Molar um málfar og miðla 1673

 

Molavin skrifaði: "Tók þrjú ungmenni af lífi" segir í fyrirsögn Morgunblaðsfréttar (11.01.2015) af Bandaríkjamanni, sem myrti þrjú múslímsk ungmenni. Af fyrirsögninni mátti skilja að um aftöku dæmdra hefði verið að ræða en ekki fólskuleg morð. - Rétt athugað, Molavin. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Í Bylgjufréttum klukkan níu (10.02.2015) var sagt: Hálka og hvassviðri eru víða um land. Molaskrifari hefði sagt: Hálka og hvassviðri er víða um land.

 

Af dv.is (10.02.2015): Ljóst er af listanum yfir þá muni sem þau fjarlægðu, að það var engu til sparað við innréttingu heimilisins. 

Hér finnst Molaskrifara tvennt vera athugavert. Í fyrsta lagi er ruglað saman (nokkuð algengt, reyndar) tveimur föstum orðasamböndum. Ekkert til sparað. Engu til kostað. Í öðru lagi er hús ekki sama og heimili. Hús eru innréttuð. Heimili eru ekki innréttuð.

http://www.dv.is/frettir/2015/2/10/rifu-ut-innrettingar-fyrir-fjortan-milljonir/

 

Meira af dv.is sama dag: ,,Ómar segist hafa brugðið við að sjá hræin og hringt strax á lögregluna á Akureyri en fengið engin viðbrögð.”

Ómar segir að sér hafi brugðið við að sjá hræin, hefði þetta til dæmis getað verið. Einnig: Ómar segir að sér hafi verið brugðið við að sjá hræin, eða; Ómar segir sér hafa brugðið við að sjá hræin. Engir ritsnillingar þarna á ferð. http://www.dv.is/frettir/2015/2/10/fann-ruslagam-fullan-af-daudum-dyrum/

 

Fyrirsögn af visir.is (10.02.2015): Notaður reiðbúnaður stöðvaður í tollinum. Orðið reiðbúnaður hefur Molaskrifari ekki heyrt áður. Í fréttinni kemur fram að þetta var reiðfatnaður og reiðtygi.

http://www.visir.is/notadur-reidbunadur-stodvadur-i-tollinum/article/2015150219947

 

Með reglulegu milli verður Ríkisútvarpið okkar heltekið, alveg gegnsýrt af einhverju, og þess sér merki daginn út og daginn bæði í dagskrá útvarps og sjónvarps. Oftast eru þetta íþróttir. Alltaf boltaíþróttir. Stundum er það popp. Nú er það söngvakeppnin Evróvisjón , sem er hamrað á daginn út og daginn inn.

Á miðvikudagsmorgni hlustaði skrifari um skeið á morgunþátt Bylgjunnar. Skipti síðan yfir á Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins. Þar var þá verið að fjalla um Evróvisjón söngvakeppnina. Nema hvað!

Þetta gengur yfir. Blessunarlega, fyrir þá sem engan áhuga hafa á þessu. En ekki verður langt í að eitthvað annað taki við! Maður verður bara að láta þetta yfir sig ganga! Gerir kannski lítið því úr svo mörgu góðu er að velja í sjónvarpi eftir öðrum leiðum með tækni nútímans. Tækni sem var óhugsandi, þegar sjónvarp hófst hér fyrir tæplega hálfri öld.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það fer vissulega margt úrskeiðis, þegar fólk er að tala í útvarp, bæði þulir sem aðrir. Áðan í Samfélaginu var verið að tala við nokkra blaðamenn um uppljóstranir um ýmis mál, eins og lekamálið, og stöðu blaðamanna í því sambandi. Annar blaðamaðurinn sagði: "Stundum hafa menn alltof margar uppljóstranir." Bíðum við, ég greip þetta nú ekki alveg. Hvað var maðurinn að reyna að segja? Ég held, að það væri skárra, að fólk hefði textann skrifaðan á blað og lesa hann frekar af blaðinu heldur en að þvæla svona og láta hverja amböguna reka aðra, eins og þú hefur verið að benda á hérna á síðunni, ef það treystir sér ekki til að koma orðunum rétt út úr sér. Eða hvað finnst þér?

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 12.2.2015 kl. 13:40

2 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Mér finnst tilvitnuð setning klúður, Guðbjörg Snót.

Eiður Svanberg Guðnason, 12.2.2015 kl. 16:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband