Molar um málfar og miðla 1955

UM FYRIRSAGNIR

Sigurður Sigurðarson skrifaði (29.05.2016): ,,Í Morgunblaðinu 27. maí 2016 segir í undirfyrirsögn og millifyrirsögn í grein um dóma Hæstaréttar:

Dómur dyravarðar mildaður

Að sjálfsögðu skilst þetta orðalag vegna samhengis við annað í greininni. Dyravörðurinn kvað ekki upp dóm sem síðar var mildaður. Líklega hefði verið réttara að orða þetta svona: Dómur yfir dyraverði mildaður

Á vefnum dv.is er þessi fyrirsögn:

Mynd af pari faðmast veldur hausverkjum

Þetta er auðvitað meingölluð fyrirsögn. Með því að hafa orðið hausverkur í fleirtölu er átt við að allir sem umrædda mynd sjá fái hausverki. Það er ekki reyndin. Með réttu ætti fyrirsögnin að vera þessi: Mynd af pari að faðmast veldur hausverk, eða í faðmlögum. Ég fékk ekki hausverk vegna skondinnar myndar en velti þó vöngum yfir henni. Fyrirsögnin hefði því mátt vera; Vangaveltur um mynd af pari í faðmlögum.”  - Kærar þakkir fyrir bréfið, Sigurður. Það er vandi að semja fyrirsagnir. Það vita allir, sem fengist hafa við blaðamennsku. Og hér er dæmi um fyrirsögn af mbl.is (31.05.2016) sem Molaskrifara þykir ekki til fyrirmyndar. Úlfarsá (Korpa) skiptir um hendur

http://www.mbl.is/veidi/frettir/2016/05/31/ulfarsa_korpa_skiptir_um_hendur/  - Nýr aðili hefur tekið við sölu veiðileyfa í ánni.

 

LYFJAMISNOTKUN

Molavin skrifaði (30.05.2016): ,,Læknafélagið mætti að ósekju hvetja fréttastofu Ríkisútvarpsins og reyndar aðra fjölmiðla líka til þess að hætta að kalla lyf, sem misnotuð eru sem vímugjafar, "læknadóp." Læknar ávísa vitaskuld öllum tegundum lyfja eftir beztu samvizku til líknar eða lækninga og það er ekki við þá að sakast þótt vímufíklar misnoti þau. Réttara væri og sanngjarnara gagnvart læknastéttinni að tala um "lyfjadóp".”. Hverju orði sannara. Hárrétt ábending. Þakka bréfið, Molavin. Í sjónvarpsfréttum gærkvöldsins (31.05.2016) var einmitt talað um læknadóp.

http://www.ruv.is/frett/rekja-sjo-daudsfoll-til-misnotkunar-a-suboxone

 

 

MEIRA UM BEYGINGAR Á MBL.IS

Það var nefnt í Molum á mánudag (1953) að mbl.is hefði fallið á grunnskólaprófi þegar í ljós kom í frétt um Laxá, að fréttaskrifari kunni ekki að fallbeygja orðið á í merkingunni straumvatn. Aftur varð mbl.is á í messunni á sunnudag (29.05.2015) í frétt þar sem sagt var frá lúxussnekkju, sem lá við festar í Hvalfirði. Þar var sagt: ,,”.

Snekkjan ku vera eigu í föðurs eins ferðalanganna” Skylt er að geta þess, að þessi villa var leiðrétt síðar.

 

FRÉTTAMAT Í FÍNU LAGI

 Það er auðvitað stórfrétt, sem okkur var sögð í þrjú fréttum Ríkisútvarps á mánudag (30.05.2016), að tveggja sæta kennsluflugvél af gerðinni Cessna 152 hefði lent heilu og höldnu á þjóðvegi í grennd við Búdapest í Ungverjalandi. Betra samt en frétt af flugslysi.

http://www.ruv.is/frett/lenti-a-fjolfornum-thjodvegi

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

Bloggfærslur 1. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband