Molar um málfar og miðla 1578

  „Húsið ætti að vera komið upp í byrj­un næsta árs og til­búið út­lits­lega séð en síðan fer árið í vinn­una inn­an­dyra,“ af mbl.is (23.09.2014). Útlitslega séð. Það var og. Húsið verður risið og tilbúið að utan í byrjun næsta árs. Fréttin var um nýbyggingu í Vatnsmýrinni í Reykjavík.

 

Eins og nefnt hefur verið hér áður eru umsjónarmenn Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins búnir að koma sér upp föstum lið. Þeir leika gamalt erlent dægurlag rétt fyrir fréttir klukkan sjö að morgni. Lagið kalla þeir standard. Það er sletta. Það er ekki íslenska. Getur málfarsráðunautur ekki leiðbeint umsjónarmönnum? Til hvers er málfarsráðunautur? Hafa umsjónarmenn ekki metnað til að vanda mál sitt? Það er ekki góð byrjun á deginum að sletta á okkur sem erum að hlusta. Auðvitað hlusta umsjónarmenn ekki á svona nöldur. Þeir munu halda áfram að sletta og málfarsráðunautur mun áfram að láta kyrrt liggja.

 

Í heimildamyndinni Alheimurinn í Ríkissjónvarpinu á þriðjudagskvöld (23.09.2014) var fróðlegur kafli um þýska veðurfræðinginn og jarðeðlisfræðinginn Alfred Wegener, höfund landrekskenningarinnar. Hann var framan af hafður að háði og spotti og kenning hans þótti fáránleg. Nú er hún ekki lengur umdeild, heldur vísindaleg staðreynd. Það var ekki fyrr en um 1960 að hann var metinn að verðleikum. Verka Wegeners sér stað á Íslandi. Við Hegranes,sem nú heitir, á Arnarneshæðinni steypti hann súlu sem tengist mælingum hans til að sanna landrekskenninguna. Það var árið 1930. Súlan stendur enn. Á hana hefur verið sett minningarplata. Síðar þetta sama ár varð Wegener úti á Grænlandsjökli, fimmtugur að aldri. 1912-1913 fór Wegener í fjögurra manna leiðangri þvert yfir Grænlandsjökul frá austri til vesturs. Notuðu þeir íslenska hesta í leiðangrinum. Einn Íslendingur, Vigfús Sigurðsson, var meðal þátttakenda, merkur maður og jafnan nefndur Vigfús Grænlandsfari eftir förina.

 Vigfús skrifaði fróðlega bók um leiðangurinn. Hún heitir Um þvert Grænland með kapt. J.P. Koch, - en svo hét leiðangursstjórinn. Fróðleg og læsileg bók um erfiða ferð við ótrúlegar aðstæður og mátti þar mjóu muna að leiðangursmenn kæmust lífs af undir lokin. Bók þessa fann Molaskrifari á fornbókasölu fyrr á þessu ári og er hún nú í bókasafni íslensku aðalræðisskrifstofunnar í Nuuk á Grænlandi.

 

Ósköp eru beinar útsendingar í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna stundum hallærislegar og nær alltaf tilefnislausar. Minnistætt er viðtal við þingmann sem  fjölmiðlar hafa sérstakt dálæti á , sem auglýst var í Ríkissjónvarpinu og sagt vera ,,í beinni útsendingu” , annað hvort frá Alþingi eða Austurvelli. Þar kom fátt fréttnæmt fram. Bara venjuleg pólitísk ræða. Það gefur frétt ekkert viðbótargildi að tala við umboðsmann skuldara í beinni útsendingu fyrir utan vinnustað hans.

 

Molaskrifari er sjálfsagt fremur tornæmur á ýmsum sviðum. Eftir langt Kastljós í gærkvöldi (24.09.2014) er hann engu nær um MS málið. Skildi ekki forstjórann. Eftir situr, að þetta sé bara fjarstæðukenndur misskilningur, - eiginlega allt málið eins og það leggur sig. Samkeppniseftirlitið skilji til dæmis ekki miðlun á vörum milli MS og yfirstjórnar skagfirska efnahagssvæðisins, kaupfélagsins á Króknum. Molaskrifara þykir annars slæmt að jafn ágætur maður og forstjóri MS skuli flæktur í svona dæmalaust vont kerfi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Til hamingju Ingibjörg Þórarinsdóttir. Þú vannst miða á Sjávarútvegssýninguna fyrir tvo. Okkur hlakkar til að sjá þig og það er gaman að segja frá því að allir sýningarbásar seldust upp. Mælum sérstaklega með Grindarvíkurbásnum. Þar má finna SUSHI rétti sem hvergi er að finna annarsstaðar í heiminum. Þökkum þeim fjölmörgu sem þátt tóku í leiknum. Með kveðju Atlantsolía."

E (IP-tala skráð) 25.9.2014 kl. 16:53

2 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Já, hérna. Þetta er mikil súpa, - ambögusúpa.

Eiður Svanberg Guðnason, 25.9.2014 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband