Molar um málfar og miðla 1491

  

Úr frétt á mbl.is (09.06.2014) um franskan hellakönnuð sem lokaðist inni í helli vegna grjóthruns: ,, Flókið og um­fangs­mikið gangna­kerfi hell­is­ins ger­ir aðgerðina mjög erfiða,”. Hér ætti að standa gangakerfi , ekki gangnakerfi. Göngur eru ekki í hellum. Úr sömu frétt:,, Stefnt er að því að koma upp grunn­búðir fyr­ir björg­un­ar­starfið á 300 metra dýpi ....” Stefnt er að því að koma upp grunnbúðum .... Enginn prófarkalestur frekar enn fyrri daginn. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/06/09/fastur_i_idrum_jardar/

 

Rottur með skott komu við sögu í fréttum Stöðvar tvö (09.06.2014). Molaskrifari hefur vanist því að tala um rottuhala. Í fréttum Ríkisútvarps sama kvöld sagði dósent við Háskóla Íslands, þegar hálendið opnar. Hálendið opnar hvorki eitt né neitt. Konan, sem rætt var við, átti við það þegar bílaumferð væri leyfð um hálendið. Og í fréttum Ríkissjónvarps var okkur boðið upp á brakandi ferskar íþróttamyndir. Brakandi myndir???

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (09.06.2014) talaði fréttamaður um að kjósa gegn lagafrumvarpi. Enn einu sinni var því hér ruglað saman að greiða atkvæði og kjósa. Það þarf greinilega að skýra muninn á þessu fyrir sumum fréttamönnum. Áður hefur verið vikið að þessu í Molum 33, 299, 818 og 1247. Meðal annars.

 

Stundum er einkennilegur munur á tölum fjölmiðla um fjölda látinna í slysum eða fjölda fallinna í árásum. Á miðnætti á sunnudagskvöld (08.06.2014) nefndi BBC mun hætti tölur á miðnætti um fjölda fallinna í skotárás á Karachi flugvelli í Pakistan en Ríkisútvarpið á sama tíma. Sama var uppi á teningnum morguninn eftir. Þá sagði BBC kl 0645 að 27 væru fallnir, en 15 mínútum síðar var talan 21 nefnd í Ríkisútvarpinu. Í tíu fréttum sama dag  sagði Al jazeera 29 fallna, BBC og CNN nefndu töluna 28, en Ríkisútvarpið 24. Hvað veldur? Hvaða heimildir notar Ríkisútvarpið.

 

Molaskrifari veltir því fyrir sér hvort umsjónarmenn þáttarins Reykjavík síðdegis á Bylgjunni hafi ráð á því að dylgja um gáfnafar Filippusar hertoga af Edinborg eins og gert var á þriðjudaginn (10.06.2014). Hálf hallærislegt.

 

 Norrænu sjónvarpsstöðvarnar sýndu mikið af vönduðum og mjög fróðlegum heimildamyndum, þegar þess var minnst 5. og 6. júní að 70 ár voru liðin frá innrás bandamanna í Normandí, sem olli straumhvörfum í seinni heimsstyrjöld. Ótrúlegt skipulag og mikinn undirbúning þurfti til að hrinda þessari miklu aðgerð í framkvæmd.. Sjö þúsund skip og 250 þúsund hermenn. Tíu norsk herskip og 50 flutningaskip tóku þátt í aðgerðinni. Herliðinu þurfti að koma á land á einum sólarhring. Íslenska ríkissjónvarpið hefur ekki minnst þessara tímamóta nema í fréttum. Það leggur fram sinn skerf til þess að hér vaxi úr grasi kynslóðir, sem vita lítið sem ekkert um sögu liðinnar aldar. Íþróttadýrkun og áhersla á  mismerkilega ameríska myndaflokka setja mestan svip á dagskrá Ríkissjónvarpsins , þótt innan um sé eitt og annað sæmilega bitastætt, þá er það of lítið. Allt, allt of lítið.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband