25.8.2014 | 09:53
Molar um málfar og miðla 1551
Guðjón Einarsson skrifaði (22.04.2014): ,,Þú hefur sjálfsagt fett fingur út í nýjustu tískukveðjuna: Eigðu góðan dag. Þessi ensk/ameríska kveðja (Have a good day)verður sífellt algengari og í raun er hvergi friður fyrir henni. Afgreiðslufólk í búðum kveður mann með þessum orðum og í sms skeyti frá N1 þar sem minnt er á einhverja afslætti á bensíni eru lokaorðin þessi: Eigðu góðan dag! Og samt er svo einfalt að segja "njóttu dagsins" í staðinn og tekur ekkert meira pláss. Molaskrifari þakkar Guðjóni bréfið og þarfa áminningu. Þetta hefur verið nefnt í Molum fyrir margt löngu. En gott að minna á þetta að nýju. Molaskrifari hefur lengi látið þetta fara svolítið í taugarnar á sér, en hugsað til þess að verið er að bera fram góða ósk, þótt orðalagið sé enskt/amerískt og heldur hvimleitt.
Fyrsti Vesturfaraþáttur Egils Helgasonar, sem Ríkissjónvarpið sýndi íá sunnudagskvöld (24.08.2014) lofar góðu. Þættirnir verða alls tíu. Myndvinnsla og framsetning með ágætum. Víða leitað fanga. Það er tilhlökkunarefni að fá að sjá og heyra meira um sögu og afdrif Íslendinganna sem fóru vestur um haf. Þar er mikil saga ósögð enn, þótt margt gott hafi verið skrifað og skráð.
K.Þ. skrifaði Molum /22.04.2014) og sagði:,, Í Speglinum í kvöld, í umræðu um lífsýni og rannsóknir, var talað um "bættari" heilbrigðisþjónustu ... Molaskrifari þakkar bréfið og segir: Ja, hérna. Alltaf batnar það!
Hvernig er farið að því að rýma íbúa eins og sagt var frá í fréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (23.08.2014). Molaskrifari áttar sig ekki á því hvernig sú aðgerð fer fram. Vísa til athugasemdar sem Egill Þorfinnsson skrifaði um þetta við Mola 1550 og sjá má á www.eidur.is
Í leiðbeiningum um samgöngur á Menningarnótt,sem birtar voru í Fréttatímanum sem kom út á fimmtudag (21.08.2014) segir: ,, ... ásamt því að aka að og frá Hlemmi þar sem allar venjulegar leiðir sem aka um miðbæinn munu stöðva. Munu leiðirnar aka? Munu leiðirnar stöðva? Hvað munu þær stöðva? Fremur óvandað orðalag, - sennilega hrátt úr fréttatilkynningu frá aðstandendum Menningarnætur.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.8.2014 | 09:08
Molar um málfar og miðla 1550
Mikið hefði verið gaman, ef Ríkissjónvarpið hefði nú ,,spanderað á okkur beinni útsendingu á BBC Proms tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Ísland í gærkveldi (21.08.2014). En þetta var auðvitað ekki fótboltaleikur.
Þess í stað var tónleikunum útvarpað upp á gamla mátann á Rás eitt. Hlustendafjöldi? Hvaða segja kannanir?
Þeir, sem hafa aðgang að BBC4, gátu hinsvegar notið frábærra BBC Proms tónleika frá 17.þessa mánaðar til minningar um fyrri heimsstyrjöldina. Yfirskriftin var Prom 42:Lest We Forget, - Svo við ekki gleymum. Þar flutti skoska BBC sinfónían verk eftir þrjú ung tónskáld,sem öll létu lífið í styrjöldinni svo og Pastoral sinfóníu Vaughan Williams. Konfekt.
Barn bitið af kameldýri, sagði í fyrirsögn á mbl.is (21.08.2014). Allsendis óþörf þolmynd. Kameldýr beit barn. Forðast skal óþarfa þolmyndarnotkun í fréttaskrifum, - og raunar öllum skrifum.
Molaskrifari leyfir sér að spyrja: Hver árinn er þetta Rúvak, sem alltaf var verið að tönnlast á í auglýsingatíma Ríkisútvarps eftir hádegið á fimmtudag (21.08.20145)? Var verið að tala um útibú, eða starfsstöð Ríkisútvarpsins á Akureyri?
Í auglýsingablaði frá Hamborgarafabrikkunni sem fylgdi Morgunblaðinu á fimmtudag (21.08.2014) var talað um Happy hour, - hversvegna þarf að nota ensku? Má ekki kalla þetta gleðistund? Annars var verið að auglýsa áfengi, sem til boða stæði á tilteknum tímum.
Molaskrifari heyrði síðdegis á fimmtudag og á fimmtudagskvöld að Ríkisútvarpið ætlar að halda því til streitu að láta okkur hlusta á þul, sem les með hvimleiðum sönglanda og óeðlilegri hrynjandi, - ef við viljum hlusta á Rás eitt. Það ætti að fá þessum starfsmanni annað starf. Stingur mjög í stúf við góða þuli Ríkisútvarpsins. Er það svo að stjórnendur heyri þetta ekki ? Kannski hlusta þeir ekki.
Alvarleg tíðindi voru flutt í fréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (20.08.2014). Vaxplötusafn , segulbandasafn og myndbandasafn Ríkisútvarpsins liggja undir skemmdum. Efni er að hverfa; bókstaflega gufa upp og verða að engu og vaxplötur molna og eyðileggjast. Þetta er alvarlegt mál. Nú þarf yfirmaður Ríkisútvarpsins, menntamálaráðherra, að grípa í taumana. Við látum okkur annt um handritinn, menningararfinn. Upptökurnar í safni Ríkisútvarpsins eru handrit vorra tíma. Þetta er þjóðarsagan. Menningarsaga. Ætlum við að láta hana fara forgörðum? Ætlum við að sitja með hendur í skauti meðan sagan hverfur í glatkistuna ? Auðvitað ekki. Hér þarf að taka til höndum. Skora á menntamálaráðherra að láta nú hendur standa fram úr ermum og gera ráðstafanir til að bjarga ómetanlegum verðmætum, sem ekki mega fara forgörðum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2014 | 09:34
Molar um málfar og miðla 1549
Glöggur lesandi benti Molum á þetta á dv.is (19.08.2014) í þeim efnisflokki sem kallast Menning. ,,Glænýrri starfsstöð Grunnskóla Grindavíkur, Bókasafns Grindavíkur og tónlistarskólans við Ásabraut vantar nafn. Glænýrri starfsstöð vantar nafn! Það var og. https://www.dv.is/menning/2014/8/19/gefa-spjaldtolvu-i-nafnasamkeppni/
Mikið var talað um saksónara í fréttum Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld (19.08.2014). átt var við saksóknara. Dálítið undarlegt að reyndur fréttamaður skuli ekki geta komið þessu óbrengluðu til okkar. Hefur verið nefnt áður í Molum.
Í fréttum Stöðvar tvö af eldsvoða á mánudagskvöld (18.09.2014) sagði fréttamaður að reykur lægi frá húsinu. Hann átti við að reyk hefði lagt frá húsinu, það rauk úr húsinu. Það lagði frá því reyk.
Af mbl.is (19.08.2014): ,,Hann segir stjórnendum framhaldsskóla hafa stafað ógn af busavígslum undanfarin ár og það hafi gerst að þær hafi farið alveg úr böndunum. Molaskrifari leyfir sér að halda því fram að hér hafi ekki verið notað rétt orðalag. Stjórnendum framhaldsskóla hafi ekki staðið ógn af busavígslunum. Þeir hafi ekki hræðst þær. Þeir hafi hins vegar verið andvígir busavígslunum og viljað að þeim yrði hætt, þær afnumdar, sem er allt annar handleggur. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/08/19/vilja_afnema_busavigslur
Stundum ættu blaðamenn að laga klaufalegt orðfæri blaðafulltrúa. Eða hvað? Á mbl.is (19.08.2014) er haft eftir blaðafulltrúa Eimskipafélags Íslands: ,, Það var alveg sorglegt að geta ekki siglt nýju skipi til Íslands undir íslenskum fána vegna þess að umhverfið hér á landi sé ekki vinveitt skráningu kaupskipa..... Alveg sorglegt????
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2014 | 07:28
Molar um málfar og miðla 1548
Það kom berlega í ljós um síðustu helgi, þegar Lagarfoss Eimskipafélags Íslands kom til landsins, hversu lélega fjölmiðlun við búum við. Ríkissjónvarpið sagði okkur að skipið sigldi undir fána Nýfundnalands! Þeirri firru voru gerð skil í Molum 1545 sl. mánudag. Á visir.is var talað um vígsluathöfn! ,, Að lokinni vígsluathöfn bauðst almenningi að skoða nýjasta skipið í skipaflota okkar Íslendinga sem fjölmargir nýttu sér. Það var engin vígsla, þótt prestur blessaði skipið, en dálítið hallærislegt að fá konu til að gefa skipinu nafn! Það var búið að gefa skipinu nafn áður en það fór frá Kína fyrir mörgum vikum. Svo er þetta skip ekki í skipaflota okkar. Þetta er hentifánaskip. Skráð í Vestur Indíum.
Morgunblaðið sagði í fimm dálka fyrirsögn á mánudag (18.08.2014) Lagarfoss er kominn heim. Þetta er út í hött. Skipið hefur ekki heimhöfn á Íslandi og Eimskipafélag Íslands er ekki lengur í eigu Íslendinga. Þarna kristallast hve léleg vinnubrögð viðgangast stundum á íslenskum fjölmiðlum. Sjá: http://www.visir.is/bodar-endurnyjun-skipaflota-eimskips/article/2014140819114
,, Hið sögufræga Gröndalshús verður komið fyrir í Grjótaþorpinu að Vesturgötu 5. Af mbl.is (18.08.2014). Jæja, Moggi. Þorði fréttaskrifarinn ekki að byrjan fréttina rétt? ,,Hinu sögufræga Gröndalshúsi verður komið fyrir ...? Les enginn yfir? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/08/18/grondalshus_a_nyjan_stad/
Nokkuð algengt er að netmiðlar birti myndir með fréttum, sem ekkert tengjast fréttinni. Á mánudag (18.07.2014) var frétt á mbl.is um tvær flutningalestir, sem skullu saman, í Bandaríkjunum. Með fréttinni var mynd af lest, sem greinilega var farþegalest eins og notaðar eru innan borgarsvæða eða á stuttum leiðum. Ekki vöruflutningalest.
Ekki fagleg vinnubrögð. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/08/18/tveir_forust_thegar_lestir_skullu_saman/
Fiskalíf dafnar í Jökulsá á Dal segir í fyrirsögn í Fréttablaðinu (19.08.2014) Fiskalíf? Er ekki átt við að fiskur dafni vel í ánni, veiði sé góð eða að glæðast? Sennilega.
Mál Dagnýjar og Samuels svipar til mála sem fjallað var um í fjölmiðlum í maí síðastliðnum. Úr DV (19.-21.08.2014). Hér hefði átt að standa: Máli Dagnýjar og Samuels svipar til mála, .... Enginn les yfir. Ekki frekar en fyrri daginn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.8.2014 | 05:35
Molar um málfar og miðla 1547
Slettusögnin að ,,tækla ( e. tackle) mun vera úr íþróttamáli, fótboltamáli, og þýða að ná, eða reyna að ná, boltanum frá andstæðingi. Á forsíðu Morgunblaðsins á sunnudag (17.08.2014) segir í aðalfyrirsögn: ,, Fjölskyldufaðir tæklar Inter Milan,,.Molaskrifari er væntanlega ekki einn um að skilja þetta illa. Þykist þó sæmilegur í ensku. Svona sletta á ekki erindi á forsíðu Morgunblaðsins. Inni í blaðinu (bls.44) er svo þversíðufyrirsögn: Rúnar tæklar risann frá Mílanó með bros á vör. Það er af sem áður var, þegar Morgunblaðið var til fyrirmyndar um málfar.
Á fésbók um helgina vakti Páll Bragi Kristjónsson athygli á viðtali við Þröst Helgason , dagskrárstjóra Rásar eitt í Ríkisútvarpsins sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Hann kvaðst hugsi eftir lestur viðtalsins. Í setningu sem virðist tekin úr viðtalinu og birt með stærra letri (en er þó ekki bein tilvitnun) á síðunni segir: ,,Menningarblaðamennska snýst um ,,attitjúd og hafi maður það ekki á maður ekkert erindi í hana. Lesbókin var með ,,attitjúd í minni tíð og Rás 1 mun vera það líka. Molaskrifari skilur þetta ekki alveg heldur. Hann er líka hugsi. Hann átti svolítil samskipti við þennan ágæta mann eftir að sá tók við Lesbók Morgunblaðsins. Afstaða hans (attitjúd?) þá kom Molaskrifara á óvart. Önnur en hann átti að venjast þaðan. en það er önnur saga.
Merkilegasta og skemmtilegasta frétt sem Molaskrifari hefur lengi séð (sérvitur kannski) var í fréttum Ríkissjónvarps á þriðjudagskvöld (19.08.2014) um ferðalag heiðagæsa sem senditæki og staðsetningartæki höfðu verið sett á. Merkilegir fuglar og vitrir. Skynugri en menn hafði órað fyrir. Hafa meira vit en margir ferðalangar! Gaman að þessu.
Heldur þótti Molaskrifara hvimleitt á hlusta á þul í Ríkisútvarpinu á laugardag og sunnudag og eftir helgina ,sem talaði með einkennilegri hrynjandi og óeðlilegum áherslum. Ekki á réttri hillu. Þulir á Rás eitt annars frábærir. Alma Ómarsdóttir sem las tíu fréttir á laugardagskvöld mundi einnig sóma sér prýðilega sem þulur. Heyra ráðamenn í útvarpinu okkar þetta ekki? Eða er þeim sama? Á fésbók hefur Molaskrifari séð að hann er ekki einn um þessa skoðun.
Molaskrifara þótti dálítið skondið að heyra frá því sagt í fréttum fyrir helgina að senn ættu íslenskir neytendur þess kost að kaupa hamingjusama (steindauða) kjúklinga. Þetta minnti skrifara svolítið á sögu sem hann heyrði úr sláturhúsi á Vesturlandi fyrir löngu. Þar háttaði þannig til að féð var rekið til slátrunar upp svolitla brekku innanhúss. Sá sem hafði það hlutverk að reka kindurnar upp brekkuna var spurður hvort ekki væri erfitt að fá þær til að fara upp þessa hallandi braut þar sem ,,böðullinn beið. - Nei, nei. Þær venjast þessu, svaraði hann.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.8.2014 | 08:08
Molar um málfar og miðla 1546
Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (15.08.2014) : ,,Mekhissi-Benabbad var dæmdur úr keppni fyrir fagnarlætin og missti þar með að gullverðlaununum og titlinum. Mekhissi-Benabbad hafði sigrað í þessari greina á EM á síðustu tveimur mótum og var hann að vonum sár og svekktur að hafa misst af þriðja Evrópumeistaratitlinum í þessari grein.
Mekhissi-Benabbad fékk í fyrstu aðeins gult spjald frá dómara keppninnar en var síðar dæmdur úr leik eftir að Spánverjar höfðu lagt fram formlega kvörtun. Spánverjar áttu keppendur í fjórða og fimmta sæti og fengu þar með bronsverðlaun.
Ofangreind tilvitnun er úr pressan.is. Í þremur málsgreinum í röð tilgreinir höfundur nafn eins manns. Þetta er oft kallað nástaða og mega lesendur velta fyrir sér ástæðunni. Hvort það er af því að sama nafn (eða orð) standa of nálægt hverju öðru eða hvort nafngiftin sé svona dauðans leiðindi. Í þokkabót treður höfundurinn orðinu Spánverjar inn í tvær samliggjandi málsgreinar. Prófaðu að lesa ofangreinda tilvitnun upphátt og þá heyrist hversu leiðinlegur textinn verður. Þeir sem hafa atvinnu sína af skrifum í fjölmiðla þurfa nauðsynlega að vanda mál sitt og ekki síður huga að stíl og framsetningu. Molaskrifari þakkar bréfið. Missti af verðlaununum. Ekki að verðlaununum.
Ágætur umsjónarmaður þáttarins Vikuloka á rás eitt í Ríkisútvarpinu þarf að venja sig af því að sletta. Undir lok þáttar á laugardag (18.06.2014) talaði hann um að menn óttuðust að deilur mundu eskalerast (e. escalate) aukast, magnast. Það á að nota orð sem fólk almennt skilur. Ekki sletta.
Hefði verið rétt af ráðherra að stíga alfarið til hliðar, sagði fréttamaður Ríkisútvarps (18.06.2014). Fréttamaður átti við hvort ráðherra hefði ekki átt að segja af sér. Formaður VG talaði líka um hvort ráðherra hefði ekki átt að stíga til hliðar. Étur hér hver eftir öðrum. Eins og svo oft áður.
Það er dálítið undarlegt, að Eimskipafélag Íslands skuli bjóða nýtt skip, Lagarfoss, ,,velkominn heim eins og gert var í auglýsingum um helgina, þegar skipið kom til Reykjavíkur. Skipið á ekki heimahöfn á Íslandi. Lagarfoss er hentifánaskip eins og önnur skip þessa ,,óskabarns þjóðarinnar. Heimahöfnin er St. Johns, sem er stærsta borgin og höfuðborg Antigua og Barbuda Í Vestur Indíum í Karíbahafi. Að þessu hefur áður verið vikið í Molum
Í fréttum Ríkisútvarps á laugardag (16.08.2014) var aftur og aftur sagt að Hillary Clinton hefði verið hljóðrituð. Samtöl við hana voru hljóðrituð. Eins gott að hún var ekki afrituð! Kannski er þetta orðalag allt í lagi?
Smámunir, kannski: Í hádegisfréttum Bylgjunnar (16.08.2014) var fimm eða sex sinnum talað um hernaðargögn. Hvað varð um hið ágæta orð hergögn? Styttra, betra.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.8.2014 | 08:49
Molar um málfar og miðla 1545
Einstaklega aumingjalegt viðtal var við forstjóra Eimskipafélags Íslands í fréttum Ríkissjónvarps á sunnudagskvöld (17.08.2014). Forstjórinn var spurður hversvegna nýtt skip, Lagarfoss, væri ekki skráð á Íslandi. Forstjórinn svaraði út og suður og við vorum nákvæmlega engu nær. Kranablaðamennska.
Sagt var, að Lagarfoss sigldi undir fána Nýfundnalands! Firra. Nýfundnaland hefur ekki sérstakan fána. Það er hluti af Kanada. Lagarfoss er svokallað hentifánaskip, eins og öll skip ,,óskabarns þjóðarinnar ekki skráð á Íslandi , heldur í St. Johns í Vestur Indíum, höfuðborg Antigua Babuda. Óvönduð vinnubrögð.
Hversvegna er íslenski fáninn í hálfa stöng í sjónvarpsauglýsingum frá fyrirtækinu, sem selur BKI kaffi?
Líf og störf lögreglumanna, líf og störf slökkviliðsmanna, líf og störf skurðlækna. þetta virðast samkvæmt prentaðri dagskrá vera ær og kýr þeirra starfsmanna Ríkissjónvarpsins sem skammta okkur efni á skjáinn. Dálítið furðulegt.
Molaskrifari er ekki á því að það séu fagleg vinnubrögð hjá fréttastofum sjónvarpsstöðvanna að láta verjendur í sakamálum halda langar varnarræður fyrir skjólstæðinga sína í fréttatímunum. Þetta var sérstaklega áberandi á Stöð tvö á fimmtudagskvöld (14.08.2014).
Bílalest Rússa hefur nú stöðvað skammt frá landamærunum ... var sagt í fréttum Ríkisútvarps á fimmtudag (14.08.2014). Hvað stöðvaði bílalestin? Molaskrifari er á því að sögnin að stöðva sé áhrifssögn og ætti þess vegna að taka með sér andlag. Hann stöðvaði bílinn. Þarna var átt við að bílalestin hefði stansað eða numið staðar.
Í undirfyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins (15.08.2014) sagði: Eigandi Bílabúðar Benna segir almenning farinn að kaupa stærri bíla en í fyrra. Kannski sérviska, en Molaskrifari hefði sagt: Eigandi Bílabúðar Benna segir stóra bíla seljast betur en í fyrra.
Í fréttum Ríkissjónvarps (15.08.2014) var talað um mann sem framdi óvopnað rán. Ekki fannst Molaskrifara þetta vel að orði komist.
Skylt er að geta þess að á laugardag (16.08.2014) svaraði Þröstur Helgason dagskrárstjóri Ríkisútvarps fyrirspurn Molaskrifara um niðurstöður hlustendakönnunar varðandi hlustun á Orð kvöldsins, Morgunbæn og Morgunandakt, sem nú á að varpa fyrir róða. Svar Þrastar: ,,Hlustun á Morgunbæn og Morgunandakt er um og undir hálfu prósenti og fór niður í 0,1 prósent í síðustu viku. Hlustun á Orð kvöldsins er iðulega svipuð og á tíufréttir eða um 1,5%. Þessar prósentutölur segja Molaskrifara ákaflega lítið. Hve margir hlustendur voru þetta og er það rétt að engir séu spurðir álits sem eru eldri en 64 ára? Má ekki einmitt búast við að margir hlustendur þessara þátta séu eldri en 64 ára? Hversvegna talar Ríkisútvarpið ekki við þá sem eru eldri en 64 ára? Eru þeir dæmdir úr leik? Molaskrifari verður 75 ára , í haust , ef guð lofar. Hann telur sig enn þokkalega virkan og alveg bæran til að hafa skoðanir bæði á útvarpsefni og sjónvarpsefni. Stjórnendur Ríkisútvarpsins eru greinilega annarrar skoðunar. Eldri en 64 ára skipta ekki máli. Eru ekki til. Ef hlustun á Orð kvöldsins,sem á að leggja niður er álíka mikil og á tíu fréttir er þá ekki rétt að leggja tíu fréttirnar niður líka? Það gæti sjálfsagt skapað ,,aukið flæði og dýnamik svo notuð séu orð dagskrárstjórans.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2014 | 09:16
Molar um málfar og miðla 1544
Það er gott að hafa aðgang að fréttum , þótt á ensku sé, allan sólarhringinn. Aumingjaskapur og metnaðarleysi Ríkisútvarpsins okkar kristallast í yfirlýsingunni sem við heyrum á hverju kvöldi í lok frétta á miðnætti: Næstu fréttir verða klukkan sjö í fyrramálið. Sennilega er þetta met hjá útvarpsstöð sem rekin er fyrir almannafé og á að halda uppi fréttaþjónustu allan sólarhringinn. Það svíkst Ríkisútvarpið um að gera . Og kemst upp með það. Í morgun (16.08.2014) féll reyndar niður í útsendingu upphaf fréttatímans klukkan sjö. Engin afsökun. Engin skýring. Ekki frekar en fyrri daginn. Kannski tók enginn eftir þessu í Efstaleitinu.
Edda sendi Molum línu (14.08.2014) vegna fréttar í Ríkisútvarpinu. Hún segir:
,,Frétt á Rúv áðan, vegna leitar að ungum manni sem er með stutt SKOLHÆRT hár. Skolhært hár!. Það var og. Þakka ábendinguna.
Úr fréttum Stöðvar tvö (13.08.2014): Þessum svörum fylgdi þó ekki hver afdrif málanna varð. Molaskrifari er á því að hér hefði átt að segja: .... hver afdrif málanna urðu.
Ofnotkun orðsins staðsettur er algeng. Í morgunþætti Rásar eitt (14.08.2014) var okkur sagt frá golfvelli sem væri staðsettur 15 km fyrir utan Brighton. Golfvöllurinn var 15 km fyrir utan Brighton.
Íþróttafréttamenn hafa mikið dálæti á orðunum varnarlega og sóknarlega. Í Morgunblaðinu á fimmtudag (14.08.2014) var haft eftir upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar að ,,júlímánuður hafi verið mjög erfiður veðurfarslega. Hann átti við, að vegna veðurs í júlí hefði verið erfitt að vinna við malbikun.
Ekki gat Molaskrifari betur heyrt en dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins segði í útvarpsviðtali (14.08.2014), að bænir í útvarpi væru barn síns tíma. Nútímastefna, eða módernismi hafa greinilega tekið völdin í Ríkisútvarpinu. Var þessi stutta morgunbæn fyrir einhverjum? Borið var við lítilli hlustun. Hvernig væri nú að gera hlustendakannanir Ríkisútvarps, fyrir bæði útvarp og sjónvarp aðgengilegar á netinu? Það væri fróðlegt að sjá þær tölur, ekki síst hvað sjónvarpið áhrærir. Molaskrifari sendi (15.08.2014) dagskrárstjóra Ríkisútvarpsins fyrirspurn í tölvupósti um hlustendafjölda þeirra þátta, sem nú á að fella niður. Þeirri fyrirspurn hefur ekki verið svarað.
Þetta eru sjálfsagt ríkisleyndarmál, sem hlustendum og eigendum Ríkisútvarpsins koma ekkert við. Einkamál starfsmanna.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (14.08.2014) var sagt: NN ræddi við NN fréttamann. Molaskrifari hefði haldið að þetta hefði átt að vera á hinn veginn: NN fréttamaður ræddi við NN. Kannski var verið að taka viðtal við fréttamanninn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.8.2014 | 08:31
Molar um málfar og miðla 1543
Rafn skrifaði (13.08.2014): Sagt er: ,,x hefur veitt fjármunum til verkefnisins. Á að vera veitt fjármuni til verkefnisins. Fjármunir eru ekki vatn. Menn veita vatni á akra, en veita peninga til verka. Molaskrifari þakkar þarfar ábendingar.
Einhverra hluta vegna stóð ég í þeirri trú, að það hefði verð veitt fé til þess verks, sem um er rætt. Ég hefi ekki orðið þess var að fjárveitingaaðilar (fyrirgefðu orðskrípið) gerðu mikið af því að útdeila fjármunum, þótt vissulega megi nýta veitt fé til fjármunakaupa. Molaskrifari þakkar Rafni bréfið.
Sigurður Sigurðarson skrifaði (13.08.2014): ,,Framherjinn Guðjón Baldvinsson mun gerast lærisveinn Ólafs Kristjánssonar hjá danska úrvalsdeildarfélaginu Nordsjælland í vetur ef að líkum lætur. Nordsjælland freistaði þess á dögunum að fá Guðjón frá sænska úrvalsdeildarfélaginu Halmstad strax í sumar en án árangurs.
Svo segir í íþróttablaði Morgunblaðsins 13. ágúst 2014. Leikmenn íþróttaliða eru ekki lærisveinar þjálfarans, sérstaklega ekki þegar þeir eru að hluta eða öllu leiti atvinnumenn í íþrótt sinni. Og jafnvel áhugamannalið byggja ekki á lærisveinum.
Þjálfarinn er verkstjórinn og leikmenn eru starfsmenn jafnvel þó þeir geti lært sitt af hverju af þjálfaranum þá er það oft þannig að sá síðarnefndi lærir líka af hinum.
Þetta er eins og að halda því fram að fréttamenn á Ríkisútvarpinu séu lærisveinar fréttastjórans svo dæmi sé tekið. Molaskrifari þakkar Sigurði bréfið.
Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 1700 á mánudag (11.08.2014) sagði fréttamaður í fyrra sumar. Hrós fyrir það. Nær alltaf er sagt nú orðið, - upp á enska vísu,- síðasta sumar. Molaskrifari heyrði því miður ekki hver það er, sem á hrósið skilið. Hann kom inn í miðjan fréttatímann og heyrði lesara ekki kynntan. . Fréttatíminn er ekki aðgengilegur á netinu.
Í morgunfréttum Ríkisútvarps 813.08.2014): var sagt : ... ekki megi greiða fjármuni úr ríkissjóði án fenginni heimild Alþingis. Hér hefði átt að segja, - til dæmis: .. ekki megi greiða fjármuni úr ríkissjóði án heimildar Alþingis, - eða ekki megi greiða fjármuni úr ríkissjóði nema að fenginn heimild Alþingis. Fleira var reyndar athugavert við orðalag í þessum fréttatíma.
Á þriðjudagskvöld ( 12.08.2014) var í fréttum Ríkissjónvarps talað um að brúa gat. Ekki kann Molaskrifari að meta það orðalag. Menn brúa bil, fylla upp í göt, eða loka götum. Hefur verið nefnt áður í Molum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2014 | 08:08
Molar um málfar og miðla 1542
,,Blaðamenn Vísis eru ófeimnir við að birta rangar og kjánalegar þýðingar í fréttum sínum og setja stoltir nafn sitt með. Í frétt um ebólufaraldur (9. ágúst) segir m.a. "Jeremy Farrar, forstjóri Wellcome-safnaðarins, segir að það sé enn mjög ólíklegt að ebólufaraldurinn muni verða að heimsfaraldri þótt íbúum Vestur-Afríku standi enn gríðarleg hætta af veirunni." Sjóðurinn The Wellcome Trust og stofnun hans, The Wellcome Foundation verða seint talin í hópi sértrúarsafnaða. Sjóðurinn hefur kostað vísindastarf, sem leitt hefur til mikilla framfara í læknavísindum eins og lesa má um á heimasíðunni:
Það verður varla hægt að segja að mistök hendi blaðamenn Vísis. Þau eru orðin meginregla þar og gera þennan vettvang gjörsamlega ónothæfan sem fjölmiðil. Molaskrifari þakkar bréfið.
Rafn benti á frétt á mbl.is (11.08.2014). Fyrirsögnin er:
Aftur að komast hreyfing á nýbyggingu fjósa:
Hann segir: ,,Er ekki rétt að fá betri byggingameistara, ef nýbyggingar eru farnar að skríða út um allar grundir?? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/08/11/hreyfing_a_nybyggingu_fjosa/
Rafn bendir einnig á þessa frétt á mbl.is http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/08/11/midaverd_a_landsleiki_haekkar_um_30_prosent/
Hann segir: ,,Í fréttinni er hækkun úr 4.000 kr í 5.500 kr sögð nema 30% og hækkun úr 2.000 kr í 2.500 kr sögð nema 20%. Samkvæmt þeim reikningi, sem tíðkaðist á mínum skólaárum eru þetta hins vegar 37,5% og 25%. Athygli vekur einnig, að þriðja hækkunin, úr 3.000 kr í 3.500 kr, er réttilega sögð um 17% (er 16,67%). Eru þetta blaðabörnin ellegar íþróttafréttamennirnir??
Nú veit Molaskrifari ekki, en ekki er þetta góður reikningur eins og Rafn bendir á.
Molaskrifari þakkar bréfin.
Undarlegt viðtal fréttamanns Ríkissjónvarps á Austurvelli á mánudagskvöld (11.08.2014) við varaformann fjárlaganefndar. Fréttamaður lét algjörlega vera að spyrja varaformanninn um neitt sem skipti máli og vék ekki einu sinni að furðulegum ummælum hans um Landspítalann fyrir fáeinum dögum. Ágætis dæmi um kranablaðamennskuna sem nú ríður húsum íslenskra fjölmiðla.
Í Víðsjá á Rás eitt (12.08.2014) var boðað að fjallað yrði um ,,enduruppgerðir á módernískum byggingum. Molaskrifari játar að þessi boðaða umfjöllun vakti ekki áhuga hans. Enduruppgerð?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)