Molar um málfar og miðla 1959

MJÖG TIL BÓTA

Framsetning á veðurfregnum Ríkissjónvarpsins hefur tekið stakkaskiptum. Til hins betra. Mátti svo sem segja, að tími væri til kominn. Nú stendur Ríkissjónvarpið á þessu  sviði alveg jafnfætis því besta sem sést í veðurfregnum erlendra stöðva. Mér finnst veðurfræðingarnir okkar reyndar um margt gera betur en erlendir starfbræður þeirra, og er þá ekki endilega verið að tala um áreiðanleika spánna. – Heldur hvernig þeir tala við okkur. Og nú eru meira að segja komin borganöfn bæði á Evrópukortið og Norður Ameríku kortið.  Takk.

 

ENN EITT DÆMI ...

Hér kemur enn eitt dæmi um rugling, sem alltof algengt er að hnjóta um í fréttum (mbl.is 03.06.2016): ,,Farþeg­arn­ir sem flugu aft­ur til Ham­borg­ar með vél­inni var þó komið fyr­ir í önn­ur flug og ættu að vera að skila sér til lands­ins.” Farþegarnir var ekki komið fyrir! Orðalagið er út úr kú. Þetta mætti til dæmis orða svona: Farþegunum, sem flugu aftur til Hamborgar með vélinni, var því útvegað far eftir öðrum leiðum og ættu því að vera að skila sér til landsins. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/03/til_hamborgar_ad_skipta_um_ahofn/

 

FLÓTTI BROSTINN Í LIÐIÐ?

K.Þ. skrifaði (05.06.2016): Sæll Eiður,

"Fylgi við Höllu Tómasdóttur tekur á rás"

Þessi fyrirsögn segir mér að stuðningur við framboð Höllu fari minnkandi en ekki vaxandi eins og þó kemur fram í fréttinni.

http://kjarninn.is/frettir/2016-06-03-fylgi-vid-hollu-tomasdottur-ras/

Rétt. Undarleg fyrirsögn. Þakka bréfið.

 

 ENN UM OPNUN

Úr fréttum Stöðvar tvö (04.06.2016): Norðurá opnaði í morgun, sagði fréttaþulur. Norðurá opnaði hvorki eitt né neitt. Veiðar hófust í  Norðurá í morgun, hefði verið eðlilegra orðalag.

 

 

 

YFIRLÝSING

Úr fréttum Ríkisútvarps (04.06.2016): ,, ... hafa gefið frá sér sameiginlega yfirlýsingu...”.  Eðlilegra orðalag hefði verið: Hafa birt sameiginlega yfirlýsingu, hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu.

 

AÐ UNNA

Fyrirsögn í grein um afmælisbarn í Morgunblaðinu (04.06.2016): Óháður og unnir frelsi. Hefði ekki verið betra að segja: Óháður og ann frelsi?

 

HORNREKA

Enn einu sinni sannaðist í gærkvöldi (06.06.2016) að fréttirnar eru hornreka í Ríkissjónvarpinu og íþróttadeildin valtar yfir fréttastofuna  þegar henni sýnist. Og það er oft. Fréttaþjónustan skiptir ekki máli, þegar fótbolti er annarsvegar.

Í gærkvöldi voru fréttir styttar vegna fremur ómerkilegs fótboltaleiks, sem alveg hefði dugað að senda út á íþróttarásinni. Svo seinkaði seinni fréttum um 20 mínútur. Það fer ekki mikið fyrir metnaði þeirra sem stjórna fréttastofunni. Því miður.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Bloggfærslur 7. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband