi sigldi með eiginkonunni og tveimur vinahjónum ... Tvennum vinahjónum , hefði þetta átt að vera.
Í langri umfjöllun (viðtali) í þætti á sunnudagsmorgni á Rás tvö var veitingastaður í Vestmannaeyjum auglýstur mjög rækilega. Eigandi staðarins og umsjónarmaður þáttarins töluðu mikið um djúsa. Hvað er að hinu ágæta orði safi? Þessi umfjöllun var ódulbúin auglýsing. Og því má svo bæta við að veitingastaðurinn heitir Joy, upp á ensku. Auðvitað.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (24.01.2015) var talað um umferðaróhapp í Hveradalsbrekku á Hellisheiði. Á fréttavefnum visir.is var einnig talað um Hveradalsbrekku. Brekkan upp á háheiðina, vestan megin, er oft kölluð Hveradalabrekka. Skammt þar frá stendur skíðaskálinn í Hveradölum. Molaskrifari hefur aldrei heyrt talað um skíðaskálann í Hveradal. Hveradalir, ekki Hveradalur.
http://www.ruv.is/frett/hellisheidi-lokad-vegna-umferdarohapps
Auglýsingadeild Ríkisútvarpsins heldur enn að óperettan Káta ekkjan sé ópera, ef marka má auglýsingar í útvarpinu (27.01.2015). Meinloka. Káta ekkjan er ekki ópera.
Í annarri auglýsingu í Ríkisútvarpinu er okkur boðið að versla matvörur hjá N1. Við kaupum matvörur. Verslum ekki matvörur. Auglýsingadeildin stendur sig ekki mjög vel.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2015 | 09:58
Molar um málfar og miðla 1661
Þrisvar sinnum, að minnsta kosti, var í morgunfréttum Ríkisútvarps á sunnudagsmorgni (25.01.2015) sagt um kosningarnar í Grikklandi: Kjörstöðum lokar klukkan fimm að íslenskum tíma. Þetta orðalag hefur svo sem heyrst áður í útvarpinu. Kjörstöðum lokar ekki. Kjörstöðum verður lokað. Undarleg meinloka. Það var ekki fyrr en í tíu fréttum að Anna Kristín Jónsdóttir, fréttamaður, leiðrétti þetta. Málfarsráðunautur ætti að taka þetta til athugunar. Áfram stóð þetta hinsvegar óbreytt á fréttavef Ríkisútvarpsins:,, Kjörstöðum lokar klukkan fimm að íslenskum tíma og búist er við því að fyrstu útgönguspár verði birtar skömmu síðar. Sjá: http://www.ruv.is/frett/kjorstadir-opnadir-i-grikklandi
KÞ skrifaði (24.01.2015) og segir ,,Þau eru mörg húsnæðin ! http://www.ruv.is/frett/kannabisgata-a-seltjarnarnesi
"Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur á einu ári stöðvað kannabisræktun í tveimur iðnaðarhúsnæðum ... "
Mér finnst þessi talning á "húsnæðum" sérkennileg. - Molaskrifari er sömu skoðunar og þakkar bréfið.
Af mbl.is (24.01.2015): Sextán einhleypar konur sóttu um fæðingarorlof í níu mánuði á síðasta ári vegna fæðingu barna sem urðu til með tæknifrjóvgun ... Ekki vegna fæðingu. Vegna fæðingar. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/24/17_konur_sottu_um_orlof_i_9_manudi/
Meira af mbl.is sama dag: ,, ... í því þriðja reyndist ökumaður án réttinda og reyndi hann að villa á sér heimildum. Einhver óreyndur á vaktinni: Ökumaðurinn reyndi að villa á sér heimildir. Villa á sér heimildir þykjast vera annar en hann var. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/24/thurfti_ad_flytja_sofann_odruvisi_2/
Það er allur gangur á því hvort þáttastjórnendur í útvarpi greini frá því þáttarlok við hvern/hverja var rætt í þættinum. Margir byrja að leggja við eyrun í miðjum þætti og vilja gjarnan vita í að þætti loknum hverjir þar ræddust við. Þetta á til dæmis við um Vikulokin á laugardagsmorgnum á Rás eitt. Það er góður siður að geta þátttakenda í lokin.
Í auglýsingu á skjá Ríkissjónvarpsins (26.01.2015) var talað um að ,,láta sjæna bílinn. Átt var við að þvo og bóna bílinn. Í 2. grein reglna um auglýsingar í Ríkisútvarpinu segir að auglýsingar skuli vera ,,á lýtalausu íslensku máli.
Starfsfólk auglýsingadeildar kann að lesa.
En eru starfsmenn auglýsingadeildar þá vitandi vits og viljandi að brjóta þær reglur, sem þeir eiga að virða og starfa eftir?
Mikið væri fróðlegt að heyra frá útvarpsstjóra um þetta efni.
Íþróttasjónvarp ríkisins mánudaginn 26. janúar 2015:
1520-1720 HM í handbolta
1730-1800 HM-stofan
1800-1930 HM í handbolta
1930-2000 HM-stofan
2025-2030 Íþróttafréttir
2220-2245 HM-stofan
- Að ógleymdum löngum íþróttafréttum í lok tíu frétta sjónvarpsins.
Auðvitað á að sinna íþróttum í sjónvarpi, en fyrr má nú rota en dauðrota.
Að lokum skal hér vitað til aðalfréttar á vefsíðu Ríkisútvarpsins í gærkvöldi (26.01.2015) en þar segir:,, DR hefur útbúið sérstakt myndband þar sem hægt er að horfa á tilþrif danska markvörðsins. Danska markvörðsins! Það var og! Segi ekki meira. http://www.ruv.is/frett/danir-fagna-%E2%80%9Esaud-thid-reykinn-island%E2%80%9C
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2015 | 09:44
Molar um málfar og miðla 1660
Heldur hefur verið að rofa til í dagskrá Ríkissjónvarpsins að undanförnu og er það þakkarvert. Í liðinni viku voru til dæmis sýndar þrjár prýðilegar íslenskar heimildamyndir; ein um sögu Álafoss og þess merka starfs sem þar var unnið, önnur um Þórð á Dagverðará, þann kynjakvist, og sú þriðja (endursýnd, reyndar) Draumaland Andra Snæs.
Tímasetning Draumalandsins gat ekki verið betri, nánast sama daginn og meirihluti atvinnuveganefndar boðaði nýja virkjanaherferð gegn öræfum og víðernum Íslands.
Kannski fór það fram hjá Molaskrifari, en hann tók ekki eftir að greint væri frá því í Álafossmyndinni, hvernig harðvítugri Álafossdeilu svonefndri lyktaði, þar sem tekist var á um kjör verkafólks.
Úr fréttum Bylgjunnar (23.01.2015): ,, ... strax orðið ljóst alvarleiki málsins. ... strax orðið ljóst hve alvarlegt málið var. Eða: ... strax orðið ljós alvara málsins. Og: ,, ... kunni að nema 3- 400 milljarða króna. Hefði átt að vera: ,, ... kunni að nema 3-400 milljörðum króna. Enginn les yfir.
Stuttur eindálkur (gamalt blaðamannamál!) var á forsíðu Morgunblaðsins á laugardag (23.01.2014) um álit umboðsmanns Alþingis um dómgreindarbest , ósannindi og afskipti fyrrverandi innanríkisráðherra af lögreglurannsókn,sem sem leiddi til sakfellingar aðstoðarmanns og afsagnar ráðherra. Molaskrifari sér fyrir sér fyrir sér ,að ef hér hefði átt í hlut ráðherra í fyrri ríkisstjórn, - ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, hefði þessi frétt ef til vill verið meira en eindálkur, kannski tvídálkur! Ef ekki talsvert meira. Ítarlegri umfjöllun var um málið inni í blaðinu.
Úr hádegisfréttum Ríkisútvarps (23.01.2015): ,, Einn af fjórum Bengalköttum ... tókst að komast undan.... Þetta las ágætur þulur. Einum af fjórum Bengalköttum ... tókst að komast undan, hefði þetta átt að vera.
Sóknargjöld eru innheimt af þjóðkirkjunni, var sagt í morgunfréttum Ríkisútvarps (23.01.2014). Það var ekki átt við, að þjóðkirkjan greiddi sóknargjöld. Hér hefði átt að segja: Þjóðkirkjan innheimtir sókargjöld. Germynd er alltaf betri. Málfarsráðunautur lætti að leggja áherslu á það við fréttamenn.
Í svokölluðum Hraðfréttum Ríkissjónvarps (23.01.2015) var sagt: .... gefa hjálma merktum Eimaskipafélaginu. Þetta er bull. Hér hefði t.d. átt að segja: ... gefa hjálma, sem merktir eru Eimskipafélaginu , eða hjálma merkta Eimskipafélaginu. Í þessum þætti var líka sagt: Alþingi var sett í síðustu viku. Það var líka bull. Alþingi kom saman að nýju eftir jólaleyfi. Það er ógerlegt að hafa samúð með Ríkisútvarpi í kröggum, þegar takmörkuðu dagskrárfé er sturtað niður með þessum hætti.
Ágæt umræða í Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudagsmorgni (25.01.2015). Undarlegt að heyra hvernig Jón Gunnarsson talaði niður til Katrínar Júlíusdóttur. Ekki hækkaði pundið í þessum þingmanni hjá Molaskrifara eftir þetta samtal. Gaman var að hlusta á þá Egil Helgason og Ólaf Stephensen. Gott samtal.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.1.2015 | 07:04
Molar um málfar og miðla 1659
Undarleg fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (22.01.2015): Leikskólastjórar fá vitlausan lífeyri http://www.ruv.is/frett/leikskolastjorar-fa-vitlausan-lifeyri
Þarna hefði einhver þurft að lesa yfir og lagfæra. Í fréttinni er réttilega talað um rangar lífeyrisgreiðslur. Ekki vitlausar!
Góður húmor hjá Hauki Holm fréttamanni. Í þrjú fréttum Ríkisútvarps (22.01.2015) sagði hann frá uppákomu á Alþingi. Við heyrðum í tveimur þingmönnum, sem báðir fóru fram yfir leyfðan ræðutíma. Haukur kynnti þá til sögunnar í lok fréttarinnar og bætti við: Forseti Alþingis lék undir á bjöllu! Hárrétt. Uppákoman varð vegna frumhlaups meirihluta atvinnuveganefndar um að breyta svokallaðri rammaáætlun og bæta við umdeildum virkjunarkostum, þar sem meðal annars er gengið á hlut Vatnajökulsþjóðgarðs.
Þórhallur Jósepsson skrifaði Molum (21.01.2015): ,, Sæll Eiður.
Mig langar að nefna eitt varðandi málfar sem allmargir, jafnvel þrautreyndir fréttamenn og blaðamenn, virðast ekki kunna rétt skil á.
Í grein á Vísi í dag, svo dæmi sé nefnt, undir fyrirsögninni "Jón Óttar ræður gátuna um Sólborgarmálið" skrifar Jakob Bjarnar: "Í þætti Jóns Óttars Ragnarssonar er leitt að því líkum..."
Forvitnilegt væri að vita hvers vegna svo margir vilja leiða "líkum" að einhverju. Þetta er ekkert öðruvísi en að leiða hvað annað: Leiða börn (ekki börnum), leiða hest (ekki hesti). Kannski hefur þetta ruglast í hugum manna við orðasambandið að eitthvað (t.d. niðurstaða eða dómur) sé leitt af líkum?. Góð ábending. Kærar þakkir, Þórhallur.
Forsíðufyrirsögn í Morgunblaðinu (21.01.2015): Costco opnar á næsta ári. Fréttin er um að bandaríski smásölurisinn Costco muni opna verslun í Garðabæ á næsta ári. Það er sennilega tapað stríð að berjast gegn þessari notkun sagnarinnar að opna. Í huga Molaskrifara er sögnin að opna áhrifssögn,sem tekur með sér andlag í þolfalli.
Auglýsing úr Ríkisútvarpinu frá SAM-bíóum, minnir mig.(21.01.2015): ,, Við endursýnum óperuna Merry Widow ..... Er þetta ekki óperettan, sem aldrei hefur verið kölluð annað en ,,Káta ekkjan á íslensku? Kannski misheyrðist Molaskrifara, en tilhneigingar gætir til að nota ensku í vaxandi mæli í auglýsingum og virðist stjórn auglýsingadeildar ekkert sjá athugavert það, hvað sem öllum reglum Ríkisútvarpsins líður.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.1.2015 | 09:06
Molar um málfar og miðla 1658
Molavin skrifaði (20.01.2015): ,, Þótt haustannir bænda, svo sem göngur, leitir og réttir séu að venju í fleirtölu, þá á sama ekki við um húsleit. Hún er að hefð eintöluorð, jafnvel þótt leitað sé í fleiri húsum en einu. Netmoggi segir í dag, 20.01.2014: "Þýska lögreglan hefur framkvæmt húsleitir á yfir 10 stöðum í dag..." Þessar "húsleitir" hafa færzt í aukana í fréttum og er enn ein sönnun þess að leiðbeiningar er þörf inni á ritstjórnum. Og talandi um haustannir, þá verður slátrun fjár vonandi ekki orðin að fleirtölu hjá sama unga blaðafólkinu, þótt slátrað sé víða og mörgu fé. Kærar þakkir, Molavin. Góðar ábendingar.
Í ágætu spjalli umsjónarmanna Morgunútgáfunnar í Ríkisútvarpinu (20.01.2015) við málfarsráðunaut var þrennt gert að umtalsefni, sem oft hefur verið nefnt í Molum. Í fyrsta lagi sú meinloka að vera sáttur með eitthvað. Sáttur við. Í öðru lagi tölum við ekki um að fara erlendis, eins og svo oft heyrist. Við erum erlendis. Erlendis er notað um dvöl á stað, ekki ferð til staðar. Við dveljumst erlendis (dveljum, var að vísum sagt í spjallinu). Við förum til útlanda. Í þriðja lagi var það gert að umtalsefni að rugla saman eftirmálum og eftirmála. Eftirmáli er kafli eða stutt niðurlagsorð í bókarlok en eftirmál eru afleiðingar einhvers sem gert hefur verið. Til dæmis: Framkoma hans hafði engin eftirmál ... Í eftirmála bókarinnar segir höfundur ...
Örnólfur Árnason, þýðandi og smekkmaður um málfar, hnykkti á þessu á fésbók (20.01.2015). Hann sagði:,, Hver tyggur eftir öðrum þetta hvimleiða orðalag "að fara erlendis". Erlendis táknar dvöl, ekki hreyfingu, eins og "úti" táknar dvöl en "út" hreyfingu. Það er því jafnvitlaust að segja "að fara erlendis" og að segja "að fara úti" en það segir auðvitað enginn. Og hana nú.
Dropinn holar steininn og aldrei er góð vísa of oft kveðin.
Síðan þá hafa félögin og Valitor greint á ... var sagt í fréttum Stöðvar tvö (20.01.2015). Þetta hefði átt að vera: Síðan þá hefur félögin greint á ....
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2015 | 09:20
Molar um málfar og miðla 1657
Glöggur Molalesandi skrifaði (19.01.2015): ,,Bíll fór út í Reykjavíkurhöfn. Já, svona var fyrirsögnin á vísi.is í gær. Stutt var ambaganna á milli í stuttri frétt. bíll fór út í höfnina... Maðurinn er talinn hafa verið lengi ofan í sjónum... að draga bílinn upp úr höfninni... þegar bíllinn keyrði fram af brúninni . Molaskrifari þakkar ábendinguna. Hér hefur enn einn viðvaningurinn verið að helgarvaktinn og enginn til að lesa yfir, leiðrétta og færa til betra máls.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (19.01.2015) talaði umsjónarmaður um brjálað veður á höfuðborgarsvæðinu. Það var rok, venju fremur hvasst að vísu, og það var rigning. Í morgun (20.01.2015) sagði umsjónarmaður okkur í sama þætti að brjálað væri að gera í Múlakaffi. Þar eru starfsmenn önnum kafnir að undirbúa þorrann. Molaskrifari leggur til að brýnt verði fyrir umsjónarmönnum að spara gífuryrðin. Þau missa marks, séu þau ofnotuð. Orðið brjálað er greinilega kækorð hjá þessum umsjónarmanni. Málfarsráðunautur gæti gert kækorð að umtalsefni við tækifæri.
Í fréttum Stöðvar tvö (19.01.2015) heyrði Molaskrifari ekki betur en sagt væri: ,, ... í ljósi þess að engra tekna er til að dreifa. Hefði átt að vera: ,, ... í ljósi þess að engum tekjum er til að dreifa.
Úr frétt á visir.is (19.01.2015): Reykjavíkurborg hefur bannað Kiwanishreyfingunni að gefa börnum reiðhjólahjálma merktum Eimskipafélaginu. Hér ætti fremur að standa: ,,Reykjavíkurborg hefur bannað Kiwanishreyfingunni að gefa börnum reiðhjólahjálma merkta Eimskipafélaginu. Sjá : http://www.visir.is/grunnskolaborn-i-reykjavik-mega-ekki-fa-hjalma-merkta-eimskipafelaginu/article/2015150118908
Trausti spyr (19.01.2015) vegna fréttar á mbl.is (19.01.2015), - ætli hraunið telji eitthvað? Í fréttinni segir:,, Hraunið þekur nú svæði sem er stærra að flatarmáli en Manhattan, en það telur yfir 83 ferkílómetra. Auðvitað telur hraunið hvorki eitt né neitt. Þetta hefði á margan annan veg mátt orða betur. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/19/likt_og_svort_und_a_hvitum_feldi/
Einnig bendir Trausti á aðra frétt á mbl.is sama dag og spyr hvort hæðarmetrar séu frábrugðnir öðrum metrum? Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/19/barst_hundrud_metra_med_flodinu/
Í fréttinni segir: ,,Snjóflóðið féll úr hlíðum Eyrarfjalls og var 75 metra breitt og fallhæðin nálægt 350 hæðarmetrum. Molaskrifari þakkar Trausta þessar ábendingar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2015 | 09:51
Molar um málfar og miðla 1656
Úr tíu fréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (17.01.2015): Einn þeirra sem handtekinn var í Aþenu í kvöld svipar til Abaaoud og hafa lífsýni verið send til Belgíu. Hér hefði að mati Molaskrifara átt að segja: Einum þeirra ... svipar til ... Einhverjum svipar til einhvers, einhver líkist einhverjum.
Útvarpshlustandi skrifaði (17.01.2015): ,,Hlustaði á spurningaþáttinn Gettu betur í útvarpinu í vikunni. Þar var spurt um nafn höfuðborgar Flórídafylkis. Ef ég man rétt þá er talað um Bandaríkin, ekki Bandafylkin. Molaskrifari þakkar bréfið og minnir á að hann hefur stundum nefnt einmitt þetta sama. Í Banríkjunum eru ekki fylki, heldur ríki, (e. states). Honum hefur þá verið andmælt með þeim rökum, að það væri gömul málvenja að tala um fylki í Bandaríkjunum. Má vera, en Molaskrifari er samt á því að tala eigi um ríki en ekki fylki í Bandaríkjunum. Fylki eru hins vegar í Noregi.
Í miðnæturfréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (17.01.2015) var sagt: Þykknar upp suð- og vestanlands. Þetta rímar ekki við málkennd Molaskrifara. Betra hefði verið að segja, til dæmis: Þykknar upp sunnan- og vestanlands.
Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/01/18/24_letust_i_rutuslysi/
Hörmulega illa skrifuð frétt á mbl.is (18.01.2015). Gæðaeftirlit er oft ekki til staðar á þessum fréttamiðli, frekar en öðrum - allra síst um helgar.
Undarleg auglýsing á Rás tvö í Ríkisútvarpinu hefst á aðvörunarpípi eins og í reykskynjara. Er tilgangurinn að skjóta fólki skelk í bringu eða gera því bilt við? Það síðarnefnda tókst hvað Molaskrifara varðar. Auglýsingastofa Ríkisútvarpsins er víða á hálum ís.
Úr hádegisfréttum Bylgjunnar (19.01.2015). ,, ... þaðan sem hinar öfgafullu hreyfingar eiga upptök sín. Þarna hefði átt að segja: ... þar sem hinar öfgafullu hreyfingar eiga upptök sín .
,,Þetta er allt undir control, sagði formaður fjárlaganefndar í útvarpinu. Hún sagði líka að Íslendingar ættu ekki að taka niður fyrir sig með því að sækja um aðild að ESB! Það var og!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2015 | 07:10
Molar um málfar og miðla 1655
1655-15
Sigurður Oddgeirsson skrifaði frá Danmörku (17.01.2014): ,,Hann átti að dæma leik Gróttu og Mílan út á Seltjarnarnesi í gær ásamt Ingvari Guðjónssyni. Þeir félagar misskildu þó málið eitthvað og keyrðu alla leið inn á Selfoss. Skyldi hér vera átt við AC Milan?
,,Þetta hef ég aldrei heyrt fyrr, segir Sigurður. Sannar fyrir mér að þetta unga fólk, sem sér um fréttaskrif í dagblöðunum á þessum "síðustu og verstu tímum" les yfirleitt aldrei eldri texta en frá 2010. Alla leið inn á Selfoss??? Undarlegt orðalag, bætir Molaskrifari við.
Molaskrifari þakkar Sigurði bréfið.
Úr frétt á visir.is (16.01.2015): ,,Tvö stór Gullegg prýða nú eyjuna á tjörninni og spyr ja menn sig sjálfsagt hvaða stóri fugl hafi verið þar á ferð. Það sem visir.is kallar eyjuna á tjörninni hefur svo lengi sem elstu menn muna heitið Tjarnarhólminn eða hólminn í Tjörninni. http://www.visir.is/gullegg-a-tjorninni/article/2015150119202
Tvo daga í röð heyrði Molaskrifari fallbeygingarvillur hjá fréttamanni/fréttaþul í Ríkisútvarpinu, þegar sagt var: ,, ... einum af stjórnarmanni .... Í seinna skiptið (16.001.2015) var sagt: ,,Haft var eftir einum af stjórnarmanni ... Rétt hefði verið að segja til dæmis: Haft var eftir stjórnarmanni ,eða, - haft var eftir einum af stjórnarmönnum ... Málfarsráðunautur ætti að athuga málið.
Rafn spyr vegna fréttar á mbl.is (16.01.2015): Hvar er hugsun blaðamannsins? Fréttin,sem hann bendir á: ,,BMW skaust upp fyrir Mercedes-Benz sem söluhæsti lúxusbílsmiðurinn í Bandaríkjunum á nýliðnu ári.
BMW hélt þessum titli 2011 og 2012 en árið 2013 settist Mercedews-Benz í toppsætið þar til nú. Árið 2014 seldi BMW um 9.000 bílum fleira en árið 2013 var forskot Mecedes-Benz um 3.000 bílar. http://www.mbl.is/bill/frettir/2015/01/15/bmw_fram_ur_mercedes_benz/
Í þessari frétt á Moggavefnum kemur fram að BMW hafi haldið titlinum söluhæsti lúxusbílsmiðurinn í Bandaríkjunum árin 2011 og 2012, sem bendir til að BMW hafi einnig borið þann titil á árunum þar á undan. Síðan hafi Mercedews-Benz (svo!) setzt í toppsætið þar til nú, 2014. Að mínu mati er þetta ekki eðlileg frásögn af því, að M-B hafi skotizt upp fyrir BMW í eitt ár. Hitt er annað mál, að munur bifreiðafjöldans er lítill, 9.000 bifreiða munur árið 2014 en 3.000 árið 2013.
PS: Hvað skyldi M-B fyrirtækið heita. Í þremur línum Mbl. eru þrjár útgáfur nafnsins: Mercedes-Benz, Mercedews-Benz og Mecedes-Benz. Hvar er yfirlesturinn?? Von er að spurt sé. Molaskrifari þakkar Rafni bréfið.
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (16.01.2015) var sagt að verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni hefði verið aflýst. Verkfallinu var aflýst.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)