Molar um málfar og miðla 1900

 

BANASPJÓTIN

Molavin skrifaði (02.03.2016): "Re­públi­kan­ar í Tra­vis-sýslu í Texas berj­ast á bana­spjót­um þessa dag­ana segir Netmoggi í dag (2.3.2016). Það er í sjálfu sér virðingarvert að blaðamenn noti fornar samlíkingar úr bardagasögum við kosningabaráttu nútímans, en þá verða þeir að þekkja þau orðtök, sem beitt er. Að berast á banaspjót(um) - en ekki berjast á b-um. Séu menn í vafa er einfalt að fletta upp í íslenskri orðabók.- Þörf ábending. Þakka bréfið, Molavin.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/03/02/kallar_clinton_reida_trukkalessu/

 

 ATLANTSHAF

Heimildamynd BBC , Atlantshaf – ólgandi úthaf (1:3), sem Ríkissjónvarpið sýndi á þriðjudagskvöld (29.02.2016) var um margt vönduð og vel gerð, eins og þeirra ágætu manna hjá BBC er von og vísa. En ósköp var umfjöllunin um fiskveiðar yfirborðsleg, fátækleg - eiginlega ekkert nema myndir af trollbáti í leiðindaveðri. Greinilega var aflinn mest smáýsa  úr Norðursjónum - engin nærmynd var sýnd af fiskinum. Þýðing og lestur Gunnars Þorsteinssonar var með miklum ágætum, - til fyrirmyndar.

 

ENN UM VIÐTENGINGARHÁTT

Í fjögurra dálka fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins á þriðjudag (01.03.2016) segir: Atvinnuleysið nálgist 1%. Hér er ekki um hvatningu að ræða eins og ætla mætti. Heldur er hér (samkvæmt máltilfinningu Molaskrifara) um enn eitt dæmið um ranga notkun viðtengingarháttar að ræða. Átt er við, að í sumar geti atvinnuleysið hugsanlega verið um 1%, eða á bilinu 1-2%

 

OFBELDISVARNANEFND

Í morgunþætti Rásar tvö á þriðjudagsmorgni (01.03.2016) var rætt við formann ofbeldisvarnanefndar Reykjavíkur. Sjálfsagt hin þarfasta nefnd, en samkvæmt lögreglufréttum fjölmiðlanna starfar hún ekki mikið í höfuðborginni um helgar.

 

 

 

SNJÓRUÐNINGUR

Í fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (02.03.2016) var sagt: ,,Snjór hefur verið ruddur af ísilögðu vatninu ...”  Molaskrifari er á því að  fremur hefði átt að segja: ,,Snjó hefur verið rutt af ísilögðu vatninu...” Þetta var gert vegna kvikmyndatöku á Mývatni.

 

ÓÞÝTT VIÐTAL

Í Kastljósi Ríkissjónvarps í gærkveldi (02.03.2016) var sýnt í beinni útsendingu óþýtt viðtal við norskan kokk sem hér er vegna matarhátíðarinnar, sem nú stendur yfir í Reykjavík. Þetta viðtal mátti alveg bíða í sólarhring og sýna það þá með  íslenskum texta. Engin  ástæða til beinnar útsendingar. Þrátt fyrir  góðan vilja  fréttamanns var endursögnin  á ummælum kokksins í skötulíki. Norska  konan  tvítók til dæmis, að hún væri að elda skötusel (n.  breiflabb). Það  var okkur ekki  sagt. Þetta hefði þurft að vinna betur.

 

EKKI TIL FYRIRMYNDAR

Fyrirsögn af dv.is ( 27.02 2016)  Hafdís var tekin fyrir af Hildi. Aulaleg og óþörf þolmyndarnotkun. Hildur tók Hafdísi fyrir, ekki mjög gott en þó skömminni skárra. http://www.dv.is/frettir/2014/2/27/hafdis-var-tekin-fyrir-af-hildi-lilliendahl/

 

STAÐSETNING

,,...að sem flest störf ... verði staðsett á landsbyggðinni”, sagði þingmaður samkvæmt útvarpsfréttum á þriðjudagskvöld (01.03.216). Staðsetningarbullið er smitandi.

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband