Molar um málfar og miðla 1571

  Það hefur stundum borið á góma hér hvernig stjórnmálamenn komast upp með það í fjölmiðlum að svara ekki því sem þeir eru spurðir um. Þetta kom átakanlega vel í ljós í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (15.09.2014).Rætt var um fjárlagafrumvarpið við fulltrúa stjórnarandstöðu og varaformann fjárlaganefndar. Varaformaðurinn var spurður: Hvenær verður hafist handa við byggingu nýs Landspítala? Eða hvernig ætlið þið að reka sjúkratryggingakerfið innan fjárlaga í ár, sem margir telja ómögulegt? - Grundvallaregla í viðtalstækni er reyndar að spyrja aldrei tveggja spurninga í senn. Þá velur viðmælandi þá þægilegri og spyrill gleymir venjulega hinni spurningunni.

 Varaformaður fjárlaganefndar bar það ekki við að svara þessum spurningum og spyrill gerði enga athugasemd. Varaformaðurinn notaði það sem við Ómar Ragnarsson höfum kallað Gunnars Thoroddsen brelluna í viðtölum.  Svona efnislega: ,,Áður en ég svara því vil ég gjarnan taka fram að .... “ og svo er fimbulfambað út og suður þangað til hin upprunalega spurning er gleymd.

  Varaformaðurinn kom ekki nálægt því að svara þeim spurningum sem til hans var beint. Hann komst upp með það. Sennilega var spyrill ekkert að hlusta, eða fannst það ókurteisi að ganga eftir svari. Það var ókurteisi við hlustendur að svara ekki. Varaformaðurinn reyndi það ekki, en flutti þess í stað fyrirlestur um forvarnarnmál.

Hér er þátturinn. http://www.ruv.is/sarpurinn/morgunutgafan/15092014-0 Spurningin og ekki svarið er á 95:10.

Ömurleg vinnubrögð af allra hálfu, sem þarna komun við sögu.

 

Prýðilegur og upplýsandi þáttur Boga Ágústssonar  og Karls Sigtryggssonar frá  Skotlandi í gærkveldi í Ríkissjónvarpi (16.09.2014) í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar á fimmtudag. Bogi talaði réttilega um Jakob konung. Það er í samræmi við hefð og íslenska málvenju. Fréttamaður Stöðvar tvö talaði um James.  En mikið lifandi ósköp var ráðherrann, Alex Salmond, illa að sér um Ísland! Ný stjórnarskrá og bankamenn í fangelsum! Einhver segir kannski: Betur að satt væri.- Í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu í morgun (17.09.2014) var svo rætt um Skotlandsmálin við konu, sem búin var að dveljast við nám heila tíu daga í landinu. Í sama þætti var boðað viðtal við Siggu Dögg. Sennilega heitir sú kona Sigríður Dögg.

 

Heyrði Molaskrifari rétt í tíufréttum Ríkissjónvarps (15.09.2014) að þar hefði verið talað um (fréttin var um flóttamenn á Miðjarðarhafi) að fara yfir í minni og ólekari bát? Ólekari? Bát sem var ekki eins lekur, bát sem var minna lekur.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1570

Ef Ríkisútvarpið er eign okkar allra, eins og margsinnis var sagt í þætti Sirrýjar á sunnudagsmorgni á Rás tvö ((14.09.2014), hversvegna ráðum við þá engu um dagskrána?

 

Ráðamenn Ríkisútvarpsins gerðu mistök, þegar þeir settu leiknar (stundum gargaðar) auglýsingar í stað síðasta lags fyrir hádegisfréttir. Öllum getur orðið á í messunni. Þeir hafa áreiðanlega ekki gert sér neina grein fyrir því hve mikla gagnrýni, hve mikla andstöðu, þetta allsendis óþarfa skemmdarverk mundi kalla fram. Þeir verða menn að meiri, ef þeir hafa kjark til að breyta þessari ákvörðun, og láta fyrra fyrirkomulag halda sér. Það var ástæðulaust með öllu að breyta því sem var í góðu lagi. Þeir eiga að sjá að sér og kippa þessu í liðinn. Það er útlátalaust fyrir Ríkisútvarpið.

 

Molaskrifari leyfir sér að halda því fram að einhverskonar hálfvitaviðtal,sem birt var í fréttum Ríkissjónvarps á föstudagskvöld (12.09.2014) hafi ekki verið fjáröflun UNICEF til framdráttar. Dagskrá sjónvarpsins þetta kvöld var helguð átaki UNICEF.

Þetta kom út eins og verið væri að ræða við vanheilan einstakling og margir sjónvarpsáhorfendur vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið og þekktu hvorki haus né hala á þessari undarlegu persónu. Var þetta fíflagangur, eða hvað? Þetta var ekki vel að verki staðið hjá fréttastofunni. Fyrri UNICEF þættir hafa verið betri. Einkanlega heyrir Molaskrifari illa látið af viðtali við biskup Íslands Og var þar ekki við biskup að sakast. Missti af viðtalinu og er því illa dómbær á málið.

 

Trausti skrifaði (13.09.2014) og benti á eftirfarandi: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/09/13/margra_saknad_eftir_ferjuslys/

"Skip­stjóri ferj­unn­ar missti stjórn á henni eft­ir að hafa lent á brotöldu."
Fékk skipið þá ekki á sig brotsjó? – Jú, - það skyldi maður ætla. Þakka bréfið.

 

Af mbl.is (13.09.2014): Hundruð svo­kallaðra smágrísa sem sluppu úr haldi og ráfuðu um í lausa­gangi í borg­inni Sw­an­sea í Englandi voru tekn­ir af lífi í vik­unni. Swansea er næsta stærsta borgin í Wales. Grísir í lausagangi? Þeir voru sem sagt ekki í gír. Þeir gengu lausir. Voru ekki í lausagangi.

 Dæmigerð helgarfrétt á mbl.is

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/09/13/hundrud_smagrisa_aflifadir/

 

Er kvikmyndaval Ríkissjónvarpsins á laugardagskvöldum batna? Vonandi. Á laugardagskvöldið var (13.09.2014) voru sýndar tvær prýðilegar myndir, að mati Molaskrifara, Shipping News og meistaraverk Hitchcocks Psycho. Guð láti gott á vita, eins og stundum er sagt.

 

Svíar gengu til kosninga á sunnudaginn var (14.09.2014) Lofsvert er að hvorki á Stöð tvö né í Ríkisútvarpinu lokuðu kjörstaðir. Réttilega var sagt á báðum stöðum: Kjörstöðum var lokað. Húrra!

Hinsvegar var í fréttum Ríkisútvarps hvað eftir annað talað um fyrstu úrslit í kosningunum eins og Eurný Vals benti á í athugasemdum við Mola. http://www.ruv.is/frett/utlit-fyrir-stjornarskipti-i-svithjod Úrslit kosninga eru auðvitað niðurstöður kosninganna. Lokatölur.

 

Gott hjá Brodda Broddsyni að afsaka tveggja mínútna hlé á hádegisfréttum Ríkisútvarps í gær (15.09.2014) vegna klaufasskapar okkar sjálfra, eins og hann sagði.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1569

 Molavin skrifaði (11.09.2014):,, Sum orð verða yfirþyrmandi í fréttamáli og afleit vegna þess að þau skýra ekki neitt. Eitt þeirra er "aðilar" þar sem oftast er bara átt við fólk. Annað er "einstaklingar." Rétt eins og í þessari Vísisfrétt í dag (11.9.2014): "Aðalmeðferð í máli Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gegn níu einstaklingum..." Hvers vegna ekki "níu manns"? Er það til þess að fullvissa lesendur um að hvorki sé um hjón að ræða eða hóp almennt? Hverju bætir það við fréttina að þessi níu manns séu einstaklingar? Þetta er villandi orðnotkun og auk þess klúðursleg - að því viðbættu að hér eru fjögur atkvæði notuð að óþörfu þar sem aðeins eitt segði alla söguna - og hljómaði betur.” Þetta er hverju orði sannara. Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Fjórtán ára, faðir hennar og fíkniefni, er illa samin fyrirsögn á mbl.is (11.09.2014). Hér er fréttin: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/09/11/fjortan_ara_fadir_hennar_og_fikniefni/

 

Í vaxandi mæli er það svo, að þegar Molaskrifari kveikir á Rás eitt á kvöldin þá er verið flytja efni sem hefur verið fyrr um daginn. Þetta hefur keyrt úr hófi eftir að nýir stjórnendur tóku við í Efstaleiti. Sjálfsagt er að endurflytja vandað efni. Ekki endilega samdægurs. Fyrr má nú rota en dauðrota, eins og stundum er sagt. Það er afskaplega hvimleitt að ætla að hlusta á Rás eitt fyrir svefninn, undir miðnættið, að lenda nær alltaf á efni sem flutt hefur verið fyrr um daginn.

 

Aðilar eru ævinlega vinsælir hjá fréttaskrifurum eins og Molavin nefnir hér að ofan.. Af mbl.is (11.09.2014): ,,Mexí­kóski bjór­inn Corona hef­ur verið ófá­an­leg­ur á Íslandi í sum­ar og er það unn­end­um hans til mik­ils ama að sögn inn­flutn­ingsaðila bjórs­ins, ...” Hvað varð um hið ágæta orð innflytjandi?

 

Það er ekki þægilegt að hlusta á gargaðar auglýsingar, sem kallaðar eru leiknar auglýsingar, í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins. Hversvegna er þessum auglýsingum troðið inn í miðja þætti?  Svo er engu líkara en hljóðstyrkurinn í útsendingunni sé aukinn, þegar gargauglýsingarnar byrja. Er það rétt?

 

Þætti Gísla Arnar Garðarssonar og hans fólks um Nautnir norðursins úr Ríkissjónvarpinu á áreiðanlega eftir að sýna á öllum Norðurlöndunum og kannski víðar, - jafn vinsælir og matreiðsluþættir virðast vera um þessar mundir. Vel unnið efni og skemmtilega framsett.

 

Á laugardagsmorgni 13. september var á dagskrá Rásar eitt þáttur sem nefnist Bergmál. Þátturinn hófst á þessa leið: - Flest okkar munum við hvar við voru stödd þennan dag 11. september fyrir .... Þetta var sagt 13. september og þess ekki getið að verið væri að flytja þátt sem áður hefði verið fluttur í útvarpinu. Hversvegna er okkur ekki boðið upp á vandaðri vinnubrögð en þetta?

 

Egill Helgason hefur fengið verðskuldað hrós fyrir Vesturfaraþættina. Ekki á síður hrós skilið Ragnheiður Thorsteinsson samstarfskona hans. Hlutur hennar er ekki lítill. Magnað að heyra í gærkvöldi (14.09.2014) David Gislason og Guttorm J. sjálfan fara með erindi úr kvæði Guttorms, Sandy Bar. Fyrir rúmlega 12 árum heyrði ég níræðan öldung Magnus Eliason, fv. borgarfulltrúa í Winnipeg, fara með Sandy Bar utanbókar og fleiri ljóð Guttorms. Það var ógleymanleg upplifun. Flutningur hans á Sandy Bar er til í safni Ríkisútvarpsins, en Molaskrifara skortir tæknikunnáttu til að opna tengil til að hlusta á Magnús. Aðstoð við það væri vel þegin.

Dr. Hallgrímur Helgason samdi kantötu við ljóðið Sandy Bar. Hún hefur því miður of sjaldan verið flutt. Afar tilkomumikil tónsmíð.

- Skemmtilega sagðar sögur Atla Ásmundssonar fv. aðalræðismanns í Winnipeg voru gott innlegg í þennan fína þátt í gærkvöldi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1568

   Á miðvikudagskvöld (10.09.2014) birti Stöð tvö í fréttum ótrúlegar tölur um þann kostnað sem krabbameinsjúklingar verða að greiða úr eigin vasa vegna veikinda sinna. Svona getur heilbrigðiskerfið okkar ekki átt að vera. Stöð tvö á þakkir skildar fyrir að skýra frá þessu.

 

Okkar bíða óleystar áskoranir, sagði forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í stefnuræðu sinni (10.09.2014). Óleystar áskoranir? Leysa menn áskoranir?

 

Sigmar Guðmundsson í Kastljósi mætti vel undirbúinn til viðtals við forsætisráðherra SDG í Kastljósi á fimmtudagskvöld (11.09.2014). Sigmar kann þá list að hlusta og spyrja. Það kunna fáir fréttahaukar. Flestir bara spyrja. Þessvegna komast viðmælendur oft upp með að svara ekki því sem um er spurt. Forsætisráðherra fær ekki háa einkunn fyrir frammistöðuna í þessu Kastljósi. En hann er nokkuð snjall við að fara undan í flæmingi, og snúa útúr, þegar gengið er á hann.

 

Molaskrifari fer þess enn einu sinni á leit við ágætan fréttamann Stöðvar tvö að hann læri að segja saksóknari. Þannig að við sleppum við að heyra aftur og aftur talað um saksónara. Eins og var gert í fréttum á miðvikudagskvöld (10.09.2014). Ætti ekki að vera flókið.

 

Forsíðufrétt Garðapóstsins (11.09.2014) var að bæjarstjórinn í Garðabæ ætlaði að hjóla um Garðahraun þriðjudaginn 16. september. Til að laða að áhorfendur segir í fréttinni:,,Stoppað verður á tveimur stöðum og boðið upp á drykki”. Það er sannarlega enginn skortur á stórtíðindum hjá okkur í Garðabæ.

 

Bæði á mbl.is og ruv.is var sagt (11.09.2014) að spretthlauparinn Oscar Pistorius hefði verið sýknaður af ákæru um að hafa myrt unnustu sína af yfirlögðu ráði. Hefði átt að vera að yfirlögðu ráði, af ásetningi. Þetta var fljótlega leiðrétt á mbl.is en ekki á fréttavef Ríkisútvarpsins. http://www.ruv.is/frett/pistorius-syknadur-af-mordakaeru Er þó Ríkisútvarpið með sérstakan málfarsráðunaut. Undir miðnætti var þetta orðalag enn óbreytt á vef Ríkisútvarpsins og búið að bæta við annarri frétt þar sem einnig var talað um morð af yfirlögðu ráði. Sá þetta enginn? Hvar er gæðaeftirlitið?

 

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins að morgni fimmtudags (11.09.2014) rétt fyrir klukkan sjö talaði umsjónarmaður þrívegis um standard áður en leikið var gamalt, sígilt dægurlag. Standard er ekki íslenska. Standard er enska. Í ensku máli er það stundum notað um gömul sígild lög, þótt höfuðmerkingin sé önnur. Hversvegna notar umsjónarmaður þetta enska orð? Er þetta kannski nýtt heiti á síðasta lagi fyrir (sjö)fréttir á morgnana? Nýir siðir með nýjum herrum.

 

Rafn benti á eftirfarandi af mbl.is (10.09.2014): ,,Ung­lings­dreng­ur ligg­ur al­var­lega slösuð á sjúkra­húsi í Róm eft­ir að hann féll fimm metra niður af girðingu í kring­um hring­leikja­húsið Co­losse­um.” Hann segir: ,,Þetta skýrir sig sjálft”. Rétt er að geta þess að síðar var þetta leiðrétt.

 

Klukkan vantar tuttugu og átta mínútur í átta, sagði umsjónarmaður Morgunútgáfunnar í Ríkisútvarpinu (12.09.2014). Þetta orðalag hefur Molaskrifari ekki heyrt áður. Sama morgun var okkur líka sagt að klukkan væri fjórar mínútur yfir átta þegar hún var fjórar mínútur yfir sjö. Það var ekki leiðrétt. Hvernig væri að vanda sig? Eða leiðrétta mismæli? Það er auðvitað ekki hægt, ef enginn heyrir.

 

Nokkrum sinnum að undanförnu hefur Molaskrifari, sem hlustar mikið á fréttir í Ríkisútvarpinu, orðið þess var að í útsendingu vantar upphaf fréttatímans. Þetta gerðist til dæmis á miðnætti á fimmudagskvöld. Engin afsökun, engin skýring. Er þetta kannski vegna þess að verið er að einfalda ,,tæknikeyrsluna” eins og útvarpsstjóri sagði á dögunum?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1567

  Molavin skrifaði (10.09.2014): ,,Morgunblaðsfrétt (10.9.2014) hefst á þessum orðum: "Met­fé var greitt fyr­ir gaml­an Range Rover á upp­boði í Englandi um helg­ina." Orðið "metfé" merkir ekki met upphæð heldur kostagripur. Þetta hefur verið nefnt hér áður. Enn er hér á ferð dæmi um að fjölmiðlafólk slái um sig með gömlum orðum og hugtökum, sem það þekkir ekki. Daginn áður sagði þáttargerðarmaður á Rás 2 að tiltekin hljómsveit myndi stíga á stokk við kynningu á nýjum Apple símum. Þar var átt við að hún myndi leika uppi á sviði - ekki að ætlunin væri að strengja þar heit”.-

Og svo bætti Molavin við:,, Verð að bæta við örlitlu úr Sunnudagsmogga. Þar stendur í undirfyrirsögn m.a.: LÉTUST ÞRJÚ BÖRN HÉR Á LANDI VEGNA DRUKKNUNAR". Nafnorðasýkin og setningaskipan að enskum hætti tröllríður nú fréttaskrifum. ÞRJÚ BÖRN DRUKKNUÐU hér á landi á umræddu tímabili. Er það virkilega orðið erfitt fyrir yngri kynslóð fréttafólks að skrifa almennt mál?” Molaskrifari þakkar Molavin þessar ágætu ábendingar. Vonandi lesa þeir þetta ,sem þessum orðum er beint að.

 

Orðið kauði, segir orðabókin, að þýði kurfur, leiðindapési, álappalegur maður. Sá sem skrifaði þetta um David Attenborough á mbl.is (09.09.2014) veit greinilega ekkert hvað orðið kauði þýðir: ,,Upp­tök­ur af upp­lestri Atten­boroughs voru einnig notaðar á viðburðum Bi­ophiliu-tón­leika­ferðalags­ins og er ég sann­færður um að áhrif kauða á bíógesti séu öfl­ugri en á tón­leika­gesti. Ég hefði jafn­vel verið til í að heyra meira í sjón­varps­mann­in­um geðþekka þegar leið á mynd­ina, ekki ein­göngu í upp­hafi.” Þeir sem skrifa í fjölmiðla eiga ekki að nota orð sem þeir ekki skilja; vita ekki hvað þýða.

 

Leiðaraskrif Fréttablaðsins hafa sett ofan eftir að Ólafur Stephensen, ritstjóri, var hrakinn frá blaðinu. Sjaldgæft er að sjá leiðarahöfund jafn rækilega tekinn til bæna í kurteislegri grein eins og Arnór Sighvatsson aðstoðar seðlabankastjóri gerði á miðvikudag (10.09.2014). Sjá: http://www.visir.is/athugasemdir-vid-leidara-frettabladsins/article/2014709109981

 

Mótorkrosshjóli stolið af níu ár dreng, segir í fyrirsögn á visir.is. (10.09.2014) Hvorki stal drengurinn hjólinu, né var því stolið af honum. Hjólinu var stolið frá honum. Ekki vel sagt. Sjá: http://www.visir.is/motorkrosshjoli-stolid-af-niu-ara-dreng-fadirinn-svelti-sig-til-ad-eiga-fyrir-hjolinu/article/2014140919952

Rafn sendi eftirfarandi (09.09.2014) : ,,Í haust tók Ingunnarskóli í Grafarholti upp á þeirri nýbreytni að láta nemendur á unglingastigi mæta seinna í skólann, með því markmiði að aðlaga svefnvenjur unglinganna að skólstarfinu. Bæði nemendur og skólastjórnendur eru afar ánægðir með þessa nýbreytni.”

Rafn segir síðan:,,Þessi byrjun er á frétt á vef Eyjunnar. Þar er talað um að verið sé að aðlaga svefnvenjur unglinga að skólastarfi. Samkvæmt lýsingu virðist hins vegar verið að aðlaga skólastarfið að svefnvenjum unglinga. Niðurstaðan ætti í báðum tilvikum að verða samræmi, en það munar töluverðu á hvors forsendum samræmingin er.” Rétt. Molaskrifari þakkar Rafni sendinguna.

Ekki er talið að orðið hafi slys á fólki, þegar gestur sem kom  til viðtals í Morgunútgáfuna í Ríkisútvarpinu í morgun (12.09.2014) ,,var að detta inn í húsið”, eins og umsjónarmaður orðaði það.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1566

  Úr Kjarnagrein, sem vísað var til á fésbók á þriðjudag (09.09.2014) um skattsvik nafngreindra einstaklinga: Fólkið stóð ekki skil á greiðslu opinberra gjalda sem það hafði haldið aftur af launum starfsmanna sinna á árunum 2011 og 2012. Opinberum gjöldum var ekki haldið aftur af launum starfsmanna. Gjöldunum var haldið eftir af launum starfsmanna. Meira úr sömu grein: Í tilkynningu til fyrirtækjaskráar frá því í febrúar 2013 kemur fram að allt hlutafé í M-veitingum hafi verið afsalað til Ásgerðar. Hér hefði átt að segja að öllu hlutafénu hefði verið afsalað. Þessa grein hefði þurft að lesa betur yfir áður en hún var birt.

 

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG sendi frá sér fréttatilkynningu um fjárlagafrumvarp næsta árs. Mbl. greindi frá þessu (09.09.2014). http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/09/frjalshyggjutilraun_i_fjarlagafrumvarpi/ Í frétt mbl.is segir: „Þetta þýðir í raun að Ísland fær­ist úr flokki með Norður­lönd­un­um, þar sem sam­neysl­an er alls staðar um eða yfir 30%, yfir í hóp þjóða þar sem vel­ferðar­kerfið er mjög veikt,“ læt­ur Katrín hafa eft­ir sér í til­kynn­ing­unni.” Þetta er dálítið undarlegt orðalag hjá mbl.is. Katrín lætur ekki hafa eftir sér. Hún segir ofangreint í fréttatilkynningunni.

 

Þegar nafnalisti er birtur á skjánum í lok sjónvarpsþáttar, myndar eða útsendingar er það gert til að áhorfendur geti séð hverjir hafi unnið myndina, þáttinn eða unnið við útsendinguna. Í lok beinnar útsendingar frá þingsetningu á þriðjudag (09.09.2014) kom nafnalisti á skjáinn. Meðal annars voru þar nöfn þeirra tónlistarmanna, sem fluttu tónlist við þingsetninguna. Nöfn tónlistarfólksins voru hinsvegar ekki á skjánum nema í 3-4 sekúndur. Sama var um önnur nöfn. Ekki var vegur að lesa nema eitt eða tvö nöfn. Þetta jaðrar við ókurteisi bæði við þá sem hlut eiga að máli og þá sem horfa. Þetta endurtók sig í lok útsendingar frá umræðum á Alþingi í gærkvöldi (10.09.2014).

 

Í lok frétta Ríkissjónvarps á þriðjudag (09.09.2014) voru sýndar myndir frá áhugaverðri sýningu um Auði Sveinsdóttur Laxness.

En hvað réði tónlistarvalinu og textanum sem sunginn var með myndunum:

,,Ég labbaði inn á Laugaveg um daginn,
ljúfri mætti ég og heilsaði snót.
„Var hún lagleg? Var hún stór?
Var hún holdug?” Jeríór.
Hún var sívöl sem hálfflaska af bjór.”

 

Ekki er nema von að spurt sé hvað þetta eigi að þýða? Er þetta hluti af einhverri nýsköpun nýrra stjórnenda í Efstaleiti? Hvert var tilefnið? Hver er tengingin?  Molaskrifara fannst þetta eiginlega vera dónaskapur.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1565

  Fyrir nokkrum dögum horfði Molaskrifari á brot úr garðyrkjuþætti á ÍNN. Gengið var um Skallagrímsgarðinn í Borgarnesi. Rætt var um steinhæð eða steinbeð. Í samtalinu var notað orðalagið grjótlega séð! Svona hefur Molaskrifari aldrei heyrt til orða tekið. Kannski er þetta smit frá íþróttafréttamönnum, sem oft segja sóknarlega og varnarlega. Orðskrípi.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (08.09.2014) var sagt: Fjárlagafrumvarp Bjarna Benediktssonar,fjármálaráðherra, verður dreift klukkan fjögur á morgun ... Fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, verður dreift klukkan fjögur á morgun, hefði verið betra.

 

Þegar hringt er í stofnanir eða fyrirtæki er stöku sinnum sagt við mann: ,, Hinkraðu aðeins fyrir mig”. Það er kannski ekkert að þessu orðalagi. En einnig mætti segja: ,,Viltu bíða augnablik”. ,,Má ég biðja þig um að bíða andartak”.

 

Flutn­inga­skipið var flutt til hafn­ar á Eskif­irði, segir í frétt á mbl.is (08.09.2014) um Akrafellið sem siglt var í strand við Vattarnes en náðist svo á flot. Flutningaskipið var ekki flutt. Það var dregið til hafnar á Eskifirði. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/08/styrimadur_akrafells_sofnadi/

Meira af mbl.is sama dag: Und­an­far­in ár hafa skíðasvæðin opnað í lok nóv­em­ber ...

 Skíðasvæðin hafa aldrei opnað eitt né neitt. Þau voru opnuð. Hvimleitt hve illa fréttamönnum gengur að nota sögnina að opna rétt.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/08/vatnsvernd_ognar_tilvist_skidasvaedisins/

Enn meira af mbl.is (05.09.2014) Molalesandi segir: ,,Það er merkilegt þegar blaðamaður gerir sjálfan sig að umfjöllunarefni í skrifum um nýja kvikmynd og verulega ófyndið. Textinn heldur ekki til að hrópa húrra fyrir: "Kvik­mynd­in var þó ekki göm­ul þegar sýn­ing­in rak í rogastans sök­um tækni­legra örðuleika." og "Eitt­hvað bar á óþjál­um díal­ók sem þó hef­ur oft verið óþjálli." Ótrúlegt bull, segir Molaskrifari. Á hvaða leið er Morgunblaðið?

Í fréttum Stöðvar tvö í gærkveldi (09.09.2014) spurði Heimir Már Pétursson,fréttamaður, Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra hvort stjórnarflokkarnir væru sammála um breytingarnar sem fyrirhugaðar eru á virðisaukaskattinum. Fjármálaráðherra kom ekki nálægt því að svara spurningunni. Fréttmanninum virtist standa hjartanlega á sama. Eða hann hlustaði ekki á svar ráðherrans. Æ algengara er að verða  vitni að svona vinnubrögðum. Ekkert einsdæmi og ekki bundið við Stöð tvö.

 

http://www.mbl.is/folk/frettir/2014/09/05/kvidfedgar_a_flateyri/

G.G. beindi því Molaskrifara, sem fyrrverandi fréttamanns, hvað honum þætti um fréttagildi þessarar fréttar: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/09/08/breskur_thingmadur_lest_i_pollandi/

Svarið er stutt: Fréttagildið er ekkert hér hjá okkur. Ekki frétt. Frétt í kjördæmi þingmannsins og í heimalandi hans.

 

Undarlegt viðtal var við varaformann fjárlaganefndar í fréttum Stöðvar tvö á mánudagskvöld (08.09.2014). Hann var spurður þriggja spurninga. Fyrstu tveimur spurningum svaraði hann alls ekki. Svarið við þriðju spurningunni kom fram í svari við spurningu númer tvö. Þetta var kranablaðamennska eins og hún gerist allra verst. Gott dæmi um hvernig viðtöl eiga alls ekki að vera. Stjórnmálamaðurinn komst upp með að segja það sem honum sýndist og fréttamaðurinn bara þagði. Eins og steinn. Meiri upplýsingar komu fram í stuttri tilvitnun í formann þingflokks Sjálfstæðisflokks í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu morguninn eftir.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1564

  Úr frétt á mbl.is um skipsstrandið fyrir austan http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/06/thyrlan_lenti_a_hladinu_3/ var rætt við bóndann á Vattarnesi og eftir honum haft: ,,Bald­ur bæt­ir því við að há­flóð hefj­ist um kort­er yfir tólf og að tvö öfl­ug loðnu­skip séu mætt á svæðið” Molaskrifari leyfir sér að efast um að bóndinn hafi tekið svona til orða. Háflóð hefst ekki. Háflóð er, var eða verður.  Það er talað um að háflóð sé á tiltekinni stundu. Í þessu tilviki klukkan fimmtán mínútur yfir tólf. Í annarri frétt um þetta sama strand í sama miðli var lesendum sagt, að ,, dælurnar hefðu í allan dag dælt vatni úr skipinu en ekki haft undan vegna stærðar lekans” Þarna var auðvitað verið að dæla sjó úr skipinu, ekki vatni  og ekki fer heldur vel á því að tala um stærð lekans.

 

Úr frétt á mbl.is (06.09.2014): „ ... seg­ir Guðbrand­ur Örn Arn­ar­son verk­efna­stjóri aðgerðar­mála. Hann seg­ir unnið að því að tryggja ástandið og fyr­ir­byggja frek­ari slys.“ Verkefnasstjóri aðgerðarmála er stöðuheiti, sem Molaskrifari hefur ekki heyrt áður. Æ algengara er að heyra sögnina að tryggja notaða eins og hér gert. Í þeirri merkingu að ná stjórn á hlutunum í erfiðri stöðu, þegar slys eða óhapp hefur orðið. Þessa notkun má sjálfsagt rekja beint til enskrar tungu. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/06/unnid_ad_thvi_ad_tryggja_astandid/

 

Það var fróðlegt að hlusta á útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins í sunnudagsþætti Sirrýjar á Rás tvö (07.09.2014). Opna línan var hinsvegar ekki mjög lengi opin, örfáir hlustendur gátu skotið inn orði. Sagt var að bætt yrði úr því næsta sunnudag. En þá verður enginn útvarpsstjóri til að svara og tíminn heldur naumt skammtaður heyrðist manni. Það var auðvitað mjög viðeigandi að á undan samtalinu við útvarpsstjóra skyldu fluttar leiknar auglýsingar. Samskonar auglýsingar og rutt hafa til hliðar síðasta lagi fyrir fréttir! Molaskrifari játar í fullri hreinskilni að hann skildi alls ekki útskýringar útvarpsstjóra á flutningi þessa fasta liðar í dagskránni. Hversvegna er þetta flókið? Hvernig einfaldar þetta tæknikeyrsluna? Í hinu orðinu var sagt að þetta væri til að bregðast við samdrætti á auglýsingamarkaði???? Hvað sparast mikið fé? Eftir stendur í huga skrifara að þarna hafi verið breytt til þess eins að breyta. Til þess að nýir herrar geti sett mark sitt á dagskrána þannig að allir taki eftir. Það tókst vissulega ,en sú ráðstöfun er misheppnuð. Það á ekki að breyta því sem er í góðu lagi. Útvarpsstjóri sagði skýrt, að hann vildi vernda Rás eitt. Það gerir hann ekki með þarflausri breytingu til verri vegar. Þarna er verið að vega að íslenskri tónlist, íslenskum flytjendum, einkum einsöngvurum.

Það er  góð hugmynd sem fram kom hjá útvarpsstjóra að efna til hlustendaþings Ríkisútvarpsins í vetur. Í framhaldi af því mætti setja á laggirnar einskonar hlustendaráð, sem kæmi saman  3-4 sinnum á ári. Og hvernig væri svo að birta reglulega niðurstöður kannana sem Ríkisútvarpið lætur gera á hlustun og áhorfi? Er nokkuð á móti því? Og í lokin: Enn um leiknar auglýsingar. Ósköp er hvimleitt þegar svona auglýsingum er troðið inn í miðja þætti eins og þarna var gert.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1563

  Molavinur skrifaði (067.09.2014). Hann sagðist hafa hlustað á viðtal við Björk Guðmundsdóttur söngkonu í Spegli ríkisútvarpsins föstudaginn 5. september um framtak hennar sem kynnt er í öllum fjölmiðlum um helgina. Hann segir í bréfinu: ,,Björk hefur lagt lofsamlega mikið af mörkum í þágu náttúrunnar og verndar henni. Vernd nær til fleiri þátta en náttúrunnar þar á meðal til móðurmálsins. Björk sletti svo enskum orðum í þessu stutta útvarpsviðtali að flutt í sjónvarpi hefði átt að texta það. Björk er verðug fyrirmynd, ekki þó í þessu viðtali, hún framdi of mörg málspjöll í Speglinum. Henni var alls enginn greiði gerður með útsendingu á samtalinu í þeim búningi sem það var. Ritstjóri Spegilsins hefði átt að endursegja samtalið en ekki flytja það á þennan hátt." Molaskrifari þakkar bréfið. Hann heyrði ekki þennan pistil, en efast ekki um að hér sé rétt með farið. Auðvitað hefði átt að endursegja samtalið, ef þar voru svona margar slettur.

 

Í kynningu á dagskrá Ríkissjónvarpsins í Morgunblaðinu (05.09.2014) segir um breska vísindamenn sem unnu að því að þróa ratsjá í seinni heimsstyrjöld: , Í stærstu leynd vinna þeir að nýrri uppfinningu...”  Betra orðalag hefði verið: ,, Með mikilli leynd vinna þeir ...” Að líkindum er þetta orðalag beint frá  sjónvarpinu komið.

 

Molaskrifari horfir ekki mikið á matreiðsluþætti. En þáttaröð Gísla Arnar Garðarssonar um Nautnir norðursins sem hófst í Ríkissjónvarpinu á fimmtudag (04.09.2014) lofar sannarlega góðu. Góð hugmynd og vel útfærð í fyrsta þættinum. Vonandi verða hinir þættirnir ekki síðri.

 

Stundum hafa undarlegar myndbirtingar verið nefndar hér í Molum. Á mbl.is (05.09.2014) er sagt frá smábarni sem féll út um glugga á fimmtu hæð húss í Valby utan við Kaupmannahöfn. Með fréttinni er birt mynd úr Nýhöfninni, sem kemur málinu ekkert við. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/09/05/otrulega_heppinn_drengur/

NN sendi Molum eftirfarandi (05.09.2014): ,,Sæll Eiður,
Vilhjálmur Hólmar Vilhjálmsson var einn okkar allra besti dægurlagasöngvari. Hann lést langt fyrir aldur fram, eins og flestir vita, en greinilega ekki allir. Þess vegna er ekki hægt að halda upp á sjötugsafmæli söngvarans, eins og auglýst var á RUV. Hér er um að ræða tónleika í tilefni sjötíu ára "fæðingarafmælis" Vilhjálms. Þetta orð virðist vera að gleymast. Þessu er æ oftar ruglað saman!

Tengill á frétt: - http://www.ruv.is/frett/faedingarafmaeli-hannesar-hafstein
------------------------------------
Vefur RÚV: http://www.ruv.is - Sapurinn: www.ruv.is/sarpurinn

Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er réttmæt athugasemd.

 

Úr frétt á mbl.is (05.09.2014): ,, Morðmálið vakti mikla at­hygli en talið er að nítj­án ung­ar kon­ur og stúlk­ur hið minnsta hafi verið nauðgað og myrt­ar í „hryll­ings­hús­inu“. Hér hefur fréttaskrifari ekki vandað sig. Hann hefði átt að skrifa, til dæmis: ,, Morðmálið vakti mikla at­hygli en talið er að nítj­án ung­um kon­um og stúlk­um, hið fæsta, hafi verið nauðgað og þær myrt­ar í „hryll­ings­hús­inu”.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1562

  Molalesandi benti á (04.09.2014) skrif á visir.is þar sem m.a er talað um að ERFIÐA Rússum e-ð og útiloka rússneska íþróttamenn frá KEPPNUM o.fl. Molaskrifari þakkar bréfið. Til er sögnin að erfiða , í merkingunni að þræla, strita eða vinna baki brotnu. Sögnin að erfiða er ekki til í íslensku máli, svo Molaskrifari viti, í merkingunni að gera einhverjum erfitt fyrir. Það er því miður orðið ótrúlega algengt að sjá orð eins og keppni og verð notuð í fleirtölu. Fjölmiðlungar nútímans virðast fæstir hafa tilfinningu fyrir því að þessi orð eru eintöluorð.

 

Sjónvarpsstöðvar halda áfram að leggja fram sinn skerf til að spilla tungunni.  Morgunblaðinu á fimmtudag (04.09.2014) fylgdi auglýsingakálfur frá sjónvarpsstöðinni Skjá einum. Þar eru auglýstir tveir sjónvarpsþáttaflokkar með íslensk-enskum nöfnum, - Minute to Win It Ísland og The Biggest Loser Ísland. Ekki er þetta til fyrirmyndar. Einnig er auglýst eitthvað sem stöðin kallar Skjárflakk, en færi ef til vill betur á að kalla Skjáflakk og annað sem ýmist er kallað Skjárkrakkar eða Skjákrakkar. Ekki er metnaðurinn mikill  til að vanda sig á þessum bæ.

 

Úr frétt á vef Ríkisútvarpsins (04.09.2014): ,,Meðal annars hafi þeim borist ábendingar um að flugtæki hafi reynt að lenda nálægt gosstöðvunum til að hleypa fólki út”. Flugtæki? Var þetta ekki anaðhvort flugvél eða þyrla? Hvaða orðaleikur er þetta? http://www.ruv.is/frett/reyna-ad-stelast-inn-a-haettusvaedi

 

Hér fer á eftir niðurlag tölvupósts, sem Molaskrifara barst á fimmtudag með ósk um taka þátt  í einhverskonar könnun(04.09.2014):,, ,,..til þess að svara survey sem er með 7 spurningar. Hér er svo hrefurinn:”  Ekki mjög traustvekjandi.

 

Hagkaup auglýsir,,vandaða kuldagalla” í Fréttablaðinu (04.09.2014). Í auglýsingunni segir: ,,Styrking á hnjám og afturhluta”. Með afturhluta á flík, galla (sem hér áður fyrr  hét reyndar samfestingur) eða buxum er sennilega átt við það sem í daglegu tali er kallað rass. Er þetta ekki óþarfa tepruskapur?  Næst heyrum við væntanlega um einhvern, sem hefur farið illa að ráði sínu í fjármálum, að hann hafi ,,spilað afturhlutann úr buxunum”.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband