Molar um málfar og miðla 1687

 

Höggdofa horfði Molaskrifari á Kastljós Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi (03.03.2015). Og var örugglega ekki einn um það. Fátt, ef nokkuð, er svívirðilegra, en að vekja falsvonir hjá dauðvona fólki og hafa það að féþúfu. Þetta var sannast sagna óhugnanlegt. Takk Jóhannes Kr. Kristjánsson og allir sem þarna komu við sögu. Sennilega fer viðskiptavinum Sjónarhóls í Hafnarfirði ekki fjölgandi á næstunni og varla hefur traustið aukist á Heilsutorgi Blómavals. Reynt var að stöðva sýningu þáttarins með lögbanni. Sýslumaðurinn í Reykjavík féllst ekki á það. Það var auðvitað frétt, - nema hjá Stöð tvö, Molaskrifari heyrði þess ekki getið í fréttum þar á bæ.

Að segja frá misyndisfólki, sem stundar starfsemi af þessu tagi, er þjónusta við þjóðina.

 

Kaupmenn blekki neytendur. Þetta stóð um hríð á skjá Ríkissjónvarpsins í upphafi frétta á sunnudagskvöld (01.03.2015). Þetta var ekki hvatning til kaupmanna að blekkja neytendur, þótt sú sé orðanna hljóðan. Það var verið að vitna til ummæla um að kaupmenn blekktu neytendur. Sá sem samdi þessa skjáborðafyrirsögn þarf að lesa upp og læra betur, - íslenska málfræði.

Verslunin taki of mikið til sín er samkynja fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (01.03.2015) http://www.ruv.is/frett/verslunin-taki-of-mikid-til-sin

Verkefni fyrir málfarsráðunaut.

 

Þættir Önnu Sigríðar Þráinsdóttur Orð af orði (síðasti þáttur var endurfluttur á mánudagskvöld 02.03.2015) ættu að vera skylduhlustun fyrir fjölmiðlafólk. Þátturinn er skemmtilega uppbyggður og fræðandi. Fínn þáttur.

Orðtakið að leiða ágreining í jörð sem gert var að umtalsefni í síðasta þætti og þingmenn Sjálfstæðisflokksins virðast einir um að nota, er eiginlega bull að mati Molaskrifara. Ekki er þetta gagnsætt og hver er hugsunin? Leiða ágreining í jörð! Þingmennirnir virðast éta þetta upp hugsunarlaust hver eftir öðrum

Minnir Molaskrifara á, að fyrir margt löngu átti Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra það til að flytja áherslu af fyrsta atkvæði orðs á annað eða þriðja atkvæði. Fyrr en varði voru fleiri þingmenn Framsóknarflokksins farnir að gera þetta líka. Á fréttastofu Sjónvarpsins töluðum við í gríni um forsætisráðherraframburðinn!

 

Af mbl.is (01.03.2015): Frétta­stofa AFP hef­ur beðist af­sök­un­ar á því að hafa sagt franska millj­arðamær­ing­inn Mart­in Bouygu­es, lát­inn en þær fregn­ir munu hafa verið stór­lega ýkt­ar. - http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/03/01/ekki_latinn_eftir_allt/

 Er Netmoggi að reyna að vera fyndinn með vísan til frægra ummæla Mark Twains? http://www.brainyquote.com/quotes/quotes/m/marktwain141773.html

Kannski var þetta bara óviljandi?

Mogginn á það nefnilega til að vera  mjög fyndinn,  stundum alveg óviljandi.

 

Fréttastjóra Ríkissjónvarpsins þótti greinilega ekki taka því að biðja okkur áhorfendur afsökunar í gærkveldi (03.03.2015) á því að seinni fréttir hófust meira en fimm mínútum of seint miðað við auglýstan tíma.

Kurteisi kostar ekki neitt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rétt segir þú. Þetta er fyrir neðan allar hellur. Ég get líka tekið undir þetta með talsmáta þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Það á við um þingmenn annarra flokka. Stundum liggur við, að maður þurfi að hafa orðabækur til þess að geta skilið tölur þeirra. Ég var annars að hlusta á Samfélagið áðan í útvarpinu, og þar var verið að tala við konu í sambandi við Hönnunarmars, og þar segir hún á einum stað, að það sé svo heppilegt, að hönnunin sé ekki "undir hælnum á mikilli sögu"(!) Ég held ég viti, hvað hún var að meina, en spyr, hvort hægt sé að orða þetta svona?

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 4.3.2015 kl. 13:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband