Molar um málfar og miðla 2077

ENSKAN ENN - HONEY MUSTARD !

 Molaskrifari fór í matvöruverslun að kaupa sinnep, sem ekki er í frásögur færandi. Þar var úr mörgu að velja. Meðal annars var þar á boðstólum …. Alveg ekta Honey Mustard . Þetta var ekki erlend framleiðsla. Þetta var frá Akureyri. Framleiðandinn var M&M, Matur & Mörk, Frostagötu 3c, Akureyri. Íslenskt fyrirtæki að framleiða vörur fyrir Íslendinga og býr til enskt vöruheiti! Hvað er að því að kalla þetta Hunangs sinnep ? - Það skilja það örugglega fleiri en enska heitið.

 

 

 FÓLK HEFUR …

Úr fréttum Stöðvar tvö (18.12.2016: ,, Forystufólk stjórnmálaflokkanna, sem sæti eiga á Alþingi, hafa undanfarna daga rætt óformlega um myndun nýrrar ríkisstjórnar.“ Forystu fólk ….hafa ekki .. Forystu fólk … hefur,  á þetta að vera. Annað væri, forystumenn hafa rætt um ...

 

EKKI TIL FYRIRMYNDAR

Þetta er af mbl.is (16.12.2016): Við ætl­um ekki að full­yrða um hvort þetta starti nýju trendi eða hvort fólk haldi sig í skefj­um. Ekki er hægt að segja að þetta málfar sé mbl.is til sóna eða til fyrirmyndar. http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/12/15/osmekkleg_olettutilkynning_eda_stormandi_lukka/

 

GLUGGINN OPNAR

,, … þegar félagaglugginn opnar.“, var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (16.12.2016). Félagaglugginn svokallaði opnar hvorki eitt né neitt. Hann opnast eða er opnaður.

 

HÖFRUNGUR ÞRJÚ

Ómar sendi Molum línu og benti á að í fréttum Ríkisútvarps af sjómannaverkfalli (15.12.2016) hefði verið talað um fiskiskipið Höfrung þrjú, en ekki Höfrung þriðja, eins og rétt hefði verið. Þakka ábendinguna. Undarleg villa. Hugsunarleysi.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég fékk mér íslenska langloku að snæða fyrir nokkrum dögum. Þar var listi yfir innihaldið og stakk í augu að eina íslenska orðið var "egg" en öll önnur voru á ensku. 

Aumingja framleiðandinn, mikið held ég að hann hafi verið svekktur að þurfa að láta íslenskt orð vera með í upptalningunni af því að hann fann ekki enskt orð sem var öðruvísi og gerði vöruna "svo mikið erlendis" eins og Bo orðar það stundum. 

Ómar Ragnarsson, 20.12.2016 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband