13.10.2014 | 10:02
Molar um málfar og miðla 1591
Fyrir nokkru var það ámálgað við Morgunblaðið, að birt yrði með öðrum minningargreinum örstutt grein á ensku eftir tvo enskumælandi sendiherra á Íslandi, sem höfði verið góðir vinir hins látna. Því var hafnað og sagt að blaðið birti ekki minningargreinar á ensku. Ekkert við því að segja. Á föstudag (10.09.2014) birtist nokkuð löng dánarfregn í Morgunblaðinu, sem öll var á ensku. Hefur þarna orðið stefnubreyting hjá Mogga? Ekki ber á öðru.
Mikið er gott að umsjónarmenn Morgunútgáfunnar í Ríkisútvarpinu skuli nú tala um lag dagsins, - gamla dægurlagið, sem er leikið rétt fyrir fréttir klukkan sjö. Það fer vel á því. Kærar þakkir fyrir það.
Rafn bendir á þessa frétt á mbl.is (10.10.2014) http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/10/09/vard_fyrir_byflugnaaras_og_lest/
Hann spyr: ,,Er fréttin um býflugur (samkvæmt texta) ellegar geitunga (samkvæmt mynd)?? Í fréttinni segir meðal annars: ,,Á háalofti hússins fannst gríðarlega stórt býflugnabú. Búið var 1,2 metra breitt og 1,8 m hátt. Talið er að það sé tíu ára gamalt og að í því hafi um 800 þúsund býflugur haldið til. Er þetta bara ekki enn eitt dæmið um slök vinnubrögð við mynda með fréttum á netinu? Sennilega.
Á föstudagskvöld (10.10.2014) var fréttum Ríkissjónvarpsins enn einu sinni hent út vegna fótbolta. Fótbolti frá kl. 18 25 til 20 50 , næstum tveir og hálfur tími. Aftur voru 25 mínútur um fótbolta seinna um kvöldið. Fyrr um daginn var fótbolti í tvo tíma. Sem sagt næstum fimm klukkustundabolti sama daginn! Fyrr má nú rota en dauðrota. Samt var ekki hægt að standa við auglýsta dagskrá. Hún fór úr skorðum. Hversvegna var þetta efni ekki á íþróttarásinni? Í íslenska Ríkissjónvarpinu voru engar fréttir frá klukkan 1800 á föstudagskvöldi til klukkan 1900 á laugardagskvöldi. Evrópumet, ef ekki meira. Ekki eftirsóknarvert met.
- Meðan knattspyrnan réði ríkjum í Ríkissjónvarpinu þetta kvöld hringdi áhorfandi til Molaskrifara og sagðist fá hlustarverk í hvert einasta skipti, sem leiklýsendur töluðu um að spila hátt eða lágt, þegar leikurinn færi fram á láréttum velli. Þessu er hér með komið á framfæri.
- Margskonar góðgæti var í boði í Sjónvarpi Símans meðan fótboltafárið reið yfir var margt gott efni í boði í Sjónvarpi Símans. Til dæmis tvær kvikmyndir með Marlon Brando í aðalhlutverki, gerðar með 18 ára millibili , On the Waterfront 1954 ( Á eyrinni, Storbyhamna á norsku) og Last Tango in Paris frá 1972. Heitið Á eyrinni situr alltaf í Molaskrifara sem frábært nafn á kvikmynd, góð þýðing. Engin reisn hefði verið yfir því að kalla myndina Stórborgarhöfn á íslensku.
Aftur verða sjónvarpsfréttir hornreka í kvöld (13.10.2014). Hálftíma fjas í kjölfar leiksins ætti hinsvegar að vera á íþróttarásinni. Til hvers er hún?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2014 | 08:59
Molar um málfar og miðla 1590
Fréttin er um það, að leki kom að báti sem var að veiðum út af Melrakkasléttu, langt úti á sjó. Sjór byrjaði að streyma inn í vélarrúmið. Allt fór þetta vel og báturinn var dreginn til hafnar. Engum sögum fer af því hvaðan vatnið kom sem um er rætt í fréttinni. Þarna var nefnilega ekkert vatn.
Í Garðapóstinum , ,,óháðu bæjarblaði í Garðabæ (09.10.2014), segir í fyrirsögn þar sem vitnað er í ummæli bæjarstjórans: Ákveðinn vinningskultúr. Ekki kann Molaskrifari að meta orðið vinningskultúr. En gleðjast ber með sigursælu íþróttafólki í Garðabæ, sem hefur átt mikilli velgengni að fagna að undanförnu. Það er bæjarbúum gleðiefni, - jafnvel þeim sem lítinn sem engan áhuga hafa á boltaleikjum.- Fjórir snáðar knúðu dyra hjá mér í Garðabænum í gærkvöldi (10.10.2014)og voru að selja armbönd til að safna fyrir takkaskóm. Upprennandi stjörnur. Nú er ég vel birgur af armböndum.
Viðtal við Magnús Geir Þórðarson , útvarpsstjóra á Stöð tvö (08.10.2014) var áfellisdómur yfir þeim sem sátu við stjórnvölinn á undan honum. Fram kom, að fjölmennar uppsagnir og aðhaldsaðgerðir hefðu ekki skilað árangri. Í viðtali í Morgunblaðinu daginn eftir kom fram að þetta hefði ekki skilað árangri vegna þess að þáttum hefði verið hent út úr dagskránni, fólk rekið og ekki gert ráð fyrir að neitt kæmi í staðinn. Slíkt ber ekki vott um mikla stjórnvisku í rekstri. Nú bíða velunnarar Ríkisútvarpsins (geta lítið annað gert) eftir því hvort það er ætlun valdhafa að valda óbætanlegum skemmdum á þessari (fram til þessa ) menningarstofnun þjóðarinnar eða limlesta hana þannig að hún verði aldrei söm. Nái ekki vopnum sínum. Vonandi sjá þeir að sér.
Í Spegli Ríkisútvarpsins (09.10.2014) var enn einu sinni talað um að kjósa með ályktun og kjósa gegn ályktun. Molaskrifari heldur því fram , - eins og oft hefur raunar komið fram í Molum, - að hér hefði heldur átt að tala um að greiða atkvæði gegn ályktun og greiða atkvæði með ályktun. Því miður virðist sumum fréttamönnum um megn að hafa þetta eins og málvenja býður, - og ekki virðist málfarsráðunautur hafa skoðun á málinu. Hér lætur Ríkisútvarpið reka á reiðanum, sem er ekki gott í þessum efnum.
Hvað þýðir það sem sífellt er klifað á í Ríkissjónvarpinu um þessar mundir að ,,fréttastofa Hraðfrétta hafi nú öðlast sjálfstæði? Það er tönnlast á þessu á hverju kvöldi. Heyrði fíflagangurinn áður undir fréttastofuna? Í hverju er þetta sjálfstæði fólgið? Hefur verið settur nýr fréttastjóri? Var staðan auglýst? Mikið endemis bull er þetta.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2014 | 09:33
Molar um málfar og miðla 1589
T.H. benti (08.10.2014) á þessa frétt á mbl.is.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/07/frosti_fannst_eftir_3_ar/
"Starfsmönnum Villikatta grunaði að um týndan heimiliskött væri að ræða."
Hann segir og spyr: Ekki grunaði mér það? En þér? Svarið er: Reyndar ekki, en hvar er gæðaeftirlitið hjá mbl.is ?
T.H. benti einnig á þetta á mbl.is sama dag: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/07/hljomsveitin_er_heit_fyrir_thessu/
"Jökulbútur úr Jökulsárlóni mun gegna mikilvægu hlutverki á tónleikum bresku hljómsveitarinnar Madness í kvöld. Hefur búturinn verið fluttur frá Jökulsárlóni til London og verður hann á sviði með sveitinni."
,,Jökulbútur? - Piece of glacier ?
Er þetta þá ekki ísjaki? - Það verður að teljast fremur sennilegt, - klakastykki.
Í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu í morgun (10.09.2014) var rætt við tvo blaðamenn um fréttir vikunnar. Annar var frá Fréttatímanum hinn frá Morgunblaðinu. Blaðamanni Fréttatímans fannst réttilega fréttnæmt að aðstoðarmaður innanríkisráðherra hefði krafist fangelsisdóms yfir tveimur blaðamönnum sem gerðu mistök, en báðust strax afsökunar og birtu leiðréttingu. Vissulega stórfrétt. Blaðamanni Morgunblaðsins fannst það greinilega ekki, - hann nefndi málið ekki og var ekki um það spurður. Hvorugur blaðamannanna nefndi að daginn áður höfðu níu friðsamir mótmælendur fengið þunga sektardóma fyrir að mótmæla náttúruspjöllum við vegagerð í Gálgahrauni/Garðahrauni. Enginn hinna dæmdu veitti harðneskju fjölmenns lögregluliðs minnstu mótspyrnu. Blaðamaður Morgunblaðsins sagði að dómari í íþróttakappleik hér á Íslandi hefði verið geymdur í protective custody vegna ótta um að honum yrði unnið mein eftir leikinn. Farinn að ryðga í móðurmálinu? Hann hefði til dæmis getað sagt að dómarinn hefði verið í öruggu skjóli nokkra stund eftir leikinn. Kannski var fólk bara ekki almennilega vaknað.
,,Ef við lítum á spánna var sagt í Virkum morgnum Ríkisútvarpsins ((07.10.2014). Þetta virðist vera orðinn viðtekinn framburður nokkuð víða . Hvað segir málfarsráðunautur? Og : Erum við komin þangað að manni langar í barómet og klukku? Einnig kom við sögu maður ,sem var staddur á Neskaupstað. Hvað segir málfarsráðunautur?
Molaskrifari hlustar örsjaldan á þennan þátt. Smáskammtur dugði þennan þriðjudagsmorgun.
Framburðurinn spánna barst í tal í hópi gamalla skólasystkina í vikunni. Skólasystir, ágæt og vel að sér um íslenskt mál, benti á að kannski ættu umsjónarmenn að hlusta á dægurlagatextann frá okkar yngri árum, sem Númi Þorbergsson samdi, - Nú liggur vel á mér. En þar segir meðal annars:
Svo sá hún Stjána, það vakti þrána,
hann kom á Grána út yfir ána.
Lagið er íslenskt en höfundur þess er Óðinn G. Þórarinsson.
Þeir voru oft góðir dægurlagatextarnir í gamla daga, og sitja í manni enn. Kunnir og skemmtilegir textahöfundar voru auk Núma m.a. Skafti Sigþórsson sem kallaði sig Náttfara og Loftur Guðmundsson rithöfundur svo aðeins fáir séu til sögunnar nefndir.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.10.2014 | 10:02
Molar um málfar og miðla 1588
Gáfu ráðuneytinu forlátaborð að gjöf, sagði í fyrirsögn á visir.is (04.10.2014). Gáfu ráðuneytinu forláta borð, - hefði alveg dugað. Sjá: http://www.visir.is/gafu-raduneytinu-forlata-bord-ad-gjof/article/2014710049939
T.H. skrifaði (03.10.2014) og benti á þessa frétt á visir.is: http://www.visir.is/nagrannaerjur-i-vogum-medvitundarlaus-i-halftima-og-bar-svo-ut-frettabladid/article/2014141009581
"Þetta voru ummerki sem voru þess eðlis að það leit út fyrir að einhver hefði verið dreginn meðfram jörðinni. ... Fram kom ... að sérstök lögregluskýrsla hafi ekki verið skiluð inn að fullu ..." . Molaskrifari þakkar sendinguna. Þetta er óttaleg hörmung. TH bendir líka (04.10.2014) á frétt á mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/03/fyrsti_snjorinn_i_hofudborginni/
Hann segir: "snjórinn hefur alltaf komið á þessum tíma annars lagið"
Einkennilegt að blaðamaður skuli ekki kunna móðurmálið betur. Hér á auðvitað að standa "annað slagið" - Kærar þakkir, T.H.
Þrjár sparnaðartillögur til Ríkisútvarpsins, sjónvarps:
1. Hætta við Evróviosjón söngvarkeppnina.
2. Leggja niður seinni fréttir sjónvarpsins, sem eru aðeins fjögur kvöld í viku, og bæta yfirleitt ekki miklu við f fyrri fréttatíma, nema kannski tilvitnunum í Kastljós
3. Hætta við svokallaðar Hraðfréttir.
Þannig mætti spara mikið fé.
Halda ráðamenn Lottósins í alvöru, að það auki sölu lottómiða að láta garga á hlustendur, sem bíða þess að fréttir hefjist í Ríkisútvarpinu? Molaskrifari leyfir sér að efast um að þessar hálfruddalegu auglýsingar auki sölu lottómiða.
Næstu Molar sennilega á föstudag.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
6.10.2014 | 09:40
Molar um málfar og miðla 1587
http://www.ruv.is/frett/kjosa-um-verkfall-i-tonlistarskolum
Molaskrifari þakkar ábendinguna og bætir við:
Í hádegisfréttum Ríkissútvarps á föstudag (03.10.2014) var í frétt frá Svíþjóð hvað eftir annað talað um að kjósa með fjárlögum. Atkvæði eru greidd um lagafrumvörp. Um þau er ekki kosið. Eins eru greidd atkvæði í stéttarfélögum um hvort boða skuli til verkfalls. Getur málfarsráðunautur ekki skýrt þetta fyrir þeim fréttamönnum, sem hér eiga hlut að máli? Þetta er í rauninni ekkert flókið. - Í Morgunblaðinu Í dag (06.10.2014) er svohljóðandi fyrirsögn á bls. 2 : Tónlistarkennarar kjósa um verkfall! Það er víðar pottur brotinn en í Efstaleitinu!
Okkur viðskiptavinum Ríkisútvarpsins finnst það mörgum dálítið sérstakt að á sama tíma og Ríkisútvarpið getur ekki greitt skuldir sínar, - verður að biðja lánardrottna um gjaldfrest, er ómældum fjármunum sturtað í vitleysu sem kölluð er Hraðfréttir og gengur mest út á fíflagang.
Sagt er í dagskrárkynningum Ríkissjónvarps : ,,Fréttastofa Hraðfrétta hefur öðlast sjálfstæði ... Hefur sem sagt verið stofnuð ný fréttastofa í Efstaleiti? Þegar annarstaðar er rekið, þá er ráðið nýtt fólk til starfa við hina nýju fréttastofu! Það er ekki nokkur leið að hafa samúð með Ríkisútvarpinu vegna fjárhagshremminga meðan fé er sólundað með svo opinskáum hætti.
Í símsvara DV var þeim sem hringdu á föstudag (03.10.2014) tilkynnt að vegna tækniörðugleika mundi blaðið ekki berast út fyrr en á laugardag. Átt var við að blaðið kæmi ekki út fyrr en á laugardag. Bærist ekki áskrifendum fyrr en á laugardag.
Nú er ekki lengur aðeins talað um saksónara (saksóknara) á Stöð tvö (03.10.2014). Nú er líka talað um saksnara. Þarna gæti talþjálfun komið að góðu gagni.
Molaskrifari gerir ráð fyrir að ýmsum hafi þótt næsta furðulegt að heyra fréttamann Stöðvar tvö yfirheyra nýsettan ríkissaksóknara í málinu varðandi hugsanlega endurupptöku Guðmundar og Geirfinnsmála, um kunnáttu hans í lögfræði, einkum þó í refsirétti (03.10.2014).
Hversvegna þótti ástæða til að lítilsvirða bandaríska þjóðsönginn í svonefndum Hraðfréttum Ríkissjónvarpsins á föstudagskvöld (03.10.2014)? Molaskrifara finnst óskiljanlegt að stjórnmálamenn, núverandi og fyrrverandi skuli láta hafa sig í það að taka þátt í þessum fíflagangi. Þorir fólk ekki að segja nei takk, ef því er boðið að birtast á skjánum?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2014 | 06:54
Molar um málfar og miðla 1586
Þegar Molaskrifari skoðaði fréttina á vef Ríkisútvarpsins var búið að stytta hana nokkuð og lagfæra en í upphaflegu fréttinni stóð meðal annars: Fry segist sjálfur ekki óttast að vera sakaður um kynferðisbrot, honum reki ekki minni til þess að hafa þuklað á nokkurri manneskju í óþökk viðkomandi. Og: ,, Margir hafi beðið álitshnekk fyrir að láta hann komast upp með brot sín áratugum saman... Molaskrifari þakkar ábendinguna. Hér skortir ritstjórn, verkstjórn, eðlilegt eftirlit með því, sem kemur fyrir almenningsaugu. Það á að gera kröfur til fjölmennustu fréttastofu landsins. Miklar kröfur.
Í keppninni um verst skrifuðu frétt ársins kemur þessi frétt af visir.is (01.10.2014) vel til greina: http://www.visir.is/35-thusund-rostungar-strandadir-i-alaska/article/2014141009928
Sýnishorn: Ólíkt selum geta rostungar ekki synt til sjós án reglulegrar hvíldar og til þess þarf hafís.
Veturliði Þór Stefánsson skrifaði (02.10.2014): ,,Komdu sæll Eiður,
Vildi bara benda molaskrifara á þessu kauðslegu frétt ríkisútvarpsins:
http://www.ruv.is/frett/mannrettindi-brotin-a-gedsjukum-fongum
Hér er talað um "skýrslu umboðsmanns frá í fyrra" og "Í skýrslu umboðsmanns Alþingis frá 2013".
Hið rétta er að um að ræða skýrslu umboðsmann fyrir árið 2013 sem kom út 16. september sl. eins og kemur skýrt fram á heimasíðu umboðsmanns. Molaskrifari þakkar bréfið.
Vegna spurningar Molaskrifara um útskúfuð börn (Molar 1583) svaraði gamall skólabróðir, Sigurður Oddgeirsson nú búsettur í Danaveldi: ,,Mér finnst samhengi skipta hér mestu máli. Ekki gott að dæma um þetta svona samhengislaust. Þess vegna tel ég að það sé allt í lagi að tala um útskúfuð börn, en stundum er það samhengið sem getur gert greinarmuninn. Börn eru lifandi verur og þess vegna verður það kannski tilfinningamál. Manni finnst að athyglin eigi að vera á börnunum. Aftur á móti yrði kannski ekki það sama uppi á teningnum, ef um dauða hluti væri að ræða. Tökum dæmi:.Hvítskúruð gólf finnst mér fallegra mál en gólf, sem hafa verið hvítskúruð. Og sama gildir um kalkaðar grafir. Meiri reisn yfir því en grafir, sem hafa verið kalkaðar. Molaskrifari þakkar Sigurði kærlega fyrir svarið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.10.2014 | 08:31
Molar um málfar og miðla 1585
Ríkissjónvarpið þarf að ákveða hvað garðyrkjuþættirnir, sem nú (01.10.2014) er verið að sýna, heita. Þættirnir heita ýmist,- Í garðinum með Gurrý eða Í garðinum hjá Gurrý. Niðursoðna konuröddin,sem kynnir dagskrána, segir eitt. Í skjátexta stendur annað. Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð.
Það verður hver að eiga það sem hann á, eins og þar stendur. Dagskrá Ríkissjónvarpsins hefur farið batnandi að undanförnu. Hver bitastæða heimildamyndin á fætur annarri og kvikmyndavalið stórum betra en var þegar botninn virtist skafinn og dreggjar einar bornar fyrir okkur. Sem sagt á réttri leið og vonandi verður þar framhald á. Nú þurfa stjórnendur í Efstaleiti bara að brjóta odd af oflæti sínu og færa siðasta lag fyrir fréttir á sinn stað og endurskoða þær ákvarðanir aðrar, eins og varpa Sagnaslóð fyrir róða, sem mest hafa verið gagnrýndar. Þeir verða ekkert minni menn af því að hlusta á hlustendur/horfendur. Það er reyndar þeirra hlutverk.
Í morgun (03.10.2014) var standard slettunni sleppt í Ríkisútvarpinu rétt fyrir klukkan sjö, á undan fréttum. Vonandi verður svo framvegis. Þess í stað var talað um lífseigt lag. Gott. Það er fínt orðalag.
Hversvegna þarf stórverslunin Hagkaup að hefja auglýsingu,sem beint er til okkar, með enskri upphrópun: Oh My God? Og nota svo slettuna tax-free í auglýsingunni, - til að kóróna þetta? Hver er tilgangurinn? Er auglýsingadeild Ríkisútvarpsins fyrirmunað að fara eftir þeim reglum að auglýsingar í Ríkisútvarpinu skuli vera á íslensku
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.10.2014 | 10:00
Molar um málfar og miðla 1584
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/09/30/helmingur_faer_ekki_ellilifeyri/
Úr fréttum Stöðvar 2 (29.09.2014): ,, Jón var saumaður ellefu spor î ennið. Betra hefði verið: Sauma þurfti ellefu spor í skurð á enni Jóns. Eða: Ellefu spor þurfti til að loka skurði á enni Jóns.
Í sama fréttatíma sagði fréttamaður: ,,Flug til Ísafjarðar var aflýst hjá Flugfélagi Íslands. Betra hefði verið: Flugfélag Íslands aflýsti flugi til Ísafjarðar. Flug var ekki aflýst. Flugi var aflýst.
Þá var sagt um knattspyrnumann sem slasaðist í leik að honum hefði verið flogið með sjúkraflugvél til Reykjavíkur. Molaskrifari kann ekki að meta þetta orðalag. Maðurinn var fluttur til Reykjavíkur með sjúkraflugvél.
Íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps talaði (29.009.2014) um að kíkja aðeins a spánna. Æ algengara að heyra talað um spánna í staðinn fyrir spána.
Ríkissjónvarpið sýndi prýðilega heimildamynd um örlög skipalestarinnar PQ 13 sem sigldi frá Íslandi til Arkengelsk í júlí 1942. Molaskrifari sá þessa mynd á einhverri norrænu stöðvanna fyrir nokkrum mánuðum. Neðanmálstextarnir íslensku, sem myndinni fylgdu, voru illa þýddir, einkum framan af. Aftur og aftur var talað um sjó sem vatn. Sagt var, að skipalestin hefði verið vel rekin, - henni var vel stjórnað. Aftur og aftur var talað um þotur, sprengjuflugvélar, einkum af gerðinni Heinkel 111. Það voru engar þotur til 1942. Þetta þotutal var tómt rugl. Orðið materials var þýtt efni, en átt var við hergögn. Svo var talað um herskip á yfirborðinu og sjóketti. Óvenjuleg óvandvirkni. Yfirleitt eru vandaðir íslenskir textar með erlendu efni í Ríkissjónvarpinu. Það hefur gnótt góðra þýðenda á sínum snærum.
Kiljan stóð að venju fyrir sínu í gærkveldi (01.10.2014) Viðtal Egils við Sally Magnusson um bókina Where Memories Go, um veikindi móður hennar, hefur örugglega ekki látið neinn ósnortinn, sem þekkir til þessarar illvígu sjúkdóma hjá sínum nánustu. Takk.
Þær geta verið dálítið furðulegar þessar svokölluðu leiknu auglýsingar sem Rás eitt rekur nú inn í hlustir okkar daginn út og daginn inn. Í einni þeirra er boðið upp á að fegra herbergin hjá okkur og spurt: Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í stofunni? Næst verður sennilega spurt: Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í svefnherberginu? Það er dálítið magnað þetta nýja Ríkisútvarp okkar í Efstaleitinu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.10.2014 | 10:06
Molar um málfar og miðla 1583
http://www.ruv.is/frett/snjoad-i-fjoll-i-hofudborginni
Í fréttum um Estoniaslysið, sem varð fyrir tuttugu árum, var sagt í Ríkisútvarpinu klukkan 1500 á sunnudag (28.09.2014): .... að kinnungurinn brotnaði hreinlega af. Þetta er ekki mjög nákvæmt orðalag. Kinnungur er skipshlið, einkum næst stafni, bógur. Það sem gerðist og megin orsök þess að skipið sökk var að læsingar á stefnisdyrum gáfu sig í ofsaveðri, dyrnar brotnuðu af og skipið fylltist af sjó á örskammri stund. Muni Molaskrifari rétt.
Brynjar gerði athugasemd við notkun slettunnar standard í morgunþætti Ríkisútvarpsins (29.09.2014). Molaskrifari segir: ,, Ég hef nokkrum sinnum gert athugasemd við þetta ,,standard" tal umsjónarmanna á hverjum degi. Þetta er notað í ensku yfir gömul dægurlög. Óðinn Jónsson fyrverandi fréttastjóri virðist staðráðinn í að troða þessari slettu inn í móðurmálið. Hversvegna ekki tala um gamla gullmola eða perlur? Til hvers starfar málfarsráðunautur við Ríkisútvarpið ef ekki til að uppræta ambögur og óþarfar slettur, málspjöll? Er þetta gert með blessun og velþóknun starfsmannsins sem á að leiðbeina samverkafólki sínu um íslenskt mál og málnotkun?
Um þetta var einnig fjallað í Molum gærdagsins. Í morgun (01.10.2014) var talað um standarð, það er líka sletta í þessari merkingu. En til er gamalt orð standarður um herfána, ríkisfána eða toppveifu. Það er annar handleggur. Einnig var talað um lífseigt lag. Það er ekkert að því.
Í fjögur fréttum Ríkisútvarps (30.09.2014) var talað um útskúfuð börn. Nú má vel vera að þetta sé hárrétt orðalag og ekkert við það að athuga. Molaskrifari hefur samt á tilfinningunni að eðlilegra væri að tala um börn sem hafi verið útskúfað. Það fellur betur að málkennd hans. Hvað segja lesendur?
Molaskrifari gerir ekki mikið af því að lesa íþróttafréttir í blöðum. Í Morgunblaðinu á mánudag hnaut hann um þessa fyrirsögn: Dýr tækling Atla Más. Íþróttafréttamönnum hefur tekist að koma slettunni tækling og sögninni að tækla inn í málið. Það er ekki þakkarvert. En sennilega er of seint að andæfa. Í undirfyrirsögn segir: Vísað af velli og fékk mark í bakið. Molaskrifari las fréttina nokkuð vel, en sá þess engin merki að leikmaður hefði fengið mark í bakið! Þá er talað um í fréttinni að leikmaður hafi rænt annan færi? Lögreglan hefur væntanlega verið kölluð til.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.9.2014 | 09:54
Molar um málfar og miðla 1582
,,Næst er komið að pikkföstum lið í Morgunútgáfunni, standard dagsins ... þetta er með öðrum orðum í röð þekktustu standarda. Hér eru skemmdarverk á tungunni unnin að því er virðist af ásetningi. Brotavilji umsjónarmanna gegn fyrstu grein útvarpslaga er einbeittur. Sú lagagrein er ekki að þeirra smekk og þeir telja sig greinilega ekki þurfa að fara eftir henni. Hvað segja þeir sem eiga að stjórna þessari stofnun? Lagið í morgun , My Funny Valentine, sem Chet Baker flutti er vissulega gullfallegt, sígilt. Molaskrifari á það á hljómdiski í bílnum og þar hljómar það á stundum.
Hvað gera fréttafíklar, sem missa af miðnæturfréttum Ríkisútvarpsins? Hlusta á BBC World Service á FM bylgjunni í boði símafélagsins Vódafón. Ríkisútvarpið okkar hefur ekki efni á að útvarpi neinum fréttum frá miðnætti til klukkan sjö að morgni. Á miðnætti í gærkveldi (29.09.2014) tilkynnti fréttalesari samviskusamlega að næstu fréttir yrðu klukkan sjö í fyrramálið. Eftir sjö klukkustundir. Engin alvöru útvarpsstöð lætur sér sæma svona framkomu við hlustendur. Þetta er óboðleg þjónusta, eða öllu heldur þjónustuleysi. Á sama tíma hefur kostnaður svo svokallaðar Hraðfréttir stóraukist. Hraðfréttir fá aukinn mannafla og meira rými í dagskránni. Hraðfréttir snúast mest um kjánagang.
Fyrir nokkrum dögum var vikið að muninum á að kjósa og að greiða atkvæði um eitthvað. (Molar 1579). Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (27.09.2014) var talað um að kjósa gegn tillögu. Molaskrifari er á því að þarna hefði farið betur á því að tala um að greiða atkvæði gegn tillögu. Kannski skynja ungir fréttarmenn engan mun á því að kjósa og greiða atkvæði.
T.H. skrifaði (28.09.2014): "Viðskiptavinirnir telja farið sínar ekki sléttir, bæði varðandi lánveitingar bankans og hvernig skiptastjórinn hefur höndlað málið."
- Hér hefur blaðamanni líklega vafist tunga um fót! Segir T.H. Molaskrifari þakkar sendinguna. Sjá:
http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2014/09/27/ekkert_bendi_til_brots/
Molaskrifari segir jafnan eins og honum finnst. Það gustar af leiðurum Sigurjóns M. Egilssonar í Fréttablaðinu ( til dæmis 27.09.2014). Þannig á það að vera. Of oft hafa leiðarar blaðsins að undanförnu verið léttvægt fjas og fuður um lítið sem ekki neitt.
Í fréttum Ríkisútvarps (27.09.2014) var talað um lækni á Neskaupstað. Sá sem fréttina skrifaði fer líklega á kaupstað, en ekki í kaupstað eins og flestir þó gera. Réttilega var sagt í Neskaupstað í sjónvarpsfréttum.
Heyrði ekki betur en forseti Íslands talaði um öfgvahópa í ræðu á kristilegri samkomu í Hörpu á laugardag (27.09.2014), Öfgar, öfgar,öfgum,öfga. Orðið öfgvar finnst ekki í beygingarlýsingu íslensks nútímamáls á vef Árnastofnunar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)