Molar um málfar og miðla 1788

FYRIR ÞINGINU - STAÐSETTUR

,, .. í ávarpi sinu fyrir Evrópuþinginu í Strassborg,” var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (03.09.2015). Íávarpi sínu á Evrópuþinginu í Strassborg, hefði þetta átt að vera. Í sama fréttatíma var rætt við Íslending sem dvalist hefur í Búdapest í tvo mánuði. Hann sagði í lokin: ,, ... maður skilur ekki alveg þennan point of view”.Strax farinn að gleyma móðurmálinu. Svo bætti fréttamaður við:,, Sagði N.N. sem er staðsettur í Búdapest”. Staðsettur? Sem er í Búdapest. Sem býr í Búdapest”.

 

FISKVEIÐIMENN

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (03.09.2015) um björgun flóttamanna á á hafi úti var talað um fiskveiðimenn, sem bjargað hefðu flóttafólki frá drukknun. Sjómenn eða fiskimenn. Minnist þess ekki að hafa heyrt talað um fiskveiðimenn áður.

 

GESTGJAFAR HVERS?

Málfarsráðunautur Ríkisútvarps þarf að taka íþróttafréttamenn í tíma. Segja þeim til. Tveir þeirra töluðu (09.04.2015) um gestgjafa Þýskalands. Átt var við að tiltekinn boltaleikur færi, eða mót, færi fram í Þýskalandi. Þjóðverjar voru gestgjafar þeirra sem komu þangað til að keppa. Fréttin var um körfuboltaleik þar sem Íslendingar og Þjóðverjar keppa Leikurinn fer fram í Þýsklandi. Að tala um gestgjafa Þýskalands vegna þess að leikurinn fer fram í Þýskalandi er bara bull. Svipað orðalag hefur reyndar oft heyrst áður hjá íþróttafréttamönnum Ríkissjónvarps. Málfarsráðunautur þarf að segja þeim svolítið til um notkun móðurmálsins.

 

KOMAST Í VEG FYRIR

Af mbl.is (04.09.2015) : ,,Vilji er til að kom­ast í veg fyr­ir vild­arpunkta­söfn­un rík­is­starfs­manna, seg­ir í frétt Túrista.” . Hér vitnar mbl.is hugsunarlaust í rangt orðalag í öðrum miðli. Hér hefði átt að standa, - koma í veg fyrir vildarpunktasöfnun, stöðva, afnema, - ekki komast í veg fyrir. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/04/bjoda_ut_flugmidakaup_rikisins/

 

INNSKOTS – R

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (04.09.2015) var talað um búsáhaldarbyltinguna. Mótmælaaldan, sem reis eftir hrunið, var kölluð búsáhaldabylting. Ekkert -r- þar. Það heyrist nokkuð oft að bókstafnum -r- er bætt inn í samsett orð Þar sem hann ekki á heima.

Molaskrifari talaði stundum um heimildarmyndir, - allt þar til honum var bent á myndirnar væru byggðar á mörgum heimildum, heimildum víða að og því væri eðlilegra að tala um heimildamyndir.

 

SLETTUR

Í upphafi þáttarins Samfélagið í Ríkisútvarpinu á föstudag (04.09.2015) talaði umsjónarmaður um fólk í útivistarkredsum. Þarna hefði verið betra að tala um útivistarfólk, fólk,sem stundar útivist. Yfirmenn í Efstaleiti eiga að brýna fyrir dagskrárgerðarfólki að forðast slettur og tala vandað mál. Það hlýtur málfarsráðunautur einnig að gera.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband