Molar um málfar og miðla 1581

  Molavin skrifaði (27.09.2014): ,,Menn geta deilt um stjórnarhætti Mjólkursamsölunnar, en Einar Sigurðsson forstjóri verður seint sakaður um að tala rangt mál. Í viðtali við Eyjuna segir hann MS bera hag neytenda fyrir brjósti. Það kemur orðrétt fram í tilvitnun í Einar í texta fréttarinnar. En sá sem matreiðir fréttina á Netið og semur fyrirsögn virðist hvorki lesa textann né skilja hugtakið og setur í fyrirsögn "hefur hag neytenda fyrir brjósti." Svona óvandvirkni "fer fyrir brjóstið" á lesendum.” Molaskrifari þakkar bréfið. Rétt og satt.

 

Fyrrverandi félagi úr blaðamennsku skrifaði (26.09.2014): „Fær­eysk­ur fót­bolti er í mik­illi sorg eft­ir að einn af efni­leg­ustu knatt­spyrnu­mönn­um Fær­eyja, Gunn­ar Zachari­a­sen, lét lífið hörmu­legu slysi í Þórs­höfn í gær­kvöld.“

Hann segir: ,,Jæja, ekki er nú faglegi metnaðurinn í hæstu hæðum á mbl. fremur en fyrri daginn. Þarna virðast hafa hópast saman tómir bleksóðar. Fótbolti í sorg. Það var og. Og hvenær eru banaslys ekki hörmuleg?” Molaskrifari þakkar bréfið.

http://www.mbl.is/sport/fotbolti/2014/09/26/efnilegur_fotboltamadur_let_lifid_i_hormulegu_slysi/

 

Úr fréttum Stöðvar tvö á föstudagskvöld (26.09.2014) var sagt frá slysi skammt frá Þríhnúkagíg. Fréttamaður sagði: ,,Íslensk leiðsögukona með hóp ferðamanna og bandarískur ferðamaður á sjötugsaldri skrikaði fótur og féllu um sjö metra ...” Hér hefði átt að segja: ,,Íslenskri leiðsögukonu ... og bandarískum ferðamanni skrikaði fótur og ...”

 

Lét sér það engu varða, var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar á sunnudag (28.09.2014). Verið var að segja frá bílþjófi, sem ók af stað þótt eigandi bílsins héngi utan á bílnum. Lét sig það engu varða, hefði betur verið sagt.

 

Hér hefur að undanförnu vikið að því hve algengt það er að stjórnmálamenn svari ekki spurningum, sem fréttamenn beina til þeirra. Í fréttum Ríkisútvarps (26.09.2014) var rætt við iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hún var minnt á, að hún hefði greitt atkvæði gegn tillögu um breytingu á búvörulögum fyrir nokkrum árum og spurð hvort hún mundi greiða eins atkvæði nú, ef sama tillaga kæmi til atkvæða. Ráðherra svaraði ekki spurningunni. Fréttamaður þagði. Þegar viðtalið var endurflutt í sjónvarpsfréttum Ríkissjónvarps klukkutíma síðar, var þessum kafla sleppt. Klipptur burt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1580

 Ríkissjónvarpið boðar nú nýja þáttaröð um líf og störf lögreglumanna í Chicago. Molaskrifari hélt að búið væri að segja og sýna íslensku þjóðinni í Ríkissjónvarpinu allt sem hægt er að segja og sýna um löggulífið í Ameríku. Mál er að linni. Það er til nóg af langtum betra sjónvarpsefni.

 

Ný fréttastofa hefur verið sett á laggirnar við Ríkisútvarpið. Frá þessu var greint í gærkvöldi (26.09.2014) er okkur var sagt að svokölluð Fréttastofa hraðfrétta hefði öðlast sjálfstæði. Það er undarlegt hjá fjársveltri stofnun að setja fíflagang í forgang og verja til þess hundruðum þúsunda, ef ekki milljón eða svo, í viku hverri meðan ekki eru til peningar til að flytja fréttir í útvarpi frá miðnætti til klukkan sjö að morgni. Kolröng forgangsröðun.

 

Það færist í vöxt að talað sé um að gæði séu góð. Þetta orðalag notaði félagsmálaráðherra í Kastljósi á fimmtudagskvöld (25.09.2014). Gæði geta verið lítil eða mikil.

 

Tilgangurinn með stofnun Rásar tvö var að auka fjölbreytni í dagskrá Ríkisútvarpsins. Nú er sama efninu (Morgunútgáfunni) útvarpað á báðum rásum í tvo og hálfan tíma alla virka morgna. Þar eru nær eingöngu flutt fréttaviðtöl. Ekkert er að því að vera með slíkan þátt á annarri rásinni. Á sama tíma ætti að flytja tónlist á hinni rásinni. Til þess var leikurinn gerður á sínum tíma. Auka fjölbreytni. Molaskrifari óttast að stjórnendur Ríkisútvarpsins séu svo stórir upp á sig, að þeir fáist ekki til að breyta neinni af þeim óskynsamlegu ákvörðunum, sem teknar hafa verið í Efstaleitinu á undanförnum vikum.

 

Molaskrifar telur að það sé nokkuð almennur skilningur að þegar samkomur eru auglýstar og tekið er fram að boðið verði upp á léttar veitingar, sé átt við létt vín og bjór. Ekki eigi að bjóða upp á þunnt kaffi. Hann hnaut því um auglýsingu frá bílasalanum B&L þar sem segir: Þiggðu léttar veitingar og skelltu þér í reynsluakstur. Kannski er þetta misskilningur hjá Molaskrifara. Í annarri auglýsingu forðum sagði og segir kannski enn: Eftir einn, ei aki neinn.

 

Gott er að vera búin að fá Kiljuna aftur á dagskrá í Ríkissjónvarpinu. Viðurkenna ber að þeim þáttum hefur nú heldur farið fjölgandi í Ríkissjónvarpinu ,sem Molaskrifari vill helst ekki missa af. Þá er tímavélin í Sjónvarpi Símans góður kostur.

Viðtal Egils við höfund bókarinnar Burial Rites (Náðarstund) var gott af beggja hálfu. Þetta er fágætlega vel skrifuð bók á frummálinu og þýðingin er að sögn vönduð. Ensk útgáfa bókarinnar var uppseld í Reykjavík í gær (26.09.2014) og íslenska þýðingin selst eins og heitar lummur.

Hannah Clark frá Ástralíu, höfundur bókarinnar, var Rótarý skiptinemi á Sauðárkróki og þar vaknaði áhugi hennar á þessu gamla morðmáli og örlögum þeirra sem þar komu við sögu. Svona leiðir margt gott af starfi Rótarý. Rétt er að taka fram að Molaskrifari er ekki hlutlaus. Hann er Rótarýmaður!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1579

   Þáttur þeirra Láru Ómarsdóttur og Gísla Einarssonar, Risinn rumskar, í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (25.09.2014), um eldsumbrotin í Bárðarbungu og gosið í Holuhrauni, var ágæt og fróðleg samantekt um atburðarásina fram að þessu. Ekki hefði þó verið verra að sjá meira af nýju myndefni. Þáttarins var að engu getið í prentaðri dagskrá í Morgunblaðinu. Þar var kynntur til sögu  garðyrkjuþáttur!  Í morgunútvarpi var sagt að þátturinn hæfist tuttugu mínútur í níu. Óskýrt orðalag. Betra hefði verið að segja tuttugu mínútum fyrir níu, eða þegar klukkuna vantaði tuttugu mínútur í níu.

 

G.G. benti (24.09.2014) á frétt á vef Ríkisútvarpsins þar sem segir: "Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala og Háskóla Íslands er fjöldi Íslendinga sem stunda rannsóknir á taugasjúkdómum hér á landi afar fámennur, innan við tíu manns." 
Fámennur fjöldi! Einmitt það.

Tengill á frétt: - http://www.ruv.is/frett/„hun-er-ekki-a-leidinni-heim-thvi-midur“

Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Trausti benti á frétt á visir.is: http://www.dv.is/frettir/2014/9/24/bruninn-i-brekkubaejarskola-bornin-i-bekknum-hans-horfdu-sum-son-minn-brenna/

"Faðir nemandans sem brann segir stöðu sonar síns alvarlega"
Trausti segir:Nemandinn BRANN nú sem betur fer ekki, heldur BRENNDIST hann. – Molaskrifari þakkar ábendinguna. Það er alvarlegt ef fréttaskrifari skilur ekki muninn á að brennast og að brenna. Gæðaeftirlit og yfirlestur ekki til staðar.

 

Íslenskir stjórnmálamenn komast upp með það aftur og aftur í viðtölum við fjölmiðla að svara ekki því sem þeir eru spurðir um. Til dæmis Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu (24.09.2014) Spyrill nefndi að náttúrverndarfólk á Íslandi hefði skrifað ráðherra og heitið á hann að lofa því að Íslendingar mundu ekki nýta olíu- og gaslindir, ef slíkar fyndust við Ísland. ,,Hverju svararðu því” , spurði fréttamaður. Sigmundur Davíð svaraði því engu og komst upp með það. Þetta var raunar ekki eina spurningin í viðtalinu, sem hann svaraði ekki.

 Náttúruverndarsamtök Íslands hafa bent á að ræða forsætisráðherra á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna hafi stangast á við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það er eins og það átti sig ekki allir því að það er liðin tíð, að menn geti sagt eitt í útlöndum og annað á Íslandi , sagt eitt í Skorradalnum og annað í Lundareykjadalnum. Það kemst alltaf upp.

 

 Molaskrifari er á því að gera eigi greinarmun á því að kjósa um eitthvað og greiða atkvæði um eitthvað. Í Morgunútgáfunni Í Ríkisútvarpinu (25.09.2014) var tvívegis talað um að í breska þinginu yrði kosið um aðgerðir gegn hryðjuverkamönnum Islamska ríkisins sem svo kallar sig. Þarna hefði átt, að mati Molaskrifara að tala um að greiða atkvæði, en ekki kjósa. Þetta hefur oft nefnt í Molum.

Í sama þætti var talað um að versla mjólkurvörur. Við kaupum mjólkurvörur. Á málfarsráðunautur ekki lausan tíma? Þar var líka talað um spin-off. Ekki var það betra.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1578

  „Húsið ætti að vera komið upp í byrj­un næsta árs og til­búið út­lits­lega séð en síðan fer árið í vinn­una inn­an­dyra,“ af mbl.is (23.09.2014). Útlitslega séð. Það var og. Húsið verður risið og tilbúið að utan í byrjun næsta árs. Fréttin var um nýbyggingu í Vatnsmýrinni í Reykjavík.

 

Eins og nefnt hefur verið hér áður eru umsjónarmenn Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins búnir að koma sér upp föstum lið. Þeir leika gamalt erlent dægurlag rétt fyrir fréttir klukkan sjö að morgni. Lagið kalla þeir standard. Það er sletta. Það er ekki íslenska. Getur málfarsráðunautur ekki leiðbeint umsjónarmönnum? Til hvers er málfarsráðunautur? Hafa umsjónarmenn ekki metnað til að vanda mál sitt? Það er ekki góð byrjun á deginum að sletta á okkur sem erum að hlusta. Auðvitað hlusta umsjónarmenn ekki á svona nöldur. Þeir munu halda áfram að sletta og málfarsráðunautur mun áfram að láta kyrrt liggja.

 

Í heimildamyndinni Alheimurinn í Ríkissjónvarpinu á þriðjudagskvöld (23.09.2014) var fróðlegur kafli um þýska veðurfræðinginn og jarðeðlisfræðinginn Alfred Wegener, höfund landrekskenningarinnar. Hann var framan af hafður að háði og spotti og kenning hans þótti fáránleg. Nú er hún ekki lengur umdeild, heldur vísindaleg staðreynd. Það var ekki fyrr en um 1960 að hann var metinn að verðleikum. Verka Wegeners sér stað á Íslandi. Við Hegranes,sem nú heitir, á Arnarneshæðinni steypti hann súlu sem tengist mælingum hans til að sanna landrekskenninguna. Það var árið 1930. Súlan stendur enn. Á hana hefur verið sett minningarplata. Síðar þetta sama ár varð Wegener úti á Grænlandsjökli, fimmtugur að aldri. 1912-1913 fór Wegener í fjögurra manna leiðangri þvert yfir Grænlandsjökul frá austri til vesturs. Notuðu þeir íslenska hesta í leiðangrinum. Einn Íslendingur, Vigfús Sigurðsson, var meðal þátttakenda, merkur maður og jafnan nefndur Vigfús Grænlandsfari eftir förina.

 Vigfús skrifaði fróðlega bók um leiðangurinn. Hún heitir Um þvert Grænland með kapt. J.P. Koch, - en svo hét leiðangursstjórinn. Fróðleg og læsileg bók um erfiða ferð við ótrúlegar aðstæður og mátti þar mjóu muna að leiðangursmenn kæmust lífs af undir lokin. Bók þessa fann Molaskrifari á fornbókasölu fyrr á þessu ári og er hún nú í bókasafni íslensku aðalræðisskrifstofunnar í Nuuk á Grænlandi.

 

Ósköp eru beinar útsendingar í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna stundum hallærislegar og nær alltaf tilefnislausar. Minnistætt er viðtal við þingmann sem  fjölmiðlar hafa sérstakt dálæti á , sem auglýst var í Ríkissjónvarpinu og sagt vera ,,í beinni útsendingu” , annað hvort frá Alþingi eða Austurvelli. Þar kom fátt fréttnæmt fram. Bara venjuleg pólitísk ræða. Það gefur frétt ekkert viðbótargildi að tala við umboðsmann skuldara í beinni útsendingu fyrir utan vinnustað hans.

 

Molaskrifari er sjálfsagt fremur tornæmur á ýmsum sviðum. Eftir langt Kastljós í gærkvöldi (24.09.2014) er hann engu nær um MS málið. Skildi ekki forstjórann. Eftir situr, að þetta sé bara fjarstæðukenndur misskilningur, - eiginlega allt málið eins og það leggur sig. Samkeppniseftirlitið skilji til dæmis ekki miðlun á vörum milli MS og yfirstjórnar skagfirska efnahagssvæðisins, kaupfélagsins á Króknum. Molaskrifara þykir annars slæmt að jafn ágætur maður og forstjóri MS skuli flæktur í svona dæmalaust vont kerfi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1577

  Fyrrverandi starfsbróðir í fréttamennsku sendi Molaskrifara eftirfarandi (22.09.2014): ,, Ekkert dregur úr framleiðslu hrauns“ segir á Mbl.is. og er þar átt við eldgosið í Holuhrauni. Furðulegt að blaðamanninum skuli ekki hafa dottið í hug hið ágæta orð hraunrennsli. Stundum er eins og menn séu ekki að hugsa um það sem þeim er borgað fyrir að gera. – Molaskrifari þakkar bréfið og réttmæta ábendingu. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/22/ekkert_dregur_ur_framleidslu_hrauns/

 

Engar kröfur eru gerðar til ráðherra, eða þingmanna um vandað málfar. Ekki er svo sem hægt að ætlast til þess, en gott væri að sumir þeirra væru betur máli farnir, en raun ber vitni. Á Alþingi (22.09.2014) talaði innanríkisráðherra til dæmis um brýnara (verkefni). Orðið brýnara er ekki til. Brýnna hefði þetta átt að vera. Í sömu ræðu talaði ráðherra um að óvissa væri fyrir því að ... Betur hefði farið á að tala um að óvíst væri að , eða óvissa ríkti um e-ð.

Aðgerðin er skynsöm fyrir stofnunina, sagði sjávarútvegsráðherra á Alþingi sama dag. Frekar ætti að tala um að eitthvað sé skynsamlegt varðandi tiltekna stofnun, en skynsamt.

 

Stundum veltir maður því fyrir sér hvort Ríkissjónvarpið sé svo upptekið af samkeppninni við Stöð tvö og Skjá einn um að sýna heldur léttvægt fjöldaframleitt amerískt afþreyingarefni að lögbundið menningarhlutverk verði hornreka, - sitji á hakanum.

 

Hæstaréttur hafnaði tillögu, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (22.09.2014). Hæstiréttur hafnaði tillögu, hefði hér átt að segja.

 

Einu sinni var efni Kastljóss kynnt í fréttum Ríkissjónvarps. Gott væri að taka þann sið upp aftur.

 

Það sjást batamerki á heimildamyndavali Ríkissjónvarpsins. Því ber að fagna og vonandi verður þar framhald á.

 

Í fréttum á mánudag (22.09.2014) var ítrekað nefnt fyrirtæki,sem sagt var heita Mjólkurbúið Kú! Átti þetta kannski að vera Mjólkurbúið Q? Orðið kýr beygist kýr,kú, kú, kýr. Nafngiftin virðist út úr kú, eins og stundum er sagt um eitthvað sem ekki er alveg í lagi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1576

 Eftirfarandi mátti lesa m.a. á fréttavef Ríkisútvarpsins (21.09.2014): Orri frá Þúfu, einn frægasti stóðhestur landsins, er dáinn, 28 vetra gamall. Þetta var leiðrétt síðar og réttilega sagt, að hesturinn væri allur. Hann hefði verið felldur.

 

Það var hálf óhugnanlegt að hlusta á lýsingar í Kastljósi gærkvöldsins (22.09.2014) á rotnu kerfi mjólkuriðnaðarins, MS, á Íslandi. Samkeppnislög ná ekki nema að sára litlu leyti til greinarinnar. Byggt var á skýrslu Samkeppniseftirlitsins. Ótrúlegt. Takk, Helgi Seljan. Takk Kastljós.

 

Síðastliðinn sunnudag (21.09.2014) var Molaskrifari að aka austan úr sveitum til borgarinnar og ætlaði að hlusta á Rás eitt á leiðinni, því eftirlætisstöðin hans í bílnum, Rondó, nær ekki nema skammt úr fyrir höfuðborgarsvæðið. Hvað skyldi hafa verið á dagskrá  Rásar eitt klukkan 14 á sunnudegi? Gömul Víðsjá, endurflutt. Diskaspilarinn vann.

 

K.Þ. benti á frétt á frétt á visir.is (22.09.2014): "Gos muni leggja til norðausturs í dag". Hann spyr : Var Villi viðutan á vakt í dag? - Það er ekki ósennilegt , en þetta var lagfært síðar. http://www.visir.is/gos-muni-leggja-til-nordausturs-i-dag/article/2014709229977

 

Í íþróttafréttum var nýlega tekið fram (19.09.2014) að Kaupmannahöfn væri í Danmörku. Allur er varinn góður.

 

Úr heldur illa skrifaðri frétt á visir.is (20.09.2014) : Íbúar í Holtahverfi á Ísafirði verða vatnslausir eitthvað fram eftir degi þar sem maður sem ók nauðsynlegan varahlut út á Reykjavíkurflugvöll til að hægt væri að senda varahlutinn vestur, var tekinn fyrir of hraðan akstur. – Þarf að hafa einhver orð um þetta?  Í fréttinni var líka sagt um manninn sem ók of hratt: Svo varð bílstjórinn fyrir þessu ....

Enn fremur segir í fréttinni: Þá var ákveðið að varahlutnum yrði keyrt strax vestur sem tekur náttúrulega dágóða stund, ... http://www.visir.is/varahlutur-nadi-ekki-i-flugvel-vestur-vegna-hradaksturs-bilstjora/article/2014140929987    Um svona skrif er eiginlega ekki margt hægt að segja.

 

Úr frétt á mbl.is (20.09.2014): Hann var dæmd­ur til 15 ára til lífstíðarfang­els­is fyr­ir morðið auk eins til 15 ára fang­els­is fyr­ir að hafa hindrað dóms­málið .  Hindrað dómsmálið? Ekki mjög vel orðað. Stundum hefur verið talað um að tefja framgang réttvísinnar.

 

Valdataka auglýsingadeildar Ríkisútvarpsins,sem virðist hafa rutt dagskrárdeildum til hliðar, og vægðarlaus samkeppni á auglýsingamarkaði eru að eyðileggja Rás eitt í Ríkisútvarpinu. Við verðum vitni að þessu á hverjum einasta degi. Það jaðrar við að kalla megi þetta skemmdarverk.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1575

 Af visir.is (18.09.2014) : Útlit er fyrir þó nokkurri gasmengun frá eldgosinu næstu tvo daga. Ekki gott orðalag. Hér hefði til dæmis mátt  segja: Útlit er fyrir þó nokkra gasmengun frá eldgosinu næstu tvo daga.

Klúðursleg þolmyndarnotkun í frétt á visir.is þenann sama dag: Þessum Jaguar E-Type var stolið af lögfræðingnum Ivan Schneider í New York borg árið 1968. Var lögfræðingurinn með bílinn á sér? Var bílnum stolið frá lögfræðingnum eða stal lögfræðingurinn bílnum? http://www.visir.is/fannst-eftir-46-ar/article/2014140918888

 

Af mbl.is (18.09.2014) um hjón sem dæmd voru í lífstíðarfangelsi: Dóm­ar­inn í mál­inu sagði að parið þyrfti að vera tekið úr sam­fé­lag­inu. Seint verður sagt að þetta sé vel orðað. Meira af mbl.is sama dag úr frétt um skógarelda vestanhafs: Eld­arn­ir hafa stækkað um helm­ing síðasta sól­ar­hring­inn og ógna nú rúm­lega 2000 heim­il­um. Eldarnir stækkað um helming?

 

Í Spegli Ríkisútvarpsins var sagt (17.09.2014) um kosningarnar í Skotlandi að úrslitin væru naum. Betra hefði, að mati Molaskrifara, verið að segja að úrslitin væru tvísýn. Mjótt væri á munum milli fylkinga. Um sömu kosningar sagði fréttamaður Stöðvar tvö daginn eftir að margínan væri svo lítil. Munurinn lítill. Þarna var algjör óþarfi að sletta á ensku, - jafnvel þótt fréttamaðurinn væri í Skotlandi.

 

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir er ljómandi góður dagskrárgerðarmaður á Rás eitt í Ríkisútvarpinu. Frá henni hefur komið mikið af vönduðu og áhugaverðu efni. Það þolir hins vegar enginn dagskrárgerðarmaður, hversu góður sem hann er, þá ofnotkun sem við nú verðum vitni að.

 

Molaskrifari hefur nefnt það áður og ítrekar: Mikill fengur væri að því að fá heimildamyndir Niall Ferguson um Kína. China: Triumph and Turmoil til sýninga í sjónvarpi hér. Þetta eru þrjár breskar heimildamyndir, sem nýlega hafa verið sýndar í norska ríkissjónvarpinu. Og þar er að finna fróðleik til dæmis um gríðarleg umsvif og námarekstur Kínverja í Afríku, - koparvinnslu í Zambíu. Kínverjar ætla sér að hefja námarekstur á næsta bæ við okkur, - á Grænlandi. Það þarf að fræða Íslendinga um hvernig hin nýja herraþjóð heimsins, Kínverjar, kemur fram gagnvart öðrum þjóðum þar sem þeir eru að sölsa undir sig auðlindir og beita til þess öllum tiltækum ráðum. Allt frá eiturlyfjum  til íþróttaleikvanga.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1574

  Umsjónarmenn Morgunútgáfunnar í Ríkisútvarpinu eru búnir að koma sér upp föstum lið. Síðasta lagi fyrir fréttir klukkan sjö á morgnana. Það heitir að vísu ekki síðasta lag fyrir fréttir. Þeir kalla það standard dagsins, eða standard morgunsins. Svo er leikið gamalt erlent dægurlag. Ekki skal haft á móti músíkinni. Kannski á þetta að koma í staðinn fyrir íslensku tónlistina, oftast íslenskt einsöngslag, stundum valið sérstaklega með tilliti til dagsins, sem áður var flutt á undan hádegisfréttum? Málfarsráðunautur er að líkindum ekki lengur starfandi við Ríkisútvarpið. Þess sér að minnsta kosti ekki stað. Standard er ekki íslenska, eins og hér hefur áður verið nefnt. Það er ekki hlutverk Ríkisútvarpsins að spilla tungunni.

 

T.H. vísar á frétt á mbl.is (18.09.2014): http://www.mbl.is/sport/handbolti/2014/09/18/allt_lid_sem_vilja_taka_naesta_skref/

Fyrirsögn á Mbl.is:
"Allt lið sem vilja taka næsta skref". Hann spyr:
Hvers konar bull er þetta eiginlega? - Ekki treystir Molaskrifari sér til að svara því, en þakkar ábendinguna.

 

Ekki er það alveg horfið úr ljósvakanum að tala um að kjörstaðir opni eða loki, eins og vonast var eftir hér í Molum á dögunum. Því orðalagi brá fyrir í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (18.09.2014) að  kjörstaðir lokuðu. Orðalagið er út í hött. Heyrðist reyndar líka í Speglinum (18.09.2014)

Það er ágætt í Morgunútgáfunni að byrja á því klukkan hálf sjö að segja okkur hvenær sólin komi upp í Reykjavík. En á fimmtudagsmorgni voru menn ekki mjög vel vaknaðir. Klukkan hálf sjö var sagt að sólin hefði komið upp klukkan 06:58, eða fyrir röskri hálfri klukkustund! Svo var þetta fimmtudagurinn 18. september ekki 17. september eins og sagt var. Það má ekki byrja daginn með því að rugla mann svona illilega í ríminu!

 

Valur sendi Molaskrifara línu og vitnar í frétt á mbl.is (17.09.2014), en þar segir: ,,Að sögn Þorra Magnús­son­ar fram­leiðslu­stjóra sem er í fjör­unni og horf­ir á skipið er fram­skipið laust en aft­ur­hluti skips­ins á sker­inu. Skipið er á veg­um Nes­skipa og er það er­lent”. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/17/afturhluti_skipsins_fastur_a_skerinu/

 Valur segir:,, Og segir blaðamaður lesendum um ,,framskip,, og ,,afturhluta skips,, greinilegt að blaðamaður hefur aldrei migið í saltan sæ. Því þetta heitir líkt og allir eiga að vita skutur og stefni. Vonandi getur þú birt þetta.” Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Auglýsingastofur og auglýsendur nota of oft slettur. Molaskrifara finnst það ekki góð sölumennska að nota fyrirsögnina: Það geta ekki allir verið gordjöss. Þetta er í auglýsingu frá bílasalanum BL. Ljót sletta. Vond auglýsing. Þar að auki skilja þetta ekki allir.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1573

 Hvað gerðist hjá Ríkissjónvarpinu? Hversvegna var hætt við  áður boðaða útsendingu skoska kosningasjónvarpsins, skyndilega og skýringalaust? Molaskrifari heyrði af sigri sambandssinna á BBC World Service á fimmta tímanum í nótt (19.09.2014) – þökk sé Vódafón á Íslandi og heyrði og sá Salmond ráðherra nokkru seinna viðurkenna ósigur, - þökk sé færeyska sjónvarpinu. Hversvegna bregst  þjónusta Ríkissjónvarpsins? – Annars var gott viðtal við Stefán Pálsson sagnfræðing í seinni fréttum sjónvarps í gær og ágæt samantekt Veru Illugadóttur í morgunfréttum. En þetta var hvergi nærri nóg. Þessar kosningar voru sögulegur stórviðburður, sem Ríkisútvarpinu bar skylda til að sinna betur.

 

Fjórar athugasemdir varðandi Ríkisútvarpið:

1.    Til hvers eru tvær útvarpsrásir, ef sama efninu er útvarpað, eins og nú er gert, á báðum rásunum frá klukkan hálf sjö á morgnana til klukkan níu? Réttlætingin fyrir tveimur rásum var að auka fjölbreytni útsends efnis.

2.    Hversvegna þarf svo oft að draga niður í hljóðinu þegar fluttar eru leiknar (stundum gargaðar) auglýsingar? Er hljóðstyrkurinn aukinn að skipan auglýsingastofu?

3.    Hversvegna er (að sögn útvarpsstjóra) ódýrara og hagkvæmara að blanda saman leiknum og lesnum auglýsingum? Er ekki einmitt einfaldara og ódýrara að halda þeim aðskildum?

4.    Er stefnt að því, eins og nú blasir við, að endurtaka næstum alla þætti samdægurs, sem fluttir eru á Rás eitt?

 

Í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu var nýlega sagt (17.09.2014) að ýmsir hefðu horn í síðu orðsins sviðsmynd, - í merkingunni í lýsing á því sem kunni að gerast við tilteknar aðstæður. Molaskrifari er ekki í þeirra hópi sem hafa amast við þessu orði. Þetta er ágætis orð fyrir það sem á ensku er nefnt scenario. Lýsing á stöðu eða aðstæðum sem geta skapast ef tiltekið ástand breytist til verri eða betri vegar. Fínt orð.

Áskell er hinsvegar á öðru máli um þetta: Áskell skrifaði (17.09.2014): ,,Í fréttatilkynningu frá Jarðvísindastofnun HÍ er tíundað hvað geti gerst á næstunni í Bárðarbungu. Í lok tilkynningarinnar segir að ekki sé hægt að "útiloka aðrar sviðsmyndir". Ég vona að þetta sé í síðasta sinn sem ég sé tískuorðið "sviðsmyndir" í frétt frá umræddri stofnun.” 

Molaskrifari er hér ekki alveg sammála eins og fram kemur að ofan.– Þakka þér bréfið, Áskell.

 

Enn er verið að auka endurtekið nýtt efni á Rás eitt. Nú er farið að endurtaka hluta Morgunútgáfunnar frá sama morgni klukkan hálf sjö á kvöldin. Ætla nýir herrar í Efstaleiti alveg að eyðileggja Rás eitt? Það er engu líkara.

 

Þessi frétt var óleiðrétt á mbl.is allan miðvikudaginn (17.09.2014). Hér segir allt annað í fyrirsögn en í fréttinni sjálfri. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/17/84_oku_of_hratt_a_vifilsstadavegi/

84 óku of hratt á Vífilsstaðavegi segir í fyrirsögn. En fréttin hefst svona: Brot 43 öku­manna voru mynduð á Víf­ilsstaðavegi í Garðabæ í dag. 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1572

  Skrifstofa bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs verður staðsett í Norræna húsinu , sagði fréttaþulur Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld (16.09.2014). Staðsett? Skrifstofan verður í Norræna húsinu. Orðinu staðsett er oftast nær ofaukið.

 

T.H. benti á þessa frétt af mbl.is /16.09.2014) : http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/16/husnaedid_ekki_ibudarhaeft/

Hann segir: Hér er ýmislegt athugavert, en mest um verð þykir mér þó sögnin að "olla".

Hér er þetta svart á hvítu: ,, Kristján Kristjáns­son, upp­lýs­inga­full­trúi Lands­bank­ans, seg­ir fyrri um­fjall­an­ir um málið hafa ollið mis­skiln­ingi þó hann megi ekki veita upp­lýs­ing­ar um mál Areks og fjöl­skyldu eins og önn­ur ein­stök mál.” – Molaskrifari þakkar T.H. ábendinguna.

 

Talað er um að taka einhvern tali, ná tali af einhverjum í merkingunni að ræða við einhvern. Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (16.09.2014) fór umsjónarmaður, eða fréttamaður, í heimsókn á hárgreiðslustofu og tók tal af konum. Þetta orðalag hefur Molaskrifari ekki heyrt áður.

 

Á sunnudagskvöldið var (14.09.2014) sýndi norska sjónvarpið NRK2 frá Gala óperuhátíð í París. Þetta voru útitónleikar og gestirnir skiptu þúsundum. Eiffelturninn í baksýn. Stórkost skemmtun fyrir alla tónlistarunnendur. Þarna komu fram ýmsir frægustu óperusöngvarar í heimi og fluttu aríur og dúetta,sem flestir þekkja. Athygli Molaskrifara var vakin á því, að eini erlendi tónlistarviðburðurinn sem Ríkissjónvarpið sýnir í beinni útsendingu er Evróvisjón dægurlagakeppnin. Skortir þó samkvæmt upplýsingum skrifara ekki á að beinar útsendingar frá tónleikum í Evrópu séu á boðstólum á vegum Evrópusambands útvarpsstöðva, EBU. Annaðhvort er ekki mikill áhugi fyrir hendi hjá yfirstjórn Ríkisútvarpsins eða búið er að eyða tiltækum fjármunum í beinar útsendingar frá boltaleikjum í útlöndum.

 

Sorglegt og hörmulegt, ef ungum stúlkum var byrluð ólyfjan á skemmtistað í Reykjavík (Ríkissjónvarpið 16.09.2014). En þetta var ekki efni í heilan Kastljóssþátt. Hreint ekki. Stundum er eins og eðlilegt efnismat bresti. Þessu hefði mátt gera skil í stuttu viðtali og viðtali við lyfja- og eiturefnafræðing, en hjá honum kom fram hve stóran þátt áfengi yfirleitt á í svona málum. En hversvegna í ósköpunum var ekki farið með neina af þessum þremur konum á bráðamóttökuna og sýni tekin til rannsóknar? Fleiri en Molaskrifari undrast það sjálfsagt eftir að hafa hlustað á hrikalegar lýsingar. Þetta var ekki beittur þáttur eins og auglýst er. Miklu fremur langloka. Misráðin efnistök í oft annars góðu Kastljósi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband