Molar um málfar og miðla 1968

VERÐI LOKAÐ

Rafn skrifaði eftirfarandi (24.06.2016): ,, Á vefmogga má sjá fyrirsögnina:

 (Inn­lent | mbl | 23.6.2016 | 19:30 | Upp­fært 24.6.2016 0:00)

Verði lokað inn­an þriggja mánaða

 Ekki er ljóst hvernig fyrirsögnin tengist viðkomandi frétt eða hvers vegna er í fyrirsögn hvatt til lokunar einhvers ótilgreinds innan þriggja mánaða. Í fréttinni er þvert á móti fjallað um, að fréttaefnin (eigendur tveggja húsa) hafi fengið þriggja mánaða frest eldvarnaeftirlits til að bæta úr ágöllum á húsnæði sínu, en að loknum fresti verði húsnæðinu væntanlega lokað.” - Þakka bréfið Rafn. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/23/verdi_lokad_innan_thriggja_manada/

 

ÁSKORUN

Geir Magnússon,sem er búsettur erlendis, hafði samband við Molaskrifara. Geir er mikill áhugamaður um íslenska tungu og vandað málfar.  Hann sagði það ekki hljóma vel í sínum eyrum, þegar sífellt væri talað um áskoranir, - þar sem í ensku er notað orðið challenge. Eins og til dæmis í grein blaðamanns í Morgunblaðinu (25.06. 2016): ,, Bretar standa vissulega frammi fyrir miklum áskorunum núna en tækifærin eru sannarlega mörg”. Þetta er mjög algengt orðalag. Geir spurði hvort Molaskrifari hefði tillögu um betra orð í stað orðsins áskorun, þegar við blasa erfið eða krefjandi verkefni. Molaskrifari játar, að hann hefur ekki tillögu um betra orð á takteinum. Þessi notkun orðsins áskorun fór lengi vel heldur illa í máltaugar skrifara, en það hefur vanist. En hafa Molalesendur tillögur um betra eða betri orð? Þær væru vel þegnar.

 

UTANKJÖRFUNDUR OPNAÐI

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (24.06.2016) var sagt um utankjörstaðarkosningu í Perlunni, að utankjörfundur hefði opnað í Perlunni. Þetta er ekki gott orðalag. Fundur opnar ekkert. Utankjörfundarkosning hófst.

Í fréttum Ríkisútvarps á kjördag heyrðist nokkrum sinnum að kjörstaðir hefðu opnað. Oftast notuðu fréttamenn þó rétt orðalag: Kjörstaðir voru opnaðir. Molaskrifari var að vona að tekist hefði útrýma þessu orðalagi á fréttastofunni, - sem er allt of algengt að heyra, - en það hefur ekki tekist með öllu enn. Málfarsráðunautur þarf að halda góðu verki áfram.

Rétt var farið með þetta á forsíðu á forsíðu mbl.is. á kjördag.

 

MEIRA UM OPNANIR OG FLEIRA

Það tóku fleiri eftir því sem skrifað er um hér að ofan. Molavin skrifaði um þetta og fleira(26.06.2016): ,,Það er gaman að heyra útlendinga takast á við lestur veðurfrétta í útvarpi en að sama skapi leiðinlegt að heyra mislestur þar endurtekinn. *Hægari* lesið sem "hæjari" og *lítillega* lesið sem "lítill-lega" Þarna sem víðar þarf að leiðbeina fólki. 

 

Á kjördag sögðu fréttamenn ríkisútvarps ítrekað að kjörstaðir myndu opna klukkan níu þótt ekkert lát sé á því að þetta sama fréttafólk sé leiðrétt og bent á að kjörstaðir séu opnaðir; þeir opni sjálfir ekki neitt. Við upphaf kosningaútvarps á Rás 1 kl. 22 var meira að segja sagt; "Kjörstöðum lokaði nú klukkan tíu.." Málfarsráðunautur á enn mikið verk fyrir höndum.

 

"Hvernig líst þér á nýjan forseta?" spurði ung fréttakona Stöðvar 2 vegfaranda.

- "Bara ágætlega" svaraði viðmælandinn.

- "Semsagt, ekkert sérstaklega vel?" hélt þá fréttabarnið áfram spurningunni.

Merkingar orða breytast.”  Þakka þetta góða bréf, Molavin.- Ótætis bullið ,,kjörstöðum lokaði” hefur því miður heyrst áður í okkar ágæta Ríkisútvarpi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Halló, mjög mikilvægt: http://albafos.wbs.cz/international.html

adavo (IP-tala skráð) 28.6.2016 kl. 19:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband