Molar um málfar og miðla 1805

 

UPPNEFNI

 Fremur er sjaldgæft að sjá eða heyra fólk uppnefnt í fjölmiðlum.

 Í viðtali á visir.is (25.09.2015) talaði útvarpsstjóri Útvarps Sögu, Arnþrúður Karlsdóttir um Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kastljóss, og sagði: ,,Ekki mátti minnast á það hjá Þóru litlu Arnórs þegar hún var að fjalla um upphaf lögreglukvenna...”. Þetta segir heilmikið um útvarpsstjóra Útvarps Sögu, en nákvæmlega ekkert um Þóru Arnórsdóttur. Ekki stækkar þetta útvarpsstjórann.  http://www.visir.is/vill-banna-utvarpi-sogu-ad-nota-kennistefin/article/2015150929126

 

 ÓTÆKT FYRIRKOMULAG

Þegar dagskrá Ríkissjónvarps fer verulega úr skorðum eins og gerðist sl. föstudagskvöld (25.09.2015) kemur vel í ljós hversu ótækt og óboðlegt það er, að Ríkissjónvarpið skuli enn leyfa sér að vera með niðursoðnar dagskrárkynningar. Ógerlegt er að bregðast við óvæntum breytingum. Prýðilegur og þarfur þáttur um einelti var lengri en gert var ráð fyrir. Við því var ekki brugðist með því að tilkynna seinkun í dagskránni.- Það heyrir annars orðið til undantekninga að seinni fréttir sjónvarpsins hefjist nákvæmlega á réttum tíma. Það er subbuskapur, sem aðrar sjónvarpsstöðvar leyfa sér ekki.

 

 KÚPA

Kannski er ekki til stafsetningarorðabók á Fréttastofu Stöðvar tvö. Á laugardagskvöld (26.09.2015) var fjallað um Kúbu. Í neðanmálstexta var landið kallað Kúpa og hvað eftir annað talað um kúpversku þjóðina. Enginn les yfir.

 

 ENN UM STOKKINN

Í þessum sama fréttatíma Stöðvar tvö var talað um sjö konur sem ætluðu að stíga á stokk í ráðhúsi Reykjavíkurborgar. Konurnar  voru ekki að stíga á stokk og strengja heit. Bara bull. Þær fluttu ræður á málþingi í ráðhúsinu.

 

MEIRA UM STAÐSETNINGU

Nokkrum sinnum hefur hér verið fjall um orðið staðsettur. Þetta er af mbl.is (28.09.2015): ,,Fyr­ir 10 árum byrjaði eldri dótt­ir Önnu í Lang­holts­skóla var starf­semi frí­stunda­heim­il­is­ins færð úr kjall­ara Lang­holts­skóla í nú­ver­andi staðsetn­ingu.”

Starfsemin var færð á núverandi stað, varð færð þangað sem hún er núna. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/26/vard_fyrir_bil_a_leidinni_heim/

 

AÐ HALA INN

Af mbl.is (28.09.2015): ,,Kvik­mynd­in Ev­erest stefn­ir í að verða sú er­lenda mynd Baltas­ars Kor­máks sem mest­um tekj­um hef­ur halað inn.” Þetta samrýmist ekki máltilfinningu Molaskrifara. Hann hefði fremur sagt: ,, ... sem mestar tekjur hefur halað inn”. http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/09/28/everest_stefnir_a_toppinn/

 

AF HEIMASÍÐU FORSETANS

Margt merkilegt og eftirtektarvert má lesa á heimasíðu forsetaembættisins. Forseti hefur til dæmis haldið sérstakan fund með  stjórnendum  Kaupfélagsins á Króknum http://www.forseti.is/Frettir/Ollfrettin/stjornendurkaupfelagsskagfirdinga/   Víða liggja þræðir.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1804

 

FLJÓTANDI VATN

Rafn skrifaði (28.092015) vegna fyrirsagnar á mbl.is:,, Þessi frétt er nú á net-Mogga. Ég á því að venjast, að talað sé um rennandi vatn en ekki fljótandi:

 Vís­bend­ing­ar um fljót­andi vatn

Vís­inda­menn NASA hafa fundið vís­bend­ing­ar um að vatn fljóti niður hlíðar gljúfra og gíga á yf­ir­borði Mars yfir sum­ar­mánuðina þar. Þeir segja að upp­götv­un­in auki mögu­leik­ana á því að reikistjarn­an gæti hýst ein­hverja teg­und af lífi.” Þakka ábendinguna, Rafn. Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 18 00 talaði Vera Illugadóttir réttilega um rennandi vatn. Í fréttum Stöðvar tvö var hinsvegar þrívegis talað um fljótandi vatn.

http://www.mbl.is/frettir/taekni/2015/09/28/visbendingar_um_fljotandi_vatn/

Í Morgunblaðinu í dag  (29.09.2015)  er í forsíðufyrirsögn talað um ,,Vísbendingar um vatn í fljótandi formi á Mars”. http://www.mbl.is/frettir/taekni/2015/09/28/visbendingar_um_fljotandi_vatn/

 

 

ÓFAGLEGT

Í frétt í Fréttablaðinu , bls2. á föstudaginn var (25.09.2015) segir: ,, Félagsstarf hælisleitenda fer fram undir dyggri stjórn Julie Ingham verkefnisstjóra hjá Rauða krossinum í Garðabæ og Hafnarfirði,, Molaskrifari efast ekki um að þessu starfi sé vel stjórnað. Mat þess sem fréttina skrifar á hinsvegar ekkert erindi í fréttina. Svo er þar að auki svolítið ankannalegt að tala um dygga stjórn. Eðlilegra er að tala um góða stjórn, trausta stjórn.

 

FALLAFÆLNI

Aftur og aftur heyrist fallafælni í fréttum. Í yfirliti hádegisfrétta í Ríkisútvarpinu í lok fréttatímans (25.09.2015) var sagt: ,,Náttúrufræðistofnun Íslands segir að tunglsteinn, sem var til sýningar hjá Könnunarsafninu á Húsavík, hafi ekki verið nógu vel gætt.” Þetta hefði átt að vera ;, ... að tunglsteins,sem var .., hafi ekki verið nógu vel gætt.- Þetta hefði þurft að lesa yfir áður en það var lesið fyrir okkur.  

 

MISGÓÐIR VEFIR

Þeir vefir sem Molaskrifari notar mest á netinu eru misjafnlega notendavænir. Vefur Morgunblaðsins er til sérstakrar fyrirmyndar, bæði hvað varðar aðgengi að fréttum, innsendingu greina eða tilkynninga. Hrós fyrir það. Vef Ríkisútvarpsins var bylt fyrir skömmu. Margt er þar örugglega til bóta, en Molaskrifari er enn ekki orðinn hagvanur á vefnum eftir breytingarnar. Það líður til dæmis oft nokkuð langur tími, - til dæmis frá því að fréttir eru lesnar og þar til þær eru aðgengilegar í Sarpinum.

 

 

ENN OG AFTUR

Af mbl.is (25.09.2015): ,,Rann­sak­end­ur hef­ur ekki tek­ist að staðfesta að bein sem fund­ust í gröf í Flórens hafi til­heyrt lík­ams­leif­um kon­unn­ar sem er tal­in hafa verið fyr­ir­mynd meist­ara­verks­ins Monu Lisu.” Í vaxandi mæli sér maður villur af þessu tagi í fréttum netmiðla. Hér ætti að standa: ,, Rannsakendum hefur ekki tekist .......” Hvað veldur. Vankunnátta? Hroðvirkni?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1803

RAUÐI KROSSINN SLETTIR

Rauði krossinn á Íslandi slettir á okkur ensku í sjónvarpsauglýsingu

og segir VERTU NÆS. Hversvegna talar Rauði kross Íslands ekki íslensku við Íslendinga?   Þetta er ekki til eftirbreytni. Ráðamenn hjá Rauða krossinum ættu að sjá til þess að þessu verði breytt. Þetta er Rauða krossinum ekki til sóma.

Meira um slettur: Blaðamaður á visir.is spyr (25.09.2015): En, varðandi það þegar skorað er á auglýsendur að sniðganga ykkur; bocott? Það hlýtur að mega heita högg? Blaðamaður þykist þarna vera að nota enska orðið boycott, en kann ekki að stafsetja það. Það er líka allsendis óþarft innskot og bætir engu við, nema  sýna okkur að blaðamaðurinn er slakur enskumaður.

Í fréttum Stöðvar tvö þetta sama kvöld talaði fréttamaður um kommbakk og skaut inn ókei, sem reyndar hefur heyrst áður. Fréttamenn eiga að vanda málfar sitt.

 

LANDFLÓTTA RITHÖFUNDUR

Úr frétt á mbl.is (24.09.2015): ,,Reykja­vík­ur­borg hef­ur nú tekið á móti land­flótta rit­höf­undi frá Kúbu og veit­ir hon­um skjól­borg þar sem hon­um er tryggður ör­ugg­ur dval­arstaður og efna­hags­legt ör­yggi, ...” Þetta er áreiðanlega hið besta mál. En hvað er skjólborg? Er ekki verið að búa manninum skjól, öruggt athvarf , griðastað og greiða honum laun? Sýnist það. Skjólborð voru á vörubílspöllum í gamla daga, mishá og mátti taka af. Nú vita sennilega aðeins elstu menn hvað skjólborð voru.

Seinna í fréttinni segir: ,, Í frétt Reykja­vík­ur­borg­ar seg­ir að árið 2013 varð hann að yf­ir­gefa land sitt og síðan þá hef­ur hann haldið fyr­ir­lestra í mörg­um banda­rísk­um há­skól­um um fé­lags­leg­ar aðgerðir á Kúbu, um borg­ara­legt sam­fé­lag og rit­skoðun bók­mennta af hálfu kúbverska rík­is­ins.” Hér málfræðin ekki alveg í samræmi við tilfinningu Molaskrifara. Hann er á því að þarna hefði átt að standa: ,,Í frétt Reykjavíkurborgar segir að árið 2013 hafi hann orðið að yfirgefa land sitt og hafi síðan haldið fyrirlestra .......”

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/24/landflotta_rithofundur_faer_skjol/

 

 

RAMMINN

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (25.09.2015) var fjallað um fjárveitingar til Landspítalans. Þannig var tekið til orða að til þess væri ramminn of naumt skorinn. Rammar eru ekki skornir. Eðlilegra hefði verið að tala um að til þess væri rammminn of þröngur.

 

FAGSTÝRA?

Úr frétt á mbl.is (24.09.2015): ,,... seg­ir Þor­gerður Agla Magnús­dótt­ir, fag­stýra Miðstöðvar ís­lenskra bók­mennta, sem stödd er á hátíðinni”. Þetta er úr frétt um bókmenntahátíðina í Gautaborg. Molaskrifari játar að hann skilur ekki orðið fagstýra. Dugað hefði að segja að þessi kona væri á hátíðinni, frekar en að hún væri stödd á hátíðinni. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/24/strunsudu_ut_af_bokamessunni/

 

SKAFIÐ AF RÚÐUM

,,Íbúar á höfuðborgarsvæðinu sem voru snemma á ferð í morgun þurftu margir að skafa af bílum sínum á leið sinni til vinnu.” Þetta er ekki mjög vel orðað. Átt er við að ökumenn hafi þurft að skafa hrím af rúðum bíla sinna áður en þeir óku af stað til vinnu í morgun (24.09.2015). Hitt hefði ekki leitt til aukins öryggis í umferðinni!

http://www.visir.is/hofudborgarbuar-thurfa-ad-grafa-upp-skofuna/article/2015150929396

 

AÐ STÍGA TIL HLIÐAR

Boehner stígur til hliðar, sagði í fyrirsögn á mbl.is (25.09.2015). Þetta er aulaþýðing úr ensku, step aside. John Boehner for­seti full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings ætlar að hætta þátttöku í stjórnmálum. Draga sig í hlé. Hætta.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/09/25/boehner_stigur_til_hlidar/

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1802

Í KRÖGGUM

Fyrirsögn af visir.is (23.09.2015): Hjón í fjárhagslegum erfiðleikum unnu 15 milljónir. Þarna kom vinningur greinilega á réttan stað. En skyldi sá sem fréttina skrifaði aldrei hafa heyrt orðtakið að vera í í kröggum, - skorta fé, vera lítt fjáður, eiga við fjárhagsvanda að etja? Hjónin voru í kröggum. Kröggur eru (fjárhags)vandræði, segir orðabókin.

http://www.visir.is/hjon-i-fjarhagslegum-erfidleikum-unnu-15-milljonir/article/2015150929474

 

VANDI FYLGIR ....

Réttilega er sagt, að vandi fylgi vegsemd hverri. Það fylgir því ábyrgð að vera ritstjóri, fréttastjóri, vaktstjóri hvort sem er á dagblaði í ljósvakamiðli eða netmiðli.

Ævinlega eru mannaskipti og nýliðar, lítt þjálfað eða óþjálfað fólk kemur til starfa. Molaskrifari hefur það á tilfinningunni að nýliðar á fjölmiðlum fái ekki þá leiðsögn, leiðbeiningu, þjálfun og uppörvun sem nauðsynleg er. Það er ein af ástæðum þess að við sjáum svo mikið og heyrum svo mikið af málvillum og ambögum. Úr þessu þarf að bæta. Svo þarf heldur ekki að greiða nýliðum jafn há laun og  reyndu fólki.

 

AUKA -R-

Hér hefur stundum verið að því vikið að bókstafurinn -r- á það til að skjóta sér inn í samsett orð þar sem hann á ekki heima. Í fréttum Ríkissjónvarps (23.09.2015) um lokun bankaútibúa á Vestfjörðum var talað um aðgerðaráætlun. Þarna var ekki verið að tala um eina aðgerð, heldur margar aðgerðir. Þess vegna hefði þetta átt að vera aðgerðaáætlun. Í fréttinni var talað enn einu sinni talað um útibú sem lokaði. Þannig hefur oft verið tekið til orða í fréttum um lokun útibúa Landsbankans fyrir vestan. – Í sömu frétt var sagt: ,,Sýslumannsembætti voru nýlega sameinuð úr fjórum í eitt”. Þetta hljómar ekki vel í eyrum Molaskrifara. Fjögur sýslumannsembætti voru nýlega sameinuð. Sýslumannsembættum var fækkað úr fjórum í eitt, - hefði varla verið nægilega nákvæmt orðalag.

 

 

AÐ OG AF

Æ oftar ruglar fólk saman forsetningunum að og af. Þetta er úr ræðu borgarfulltrúa, sem birt var á pressan.is (23.09.2015): Sú gagnrýni yrði af engu höfð ef ég gerði sjálfan mig og einhverja félaga mína undanskilda frá slíkri gagnrýni....  Hér hefði átt að standa, - engu höfð, - ekki tekið tillit til hennar ekki hlustað á hana. sömuleiðis hefði farið betur á því að segja,- til dæmis - ef ég hlífði mér og einhverjum félögum mínum við slíkri gagnrýni.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1801

FÉKK Á SIG LEKA!

Ýmislegt undarlegt ber fyrir augu á vefmiðlum, sem miðla fréttum á netinu. Þannig er (21.09.2015) á visir.is sagt frá togara sem leki kom að, að hann hafi fengið á sig leka! Enginn les yfir. Enginn metnaður til að gera vel.

Í fréttinni segir: ,, Togarinn Ásbjörn RE, sem fékk á sig leka á Vestfjarðamiðum, siglir nú áleiðis til hafnar fyrir eigin vélarafli og er væntanlegur til Reykjavíkur um hádegi ...”

Á vefnum var togarinn reyndar ranglega kallaður Arinbjörn.

http://www.visir.is/arinbjorn-fekk-a-sig-leka-en-siglir-nu-til-hafnar-i-reykjavik/article/2015150929904

 

HVAÐ ER AÐ, MBL.IS?

Af mbl.is (21.09.2105) : ,Tveim­ur árum eft­ir að einka­skipt­um var lokið á dán­ar­búið stór­eigna­manns í Reykja­vík kom í ljós að hann átti mikl­ar eign­ir í Kaupþingi í Lúx­em­borg og síðar Banque Havil­l­and sem erf­ingj­um bús­ins vissu ekki af þegar skip­in fóru fram. Um var að ræða rúm­lega fjóra millj­arða króna.” http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/21/vissu_ekki_um_milljardana/

Þarf ekki mbl.is að athuga sinn gang? Sýnist það og er sennilega ekki einn um þá skoðun.

 

RÉTT HEYRT?

 Heyrði Molaskrifari það rétt í fréttayfirliti í morgunútvarpi Ríkisútvarps (22.09.2015) að sagt væri: Verulegur hluti þess kjúklingakjöts sem neyttur er af þjóðinni? Vonandi ekki. Vonandi var sagt: Verulegur hluti þess kjúklingakjöts , sem neytt er af þjóðinni,, - betra hefði verið , - verulegur hluti þess kjúklingakjöts,sem þjóðin neytir.

 

ÞÁGUFALLSSÝKI – ÞÁGUFALLSHNEIGÐ

Í Málskoti málfarsráðunautar í morgunútvarpi Rásar tvö (22.09.2015) var rætt um það sem hingað til hefur verið kallað þágufallssýki. Þar var sagt að frekar ætti að kalla þetta þágufallshneigð vegna þess hve fyrirbærið sé gamalt og útbreitt nú orðið. Molaskrifari skynjaði umræðuna á þann veg að eiginlega væri allt í lagi að segja mér langar. Kannski er það röng tilfinning. En eftir situr hugsunin um að verið væri að segja okkur , að ef nógu margir taki sér sömu ambögu í munn, þá verði hún rétt mál og vandað. Hann er því reyndar ekki sammála. Hvar endar það?

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1800

 

VERSLA – KAUPA

Í Bónusversluninni í Árbænum rak Molaskrifari augun í auglýsingaskilti frá Blindravinnustofunni, sem á stóð: Verslaðu hágæðavörur. Betra hefði verið: Kauptu hágæðavörur.

 

VÍÐA LEYNIST OLLA

Í sunnudagskrossgátu Morgunblaðsins (20.09.2015) er lóðrétt orð, sem finna skal fyrir orsökuðum. Það reyndist vera ullum, sem væntanlega er dregið af sögninni að olla sem er ekki til, en skýtur æ oftar upp kollinum þegar fólk, ræður ekki við að beygja sögnina að valda.

 

KJÖRSSTAÐIR LOKA

Enn og aftur var okkur sagt í Ríkisútvarpinu, í hádegisfréttum á sunnudag (20.09.2015) að kjörstaðir lokuðu klukkan fjögur. Í þetta skiptið var það í Grikklandi sem kjörstöðum var lokað klukkan fjögur.

 

EINKAVIÐTAL VIÐ ......

Það var drepfyndið hjá Sigmari Guðmundssyni í morgunútvarpi Rásar tvö (22.09.2015) að taka einkaviðtal við blaðamanninn sem tók einkaviðtal við blaðamann DV sem tók einkaviðtal við poppgoðið Justin Bieber. Verðug kóróna á vitleysisganginn. Í upphaflega viðtalinu mun hafa komið fram að poppgoðið hafi þurft að pissa og farið á salerni. Mjög merkilegt. Kannski gerir hann líka eitthvað fleira eins og venjulegt fólk.

 

ÓBOÐLEGUR TEXTI

Af mbl.is (18.09.2015) ,,Lík fjög­urra ára sýr­lenskr­ar stúlku skolaði að vest­ur­strönd Tyrk­lands í dag, sam­kvæmt því sem fram kem­ur í fjöl­miðlum þar í landi. “ Þetta er óboðlegur texti. Um það þarf í rauninni ekki að hafa öllu fleiri orð. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/09/18/annad_barnslik_rak_a_land/

 

STÆKKUN HELLISHEIÐAR

Í frétt á mbl.is á sunnudaginn (20.09.2015) er tvívegis talað um slys, sem varð er verið var að vinna að stækkun Hellisheiðar. Molaskrifari hefur átt leið um heiðina alloft í sumar. Hann hefur ekki orðið var við neina stækkun á heiðinni. . Hinsvegar hefur verið unnið að því að breikka veginn yfir Hellisheiði (var enda ekki vanþörf á) og er því verki senn lokið.- Fleiri ráku augun í þetta: T.H. skrifaði (20.09.2015): ,,Í frétt þessari er í tvígang talað um "stækkun Hellisheiðar"!
Mikið ætla ég að vona að ekki sé verið að stækka heiðina og að það standi heldur ekki til. Það yrði dýr og mikil framkvæmd. Ég þykist vita að yfir standi vinna við BREIKKUN VEGARINS yfir heiðina, en það er annar handleggur og viðráðanlegri”. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/20/ok_a_mann_a_hellisheidi_2/

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um malfar og miðla 1799

FLJÓTFÆRNI

Sigurður Sigurðarson skrifaði (19.09.2015):

Sæll,

Hér eru örfá dæmi um fljótfærnislegar villur í fjölmiðlum. Þarfnast varla skýringa:

 

Ferðalangur fær sér kaffibolla og nýtur útsýnisins yfir Havana. Airbnb hefur slegið í gegn þar í borg og skapar heimamönnum verðmætar aukatekjur.

Myndatexti í Morgunblaðinu 30. ágúst 2015, bls. 21. Eru til verðlitlar aukatekjur? Betra að tala um litlar eða miklar aukatekjur.

 

Í ein­hverj­um til­vik­um var unnið eigna­tjón, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um lög­regl­unn­ar á Suður­landi.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/14/brotist_inn_i_atta_sumarbustadi/

 

Starfs­menn verk­taka voru að von­um ánægðir þegar ljóst var að gat hafði opn­ast í gegn.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/17/slegid_i_gegn_i_nordfjardargongum/

 

Nægi­legs fés hef­ur verið safnað til að kaupa Concor­de-þotu …

http://www.mbl.is/frettir/taekni/2015/09/19/concorde_i_loftid_2019/.

 

Framið hafði verið morð á kærasta hennar 

Viðtal við ónefndan rithöfund á Rás 1 í Ríkisútvarpinu rétt fyrir kl. 11 þann 19. júní 2015.

Kærar þakkir, fyrir bréfið, Sigurður.

 

ENN ER FRÉTTUM OG KASTLJÓSI KASTAÐ ÚT

Samkvæmt auglýstri dagskrá Ríkissjónvarps í kvöld (22.09.2015) er fréttum og Kastljósi enn einu sinni hent út af dagskrá vegna íþrótta. Fréttastjóri ræður greinilega engu. Aftur og aftur er valtað yfir fréttastofuna. Íþróttastjóri ræður öllu. Útvarpsstjóri horfir bara á. Hversvegna eru þessar íþróttir ekki sýndar á íþróttarásinni? Eða plús-rásinni? Þetta staðfestir enn einu sinni að hjá þeim sem ráða í Efstaleiti er ekki snefill af virðingu fyrir þeim viðskiptavinum stofnunarinnar,sem ekki lifa fyrir boltaleiki. Þetta hefur verið sagt áður á þessum vettvangi og verður örugglega sagt aftur.

 

ÚTIBÚIÐ LOKAÐI

Svo lokaði útibú Landsbankans í Bolungarvík var sagt í morgunfréttum Ríkisútvarps (22.09.2015). Var útibúinu ekki lokað? Lokaði það einhverju?

 


RÉTTMÆTAR ÁBENDINGAR

Gamall vinur og skólabróðir Molaskrifara , Sigurður Oddgeirsson,sem búsettur er í Danmörku sendi eftirfarandi (15.09.2015):

,,Sá þessa fyrirsögn á visir.is:

Tölvur í kennslustofum geti haft neikvæð áhrif. Færi ekki betur á, að fyrirsögnin væri:

Tölvur í kennslustofum gætu haft neikvæð áhrif. Og undirfyrirsögn: Skv. skýrslu frá OECD.

Og meira úr sömu skúffu:

Leggja fram frumvarp um aukið persónukjör: Kjósendur eigi að hafa meira val í kjörklefanum

Leggja fram frumvarp um aukið persónukjör: Kjósendur eiga að hafa meira val í kjörklefanum segir í frumvarpinu.

Gæti reyndar einnig verið:

Leggja fram frumvarp um aukið persónukjör: Kjósendur ættu að hafa meira val í kjörklefanum segir þar.”

Kærar þakkir fyrir réttmætar ábendingar, Sigurður. Sjá m.a. Mola 1796a þar sem fjallað var um þessa sömu rangnotkun viðtengingarháttar. Þar nefndi Helgi Haraldsson prófessor emerítus í Osló mörg dæmi úr fjölmiðlum um ranga notkun á viðtengingarhætti.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1799

 

FLJÓTFÆRNI

Sigurður Sigurðarson skrifaði (19.09.2015):

Sæll,

Hér eru örfá dæmi um fljótfærnislegar villur í fjölmiðlum. Þarfnast varla skýringa:

 

Ferðalangur fær sér kaffibolla og nýtur útsýnisins yfir Havana. Airbnb hefur slegið í gegn þar í borg og skapar heimamönnum verðmætar aukatekjur.

Myndatexti í Morgunblaðinu 30. ágúst 2015, bls. 21. Eru til verðlitlar aukatekjur? Betra að tala um litlar eða miklar aukatekjur.

 

Í ein­hverj­um til­vik­um var unnið eigna­tjón, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um lög­regl­unn­ar á Suður­landi.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/14/brotist_inn_i_atta_sumarbustadi/

 

Starfs­menn verk­taka voru að von­um ánægðir þegar ljóst var að gat hafði opn­ast í gegn.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/09/17/slegid_i_gegn_i_nordfjardargongum/

 

Nægi­legs fés hef­ur verið safnað til að kaupa Concor­de-þotu …

http://www.mbl.is/frettir/taekni/2015/09/19/concorde_i_loftid_2019/.

 

Framið hafði verið morð á kærasta hennar 

Viðtal við ónefndan rithöfund á Rás 1 í Ríkisútvarpinu rétt fyrir kl. 11 þann 19. júní 2015.

Kærar þakkir, fyrir bréfið, Sigurður.

 

ENN ER FRÉTTUM OG KASTLJÓSI KASTAÐ ÚT

Samkvæmt auglýstri dagskrá Ríkissjónvarps í kvöld (22.09.2015) er fréttum og Kastljósi enn einu sinni hent út af dagskrá vegna íþrótta. Fréttastjóri ræður greinilega engu. Aftur og aftur er valtað yfir fréttastofuna. Íþróttastjóri ræður öllu. Útvarpsstjóri horfir bara á. Hversvegna eru þessar íþróttir ekki sýndar á íþróttarásinni? Eða plús-rásinni? Þetta staðfestir enn einu sinni að hjá þeim sem ráða í Efstaleiti er ekki snefill af virðingu fyrir þeim viðskiptavinum stofnunarinnar,sem ekki lifa fyrir boltaleiki. Þetta hefur verið sagt áður á þessum vettvangi og verður örugglega sagt aftur.

 

ÚTIBÚIÐ LOKAÐI

Svo lokaði útibú Landsbankans í Bolungarvík var sagt í morgunfréttum Ríkisútvarps (22.09.2015). Var útibúinu ekki lokað? Lokaði það einhverju?

 


RÉTTMÆTAR ÁBENDINGAR

Gamall vinur og skólabróðir Molaskrifara , Sigurður Oddgeirsson,sem búsettur er í Danmörku sendi eftirfarandi (15.09.2015):

,,Sá þessa fyrirsögn á visir.is:

Tölvur í kennslustofum geti haft neikvæð áhrif. Færi ekki betur á, að fyrirsögnin væri:

Tölvur í kennslustofum gætu haft neikvæð áhrif. Og undirfyrirsögn: Skv. skýrslu frá OECD.

Og meira úr sömu skúffu:

Leggja fram frumvarp um aukið persónukjör: Kjósendur eigi að hafa meira val í kjörklefanum

Leggja fram frumvarp um aukið persónukjör: Kjósendur eiga að hafa meira val í kjörklefanum segir í frumvarpinu.

Gæti reyndar einnig verið:

Leggja fram frumvarp um aukið persónukjör: Kjósendur ættu að hafa meira val í kjörklefanum segir þar.”

Kærar þakkir fyrir réttmætar ábendingar, Sigurður. Sjá m.a. Mola 1796a þar sem fjallað var um þessa sömu rangnotkun viðtengingarháttar. Þar nefndi Helgi Haraldsson prófessor emerítus í Osló mörg dæmi úr fjölmiðlum um ranga notkun á viðtengingarhætti.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1798

 

HROÐVIRKNI

Molavin skrifaði (18.09.2015): "Maðurinn, Hannibal Sigurvinsson, var gert að sök að hafa veist að ofbeldi að manni er sá sat í bifreið sinni..." Svo segir í frétt Vísis 18. sept. Ég trúi því ekki að blaðamaðurinn kunni ekki að skrifa rétt venjulegt mál - en í þessu eina broti einnar málsgreinar fréttarinnar er svo mikið klúður að maður hlýtur að skrifa ábyrgðina á hroðvirkni. Það er lágmarkskrafa að blaðamenn lesi sinn eigin texta yfir áður en hann er sendur út á Netið.- Satt segirðu, Molavin. Þakka bréfið.

 

ALLT ER STAÐSETT

Af mbl.is (16.09.2015): ,,Kerst­in er nú staðsett á Íslandi, en hún bjó í sjö ár hér á landi og lærði meðal ann­ars í Land­búnaðar­há­skól­an­um á Hvann­eyri fyr­ir um 10 árum”. Konan er á Íslandi. Þetta linnulausa staðsetningartal er í því miður í sókn, - næstum sama hvar borið er niður í fjölmiðlum..

 

VIÐ HÖFN

Í fréttum Ríkisútvarps á miðnætti á miðvikudagskvöld (16.09.2015) var okkur sagt að skip væri við höfn. Þetta hefur heyrst og sést áður. Skip eru í höfn. Skip eru við bryggjur. Liggja við bryggjur Þetta er ekki flókið. Þetta er fast í málinu. Skip eru ekki við höfn. Málfarsráðunautur mætti nefna þetta við fréttamenn.

 

EKKI BATNAR ÞAÐ

Af mbl.is (17.09.2015): ,,Ein millj­ón íbúa Chile hef­ur verið gert að yf­ir­gefa heim­ili sín vegna flóðbylgju­viðvör­un­ar í kjöl­far jarðskjálfta sem mæld­ist 8,3 stig.”. Einni milljón íbúa Chile hefur verið gert..... Þetta er einfalt. En auðvitað er ekkert af þessu tagi einfalt, ef sá sem skrifar kann ekki meginreglur málsins. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/09/17/vidtaek_ryming_vegna_skjalftans/

 

NÝTT STARFSHEITI?

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (17.09.2015)var talað um aðstoðarsendiherra Ísraels í Noregi. Þetta starfsheiti hefur Molaskrifari ekki heyrt áður. Það hefur aldrei, svo hann viti, verið notað í íslensku utanríkisþjónustunni og hann minnist þess ekki að hafa heyrt það á ensku. . Þarna hefur væntanlega verið átt við varamann sendiherra, staðgengil sendiherra. Sendiherra Ísraels í Noregi er jafnframt sendiherra Ísraels á Íslandi. Seinna kom fram í fréttum að sendiherrann var staddur í Jerúsalem. --- Í sama fréttatíma var talað um að taka einhverju trúanlega. Molaskrifari er vanari því að heyra talað um að taka eitthvað trúanlegt. Trúa einhverju.

 

 

OFNOTAÐASTA ORÐTAKIÐ

Ofnotaðasta orðtak, sem fyrir kemur í fréttum er sennilega að vinna hörðum höndum. Það er gott og gilt og gegnsætt. En það fer illa á að nota það um alla skapaða hluti hvort sem verið er að grafa göng, gera veg, byggja hús eða teikna hús. Allt er unnið hörðum höndum.

Rifjaðist upp við að heyra tönnlast á þessu dag eftir dag að Molaskrifari man ekki betur en fyrir daga sjónvarps og Skaups hafi fréttamennirnir Stefán Jónsson og Thorolf Smith í útvarpsþætti á gamlárskvöld gert endalaust grín að orðinu lyftistöng, sem þá virðist hafa verið tískuorð. Nýtt frystihús var lyftistöng, nýtt fiskiskip var lyftistöng. Svo kom held ég í ljós að lyftistöngin var bara brennivínsflaska,sem lyfti mönnum svolítið upp. Kannski er þetta misminni.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1797

ENN UM STOKKINN

Molavin skrifaði í gærkvöldi (18.09.2015): ,,Í sjónvarpsfréttum í kvöld, 18. sept. var sagt að Arnar Jónsson leikari muni ,,stíga á stokk" hjá Leikfélagi Akureyrar í fyrsta sinn í langan tíma. Hér er bull á ferðinni. Hann mun stíga á svið, eða eins og oft er sagt, stíga á fjalirnar. En meðan fréttastjóri lætur bullið viðgangast er ekki von að óreyndir fréttamenn læri.” Þakka bréfið. Í sjónvarpsfréttunum var þetta ekki sagt einu sinni, heldur tvisvar! Oft hefur verið að þessu vikið hér í Molum. Menn stíga á stokk og strengja heit. Sannarlega er hér verk að vinna fyrir málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins.

 

RÉTTMÆTAR ÁBENDINGAR

Þórhallur Jósepsson skrifaði (16.09.2015)): ,,Sæll Eður.
Stundum getur maður ekki annað en skrifað svolítinn vandlætingartexta þegar maður rekst á eitthvað sem maður ekki aðeins hnýtur um, heldur dettur kylliflatur!
Eitt sinn, kannski enn, voru nemendur á lokametrunum í grunnskólanámi prófaðir í því sem kallaðist lesskilningur. Ég hallast raunar að því það sé rangnefni, ætti frekar að vera málskilningur. Mætti leggja meiri áherslu á þann skilning. Svo sýnist mér að minnsta kosti við lestur blaða, veffrétta og hlustun á útvarp, einkum þegar blaða- og fréttamenn freistast til að nota orðatiltæki sem þeir greinilega skilja ekki og hafa enga hugmynd um hvernig eru mynduð. Þetta á reyndar ekki bara við „fréttabörnin“ heldur líka fréttamenn sem maður gæti haldið að séu eldri en tvævetur og vel mæltir á móðurmálið.
Hér eru tvö dæmi (ég tek fram að þótt þau séu bæði úr DV þýðir það aldeilis ekki að DV sé að einhverju leyti verra að þessu leyti en aðrir miðlar). Á vefnum dv.is var frásögn skreytt vídeoupptöku um stökkvandi hval og kajakræðara, þar segir: „Það fer ekki mikið fyrir því að íhuga hvort að kajakræðarnir væru heilu á höldnu.“ Þarna held ég gamli kennarinn mundi strika með rauðu á tveimur stöðum, „að“ er ofaukið á eftir hvort, „heilu og höldnu“ er ranglega notað, í fyrsta lagi skrifað „heilu á höldnu“ en einnig notað ranglega sem lýsingarorð. Greinilega þekkir blaðamaðurinn ekki þetta orðatiltæki né skilur hvernig það skuli notað. Menn geta ekki verið „heilu á höldnu“ en þeir geta komist t.d. í land „heilu og höldnu.“
Annað dæmi er tekið úr leiðara DV 15. Sept., þar segir: „Leiða má líkum að því að hátt í þúsund manns ....“ Þetta er afar algeng villa, einnig hjá t.d. margreyndum fréttamönnum Ríkisútvarpsins með áralanga reynslu að baki. Orðasambandið „að leiða líkur að“ einhverju verður ótrúlega oft „að leiða líkum að“ einhverju. Þarna er líklega um að kenna hugsunarleysi og áhrifum af t.d. „leiða má af líkum“ eða „af líkum má ráða.“ En maður leiðir ekki líkum, frekar en maður leiði börnum yfir götu eða hestum inn í gerði.
Gott væri nú að fjölmiðlamenn tækju sig til og ræktuðu málskilning sinn, góð og öflug aðferð til þess er að lesa bækur á góðu máli, t.d. Laxness, Gunnar Gunnarsson, Tómas, Sverrir Kristjánsson, Íslendingasögurnar og Biblíuna. Kveðjur, Þórhallur Jósepsson.”

Kærar þakkir, Þórhallur. Tek undir heilræði þitt. Góður texti er góður kennari. Matthías Morgunblaðsritstjóri sagði mér einu sinni, að hann hefði sagt við blaðamann, sem ekki var sterkur á svelli íslenskunnar: ,,Lestu Íslendingasögurnar”. Þegar ég fékkst við fréttamennsku reyndi ég, - um skeið að minnsta kosti, að lesa einhverja af Íslendingasögunum á hverju ári. Gott ef það var ekki fyrir hvatningu frá séra Emil Björnssyni fréttastjóra sem gerði strangar kröfur til okkar á fréttastofunni um vandað málfar.

 

STÓR AUGU

Molalesandi skrifaði (18.09.2015): ,,Veg­far­end­ur við Skóla­vörðustíg í Reykja­vík renndu upp stór augu í gær­kvöldi.”
Ekkert lát er á ambögum á mbl.is. – Rétt er að geta þess að þetta var leiðrétt síðar.

www.mbl.is/frettir/.../er_thetta_islandsmet_i_sodaskap/

3 hours ago - Vegfarendur við Skólavörðustíg í Reykjavík renndu upp stór augu í gærkvöldi. Við fyrstu sýn virtist komið nýtt listaverk í götuna.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband