Molar um málfar og miðla 1670

 

Í Fréttablaðinu (05.02.2015) segir: ,, Félagarnir eru væntanlegir heim á föstudaginn og hafa þá farið umhverfis heiminn á fimm dögum”. Málvenja er á íslensku að tala um að fara umhverfis jörðina, ekki umhverfis heiminn.

 

K.Þ. benti á eftirfarandi (07.02.2105):,, „Ég held að við höfum sofið fljótandi að feigðarósi í þessum málaflokki,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson ..."

http://kjarninn.is/island-best-i-heimi-seinni-hluti

Þakka ábendinguna, K.Þ. Við tölum um að fljóta sofandi að feigðarósi. Vera gálaus, gæta ekki að afleiðingum verka sinna  eða verkleysis.  Líkingin er úr kvæðinu ,,Oddur Hjaltalín eftir  Bjarna Thorarensen: En þú sem undan/ ævistraumi/ flýtur sofandi/að feigðarósi”. (Mergur málsins, Jón G. Friðjónsson, bls. 190)

 

Í miðopnu Morgunblaðsins á föstudag (06.02.2015) er falleg mynd sem þekur meira en hálfa síðuna. Myndatextinn er svona: ,,Hafrótið heillar. Ungur maður ljósmyndar hvítfyssandi brim við Gróttu á Seltjarnarnesi í norðangarra á dögunum. Þar er alltaf eitthvað áhugavert að skoða og ljósmynda, ekki síst á veturna.” Við þetta er eiginlega bara tvennt að athuga: Á myndinni er ekkert hafrót og heldur ekkert brim. Í mesta lagi svolítið úfinn sjór. Bræla, eða kaldafýla, mundu sjómenn kannski segja. Sennilega hefur sá sem skrifaði textann hvorki séð hafrót né brim.

 

Í fréttum Stöðvar á fimmtudagskvöld var fjallað ítarlega um klúður borgaryfirvalda í Reykjavík og ferðaþjónustu fatlaðra. Þar sagði fréttamaður:

 ,, Formaður landssamtakanna Þroskahjálp sagði að henni hafi brugðið illa við fréttum gærdagsins”. Hér hefði farið betur á því að segja, til dæmis: Formaður landssamtakanna Þroskahjálp sagði að henni hafi verið illa brugðið er hún heyrði fréttir gærdagsins, eða að henni hefði brugðið illa við fréttir gærdagsins. Ljóst er að borgaryfirvöld í Reykjavík létu öll varnaðarorð þeirra sem þjónustunnar njóta og talsmanna þeirra , sem vind um eyru þjóta, þegar miklar breytingar voru gerðar.

 

Guðmundur Guðmundsson benti á þessa frétt á visir.is (05.02.2015) : http://www.visir.is/article/20140605/SKODANIR03/706059991

Þar segir: ,, Hins vegar þegar kemur að því að úthluta lóðum á Skógum er það í valdi héraðsnefnda Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu en ekki sveitarstjórnar Rangárþings eystra.”

Undarleg er þessi afbökun að tala um "á" Skógum! Fer þetta fólk út á skóg að ganga? Þórður er fræðimaður "í" Skógum. Héraðsskóli var "að" Skógum.” Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps , klukkan 22 00 (006.02.2015) var sagt, - Samkvæmt Vegagerðinni og samkvæmt veðurfræðingi, orðið býsna algengt að heyra svona til orða tekið. Molaskrifari er ekki sáttur við þetta orðalag. Hefði þótt betra að sagt væri: Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar og að sögn veðurfræðings. Hvað segja Molalesendur?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband