Molar um málfar og miðla 2024

 

 

SINFÓNÍAN OG SJÓNVARPIÐ

Ánægjulegt er hve samskipti Sinfóníunnar og Ríkissjónvarpsins eru góð nú um stundir. Það var ekki svo í upphafi sjónvarps. Ekki var þar alfarið við Sjónvarpið að sakast.

 Eins og réttilega kom fram í afmælisþætti sjónvarpsins um Menningu og listir sl. laugardagskvöld var Sinfóníuhljómsveitin upphaflega eiginlega útvarpshljómsveit. Við upphaf sjónvarps fyrir 50 árum fór um það bil þriðjungur af dagskrárfé Ríkisútvarpsins í rekstur sinfóníunnar.

En ekki var allt rétt sem fram kom í þessum þætti. Sumt leiðrétti Maríanna Friðjónsdóttir í ágætum útvarpsþætti á Rás tvö Sunnudagssögum á Rás tvö (2509.2016)

http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-2/sunnudagssogur/20160925 ( á ca 1:10)

 Það andaði reyndar heldur köldu til sjónvarpsins í upphafi frá sumum listamönnum,-  tónlistarmönnum og leikurum. Samningar við leikara  reyndust til dæmis mjög erfiðir. Lengi vel var ekki hægt að endursýna innlent leikið efni vegna kostnaðar.  En allt lagaðist það, er fram liðu stundir.

 Áður en útsendingar sjónvarpsins hófust vildi fréttastjórinn séra Emil Björnsson safna efni til að eiga í sarpi til notkunar í fréttum. Meðal annars átti að taka stutt myndskeið af sinfóníunni á æfingu. Þegar myndatakan og hljóðupptakan átti að hefjast gengu tónlistarmenn út. Við þá hafði ekki verið samið.

Svo samdist um, muni ég rétt, að nota mætti tveggja mínútna kafla með leik hljómsveitarinnar, sem tekinn væri upp á æfingu eða við opinberan flutning. Í því sambandi varð fréttamanni á alvarleg skyssa. Hann tók tveggja mínútna regluna ekki allt of bókstaflega. Kannski vegna þess að þannig stóð á tónhendingu. Eða hann gleymdi sér yfir góðri tónlist. Sennilega voru það tvær mínútur og fimmtán sekúndur, sem sýndar voru í fréttum. Úr varð mikil rekistefna og  nefndar voru háar fjárkröfur. Allt leystist þetta að lokum, en gott er til þess að vita að nú njótum við vandaðra útsendinga frábærrar sinfóníuhljómsveitar sem úrvalslið tæknifólks færir okkur heim í stofu.

 

 

 

FYRIR RANNSÓKN MÁLSINS

Konanvar vistuð í fangageymslu fyrir rannókn málsins, var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (25.09.2016). Hefur heyrst áður. Konan var vistuð í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Kannski er þetta tekið hrátt úr gögnum lögreglunnar.

 

TÝNDU TÆKFÆRIN

Þetta er fyrirsögn af fréttavef Ríkisútvarpsins (26.09.2016): Katrín: Ríkisstjórn týndu tækifæranna. http://www.ruv.is/frett/katrin-rikisstjorn-tyndu-taekifaeranna . Fréttin er um ræðu Katrínar Jakobsdóttur í eldhúsdagsumræðum. Hvergi í fréttinni er minnst á týndu tækifærin. Katrín notaði það orðalag að vísu á einum stað í ræðu sinni og það var einnig nefnt í sjónvarpsfréttum. En tölum við ekki frekar um glötuð tækifæri en týnd tækifæri? Hefði haldið það.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband