Molar um málfar og miðla 518

   Þættir Jónasar Sen , Átta raddir,  eru skrautfjöður í annars heldur fátæklegum hatti  Ríkissjónvarpsins. Þar á bæ  virðast menn aðeins að vakna  til vitundar um að til er annars konar tónlist en dægurtónlist því fyrr um daginn (30.01.2011) var sýndur erlendur  þáttur með efni úr óperum frá  2010. Gott mál.

 Handboltalega séð ...  varnarlega sterkir.  (Handboltaþáttur  Stöðvar tvö 30.01.2011) Þetta er víst alvanalegt orðalag hjá íþróttafréttamönnum, en ekki er það fallegt.

  ...og sæta árásir óeinkennisklæddra lögreglumanna.  (Stöð tvö 30.01.2011) .  Átti  auðvitað að vera: ..  sæta árásum óeinkennisklæddra  lögreglumanna.

 Á fund i Samfylkingarinnar (Ríkisjónvarpið, fréttir  29.01.2011) sagði  forsætisráðherra: .....hvort jafnaðarmenn á  Íslandi auðnist að halda undirtökunum... hefði átt að vera: .. hvort jafnaðarmönnum á  Íslandi  auðnist..

  Sjaldan hefur verið lögð önnur eins ofuráhersla á að auglýsa útvarpsþátt í  Ríkisútvarpinu eins og þátt sem senda á út úr menningarhöll þeirra Akureyringa, Hofi. En þegar annar umsjónarmanna segir í auglýsingu : Við erum að búa til útvarp hér í salnum , þá lofar það ekki góðu um framhaldið. Hversvegna ættum við að hlusta á þátt þar sem verið er að búa til útvarp ?   

 Óneitanlega er það spaugilegt dæmi um  dagskrárgerðarsnilldina í Efstaleiti, að í  Ríkisútvarpinu skuli vera  vikulegur kvikmyndaþáttur (prýðilegur reyndar) en ekkert slíkt í myndmiðlinum Ríkissjónvarpi.  Margir hafa bent á þetta að undanförnu. Ríkissjónvarpið leggur  sig  hinsvegar í líma við að draga  fram  mesta ruslið  neðst úr  ruslahaugi amerískrar offramleiðslu á lélegum  bíómyndum til þess að sýna okkur, einkanlega á föstudags og laugardagskvöldum. 

 Dagskrá  Ríkissjónvarpsins sl. laugardagskvöld (29.01.2011) var að uppistöðu  poppþáttur (þar sem umsjónarmaður sagði okkur, að Egill Helgason væri þekktur fyrir að reka garnirnar úr fólki!) frá klukkan 2015 til 2120  og  svo  amerísk „ævintýramynd" eins og sagt  var  í dagskrárkynningu frá  klukkan 2120 til  klukkan 2330.  Þegar sýning ævintýramyndarinnar hófst var dagskráin reyndar  orðin 15 mínútum á eftir áætlun.  Enginn baðst afsökunar á því. Myndinni lýsir   Ríkissjónvarpið  svo:  Ungur maður hættir sér inn í  töfraland í útjaðri ensks  sveitaþorps  til að sækja  fallna stjörnu.  Góðir hálsar: Þetta er ekki boðlegt. Þið misbjóðið okkur  viðskiptavinum  Ríkissjónvarpsins.

Molaskrifari er áhugamaður orð. Hafi maður  eyrun opin lærir maður  ný orð. Um helgina var Molaskrifari að horfa á  fréttir  BBC One   frá Kairó og heyrði þá Jeffrey Bowen, miðausturlandaritstjóra BBC nota  lýsingarorðið intimidatory um aðgerðir  hersins. Ekki heyrt  þetta áður,  svo ég muni. Intimidate (skelfa, hræða til undirgefni) og intimidating voru vel þekkt . Bætist í safnið.  


Molar um málfar og miðla 517

  Hinum berfættu í Afríku vantar ekki háhælaða skó. (blog.is 29.01.2011). Þágufallssýkin er þrálát.

 Fagmennska  björgunarsveitarmanna, sem  fundu Þjóðverjann á  Eyjafjallajökli , vekur aðdáun. Þar var svo sannarlega vel að verki staðið. Vaskir menn og vel útbúnir. Mikil þjálfun og  góður  búnaður voru forsenda þessa góða árangurs. Þetta minnir okkur á að standa þétt við bakið á  björgunarsveitunum, þegar þær  afla  fjár til starfsemi sinnar, til dæmis  með flugeldasölu um áramót. Ekki kom fram í fréttum að neinir flugeldasalar frá íþróttafélögunum hefðu tekið þátt í leitinni. 

  Í sexfréttum Ríkisútvarpsins (28.01.2011) var tvívegis talað um Tónlistarskóla Reykjavíkur. Ekki heyrði Molaskrifari að þetta væri leiðrétt. Tónlistarskóli Reykjavíkur er ekki til. Skólinn, sem um ræðir heitir Tónlistarskólinn í Reykjavík. Hann er elsti  tónlistarskóli landsins, var stofnaður fyrir áttatíu árum. Hann hefur um árabil verið aðal tónlistarskóli landsins. Nú ætlar borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík að ganga af þessum skóla dauðum.  Líklega hafa þeir, sem vissu betur, ekki haft nennu  til að leiðrétta þessa missögn fréttastofu ríkisins.  Sumum kann að finnast þetta smáatriði. Það er það ekki. Í fréttum  skipta smáatriðin máli.

  Þessi villa rifjaði  upp fyrir  Molaskrifara að haustið 1955  spurði Þórhallur Vilmundarson, sem  þá  kenndi sögu í M.R., busabekk hvað skólinn héti. Einhver sagði Menntaskóli Reykjavíkur, en ekki Menntaskólinn í Reykjavík,sem er hið rétta nafn skólans. Þórhallur   brást þannig við,  að Molaskrifari gerir ráð  fyrir, að sá sem í hlut átti muni til æviloka  hið rétta nafn þessarar öldnu og virðulegu menntastofnunar. Það verður hinsvegar að gera þá kröfu til fréttamanna Ríkisútvarpsins að þeir kunni skil á nöfnum helstu skóla landsins.  Og , -- að þeir leiðrétti, þegar rangt er farið með. Stundum  finnst Molaskrifara, að Bogi Ágústsson sé næstum eini fréttamaðurinn , sem   leiðréttir rangfærslur, enda reyndur og fróður.

 Prýðileg umfjöllun var um  fyrirhugaðan niðurskurð á  framlögum Reykjavíkurborgar til  tónlistarkennslu í morgunútvarpi Rásar eitt (28.01.2011). Misvitur borgarstjórnarmeirihluti  klikkaða flokksins og  Samfylkingarinnar ætlar  að  kippa stoðunum undan tónlistarkennslu  í  Reykjavík.  Réttilega hefur verið  bent á hið hlálega misræmi sem felst í því að  byggja milljarða tónlistarhús og skera   tónlistarmenntun samtímis  niður  við trog. 


Molar um málfar og miðla 516

 

  Úr mbl.is ( 28.01.2011): Innanríkisráðherra Egyptalands varar við að „markvissum aðgerðum“ verði beitt á mótmælum, sem fyrirhuguð eru eftir föstudagsbænir í dag.  Að beita aðgerðum á mótmælum er ekki gott orðalag. betra væri gegn mótmælum,  eða  gegn mótmælendum sem hefðu sig í frammi....

   Ríkissjónvarpið  bauð okkur  viðskiptavinum sínum  að  horfa á tvær kvikmyndir í gærkveldi (28.01.2011). Í prentaðri dagskrá segir  svo um efni hinnar fyrri:  Farandsölukona reynir að  hrista af sér mótelstjóra sem fellur fyrir henni og lætur hana ekki í friði. Um efni  hinnar seinni, segir svo:  Þegar Brúðurin (svo!) vaknar af löngu dái er barnið sem hún bar undir  belti horfið og hún hyggur á hefndir. Er þetta ekki stórkostlegt ? Ætli Stöð tvö sé ekki löngu búin að sýna bæði þessi snilldarverk kvikmyndalistarinnar?

 Molaskrifari byrjaði að hlusta á Rás  tvö snemma á  föstudagsmorgni (28.01.2011), en  slökkti þegar tilkynnt  var að vestur í Hollywood sæti  Sísí, Bíbí, eða  Dídí  við sjónvarpið og drykki í sig slúðrið af fræga fólkinu  eins og það  orðað. Nokkrum sinnum hefur  hér verið vikið að þessu leikaraslúðri ,sem flutt er á hrognamáli,sem ekki er birtingarhæft í neinum fjölmiðli. Málfar  sumra umsjónarmanna á Rás  tvö getur heldur ekki  talist til fyrirmyndar. Er það hlutverk  Ríkisútvarpsins að  úða  svona rugli yfir landsmenn? Held ekki.

Aldrei þessu vant leit Molaskrifari við (28.01.2011) á vefnum,sem Hannes  Hólmsteinn Gissurarson  er sagður skrifa  og kallar AMX. Þar hnaut hann um eftirfarandi: Vandi þingflokksins er ekki síst sá að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, hefur farið með ströndum og ekki tekið af skarið varðandi hinn „nýja“samning um Icesave... Málvenja er að tala um að fara með löndum , þegar menn fara varlega,  kveða ekki upp úr um eitt  né neitt, segja  fátt.


Molar um málfar og miðla 515

 Alþingi hefur nú kjörið  Ríkisútvarpinu nýja fimm manna stjórn til fjögurra ára. Allt  eru það valinkunnir  einstaklingar,sem örugglega  hafa  víðtæka  þekkingu reynslu af öllu sem snertir  útvarp og   sjónvarp. Annars hefðu þau varla  verið kosin. Eða hvað?  

 Á fréttavef Ríkisútvarpsins segir í fyrirsögn (25.01.2011): Aldrei  fleiri fengið  bók í gjöf.  Molaskrifari hefði orðað þetta á  annan veg:  Aldrei fleiri fengið bók að  gjöf.  Hinsvegar: Ég fékk  bók í  jólagjöf.

 Í hádegisfréttum  Ríkisútvarpsins (27.01.2011) var sagt því að  ráðist hefði verið á útför. Í þessu tilviki hefði verið betra að segja að ráðist hefði verið á líkfylgd.

  Tíufréttir Ríkissjónvarpsins hafa hafist á réttum tíma kvöld í  röð og  ber nú nýrra við. Því ber að fagna. Líklega er komin almennileg klukka í vistarveruna þaðan sem útsendingu er stjórnað.  Vonandi verður framhald á.

 Auglýsingastofur  eiga að vanda málfar í auglýsingum. Á því er oft mikill misbrestur. Á blaðsíðu þrjú í Morgunblaðinu (27.01.2011)  er  heilsíðuauglýsing frá  Samtökum aldraðra. Þar stendur:  Framkvæmdir á Sléttuvegi 29-31 er að ljúka.  Framkvæmdir á Sléttuvegi  er ekki að ljúka, -- framkvæmdum á Sléttuvegi er að ljúka. Aftar í blaðinu er  heilsíðuauglýsing um Ótrúleg verð. Við hverju er svo sem að búast frá fyrirtæki sem kallar sig  Sport Outlet.   Þaðan er ekki að vænta vandaðs málfars.

 Auglýsingadeild Ríkissjónvarpsins virðist taka gagnrýnilaust við öllu, sem að henni er  rétt. Nýjasta  dæmið er frá   veitingastað, sem heitir  Yummi, Yummi. Látum nafnskrípið vera. Þetta  mun vera  matstaður  og í auglýsingunni stendur á ensku  to go . Það þýðir  í þessu  tilviki, að  viðskiptavinir  tekið með sér mat til neyslu annarsstaðar. Hversvegna þarf íslenskt  Ríkissjónvarp að  tala til okkar á  ensku í auglýsingum  íslenskra  fyrirtækja?  Metnaður  fyrirfinnst enginn.


Molar um málfar og miðla 514

 Morgunblaðið fetar dyggilega í fótspor gamla  kommúnistablaðsins, Þjóðviljans. Minnisstætt er að Þjóðviljinn leitaðist jafnan við að birta sem verstar og hallærislegastar myndir af  pólitískum andstæðingum sínum. Einkum Bjarna Benediktssyni og  í nokkrum mæli Jóhanni Hafstein. Nú leikur Moggi þennan  sama leik gagnvart  Jóhönnu Sigurðardóttur. Svona gera  pólitískir sneplar, ekki alvöru dagblöð. 

 Athygli vekur (27.01.2011) að næstum  fjórðungur leiðara Morgunblaðsins er tilvitnun í Hjörleif Guttormsson.  Hjörleifur hefur aldeilis ekki átt upp á  pallborðið hjá  Morgunblaðinu í áranna rás. Hann og  fleiri   gamlir kommúnistar  eru nú ástmegir  Morgunblaðsins.  Það er  af sem áður var.

 Úr mbl.is (25.01.2011):  Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill að stjórnvöld geri þinginu grein fyrir því hvernig hún hyggist bregðast við fréttum þess efnis að Hæstiréttur hafi ógilt kosningar til stjórnlagaþings.  Hún stjórnvöld?  

Úr mbl.is (25.01.2011). Hann er  lífsseigur ársgrundvöllurinn: ... þar sem vagnar Stætó bs. eiga í hlut, fækkað um nærri helming á ársgrundvelli, eða um 48%.

 Úr mbl.is (25.01.2011): Að sögn slúðurpressunni vestanhafs yfirgáfu margir myndina áður en henni lauk ...  seint verður sagt , að þessi setning sé skriffinnum  Morgunblaðsins  eða ábyrgðarmönnum blaðsins til mikils sóma.  Það er verið að  reyna að segja okkur, að  slúðurblöð vestanhafs hafi greint frá því, að margir  hafi farið út áður en  sýningu  tiltekinnar kvikmyndar lauk. 

   Frétt dv.is  (26.01.2011) um sjóslys  fyrir  66 árum   er dæmi um afar  óvönduð vinnubrögð.  Þar er  íslenskur togari ýmist kallaður Egill  rauði  eða Eiríkur  rauði.  Togarinn hét Egill rauði og var frá Neskaupstað. Talað er um áhafnarmeðlimi  en ekki skipverja. Sagt er að togarinn  hafi farist ekki fjarri landi, en hann strandaði undir undir  Grænuhlíð við Ísafjarðardjúp og  brotnaði í tvennt. Fimm sjómenn drukknuðu á strandstað. Tuttugu og  níu var bjargað, sumum  af  sjó öðrum frá landi. Aðstæður voru fádæma erfiðar. Mikið björgunarafrek. Tveir  breskir togarar  fórust í sama veðri  undan Vestfjörðum. Með þeim drukknuðu  fjörutíu sjómenn.  Þá  segir í fréttinni að þessi  hörmulegu sjóslys hafi  orðið  26. janúar  1955  eða fyrir 66 árum. Og reikni nú hver fyrir sig. (Þetta var reyndar leiðrétt er leið á morguninn.) Betra er að sleppa því að rifja upp liðna atburði en að gera það með þessum hætti.  Molaskrifari gerir ekki ráð fyrir að þessi frétt hafi glatt Reyni ritstjóra og skipstjóra að vestan.

  


Molar um málfar og miðla 513

   Batnandi fólki er best að lifa. Seinni fréttum Ríkissjónvarps seinkaði um 12 mínútur í gærkveldi.  Tilkynning var sett á  skjáinn  um klukkan  tíu um seinkunina  og  Bogi ,sem las fréttirnar, baðst afsökunar á seinkuninni. Gott mál.  Vonandi verður haldið áfram að sýna  áhorfendum  þá kurteisi að tilkynna og   biðjast afsökunar, þegar dagskrá fer úr skorðum. Hinsvegar má  líka viðra þá skoðun hvort Kastljósið var ekki aðeins of langt.

  Valinkunnur  Sunnlendingur hafði samband við Molaskrifara og lýsti vanþóknun á  nafni  hins nýja gufubaðs á Laugarvatni, sem á að heita  Fontana.  Hann var þeirrar skoðunar, að þessi nafngift  væri óþörf. Nota ætti orðið gufubað. Undir það tekur Molaskrifari. Á þetta hefur líka verið bent í athugasemdum við Mola.   Einn af aðstandendum fyrirtækisins sagði í  sjónvarpi, að  orðið  fontana  væri latneska.  Venjulega orðið yfir  það ágæta  tungumál, sem enginn talar lengur, er  latína. Ekki finnur molaskrifari  orðið fontana í þeirri latnesku  orðabók, sem  honum er  tiltæk. Orðið fontana  er hinsvegar til í ítölsku og   þýðir lind  eða brunnur, - hefur ekkert með gufu að gera. Fontana di trevi er einn frægasti  gosbrunnur Rómaborgar. Þar er ekki vitað til að sé gufubað.  Það er hárrétt,sem Halla Sverrisdóttir   sagði í  athugasemdum (Molar 512), - nafnið á  nýja  gufubaðinu hljómar eins og nafn á vondum gosdrykk !

  Í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna (24.01.2011) varð mönnum  tíðrætt um þroska.  Talað var um að þroska efni kjarasamninga og að mál  væri þroskað. Miður gott orðalag. Af hverju ekki gera kjarasamning ? Þá  kom og  við sögu orðatiltækið  á ársgundvelli.  Dugað  hefði prýðilega að segja á ári.

 Molaskrifari veltir því fyrir sér hvort   Rás  eitt  í Ríkisútvarpinu hafi ekki aðgang að  hljóðritunum annarra píanóleikara en Gunnars Gunnarssonar, þegar um  er að  ræða tónlist af léttara tagi. Ekki það að hann sé ekki góður píanóleikari. Vart líður sá  dagur að við heyrum ekki í þessum  ágæta tónlistarmanni, en  við eigum marga, marga fleiri, sem sjaldan eða aldrei  fá að njóta sín á öldum ljósvakans í Rás eitt. Hvað veldur?

  Umsjónarmaður   morgunútvarps Rásar tvö  (25.01.2011) ræddi niðurskurð  hjá  tónlistarskólum í Reykjavík og  spurði  hvort ætti að ganga fram af  tónlistarskólunum.  Hann átti sennilega við hvort  ætti að ganga frá  tónlistarskólunum. Gera út af við þá.  Gera þeim ókleyft að starfa. Að ganga fram af einhverjum er að  ofbjóða einhverjum með  framkomu  eða tali.


Til marks um málefnafátækt

   Fyrirgangurinn í stjórnarandstöðunni á Alþingi í dag er  til marks um málefnafátækt. Að gera ríkisstjórnina ábyrga  fyrir tæknilegri framkvæmd  stjórnlagaþings eins og  stjórnarandstaðan gerði í dag  er að seilast um hurð til lokunnar. Eru ekki allir sammála um að hinir  tæknilegu ágallar sem  Hæstiréttur fann á framkvæmdinni   hafi engu breytt um niðurstöðuna? Mér heyrist það. Það  hefur að minnsta kosti  enginn enn sem komið er fært  rök fyrir öðru.    En  tæknilegur ágallar  voru til staðar og þess vegna er kosningin  ógild. Um það  verður ekki deilt. Dómur Hæstaréttar er að sjálfsögðu lokaorðið um þessar kosningar.

  Áhugavert var að hlýða á ræður þingmanna, ekki síst  stjórnandstæðinga. Fyrir utan  Margréti Tryggvadóttur, sem líklega  flutti bestu ræðuna, var   Birgir Ármannson sá eini sem var málefnalegur.  Vigdís Hauksdóttir  hélt   sennilega að  hún væri við hljóðnemann í Útvarpi Sögu, en ekki á Alþingi  Íslendinga  og ósköp var dapurlegt að heyra konuna   segja  dómstólanir, og dómaranir . Að auki  ætti þingmaðurinn að kynna sér hvernig  kvenkynsnafnorðið dóttir beygist.

  Umfram allt  þurfa þingmenn nú að setjast á rökstóla og  leita  leiða til að  leysa þetta mál. Það verður ekki gert með gífuryrðum  varaformanns Sjálfstæðisflokksins  eða þessa þingmanns Framsóknarflokksins. Nú þurfa menn  að vanda sig og sleppa   stóryrðum. 


Merkilegt !

   Merkilegt að lesa þetta. Var   snillingurinn Chopin  ef til vill einhverfur með snilldargáfu (savant) á  sviði tónsmíða? Hjá honum fylgdu flogaveikiköstum ofsjónir af ýmsu tagi.  Er að lesa bókina Born on a Blue Day eftir  Daniel  Tammet , einhverfan talna- og  tungumálasnilling, sem   komst í fréttir hér fyrir nokkrum árum   fyrir að læra íslensku á  viku eða  tíu dögum. Hann  talar ein tíu tungumál.

  Daniel Tammet  var haldinn flogaveiki  í æsku. Hann  sér  tölur og bókstafi með allt öðrum hætti en   aðrir og hefur undraverða reiknihæfileika, -  deilir  til dæmis 97  í 13 og fær  útkomu með næstum hundrað  aukastöfum á  svipstundu. Kvikmyndin The  Rainman með Dustin Hoffmann er öllum ógleymanleg,sem hana sáu.

   Í bókinni segir  hann á bls.  38 : „My childhood seizures  originated in the left temporal globe, and some researchers suggest that one  explanation for  savant abilities is left-brain injury leading to right-brain compensation. This is because the skills most commonly seen in savants, including numbers and calculation, are associated with the right hemisphere.

    However it is not  easy  tyo determine whether the  epilepsy is a cause or a symptom of the left-brain and it is possible that my seizures in childhood  came about as a consequence of preexisting   damage in the brain, probably there from birth".

 Í frétt BBC,sem frásögn Morgunblaðins byggist á og vísað er til segir:

The most likely explanation for Chopin's visions, say the Spanish doctors, is a type of epilepsy called temporal lobe epilepsy.

With seizures of this kind it is common to experience strange visions and intense emotions, such as those described by Chopin."

 Þetta er merkilegt. Bók  Tammets Born on a Blue Day er hreint ótrúleg lesning.  


mbl.is Chopin var með flogaveiki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Buguð í IKEA

   Fjölmiðlar hafa sagt frá þeirri  niðurstöðu vísindamanns eða vísindamanna þess efnis, að  verslanir  IKEA séu skipulagðar með það fyrir  augum að rugla  viðskiptavinina í ríminu.  Það er rétt að verslanirnar eru eins og  völundarhús til að tryggja  að  viðskiptavinir   sjái sem flest af því sem er á  boðstólum. Þetta er ekki nýtt.  Var til  dæmis  gert í Magasin du Nord, að ég held,  löngu IkeaCIMG3604áður en IKEA kom til sögunnar.

  En það er auðvelt að  bugast í stórverslunum nútímans. Þetta  kínverska   par gafst hreinlega upp  og fékk sér  blund. Myndin er  tekin í IKEA í Beijing.  Ljósmyndarinn stóðst ekki mátið. Starfsfólk IKEA var ekki yfir sig  hrifið, en  lofaði þreyttum að sofa.


Molar um málfar og miðla 511

   Prýðilegur þáttur í   röð Ríkissjónvarpsins  „Átta raddir" um Bjarna Thor Kristinsson. En hvenær  skyldi koma að því að  þáttur í  kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins hefjist á réttum tíma?  Líklega  er Ríkisjsónvarpið óstundvísasta sjónvarpsstöð norðan Alpafjalla, eins og þar stendur.  

  Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (22.01.2011) var talað um óeirðarlögreglu. Eðlilegra hefði verið að tala um óeirðalögreglu. Meira um hádegisfréttir: Í fréttayfirliti hádegisfrétta (23.01.2011) var sagt frá  vatnavöxtum í Hvítá. Þar las  fréttamaður án þess að hika .....og áin flætt yfir bakka sína  og  yfir bæjarvegginn á  150 metra kafla. Enn skal hér  hamrað því   að fréttamenn verða hlusta  þegar þeir lesa, -  og svo er líka til bóta  að þeir skilji textann.  Í fréttinni kom fram að  vegurinn heim að bænum var undir vatni á  um 150 metra kafla.

    Undanfarna janúardaga  hefur  stundum rifjast upp  fyrir Molaskrifara nafn,sem  Danir fyrir mörgum árum gáfu Morgunblaðinu   vegna minningargreinanna.   Þeir kölluðu blaðið De  dödes avis.Dagblað hinna  dauðu. Þessi nafngift átti sérstaklega vel við  föstudaginn 21. janúar. Þá var Morgunblaðið 44 síður. Minningargreinar fylltu 12 síður. Rúmlega 27%. Þetta á heima í heimsmetabók Guinness. Örugglega einsdæmi í veröldinni. Molaskrifari kaupir  Morgunblaðið vegna minningargreinanna.  Mergjaðir Staksteinar, og   leiðarar á stundum, geta verið til skemmtunar. Ekki vegna skoðana. Heldur ritleikni. Og ekki spilla pistlar Kolbrúnar Bergþórsdóttur.

  Það var sjálfsagt og rétt  hjá Ríkissjónvarpinu (22.01.2011) að  segja myndarlega frá því að  Haraldur Sigurðsson, jarðfræðingur hafi hlotið heiðursdoktorsnafnbót frá Háskóla Íslands. Það er verðskuldað. Til hamingju, Haraldur.  Molaskrifara rekur  hinsvegar ekki minni til þess, að Ríkissjónvarpið hafi talið það fréttnæmt  þegar  ritstjórinn og skáldið Matthías Johannessen var gerður að heiðursdoktor við Háskóla Íslands  fyrir skömmu. Vonandi er það ekki rétt munað. 

 Gríðarlegir hagsmunir undir, sagði í fyrirsögn á mbl.is (21.01.2011). Betra hefði verið: Gríðarlegir hagsmunir í húfi.

  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband