Molar um málfar og miðla 1386

  

Enn reka dauðar kýr á land í Danmörku og Svíþjóð, sagði í fyrirsögn á pressan.is (11.01.2014): http://www.pressan.is/Frettir/Lesa_Erlent/enn-reka-daudar-kyr-a-land-i-danmorku-og-svithjod Ekki fylgdi það sögunni hvað kýrnar ráku á landi. Fyrirsögnin hefði átt að vera: Enn rekur dauðar kýr á land í Danmörku og Svíþjóð.

 

Úr frétt á mbl.is (11.01.2014) um öryggismál á Litla Hrauni: Þá segir hann að verið sé að steypa fyrir nýju girðingunum. Þetta finnst Molaskrifara ekki mjög skýrt orðað.

Við erum að fjölga, sagði landbúnaðarráðherra í drottningarviðtali við Gísla Martein Baldursson Á sunnudagsmorgni í Ríkissjónvarpinu (123.01.2014). Okkur er að fjölga, vildi ráðherra sagt hafa. Rúsínan í pylsuenda viðtalsins var þegar Gísli Marteinn þakkaði ráðherra skýr svör!

Arnbjörn skrifaði í athugasemdadálk Molanna (12.01.2014): ,, Í kveri sínu Íslenzkri setningafræði / Íslenzk setningafræði bls. 21 ræðir Björn Guðfinnsson um óbeygða einkunn. Hann er að vanda reglufastur en viðurkennir engu að síður gildi málvenju sem stangast á við regluna sem hann boðar. Þetta hefur hann að segja um óbeygða einkunn:
„[Grein] 65. Algengt er nú [formáli 2. útgáfu er skrifaður 1943] orðið að nota einkunnir óbeygðar, þegar þær eru heiti.
Dæmi: Greinin birtist í dagblaðinu Vísir. – Ég keypti þetta í verzluninni Baldur. – Hann vinnur í vélsmiðjunni Héðinn.
Sérstaklega tíðkast óbeygð einkunn, þegar heitið er orðasamband, tvö eða fleiri samhliða orð.
Dæmi: Þessar vörur eru úr verzluninni Kjöt og fiskur. – Hann er meðlimur í bókmenntafélaginu Mál og menning. – Þetta er úr verzluninni Blóm og ávextir.
[Grein] 66. Notkun óbeygðrar einkunnar er málfræðilega röng. Hún er og að jafnaði óþörf og til lýta. . Þó mundu sumir kunna illa við þessar setningar:
Þessar vörur eru úr verzluninni Kjöti og fiski. Þetta er úr verzluninni Blómum og ávöxtum.
Hins vegar er ekki hægt að finna neitt að beygðri einkunn, þegar hún er eitt orð:
Greinin birtist í dagblaðinu Vísi. Hann vinnur í vélsmiðjunni Héðni.“
Kannski eru menn nú sáttir við að svo sé tekið til orða: „Hvaða hugrenningar skyldu vakna við lestur skáldsögunnar Sjálfstæðs fólks?“ “  Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Það held ég að orðamoðið sem ég treð í bækurnar mínar yrði fágaðra, vandaðra, og líklega skýrara, ef ég tileinkaði mér þá þekkingu og innsæi sem þú ert málsvari fyrir.

Kærar þakkir fyrir þarfa áminningu.

Guðjón E. Hreinberg, 14.1.2014 kl. 12:50

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Það finnst mér taka þessar kýr æði langan tíma að reka að landi, fyrst þær eru enn að því.

Ásgrímur Hartmannsson, 14.1.2014 kl. 19:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband