16.1.2015 | 07:25
Molar um málfar og miðla 1654
Hversvegna þarf að riðla kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins á Íslandi þótt Brasilíumenn séu að spila handbolta við Qatar? Ég spyr. Þar var gert í gærkveldi og fréttum seinkað um 15 mínútur. Kastljósið skorið við trog. Svo bættist reyndar við enn meira boltafjas seinna um kvöldið. Sennilega hefur Molaskrifari ekki verið sá eini sem þá gafst upp á Ríkissjónvarpinu. Ekki verður séð að norrænu sjónvarpsstöðvarnar hafi sýnt þessum boltaleik minnsta áhuga. Og ekki sýnist áhuginn mikill í Qatar eftir áhorfendafjölda að dæma. - Hver ræður dagskrá Ríkissjónvarpsins? Ekki fréttastjórinn. Varla útvarpsstjórinn, en örugglega íþróttastjórinn. Þetta er dæmi um það, þegar stofnun, sem fólk ræður ekki hvort það vill eiga viðskipti við, misbeitir valdi sínu. Ríkissjónvarpinu, sem hefur menningar- og fræðsluhlutverki að gegna, hefur tekist að skapa einskonar múgsefjun í kringum boltaleiki. Í dagskrá ríkisrásarinnar hafa boltaleikir forgang umfram allt annað.
Lesandi sendi þessa ábendingu (15.01.2015): ,,Á næstu mánuðum mun Krónan opna þrjár nýjar verslanir þar sem nú eru Nóatúnsverslanir. Verslanirnar í Grafarholti, Hamraborg og Nóatúni munu breytast úr Nóatúni í Krónuna." - Þessi venjulega meinloka hér: Krónan opnar ekki nýjar verslanir, en þremur verslunum Nóatúns verður breytt í Krónubúðir. Verslanir fremur en önnur dauðleg fyrirbæri hafa ekki sjálfstæðan vilja til breytinga. Mikið rétt. Molaskrifari þakkar ábendinguna: http://www.visir.is/hverfin-gera-krofur-til-reksturs-lagverdsverslana/article/2015701159935
Það er hvimleiður siður sumra, stjórnmálamanna og annarra, sem rætt er við í útvarpi og sjónvarpi að ofnota orðið sjálf/sjálfur. Rætt var við félagsmálaráðherra í sjónvarpi í gærkvöldi. Hún sagði: Ég sjálf er þeirrar skoðunar... Hér hefði nægt að segja: Ég er þeirrar skoðunar.
Molaskrifari hlustaði stundarkorn á Virka morgna á Rás tvö (15.01.2015). Þar var allt óbreytt. Enn var verið að um hljóstir (hljómsveitir) og eitthvað sem var dáslett (dásamlegt). Ríkisútvarpið á að vera til fyrirmyndar um málfar. Málfar í þessum þætti er það ekki.
Ratbjart um miðjan dag, segir í fyrirsögn í Morgunblaðinu (15.01.2015). Ratljóst er gamalt og fallegt orð. Samanber sauðljóst og vígljóst. Fleiri orð í sama dúr?
Þessu skylt eða tengt. Ljósbært veður.
Í bráðskemmtilegri bók Þórðar Tómassonar frá Vallnatúni, Þórðar í Skógum, Veðurfræði Eyfellings, vitnar hann í veðurlýsingu sér Markúsar Jónssonar í Holti frá miðri nítjándu öld:,,Er þá stundum svo lygnt á millum byljanna, að ljósbært er úti millum húsa, en í sjálfum byljunum hringlar og brakar í öllu".
Newcastle líklegast til að spreða í janúar, segir í óskiljanlegri fyrirsögn á dv. is (15.01.2015). Annaðhvort kann Molaskrifari ekki íslensku eða sá sem samdi þessa fyrirsagnarómynd er ekki vel að sér um skrif á íslensku. http://www.dv.is/sport/2015/1/13/newcastle-liklegast-til-ad-spreda-i-januar/
Fyrsti þátturinn í röðinni Ferð til fjár í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (15.01.2015) lofar heldur góðu. Skemmtilega fjölbreytt nálgun. Viðfangsefnið ekki einfalt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.1.2015 | 11:47
Molar um málfar og miðla 1653
Herrafatabúð Birgis auglýsti í Ríkisútvarpinu á miðvikudag (14.01.2015): Jakkaföt, - tvö fyrir ein. Þetta las þulur athugasemdalaust. Tvö jakkaföt! Enn virðist auglýsingadeild Ríkisútvarpsins taka gagnrýnilaust við öll sem að henni er rétt. Enginn les yfir. Átt var við að tvenn jakkaföt fengjust á verði einna. Þetta var leiðrétt daginn eftir.
Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (14.01.2015) sagði íþróttafréttamaður frá manni ætlaði að stíga á stokk á ráðstefnu. Í fréttinni kom fram að maðurinn ætlaði ekki að stíga á stokk og strengja heit. Hann ætlaði að segja frá afrekum sínum. Ef menn nota orðtök, verða þeir að vita hvað þau þýða. Orðið nokkuð algengt að heyra í fréttum talað um að stíga á stokk, þegar átt er við það að taka til máls, flytja ræðu eða tónlist.
Í Garðapóstinum (15.01.2015) segir í fyrirsögn: Biðlistinn telur 500 miða!!. Biðlistinn telur hvorki eitt né neitt. Hér hefði til dæmis mátt segja: 500 manns á biðlista. Í undirfyrirsögn segir: Þeir sem skráðu sig á biðlista vantar tæplega 500 miða. Mig vantar, ekki ég vantar. Þess vegna hefði hér átt að standa: Þá sem skráðu sig á biðlista vantar tæplega 500 miða. Kannski er hér ferð hræðsla við þágufallsýki? Í fréttinni,sem er um miðasölu á þorrablót, segir: ... en bankinn opnaði klukkan 0900. Bankaði opnaði ekki. Hann var opnaður. Miðarnir voru seldir í bankaútibúi.
Í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu (15.01.2015) var sagt: ... flutt ykkur erlendis. Verið var að ræða um fyrirtæki, sem hafði flutt starfsemi sína til útlanda. Erlendis er notað um dvöl á stað, ekki ferð eða flutning til staðar. Fyrirtækið starfar erlendis. Málfarsráðunautur ætti að ræða þetta, - og fleira - við umsjónarmenn þessa þáttar.
Mikið til er hætt að tala um ársgrundvöll, þegar verið er að miða við eitt ár eða tólf mánuði. Þessi gamli draugur skaut þó upp kollinum í morgunfréttum Ríkisútvarps á fimmtudagsmorgni(15.01.2015) Alltaf er hægt , - og betra að segja á ári, í stað ársgrundvallarins.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2015 | 11:14
Molar um málfar og miðla 1652
Þórarinn Guðnason sendi eftirfarandi (12.01.2015):,,BrúUnum yfir Eyrarsund og Stórabelti var lokað í gærkvöld ". Hann segir: - ,,Þetta kann að hafa verið mismæli hjá þulnum, sem annars las mjög vel, - kann líka að vera að hann hafi ekki skrifað fréttina sjálfur - en ekki leiðrétti hann sig. - Molaskrifari þakkar ábendinguna. Brúnum, hefði þetta átt að vera eins og Þórarinn bendir réttilega á.
Fyrrverandi starfsfélagi skrifaði (12.01.2015): ,,Alltaf eru menn að rugla með sögnina að veita, nú síðast í heilsíðu auglýsingu frá ríkisstjórninni. Þar veita menn fjármunum til heilbrigðismála. Hið rétta er að menn veita fjármuni til heilbrigðismála, en verja fjármunum til lausnar læknadeilunni. Svo eyða menn líka fjármunum í alls kyns vitleysu. Það er óþarfi að blanda Flóaáveitunni inn í óskyld málefni!
Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Molalesandi skrifaði (12.01.2015) ,,Í Mogganum í dag segir að Steinullarverksmiðjan á Króknum fagni 30 ára afmæli sínu á árinu. - Þetta er ruglsetning. Verksmiðjan fagnar engu, hins vegar verður afmæli hennar fagnað. - Ótrúlega algengt að dauðum hlutum sé gefið líf, þegar talað er um einhver tímamót ... Molaskrifari þakkar bréfið. Í Morgunblaðinu á mánudag stendur undir mynd á bls. 12:,,Steinull. Verksmiðjan á Sauðárkróki tók til starfa haustið 1985 og fagnar því 30 ára afmæli á þessu ári.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins á mánudag (12.01.2015) var sagt frá eldsvoða í bíl í Kópavogi. Sagt var að fólk í bílnum hefði verið að reykja vindlinga. Það er ágætt orðalag, þótt orðið sígaretta sé fyrir löngu búið að festa sig í málinu. Svo var sagt að bíllinn hefði verið pakkaður af flugeldum. Það var ekki eins vel orðað. Átt var við að talsvert eða mikið af flugeldum hefði verið í bílnum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2015 | 13:13
Molar um málfar og miðla 1651
,, Köfunarmenn sem fóru niður að flaki farþegaþotu Air Asia flugfélagsins sem hrapaði í Javahafi fundu í dag flugrita flugvélarinnar. Þetta mátti lesa á fréttavef Ríkisútvarpsins á sunnudag. Síðar var þetta lagfært og köfunarmönnum breytt í kafara. En áfram stóð í fréttinni að flugvélin hefði hrapað í Javahafi. Vélin hrapaði í Javahaf eða Jövuhaf. Fréttastofan þarf að gera betur en þetta.
Í áttafréttum Ríkisútvarps (12.01.2015) var talað um þrjú verðlaun. Það virðist vera erfitt að læra þetta. Þrenn verðlaun, hefði þetta átt að vera. Orðavin sendi Molum þetta sama dag: ,,Talandi um fleirtöluorð. Í frétt ríkisútvarpsins http://www.ruv.is/frett/boyhood-sigursael-a-golden-globe
er þrisvar talað um tvö verðlaun. Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins þennan saman morgun var okkur sagt að færðin í Reykjavík væri agaleg, - það hafði snjóað. Einnig var flest ef ekki allt í sambandi við handboltamót í Qatar sagt bæði stórkostlegt og dásamlegt! Hvernig væri að gæta svolítið meira hófs í orðavali?
Af mbl.is (11.01.2015): Voru þau vistuð í fangageymslu vegna rannsókn málsins. Beygja, beygja .. Voru þau vistuð í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Meira af mbl.is sama dag: Bílvelta varð á Suðurlandsvegi rétt austan við gatnamótin við Skeiðaveg um sjöleytið í kvöld. Molaskrifari hefur aldrei kunnað að meta það orðalag að bílvelta hafi orðið. Bíll valt á Suðurlandsvegi ....
Meira af mbl.is (11.01.2015): ,, Búið er að loka veginum um Sandskeiði, Hellisheiði og Þrengsli. Veginum um Sandskeiði! Það var og! http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/11/heillisheidi_og_threngsli_lokud/
Vitnað er í heimasíðu Vegagerðarinnar. Þar segir hinsvegar: ,,Lokað er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum annars er hálka eða snjóþekja mjög víða á Suðurlandi og einhver skafrenningur. Þarna hefur greinilega viðvaningur, fréttabarn, eins og stundum er sagt, verið á vaktinni. Mbl.is þarf að vanda sig meira.
Borganöfn eru birt á veðurkortum Stöðvar tvö, - bæði austan hafs og vestan. Ríkissjónvarpið ræður líka yfir þessari tækni, en sýnir ekki borganöfn. Skrítið. Minnir þó að Birta Líf veðurfræðingur hafi einu sinni gert það. Sýnt að þetta er mögulegt. Hún hefur brotið upp á nýjungum í veðurfréttum, - sem er af hinu góða.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2015 | 07:37
Molar um málfar og miðla 1650
Smáþáttur númer tvö,af fimmtíu og tveimur, í röðinni Öldin hennar var á dagskrá í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi. Þátturinn hét Stríðstískan. Árið var 1943, Þessir þættir eru gerðir í tilefni þess að öld er liðin síðan íslenskar konur fengu kosningarétt. Í þættinum var rætt við sagn- og kynjafræðing. Hún sagði okkur að sokkabuxur með saumi að aftan hefðu verið aðalmálið hjá konum á þessum tíma, á stríðsárunum síðari. Molaskrifari er ekki mjög fróður um klæðnað kvenna, en þykist þó alveg viss um að sokkabuxur komu ekki til sögunnar fyrr en talsvert löngu seinna og voru þá einmitt ekki með saum eða saumi að aftan. Þessi sama kona sagði okkur ,að á stríðsárunum hefðu íslenskar konur í fyrsta skipti orðið objects of desire !!! Eftirsóknarverðar. Urðu íslenskar konur ekki eftirsóknarverðar fyrr en upp 1940? Hvaða rugl er þetta og hversvegna þurfti konan að tala ensku við okkur? Vonandi verður vandað betur til þeirra þátt sem á eftir koma. Þarna var ekki vandað til verka. Konur eiga betra skilið.
K.Þ. benti á eftirfarandi frétt á visir.is (10.01.2015): http://www.visir.is/leitin-ad-boumeddiene-heldur-afram/article/2015150119976
Þar segir meðal annars: "Coulibaly banaði fjóra viðskiptavini verslunarinnar ..." Ja, hérna!. Þakka ábendinguna.
Lögregluaðgerðirnar í Frakklandi eru með þeim stærstu í sögu landsins, sagði fréttaþulur Stöðvar tvö á föstudagskvöld (09.01.2015). Við tölum ekki um stórar eða litlar aðgerðir. Við tölum til dæmis um umfangsmiklar aðgerðir eins og Þorbjörn Þórðarson fréttamaður réttilega gerði í þessum sama fréttatíma. Umfjöllun Stöðvar tvö um voðaverkin í Frakklandi var stórum betri í fréttum þetta kvöld en umfjöllun Ríkissjónvarpsins.
Þessi tvö samtök, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps (09.01.2015). Það er erfitt að ná þessu. Samtök er fleirtöluorð. Þess vegna átti að tala um tvenn samtök.
Af mbl.is (09.01.2015): Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kom til hjálpar þegar eldri kona valt bíl sínum á Suðurlandsbraut um kl. 15.30 í dag. Fréttabarn á vaktinni? Konan velti bílnum. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/09/bill_a_hlidina_a_sudurlandsbraut/
Bílnum var komið á hjólin, segir einnig í fréttinni.
Gervihnattasamband brást, þegar Ríkissjónvarpið ætlaði að hefja útsendingu frá heldur lítilvægum æfingaleik í handbolta í útlöndum á föstudagskvöld (09.01.2015) Þá var skrifað á skjáinn: Bilun er á gervihnattasambandi. Unnið er að lausn. Betra hefði verið að segja að unnið væri að viðgerð.
Sögnin að olla, sem ekki er til (nema á stöku fréttamiðli) skýtur hér upp kollinum á mbl.is (09.01.2014): Hefur þetta ollið talsverðum deilum innan félagsins og þá sérstaklega hjá gistiþjónustuaðilum. Þetta hefur sem sé valdið deilum. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/09/olga_innan_samtaka_ferdathjonustunnar/
Kona sem tók þátt í umræðum í Vikulokum í Ríkisútvarpinu á laugardag (10.01.2015) talaði um lög um skiptingu prestkalla í Reykjavík. Hvernig skyldu menn skipta prestköllum?
Útúrdúr í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (11.01.2014) brást ekki frekar en fyrri daginn. Fínn þáttur og fróðlegur. Takk J.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2015 | 17:50
Dæmigert
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.1.2015 | 09:37
Molar um málfar og miðla 1649
... í miðborg París, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (078.01.2014). Beygja, beygja. .. í miðborg Parísar hefði þetta átt að vera.
Í fréttum Ríkisútvarps (07.01.2014) var talað um samskeppnisleg áhrif. Samkeppnisáhrif eða áhrif á samkeppni. Rík tilhneiging til að bæta -leg , -lega, við nafnorð í tíma og ótíma. Samanber viðtekið orðalag í íþróttafréttum nú orðið, - varnarlega , sóknarlega. Nú fær Molaskrifari, ef til vill á baukinn hjá íþróttafréttamönnum Ríkisútvarpsins á fésbókinni. Fréttamenn bregðast misvel við gagnrýni í Molum.
Af visir.is (07.01.2014) Harður árekstur rútu og fólksbíls varð rétt fyrir ofan Borg í Grímsnesi á tólfta tímanum í dag. Ekki þekkir Molaskrifari málvenju heimamanna í Grímsnesinu,- en hvað er rétt fyrir ofan Borg? Er það rétt austan við Borg í Grímsnesi?
Fyrirsagnir í fjölmiðlum eiga að vera skiljanlegar. Þessi fyrirsögn af visir.is (08.01.2014) er það ekki: Margir gerast vegan í janúar, http://www.visir.is/margir-gerast-vegan-i-januar/article/2015701089955
Fréttin byrjar svona: Í janúar fer fram hið alþjóðlega átak Veganúar (e. veganuary), en átakinu var hleypt af stokkunum af Matthew Glover og Jane Land í fyrsta sinn í fyrra. En hvað er vegan? Það er skýrt svona í fréttinni: Þeir sem eru vegan sneiða hjá öllum dýraafurðum. Molaskrifara finnst þetta hreint ekki vera til fyrirmyndar, - að ekki sé nú sterkar að orði kveðið.
í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins að morgni fimmtudags (08.01.2015). var nokkuð löng kynning á ýmsum framleiðsluvörum Apple fyrirtækisins. Látum vera þótt þetta hafi verið nokkuð í námunda við auglýsingamörkin. En okkur hlustendum kemur nákvæmlega ekkert við hvaða skoðun umsjónarmaður hefur á svonefndum snjallúrum. Persónulegum skoðunum eiga að þáttastjórnendur að halda fyrir sig. Hlífa okkur sem hlustum.
Í Garðapóstinum (08.01.2015) segir frá nýbyggingu við Garðatorg þar sem verða 42 íbúðir. Þar segir um íbúðirnar: ,, ... og sumar með tveimur svölum. Svalir eru fleirtöluorð. Þarna ætti að standa: ,, ... sumar með tvennum svölum. Tvær svölur eru tveir fuglar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2015 | 10:15
Molar um málfar og miðla 1648
Í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu (06.01.2015) ræddu tveir umsjónarmanna við málfarsráðunaut. Meðal annars bar á góma sögnina að fokka, að gaufa eða slæpast. Molaskrifari hefur heyrt orðið notað í þessari merkingu alla sína ævi. Ég veit ekki hvað hann var að fokka, - ég veit hvað hann var að slæpast. Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar er orðið sagt frá 17. öld líklega úr dönsku frá þeim tíma eða fyrr. Öðru máli gegnir hinsvegar um talsháttinn að fokka upp, að klúðra, mistakast eða gera eitthvað að vandræðamáli. Það er seinni tíma fyrirbæri beint úr ensku (amerískri ensku, að öllum líkindum).
Ekki sér Molaskrifari jafn ríkar ástæður til að amast við áhersluorðinu ansi , frekar mjög, talsvert, ansi gott og gert var í þessu morgunspjalli. Tengingin við orðið andskoti í þessari merkingu er löngu horfin. Á æskuheimili skrifara var lagt bann við blóti. Það sterkasta sem móðir mín heitin sagði, ef henni blöskraði, var einna helst ansans ári, eða bévítans, ef eitthvað gekk alveg fram af henni. Molaskrifari hefur hinsvegar lengi haft þann ósið að nota blótsyrði til áherslu og hefur til dæmis ekki tekist að venja sig af því að segja að eitthvað hafi verið helvíti gott. Ekkert er að því að starfsmenn Ríkisútvarpsins hrósi hver öðrum,en það á svo sem ekkert sérstakt erindi við hlustendur.
Af vef dv.is (06.01.2015): Á vef ráðuneytisins segir að nýr formaður verður skipaður á næstu dögum. Hér ætti að sjálfsögðu að standa: ,,Á vef ráðuneytisins segir, að nýr formaður verði skipaður á næstu dögum.
Kvikmyndir tæla ferðamenn, stóð í skjátexta í fréttayfirliti Stöðvar tvö (06.01.2015). Þetta er auðvitað bull. Sögnin að tæla þýði (sjá ísl. orðabók), svíkja blekkja,véla,glepja , draga á tálar. Ekkert af þessu átti við fréttina. En þar var sagt að kvikmyndir teknar á Íslandi ættu sinn þátt í að laða ferðamenn til Íslands.
Í sama fréttatíma var talað um þykkt reipi. Samkvæmt málkennd Molaskrifara tölum við frekar um sver reipi eða tóg, eða gild reipi. En myndirnar báru eiginlega með sér að málið snerist um fremur grannan kaðal. Hann var sverari en trolltvinni, - en líklega skilja fáir það orð nú um stundir.
Af forsíðu Fréttablaðsins (07.01.2015): Á morgun lýkur síðan tónleikaferðalaginu með giggi í Melbourne. Fréttin er um tónleikaferð íslensks listamanns. Orðabókin segir að enskuslettan gigg sé slanguryrði tónlistarmanna um opinberan tónlistarflutning, tónleika, dansleik eða aðra samkomu. Encarta orðabók Molaskrifara segir að orðið gig sé notað um tónleika á stað þar sem tónlistarmaðurinn (mennirnir) er ekki fastráðinn, eða um tímabundið starf við tónlistarflutning. Enskuslettan var óþörf í fréttinni og alls ekki víst að allir lesendur blaðsins hafi skilið slettuna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.1.2015 | 08:16
Molar um málfar og miðla 1647
Í kvöldfréttum (05.01.2015) héldu fréttamenn áfram að spyrja fulltrúa deiluaðila í læknadeilunni spurninga, sem vanir fréttamenn vita að ekki er hægt að ætlast til að sé svarað. Dálítið einkennileg vinnubrögð. Sem betur fer virðist þessi snúna og erfiða deila nú vera leyst (07.01.2015)
Úr frétt á visir.is (04.01.2015): Áhafnarmeðlimir fundust ekki og var leit frestað þegar myrkur skall á ... sá sem þetta skrifaði hefur sennilega aldrei heyrt talað um skipverja. Áhafnarmeðlimur er óþurftarorð.
Í fréttum undanfarna daga hefur ýmist verið talað um flæðisvið Landspítalans eða flæðasvið Landaspítalans. Molaskrifari er mát. Hann skilur þetta ekki og hefur aldrei heyrt útskýringar eða skilgreiningar á því hvað flæðisvið eða flæðasvið er.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (04.01.2015) var talað um bíl sem hefði verið drekkhlaðinn af sprengiefnum. Molaskrifari hefur ekki fyrr heyrt orðið drekkhlaðinn notað nema um skip, sem er svo hlaðið að liggur við að það sökkvi.,, Árásarmaðurinn ók bíl, drekkhlöðnum af sprengiefnum, að alþjóðaflugvellinum þar sem friðargæsluliðar Afríkusambandsins og erlendir stjórnarerindrekar hafa aðsetur.
Stúlkurödd lauk þætti á Rás tvö rétt fyrir klukkan 19 00 á sunnudagskvöld (04..01.2015) með því að kynna tónleika sem verða í mars, þar sem hún sagði að margir frægir listamenn mundu stíga á stokk! Hún sagði ekki að þeir ætluðu að strengja þess heit að vinna mikil afrek. Getur ekki málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins leiðbeint þáttastjórnendum og sagt þeim, að þegar listamenn koma fram, þá eru þeir ekki að stíga á stokk. Það sem við heyrðum þarna sagt á Rás tvö var út í hött. Ekki í fyrsta skipti sem svo heyrist tekið til orða.
Í morgunfréttum Ríkisútvarps klukkan 06 30 (05.01.2015) var sagt: Fram að þessu hafa ferðalög milli landanna verið að mestu afskiptalaus... Afskiptalaus ferðalög? Hefði ekki verið eðlilegra að segja að ferðalög milli hafi verið að mestu hindrunarlaus? Greiðar samgöngur hafi verið milli landanna. Eða að fram að þessu hafi ferðalög milli landanna verið látin afskiptalaus að mestu.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (06.01.2015) var sagt að heimsmarkaðsverð á olíu hefði hrapað í verði. Heimsmarkaðsverð lækkaði mjög, hrapaði. Í sama fréttatíma var talað um mannnúðarleg sjónarmið. Mannúðarsjónarmið hefði ef til vill verið betra.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2015 | 09:49
Molar um málfar og miðla 1646
Fréttir og veðurfréttir voru í þynnsta lagi í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (05.01.2015). Urðu að víkja fyrir íþróttum. Þær hafa forgang. Alltaf. Til hvers er sérstök íþróttarás? Hvers eiga þeir að gjalda, sem hafa meiri áhuga á almennum fréttum, innlendum og erlendum og veðurfréttum en íþróttum?
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (02.01.2015) var sagt að sýslumannsembætti yrðu lokuð. Átt var við að skrifstofur tiltekinna sýslumannsembætta yrðu lokaðar. Í sömu frétt var talað um hvar sýslumenn yrðu staðsettir samkvæmt nýrri skipan mála. Skorað er á málfarsráðunaut að kveða nú staðsetningardrauginn niður á nýju ári ,- drauginn, sem ríður húsum fréttastofunnar í Efstaleiti.
Í fréttum Bylgjunnar á hádegi (03.01.2015) Var sagt: ... virðast vöruverð hafa hækkað. Betra hefði verið að segja: ... virðist vöruverð hafa hækkað.
Þegar hópur íþróttafréttamanna velur Íþróttamann ársins, þjálfara ársins, og svo framvegis er það vissulega frétt. Íþróttafrétt. Það er hinsvegar ekki efni í hálfs annars klukkutíma beina útsendingu í aðaldagskrá Ríkis sjónvarpsins á besta tíma á laugardagskvöldi. Við eigum betra skilið. Þetta efni hefði átt að sýna á íþróttarásinni. Hversvegna var það ekki gert? Þetta dróst á langinn og seinkaði dagskrá sjónvarpsins um tíu mínútur. Vélkonurödd Ríkissjónvarpsins ræður hvorki við að kynna slíkar fyrirvaralausar breytingar né heldur að biðja áhorfendur afsökunar.
Holtaskóli f´ær Gránfánann, segir í fyrirsögn í Garðapóstinum (02.01.2015). Í undirfyrirsögn segir: Heilsuskólinn Holtakot fær Gránfánann í þriðja sinn. Skólinn er áreiðanlega vel að þessum heiðri kominn. En í fréttinni kemur fram að hér er átt við svokallaðan Grænfána. Sem er viðurkenning fyrir vinnu að átthagaverkefni. Gránfáni er reyndar óskiljanleg orðleysa. Eitthvað vantar þarna upp á að prófarkalesturinn sé í góðu lagi.
Í Fréttablaðinu (03.01.2015) segir: ,,Byggja á um tíu þúsund fermetra lón í botni Stóradals. Þetta er tilvitnun í fundargerð skipulagsnefndar Ölfuss. En hvernig byggja menn lón? Væri ekki eðlilegra að tala um að mynda lón?
Áramótaskaup Ríkissjónvarpsins var endursýnt á laugardagskvöld (03.01.2014). Molaskrifara þótti það stórum betra en frumsýningin á gamlárskvöld. Margt prýðilega gert. Ýmislegt kom í ljós, sem farið hafði framhjá er fyrst var horft. Endurmat: Með betri Skaupum.
James Bond er ágætur í hæfilegum skömmtum. Nýlega sýndi Ríkissjónvarpið Bondmyndina Skyfall og kallaði myndina Skýfall. Undarleg nafngift.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)