5.9.2014 | 09:33
Molar um málfar og miðla 1561
Takk fyrir Nótuna 2014, uppskeruhátíð tónlistarskólanna,sem var á dagskrá Ríkisjónvarpsins á miðvikudagskvöld (03.09.2014). Það var reglulega gaman að hlusta og horfa á unga tónelska snillinga. Ekki var verra að heyra þarna verk eftir gamlan vin og skólabróður Árna Egilsson. En hversvegna var I dovregubbens hall eftir Grieg kynnt á ensku (In the Hall of the Mountain King)? Molaskrifari sá reyndar ekki betur en fleiri verk, sem ekki voru ensk, væru kynnt undir enskum titlum.
Hafa stjórnvöld hlúið nógu vel að þessari atvinnugrein, spurði fréttamaður Stöðvar í fréttum (03.09.2014). Hafa stjórnvöld hlúð nógu vel að þessari atvinnugrein, hefði hann betur sagt. Svo sagðist fréttamaður (tvisvar sinnum)vera staddur í Skarfsbakkahöfn. Hann var á Skarfabakka í Sundahöfn. Þar að auki sáum við á myndinni að lystiskipið í bakgrunni hét Adventure of the Seas ekki Adventures of the Seas eins og fréttamaður sagði. Smáatriðin þurfa líka að vera í lagi. Séu þau ekki í lagi, eru fréttirnar ekki í lagi.
Á tuttugustu og fjórðu mínútu bar til tíðinda, sagði íþróttafréttamaður Stöðvar tvö (03.09.2014). Eðlilegra hefði verið að segja: Á tuttugustu og fjórðu mínútu dró til tíðinda, eða á tuttugustu og fjórðu mínútu bar það til tíðinda að ....
Það var hálfundarlegt að horfa og hlusta á vandræðalegar skýringar bæjarstjórans í Kópavogi í fréttum Stöðvar tvö á Miðvikudagskvöld (03.09.2014) á boðsmiðum til bæjarfulltrúa og maka á tónleika Justins Timberlake í Kórnum í Kópavogi.
Endalausir lögguþættir og læknaþættir eru ær og kýr Ríkissjónvarpsins. Getur einhver skýrt þetta makalausa dálæti Ríkissjónvarpsins okkar á þessari tegund sjónvarpsefnis sem yfirleitt rís ekki mjög hátt eða ristir djúpt? Meinlaust að svona efni fljóti með. En í núverandi skömmtum er þetta algjör ofrausn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2014 | 09:55
Molar um málfar og miðla 1560
Í Kastljósi (02.09.2014) heyrði Molaskrifari ekki betur en kynnir segði að lögreglan segðist ekki geta tjáð sig um einstaka mál. Hefði fremur átt að vera,- segðist ekki geta tjáð sig um einstök mál.
Pjetur Haftsein Lárusson spurði á fésbók (02.09.2014): ,,Eiður, hvað segir þú um það, sem ég heyrði í fréttum Ríkisútvarpsins á mánudaginn var, "að hvergi séu fleiri háskólar á mann, en á Íslandi?" Getur það hugsast, að það séu fleiri háskólar í landinu en 320.000? Það skyldi þó ekki vera, að réttara hefði verið að orða þetta á þann veg, að hvergi væru færri íbúar á hvern háskóla, en á Íslandi? Að sjálfsögðu Pjetur. Hárrétt. Klaufalegt orðalag.
Í tíufréttum Ríkisútvarps (03.09.2014) var talað um sigurvegara kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. ,,Sigurvegari Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs, hlýtur að launum 350.000 danskar krónur, eða um 7.5 milljónir íslenskra króna. Sigurvegari verðlauna? Ekki þykir Molaskrifara það orðalag vera til fyrirmyndar.
Enn má á vef Ríkisútvarps ruv.is lesa þessa setningu: ,, Skipulagður niðritími ruv.is Sennilega les málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins ekki vefinn. Þá hefði þessi setning ekki fengið að standa þarna óbreytt og óáreitt dögum saman.
Það var fengur að nýrri heimildamynd um Stríðsherrana í Úkraínu frá BBC Panorama sem Ríkissjónvarpið sýndi á þriðjudagskvöld ( 02.09.2014). Aðeins virðist vera að kvikna lífsmark í Efstaleiti varðandi efnisval því nú ber það við að stöku sinnum eru sýndar nýjar heimilda- og fréttaskýringamyndir eins og hér hefur svo oft verið hvatt til. Þetta hefur ekki þekkst í Ríkissjónvarpinu í mörg herrans ár. Í Vikudagskrá sem dreift er í Garðabæ og víðar kynnti að vísu allt annað sjónvarpsefni til sögunnar þetta kvöld. Ekki í fyrsta skipti, sem þar eru rangar upplýsingar um sjónvarpsdagskrána. En takk fyrri tímabæra mynd um efni sem er efst á baugi.
Það sem af er af þessu ári, var sagt í Spegli Ríkisútvarpsins (03.09.2104). Það sem af er þessu ári, - hefði dugað.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2014 | 09:43
Molar um málfar og miðla 1559
Rafn benti á eftirfarandi á Moggavef (02.09.2014) og segir:,,Það er víðar England en í Kaupmannahöfn!
Í mínu ungdæmi var Rendsburg bær í S-H, en ekki öfugt. Sjá : http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/09/01/starfsmadur_skattstofu_skotinn/ ,,Starfsmaður á skattstofu í bænum Schleswig-Holstein í Rendsburg í Þýskalandi lést á sjúkrahúsi eftir að hafa verið skotinn á skattstofunni í morgun. Þetta kemur fram á fréttaveitunni The Local.
í heimildinni sem vísað er til segir: ,,A tax office worker in the Schleswig-Holstein town of Rendsburg died in hospital after being shot on Monday morning. Sá sem þýddi er annaðhvort hroðvirkur eða ekki vel að sér í ensku. Nema hvort tveggja sé. Molaskrifari þakkar Rafni ábendinguna.
Af slysni hlustaði Molaskrifari smástund á Virka morgna á Rás tvö í Ríkisútvarpinu á mánudagsmorgni (01.09.2014). Hlustar yfirleitt aldrei á þennan þátt, því þar er oftar en ekki framreidd ambögusúpa fyrir hlustendur. Umsjónarmenn sögðu hlustendum að tekist hefði að bjarga verðmætum jarðskjálftamæli undan hraunelfu. Hvorugt þeirra hafði fyrr heyrt orðið elfa og vissu greinilega ekkert í sinn haus. Hvaða kröfur gerir Ríkisútvarpið til þeirra sem falið er að stjórna þriggja klukkustund dagskrá í Ríkisútvarpinu fimm daga í viku ? Greinilega ekki miklar.
Ótrúlegt vatnsfall í Kaupmannahöfn er fréttabarnsfyrirsögn á visir.is (31.08.2014) http://www.visir.is/otrulegt-vatnsfall-i-kaupmannahofn/article/2014140839892
Fréttin er um óvenjulega mikla úrkomu í Kaupmannahöfn.
Í fréttum Stöðvar tvö (31.08.2014) var sagt gífurleg úrkoma féll í nótt. Molaskrifari er á því að betra hefði verið að segja , til dæmis, gífurleg úrkoma var í nótt. Í sama fréttatíma var sagt, - að verðbólga hefði verið með allra besta móti!
Úr Morgunblaðinu (01.09.2014) ,, ... framkvæmdastjóri Vísis segir að gæði fisksins hafi verið mjög góð ... Gæðin voru góð! Ekki var það nú verra.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.9.2014 | 09:36
Molar um málfar og miðla 1558
Molaskrifara hefur aldrei þótt það gott orðalag, góð íslenska, að tala um að taka eigið líf. Það er hægt að tala um að svipta sig lífi, ráða sér bana, fyrirfara sér, fremja sjálfsmorð. Flest er skárra en að tala um að taka eigið líf, - að mati Molaskrifara. Þakka bréfið, EB.
Jóhanna benti Molaskrifari á eftirfarandi á mbl.is (30.08.2014): ,,Sigurjón Jónsson, varafulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi, lagði fram tveir fyrirspurnir á fundi bæjarráðs á fimmtudag. Tveir fyrirspurnir. Það var og. Helgarnar eru málblómatími á netmiðlunum.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/08/30/spyr_hvort_bodsmidar_samraemist_sidareglum/
Guðmundur skrifaði Molum (29.08.2014): ,,Ég held þú hefðir áhuga á að lesa þetta.
Aldrei hef ég heyrt um að dýr séu "þunguð" - heldur aðeins heyrt notað um kvenmenn, fyrr en nú. Ég kann þessu illa og tel þetta hráa þýðingu. Hryssur eru fylfullar, læður kettlingafullar o.s.frv,
Gerði Pandan sér upp húnfylli ? Hef þó aldrei heyrt það orð í bjarnleysinu hér. Er eitthvað annað orð tiltækt?
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/08/29/panda_gerdi_ser_upp_thungun/
Molaskrifari þakkar Guðmundi bréfið en stendur á gati. Þungun er það þegar kona verður barnshafandi. Aldrei hefur Molaskrifari fellt sig við eða notað orðið vanfær, um barnshafandi konur. Konur eru aldrei fallegri, en þegar þær bera barn undir belti. Það sagði Vilhjálmur heitinn Hjálmarsson einu sinni við konuna mína. Við mundum honum það bæði.
K.Þ. vísar (30.08.2014) á Bylgjuefni á visir.is: http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP29317
Hann spyr: ,,Voru atburðirnir krufnir eða kryfjaðir? Von er að spurt sé því fyrirsögnin var svona:,,Bakaríið Hvað gerðist? Atburðir vikunnar kryfjaðir til mergjar Þetta hlýtur að að hafa verið gagnmerkur útvarpsþáttur, - eða þannig ?
Norska sjónvarpið NRK2 sýndi síðastliðinn föstudag (29.08.2014) fyrstu heimildamyndina í breskum þriggja mynda flokki um Kína, China: Triumph and Turmoil. Vonandi eiga þessar myndir eftir rata á skjá Ríkissjónvarpsins okkar.
Illa skrifuð frétt af mbl.is (30.08.2014). Þrisvar sinnum er notað orðskrípið fatlaðastæði. Þessi útgáfa fréttarinnar, þó slæm sé, er samt ögn skárri en sú sem fyrst var birt. Hvar er gamli Moggametnaðurinn? Horfinn? http://www.mbl.is/folk/verold/2014/08/30/madur_an_fota_ekki_nogu_fatladur/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.9.2014 | 08:43
Molar um málfar og miðla 1557
Þessu veldur meðal annars, og einna helst, þrennt að mati Molaskrifara:
Ný tækni við framsetningu flókins efnis á sjónvarpskjánum, sem hefur verið vel nýtt.
Ný mæli- og fjarskiptatækni og þá ekki síst vel búin TF SIF, sannkölluð vísindavél Landhelgisæslunnar.
Síðast en ekki síst frábærir vísindamenn okkar, vel máli farnir og þeim kostum búnir að geta sett flókið efni fram á mannamáli sem öllum er skiljanlegt. Þar koma margir við sögu en Molaskrifari freistast til að nefna þá Pál Einarsson, Magnús Tuma Guðmundsson, Harald Sigurðsson, Odd Sigurðsson og Ara Trausta Guðmundsson. Fleiri mætti sjálfsagt nefna til sögunnar. Án alls þessa skildum við minna og vissum minna Takk.
Sumir fréttamenn eru duglegir að staðsetja. Í hádegisfréttum Bylgjunnar á sunnudag (31.08.2014) var okkur sagt, að eldgosið væri staðsett ... Þarna var orðinu staðsett öldungis ofaukið. Það gaus úr sprungu í Holuhrauni.
Rafn benti á eftirfarandi á visir (29.08.2014): ,,25 þúsund tonn af makríl veidd á Neskaupsstað ---
Búið er að landa 25 þúsund tonnum af makríl í höfninni í Neskaupstað á þessari vertíð.
Þetta er fyrirsögn af visi.is. Það vantar alveg upplýsingar um hvort veiðarnar hafi farið fram á götum úti eða á lóðum heimamanna.
Fréttin fellur þó í áliti þegar meginmálið er lesið, en þar kemur fram, að aflanum hafi aðeins verið landað á Neskaupstað, en kann ekki veiddur þar. Svona vinnubrögð eru að verða næsta daglegt brauð. Þakka Rafni ábendinguna. Á fréttamannsárunum lærði Molaskrifari að segja ævinlega í Neskaupstað. Séra Emil, fréttastjóri, sagði við okkur: Maður fer í kaupstað, ekki á kaupstað.
Það er ágætt, að næturfréttamenn (orðið sem notað var í lok sjónvarpsfrétta 28.08.2014) fréttastofu Ríkisútvarpsins skuli uppfæra fréttavef útvarpsins á nóttinni. En það er ekki nóg. Ríkisútvarpið á að segja okkur fréttir á klukkutíma fresti allan sólahringinn, líka á nóttinni. Það er útvarp. Á ekki að þurfa eldgos til.
Sigríður beindi athygli Molaskrifara að eftirfarandi á visir.is (29.08.2014): ,,Drapst af slysförum. Kristín Sævarsdóttir varð vitni að dauða köngulóarinnar sem fannst í gær. Köngulóin drapst þegar samstarfskona Kristínar steig óvart ofan á hana.,,Ein hérna var að stíga niður fæti , þegar önnur sem starfar með mér sá köngulóna og ópaði. Þá var það orðið of seint. Köngulóin drapst af slysförum; þetta var ekki morð af yfirlögðu ráði. Það var og. Konan ópaði, hún æpti ekki. Köngulóin drapst af slysförum. Ekki morð af yfirlögðu ráði. Talað er um morð að yfirlögðu ráð. Fréttabörnin á visir.is láta ekki að sér hæða! Þakka ábendinguna, Sigríður.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.8.2014 | 09:50
Molar um málfar og miðla 1556
Á vef Ríkisútvarpsins var talað um Skipulagðan niðritíma á ruv.is. Óboðlegt orðalag. Molavin sendi Molum línu um þetta orðalag og segir: ,,Á síðu Ríkissjónvarpsins segir frá því að hlé verði gert á Netsendingum vegna uppfærslu vélbúnaðar. Fyrirsögnin á tilkynningunni er: "Skipulagður niðritími ruv.is." Hvað fær þessa ágætu stofnun, sem hefur það lögboðna hlutverk að vernda móðurmálið, til þess að bulla með þessum hætti. "Downtime" er enskt tölvumál. "Útsendingarhlé" skilst. Molaskrifari þakkar bréfið.
Karl Björnsson skrifaði (27.08.2014): ,,Hafa aðrir en ég tekið eftir því að það eru allir hættir að éta... þ.e. fólk er væntanlega of kurteist til að nota það orð. Núorðið borða allir, meira að segja fiskarnir --þótt ég eigi erfitt með að sjá fyrir mér borðhaldið á kafi í vatni í þungum straumi. Heyrði útundan mér einhvern þátt á Rás 1 í dag þáttastjórnandi hafði farið á sjó með krakkahópi til að fræða um fiska hafsins. Hún talaði hvað eftir annað um hvað fiskarnir borðuðu. Ekki nóg með það, hún spurði líka sjómann, hvaða fiskur væri óborðandi...eða sagði hún óborðanlegir? Ekki viss hvort heldur var. Það þykir sennilega of ruddalegt að segja að eitthvað sé óætt.
Mér finnst sögnin að éta ekki dónaleg og í mörgum tilfellum fer betur á að segja éta, en borða.
Hvað finnst þér Eiður? Þakka þér fyrir góð skrif um málnotkun. Eiður þakkar bréfið og sér ekkert athugavert við sögnina að éta. Lærði í árdaga svolitla þýsku: Menschen essen, Tieren fressen. Fólk borðar, dýr éta.
Af mbl.is (28.08.2014): Flugmaður fisvélar lenti í vandræðum í kvöld en vélin hlekktist á við lendingu á Þingvallavegi í Mosfellsbæ. Vélin hlekktist ekki á. Vélinni hlekktist á. http://www.mbl.is/frettir/ Að sjálfsögðu þurftu fréttabörnin á visir að nota leikskólamálið sitt og segja að vélin hefði klesst á ljósastaur. Bjarni Sigtryggsson benti á þetta á fésbók. Hér er fyrirsögnin af visir.is Fisflugvél í erfiðleikum í Mosfellsbæ - Klessti á ljósastaur
Flugmaðurinn nauðlenti á Þingvallavegi og vængur vélarinnar rakst í ljósastaur. Klessuverkið í meginmáli fréttarinnar mun þó hafa verið lagfært skömmu eftir birtingu. Einhver fullorðinn hefur rekið augun í þetta.
Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 1400 á fimmtudag (28.08.2014) sagði þulur frá fyrirhuguðum fundi í Ljósvetningabúð í Kaldakinn, en leiðrétti sig og sagði: Þetta á að sjálfsögðu að vera í Köldukinn. Er það svo? Það er nefnilega þannig að hvort tveggja er jafngilt. Sjá til dæmis þessa fróðlegu umfjöllun á mbl.is (05.06.2013) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/06/05/skridur_i_koldukinn_eda_kaldakinn/
Prýðileg hugvekja Ævars Kjartanssonar á Rás eitt í gærkveldi (29.08.2014) á undan góðum þætti Jónatans Garðarssonar, Rökkurtónum að loknum seinni fréttum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2014 | 08:14
Molar um málfar og miðla 1555
Enn og aftur mæta fréttir Ríkissjónvarpsins afgangi, verða hornreka, þegar boltaleikir eiga í hlut. Síðast á miðvikudagskvöld (27.089. 2014) þegar fréttatími sjónvarps var styttur vegna boltaleiks. Frammistaða fréttastofu aðfaranótt föstudags (29.08.2014), - gosnóttina var með miklum ágætum,- það sem Molaskrifari heyrði. Sama er að segja um nýja morgunþáttinn Morgunútgáfuna. Ríkisútvarpið getur slegið öllum miðlum við, þegar mikið liggur við, og gerir það lang oftast.
Molaskrifari heldur áfram að velta því fyrir sér hver sé tilgangur þeirra, sem vilja að við kaupum BKI kaffi, með því að sýna okkur aftur og aftur (27.08.2014) sjónvarpsauglýsingu þar sem íslenski fáninn blaktir í hálfa stöng.
Af visir.is ((27.08.2014) ,,Líkt og Vísir greindi frá í gær missti ökumaðurinn bílinn út af veginum hægra megin með þeim afleiðingum að hann velti, lenti á hjólunum og rann aftur á bak út í sjóinn. Bíllinn velti ekki. Bíllinn valt. http://www.visir.is/lifshaetta-a-strondum-redi-ekki-vid-bilinn/article/2014140829119
Komið hefur fram að þegar könnuð er hlustun á útvarp eða sjónvarpsáhorf hjá Ríkisútvarpinu eru þeir sem eldri eru en 67 ára ekki spurðir. Molaskrifari hefur grun um að meðal þeirra sem eru eldri 67 ára séu ýmsir tryggustu viðskiptavinir og velunnarar Ríkisútvarpsins. Hvernig væri að útvarpsstjóri veldi af handahófi eins og fjóra eða fimm úr þessum aldurshópi, byði þeim í molasopa í hinu nýja Maggakaffi á Markúsartorgi í Efstaleiti svo sem einu sinni í mánuði og hleraði skoðanir þeirra á dagskránni. Þetta kostaði Ríkisútvarpið nánast ekki neitt, - nema molasopann. Útvarpsstjóri yrði hinsvegar áreiðanlega margs vísari.
Dagskrárstjóri Ríkissjónvarps gerði grein fyrir vetrardagskrá sjónvarpsins í Síðdegisútvarpi Rásar tvö á miðvikudag (27.08.2014) Að hans sögn mun þar kenna margra grasa og sumt virðist hnýsilegt. Ekki er þó Molaskrifari viss um að allir hafi skilið, þegar dagskrárstjóri talaði um sketsþætti með pönslæn. Hann nefndi líka í framhjáhlaupi, örstutt, að væntanlegt væri einhverskonar Andraflandur um Færeyjar. Vonandi verður það ekki í sama dúr og sjálfhverfu þættirnir frá Vesturheimi. Það var heldur subbuleg dagskrárgerð. Egill Helgason fór eftir sýningu þessara hörmunga vestur um haf til efnisöflunar. Molaskrifari lítur svo á, að það hafi í og með verið til að bæta fyrir spjöllin eftir Flandrið. Egill gerir tíu þætti. Sá fyrsti lofaði góðu. Níu eru eftir. Kannski þarf síðar að senda Egil og hans ágæta fólk til Færeyja til að bæta þar um betur. Það kemur í ljós.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2014 | 09:44
Molar um málfar og miðla 1554
Það er álitamál hvort svona viðtöl eiga að fara fram á heimili ráðherra eins og þarna virtist vera. Viðtalið átti heima í sjónvarpssal. Ekki blanda heimili ráðherra í málið.
Kastljósþættinum var skotið inn í dagskrána með litlum fyrirvara. Það var gott framtak. Niðursoðna konuröddin, sem kynnir dagskrána gat því ekki sagt frá hvað í vændum var, að minnsta kosti fór það alveg fram hjá Molaskrifara hafi þátturinn verið ,kynntur. Er nýjum útvarpsstjóra ekki að verða ljóst að þessi háttur á að kynna dagskrána sjónvarpsins er ekki boðlegur?
Viðtal Stöðvar tvö við innanríkisráðherra í Íslandi í dag var hnitmiðað. Ráðherrann kom sér undan að svara, jafnvel sneri út úr. Talaði um ,,moldviðri og sagðist ekki hafa haft nein áhrif á rannsókn málsins, enda þótt fram hefði komið að hún hefði talað um það við lögreglustjórann ,,að rannsaka þyrfti rannsókn málsins og beðið um að yfirheyrslu yfir aðstoðarmanni hennar yrði flýtt. Það er svo áhorfenda að dæma hvers eðlis slík afskipti ráðherra af rannsókn á ráðuneyti hennar eru , - í samtali við yfirmann rannsóknarinnar. Allt er þetta með ólíkindum í ríki, sem segist vera réttarríki. En fréttamaður í Íslandi í dag komst vel frá sínu. Kurteis, en fastur fyrir. Þegar hann var tvívegis búinn að spyrja ráðherra sömu spurningar var öllum, sem hlustuðu og horfðu, ljóst að ráðherra vildi ekki svara.
Nú hefur svo komið í ljós að ráðherra sagði Alþingi ósatt úr ræðustóli þingsins 18.júní. Málið verður bara verra og verra.
Misjafnlega taka miðlar á málum. Í fjögurra dálka fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins á miðvikudag (27.08.2014) segir að ráðherra njóti trausts og þar vitnað til orða forsætisráðherra SDG Um innanríkisráðherra. Þetta þarf ekki að segja. Auðvitað situr ráðherra ekki í ríkisstjórn nema hann njóti trausts. Fyrirsögnin er ekki frétt.. Á forsíðu Fréttablaðsins segir sama dag: Grunur um stórvægileg mistök eða afbrot ráðherra. Þetta er frétt.
Ósköp gengur Ríkissjónvarpinu illa að láta seinni fréttir hefjast á réttum tíma. Í gærkveldi (27.08.2014) baðst Bogi afsökunar á seinkum fréttanna. Þær hófust fimm mínútum of seint. Þetta er nánast óþekkt hjá þeim erlendu stöðvum, sem hér eru aðgengilegar. Er þetta kæruleysi? Virðingarleysi fyrir auglýstri dagskrá? En fréttatíminn var góður, þegar hann kom.
Fréttamenn eiga að gæta þess í útvarpi að nota orð sem allir skilja. Í Spegli Ríkisútvarpsins (26.08.2014) sagði fréttamaður: ,, ... vildi frekar tala um fáfræði eða xenófóbíu. Xenófóbía er andúð á útlendingum , útlendingahatur. Eitt af þessum alþjóðlegu orðum sem sá ómetanlega góði sögukennari Ólafur Hansson , kenndi okkur veturinn 1958-1959 í sjötta bekk í MR. Þau hafa mörg tollað í kolli síðan. Í sama þætti var sagt um konu að hún kæmi frá Filippseyjum. Konan var ekki að koma frá Filippseyjum. Hún var frá Filippseyjum. Þetta orðalag heyrir maður aftur og aftur og étur hver eftir öðrum sem fyrr.
Þáttur Óðins Jónssonar og hans fólks, Morgunútgáfan, fór vel af stað í morgun (28.08.2014).
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2014 | 09:17
Molar um málfar og miðla 1553
Á Vísindavefnum segir svo: Í Íslenskri orðabók frá Eddu kemur fram að orðið stokkur var til forna notað um pall innan húss sem var hlaðinn upp af bjálkum. Á þessa palla stigu menn og strengdu heit sín í vitna viðurvist." Kannski hét Justin Timberlake eilífri tryggð sinni við Ísland og Íslendinga þá hann steig á stokkinn í Kórnum þetta kvöld. Alla vega lofaði hann landið í myndtísti sínu fyrr um daginn.Molaskrifari þakkar bréfið og þarfa ábendingu.
K.Þ skrifaði (25.08.2014): ,,Sigurjón M. Egilsson hefur verið ráðinn fréttaritstjóri 365, og heyrir því yfir þá Breka og Andra, og Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi 365, mun gegna starfi aðalritstjóra tímabundið."
http://www.ruv.is/frett/olafur-maetti-a-ritstjornarfund-siddegis
Ég kannast við orðalagið að heyra undir, en þessi notkun, að heyra yfir, er ný fyrir mér. Þetta nýtt fyrir fleirum , enda út í hött að taka svona til orða. Molaskrifari þakkar bréfið.
Og hér er meira frá Molavin (25.08.2014): ,,Orðskrúð færist í vöxt í auglýsingum. Það gerir sjaldnast nokkuð til að koma skýrum boðum á framfæri. Er öllu fremur gert til þess að flytja óskýr skilaboð, láta eitthvað hljóma betur eða "fínna" en það er. "Securitas er leiðandi fyrirtæki í eftirlitsmyndavélalausnum" segir í borða sem birtist á Google síðu. Það fer ekkert á milli mála þegar menn bjóða eftirlitsmyndavélar, þótt orðið sé langt og ólipurt. En menn eru engu nær þótt þeim séu boðnar "eftirlitsmyndavélalausnir." Hver er þá gátan? Orðskrúð endar oft sem hreint bull. Sá, sem ekki hugsar skýrt, tjáir sig óskýrt. Hverju orði sannara. Þakka bréfið.
Úr frétt Ríkissjónvarps á mánudagskvöld um poppstjörnuna Justin Timberlake, - ,,... en þessi þrjátíu og þriggja ára poppgoði hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Hér vantaði aðeins upp á vandvirknina.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.8.2014 | 10:01
Molar um málfar og miðla 1552
Umfjöllun fréttastofu Ríkissjónvarps sama kvöld var miklu betri, ítarlegri og í meira jafnvægi.
Á listanum í Ríkissjónvarpi í lok útsendingar frá menningarnótt á laugardagskvöld (23.08.2014) var auðvitað ómetanlegt að fá upplýsingar um klæðnað Matthíasar að ekki sé nú talað um hár Matthíasar. Eftir að hafa meðtekið þann fróðleik hljóta áhorfendur að hafa sofið betur.
Í lok miðnæturfrétta Ríkisútvarps á laugardagskvöld (23.08.2014) var sagt, að fréttir yrðu fluttar á klukkutíma fresti alla nóttina. Gott. En þarf eldsumbrot, skjálfta og teikn sem benda til að eldgos gæti verið í uppsiglingu til þess að Ríkisútvarpið sinni þjónustuhlutverki sínu við okkur viðskiptavini þess ? Ríkisútvarpið á að flytja stuttar fréttir á klukkutímafresti allan sólarhringinn. Að sjálfsögðu. Það á ekki að þurfa eldgos eða möguleika á eldsgosi til.
Af visir.is (24.08.2014): Fjöldi mála komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á menningarnótt en lögregla áætlar að gestir í miðborginni hafi verið um 100 þúsund þegar mest var. Hér hefði farið betur á því að segja annaðhvort, - Fjöldi mála kom til kasta lögreglunnar ... , - eða, mörg mál komu til kasta lögreglunnar ...
Í fréttum Stöðvar tvö (24.08.2014): var sagt að áheyrendur hefðu verið mættir við tónleikasalinn áður en húsið opnaði. Húsið opnaði hvorki eitt né neitt, en á auglýstum tíma var húsið opnað.
Í Ríkisútvarpinu og á fréttavef Ríkisútvarpsins var (25.08.2014) sagt frá því að þýðingarmiðstöð hefði opnað á Seyðisfirði. ,,Ný starfsstöð þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins opnaði á Seyðisfirði í dag.Opnað hvað? Það fylgdi ekki sögunni. http://www.ruv.is/frett/thydingarmidstod-opnar-a-seydisfirdi
Sumir fréttamenn virðast alls ekki geta haft þetta rétt.
Rúv auglýsti eftir svæðisstjóra Rúvak á mánudag (25.08.2014) . Er ekki hægt að tala við okkur nema með skammstöfunum?
Í prentaðri sjónvarpsdagskrá, Vikudagskránni, sem dreift er á öll heimili í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði er sagt, að Kastljós sé á dagskrá Ríkissjónvarps á mánudags og þriðjudagskvöld í þessari viku. Það er rangt. Ekki vönduð vinnubrögð.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)