27.10.2014 | 09:08
Molar um málfar og miðla 1601
Orðið jarðaför var einnig notað í meginmáli fréttarinnar. Þetta var því ekki innsláttarvilla. Heldur vankunáttuvilla. Þarna hefði átt að tala um jarðarför. Færeyingar tala um jarðarferð, útför
Taktleysi og ósmekkvísi stjórnenda Hraðfréttaþáttar Ríkissjónvarpsins á föstudagskvöld (24.10.2014) kristallaðist í kirkjugarðsatriðinu sem þar var flutt. Ófyndið. Ósmekklegt. Stjórnendur Ríkisútvarpsins ættu nú að sjá sóma sinn í að jarðsetja svokallaðar Hraðfréttir í kirkjugarði misheppnaðara sjónvarpsþátta. Hann hlýtur að vera til.
Skoðanakannanir um sjónvarpsáhorf og útvarpshlustun, um það hve margir horfa/hlusta á tiltekið efni eru oft fróðlegar, en segja aðeins hálfa sögu. Einnig þarf að spyrja hvað fólki finnst um efnið. Gott, slæmt, eða sæmilegt.
Samkvæmt sáttasemjara , var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (23.10.2014). Betra hefði verið, að mati Molaskrifara að segja , að sögn sáttasemjara. Þá var talað um tíða komu skemmtiferðaskipa. betra hefði verið, - tíðar komur skemmtiferðaskipa. Í Speglinum varð ágætum fréttamanni á að segja, - fyrir ýmsar sakir, allt frá skattsvikum og ólöglegum fyrirtækjarekstri til njósna og landráðs. Orðið landráð er fleiritöluorð. Ekki til í eintölu.
T.H. bendir á þetta og segir: Ýmislegt er nú haldið upp á! http://revive.visir.is/www/images/92322e56123e8a83e33622882523f060.jpg
Það má með sanni segja! Fyrirtæki eða vefsíða er eins árs og heldur upp á lagersölu af því tilefni !!! Þakka ábendinguna.
Það hefur áður verið sagt hér og skal áréttað að þættir Gísla Arnar Garðarssonar og hans fólks, Nautnir norðursins eru afburða gott efni. Vel útfærð hugmynd. Þessir þættir eiga eftir að fara víða. Molaskrifara þótti hinsvegar ekki mikið koma til danska sykur- og sætabrauðsþáttarins um karamellugerð ,sem sýndur var sl. fimmtudagskvöld. Eina bótin var að hann var stuttur. Svo sérsinna er Molaskrifari, að hann fékk vatn í muninn, þegar snæddur var lútfiskur í þætti Gísla Arnar!
Trendsetterinn er nýjasti tískubloggarinn, sagði á svokölluðu Smartlandi mbl.is (24.10.2014). Alltaf í fararbroddi þegar kemur að vönduðu málfari! http://www.mbl.is/smartland/frami/2014/10/24/trendsetterinn_er_nyjasti_tiskubloggari_islands/
Á sunnudagskvöld (26.10.2014) lauk vandaðri þáttaröð Ríkissjónvarps um landnám og afkomendur Íslendinga í Vesturheimi. Þessir þættir voru vel undirbúnir og vel unnir. Til sóma í hvívetna. Þökk sé Agli Helgasyni og hans góða samstarfsfólki. Ekki er þar minnstur hlutur Ragnheiðar Thorsteinsson. Molaskrifari lítur svo á að þessir þættir séu áfangi, - góður áfangi í að segja þjóðinni þessa merku sögu. Margt er nefnilega enn ósagt um sögu landnemanna, afrek þeirra og afkomendur. Það þurfum við að fá að sjá og heyra.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.10.2014 | 09:46
Molar um málfar og miðla 1600
Fréttin var lesin í seinni fréttum sjónvarps á miðvikudagskvöld.
Sagt var:,- ,,,mörgum tugum lítra af olíu var dælt úr því. Rangt. Olíumagnið var margfalt meira. Fram kom á fréttavef Ríkisútvarpsins í byrjun nóvember í fyrra að um 100 tonn af olíu væru enn í tönkum skipsins. Sagt var að málið væri ,, nú statt hjá lögfræðingum Landhelgisgæslunnar. Statt hjá lögfræðingum? Lögfræðingar Landhelgisgæslunnar fjalla nú um málið. Loks var talað um ,,björgunarlaun vegna skipsverjanna ellefu. Orðið skipsverji kannast Molaskrifari ekki við. Orðið skipsmaður hefur hann hinsvegar heyrt notað um skipverja. Fjölmennasta fréttastofa landsins á að vanda betur til verka.
Hógvært samtal Jóhannesar Kr. Kristjánssonar við Landspítalafólk í Kastljósi á miðvikudagskvöld 22.10.2014) var hrollvekjandi. Ekki voru þó notuð stóru orðin, en alvara málsins komst vel til skila. Mörgum hefur áreiðanlega verið brugðið. Svo tala menn í alvöru um að eyðileggja verðmætt samgöngumannvirki sem Reykjavíkurflugvöllur er til að fullnægja duttlungum skammsýnna stjórnmálamanna í Reykjavík. Við gerum ekki hvort tveggja í senn að byggja nýjan Landspítala og gera nýjan flugvöll. Við höfum ekki ráð á því. Valið ætti ekki að vera erfitt.
Landspítalamálinu var svo vel fylgt eftir í Kastljósi gærkvöldsins. Viðmót Páls Matthíassonar forstjóra Landspítalans hæfði alvöru málsins. Stóryrðalaust gerði hann okkur ljósa alvöru málsins og kurteislega brást hann við illa ígrunduðum og allt að því dónalegum fullyrðingum Vigdísar Hauksdóttur formanns fjárlaganefndar. Takk Jóhannes Kr. Takk Kastljós.
Rafn vitnar í fréttavefinn visir.is (23.10.2014), en þar segir: ,,Fyrsti bíllinn sem Jaguar/Land Rover framleiðir í verksmiðjunni er Range Rover Evoque, en einn fimmti af hverjum framleiddum slíkum bíl selst nú í Kína. Kína er stærsti markaður fyrir Jaguar/Land Rover bíla og þar seljast nú yfir 100.000 bílar á ári. Rafn spyr: ,, Væri ekki heppilegra að selja fimmta hvern bíl í Kína, fremur en láta Kínverja kaupa fimmtung hvers einasta bíls? Væntanlega þarf nú að semja við Kínverja um afnot af hinum 80% hlutnum í hverjum bíl, nema Kínverjar endurselji fimmtung sinn. Molaskrifari þakkar Rafni bréfið. Von er að spurt sé. Sjá: http://www.visir.is/range-rover-framleiddur-i-kina/article/2014141029512
Molaskrifara þykir jafnan vænt um það, þegar honum eru þökkuð Molaskrifin eða vinsamlega að þeim vikið. Það var gert í Staksteinum Morgunblaðsins á þriðjudag (21.10.2014). Hefur þó ekki alltaf verið farið mjúkum höndum um málfar í Morgunblaðinu í þessum Molum. Molaskrifari þakkar fyrir sig.
Næstu Molar á mánudag.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2014 | 09:55
Molar um málfar og miðla 1599
Molaskrifari þakkar gott bréf. Við eigum ekki að sætta okkur við fúsk við eigum að gera kröfur til fjölmiðla. Kröfur um vandað málfar. Því svo læra börnin málið sem það er fyrir þeim haft.
Molavin beindi einnig athygli skrifara á frétt á vef Ríkisútvarpsins á þriðjudag (21.10.2014) en fyrirsögn fréttarinnar er: Skildi sálu sína eftir við ánna. Það er eiginlega erfitt að trúa þessu. En svona birti Ríkisútgarpið okkur þetta á vef sínum: http://www.ruv.is/mannlif/skildi-salu-sina-eftir-vid-anna
Við ána. Lýsandi dæmi um vond vinnubrögð. Skort á verkstjórn. Ekkert eftirlit með framleiðslunni. Ekkert gæðaeftirlit.
Í fréttum Stöðvar tvö (21.10.2014) um enn eina kafbátaleitina í sænska skerjagarðinum var talað um skip sem væru í landhelgi án tilkynningar. Heldur fannst Molaskrifara þetta klaufalega orðað. Átt var við skip í landhelgi sem ekki höfðu tilkynnt yfirvöldum um ferðir sínar.
í fréttum Ríkissjónvarps (21.10.2014) var sagt frá því að álftir ætu upp til agna korn á tugum hektara hjá kornræktarbændum. Tjón af þeirra völdum væri því umtalsvert en lítið unnt að gera því álftin væri hvarvetna alfriðuð vegna þess að hún væri fallegur fugl og syngi vel. Molaskrifar tekur undir það að falleg er álftin og heyrði ekki Steingrímur Thorsteinsson svanasöng á heiði? Þau hljóð sem Molaskrifari hefur heyrt frá álftum í byggð eða grennd við byggð getur hann þó varla flokkað undir söng, en það er kannski sérviska. Sumir kalla það garg. En kannski syngur svanurinn hvergi nema á heiðum?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2014 | 09:37
Molar um málfar og miðla 1598
http://jonmagnusson.blog.is/blog/jonmagnusson/entry/1477456/
Þessi texti vakti athygli mína:
"Sigmundi hefur allt frá því að kjósendur í Norðausturkjördæmi sýndu honum þann sóma að kjósa hann þingmann sinn fundist að æ sé gjöf til gjalda."
Hvernig er annars þetta máltæki? Ég hélt að það væri "Æ sér gjöf til gjalda" og því ætti að standa "sjái" í þessum texta, en ekki "Æ er gjöf til gjalda". Þetta er greinilega vandmeðfarið. Molaskrifari getur litlu svarað öðru en að vísa til orðabókarinnar þar sem segir: Æ sér gjöf til gjalda, sá sem gefur gjöf býst við endurgjaldi. Hann hefði hinsvegar ekki hnotið um orðalagið sem notað er í blogginu, sem til er vitnað.
Molaskrifara finnst það óskiljanleg og órökstudd ákvörðun dagskrárstjórnenda Ríkisjónvarps að flytja veðurfregnir aftur fyrir sérstakan íþróttafréttaþátt í lok kvöldfréttatímans. Þannig er eiginlega verið að neyða þá sem vilja horfa á veðurfréttir til að horfa fyrst á íþróttafréttir. Hver óskaði eftir þessari breytingu? Er þetta bara enn eitt dæmið um völd íþróttadeildarinnar í Ríkissjónvarpinu í Efstaleiti yfir dagskránni?
Molaskrifari er svo íhaldssamur, að þegar talað er í fréttum um hækkandi verðlag á heilbrigðisþjónustu finnst honum ekki við hæfi að tala um að tilgreind þjónusta sé ,,tæpum þúsund kalli dýrari, en ... Svona var til orða tekið í seinni fréttum Ríkissjónvarps (20.10.2014). Vanda ber málfar í fréttum. Þótt gott og gilt sé að tala um þúsundkalla í spjalli milli manna á það orð ekki erindi í fréttatexta.
Hér er svo annað bréf frá K.Þ. (20.010.2014) , sem tengist dæmi er hann nýlega benti á:
"Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir vel koma til greina að byrjað verði að afnema gjaldeyrishöft í skrefum áður en stærstu vandamálin þeim tengdum verða leyst."
Enn vefst þetta sama orðalag fyrir blaðamönnum. Það er eins og að þegar orðið "tengdur" er notað í texta þá fari blaðamenn í beygingarfrí og riti orðmyndina "tengdum" án hugsunar!
Molaskrifari Þakkar K. Þ ábendinguna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2014 | 09:35
Molar um málfar og miðla 1597
Það var kannski misheyrn hjá Molaskrifara á sunnudagskvöld (20.10.2014) er honum heyrðist sagt í fréttum Ríkisútvarps á sunnudagskvöld þar sem fjallað var um lokun Hvalfjarðarganga , að því er framkemur í tilkynningu frá Spöli. Þessi fréttatími er ekki aðgengilegur á vef Ríkisútvarpsins. Molaskrifari hefur nú séð á fésbók að þetta var ekki misheyrn. Fleiri heyrðu þetta.
Sigurður Sigurðarson skrifaði (20.10.2014): ,,Sæll,
Var að lesa íþróttablað Moggans og rakst þá á þetta á bls. 1, undir fyrirsögninni Rúnar á leið í viðræður:
Við erum í viðræðum við langflesta af þeim leikmönnum sem eru með lausa samninga og ég held að það verði minni breytingar á leikmannahópnum í Vesturbænum en margir halda. Það er ekki ljóst að neinn af okkar leikmönnum sem eru samningslausir sé að fara, sagði Baldur.
Hefur þú einhvern skilning á niðurlaginu, þessu feitletraða. Ég veit sosum að þú ert ekki mikið fyrir fótbolta en það ætti ekki að skipta máli. Molaskrifari þakkar Sigurði bréfið og játar skilningsleysi sitt.
Eina fréttin af fundi kjördæmisráðs Framsóknarmanna á norðausturlandi um helgina, sem náði eyrum fjölmiðla, var um beinagrind. Beinagrind af hval. Fréttin var um að forsætisráðherra SDG hefði tilkynnt flokksfólki sínu, að beinagrind steypireyðarinnar sem rak hér á land fengi samastað á Hvalasafninu á Húsavík. Þetta þótt mikil frétt. Svo kom í ljós að þetta var ekki rétt. Beinagrindin átti bara að hafa viðdvöl á Húsavík og fara svo til Reykjavíkur á Náttúruminjasafn Íslands. Eftirlíking af beinagrindinni verður víst geymd á Húsavík. Undarleg fréttaskrif!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2014 | 09:10
Molar um málfar og miðla 1596
Af mbl.is (17.10.2014) http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/10/17/stal_og_klessti_bil_bjargvaettar_sins/
Í fréttinni segir: ,,...en bílstjórinn sem hann kom til bjargar stal og klessti bíl hans, sem hann hafði lagt skammt frá. Sjálfsagt er þetta nú orðið viðtekið orðalag um að skemma eða beygla bíl. Og skömminni skárra en að tala um að klessa á, -sem stundum hefur verið kallað leikskólamál í þessum Molum.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (19.10.2014) heyrði Molaskrifar ekki betur en talað væri um óreiðarlögreglu. Rétt hefði verið að tala um óeirðalögreglu. Í sama fréttatíma var sagt að búast mætti við hálkumyndun. Var ekki búist við hálku?
Beðið skal með að segja margt um fyrsta þáttinn í þáttaröðinni Óskalög þjóðarinnar sem Ríkissjónvarpið sýndi á laugardagskvöld. Óþarft var að sletta á okkur ensku um ,,breaking news, þegar lesið var upp úr gömlu dagblaðið.
Og ekki var betra að heyra stjórnendur velta vöngum yfir því hvort dægurlagasöngvarinn góðkunni Haukur Morthens sem lengi starfaði sem stefnuvottur , hefði verið einhverskonar handrukkari!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2014 | 12:30
Molr um málfar og miðla 1595
Það sigrar enginn kapphlaup. Það sigrar enginn keppni. Þetta ættu þeir sem skrifa fréttir að hafa á hreinu, hafa rétt.
Í Morgunblaðinu á miðvikudag (15.10.2014) sagði í frétt á bls. 4: Þau Svandís, Unnur Brá, Ragnheiður og Vigdís sitja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.
Ætti að vera: Þær Svandís, Unnur Brá, Ragnheiður og Vigdís sitja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.
Á bls. 13 í sama blaði segir: Fjögur ummæli voru dæmd dauð og ómerk, .. Hefði átt að vera: Fern ummæli voru dæmd dauð og ómerk,.. ... Önnur svolítið samkynja fyrirsögn á mbl.is sama dag: Bryndísi sárnar ummæli Brynjars. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/15/bryndisi_sarnar_ummaeli_brynjars/ Bryndísi sárna ummæli Brynjars, ætti þetta að vera.
Sjónvarpsmaður sendi mér þessa athugasemd á fésbók (15.10.2014). ,,Verð að játa að málfarið vefst svolítið fyrir mér. En sennilega er þetta ekki hrós: ,,Helgi Seljan Alþýðlegt fyrir Eiði, er að sitja af sér nokkur ár þingi; hvert hann flaut á bökum verkafólks. Miklar kröfur eru gerðar til móðurmálskunnáttu hjá Ríksútvarpinu nú um stundir.,,Alþýðlegt fyrir Eiði??? ,,Sitja af sér nokkur ár á þingi .???. Bara skemmtilegt,segir Molaskrifari.
Af baksíðu Morgunblaðsins 16.10.2014:,, .. en Alexandra mun einmitt dvelja í 17 daga í Kína. Molaskrifari lærði það nokkuð snemma í blaðamennsku að sögnin að dvelja þýðir að tefja, hindra eða draga á langinn. Hvað dvelur Orminn langa? Hér hefði að mati Molaskrifara farið betur á því að tala um að dveljast, - að vera staddur eða hafast við einhversstaðar.
Næstu Molar á mánudag.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.10.2014 | 10:33
Molar um málfar og miðla 1594
"Fjárhagsnefnd Eyþings lagði fram ályktun á fundinum, þar sem fram kom að áframhaldandi hallarekstur á verkefninu sé óviðunandi.
Nú séu hins vegar blikur á lofti og forsendur skapist til að halda rekstrinum áfram, að því er segir í ályktuninni."
Þarna kemur fram nýr skilingur á orðtakinu "blikur á lofti" - það er talið boða eitthvað jákvætt í stað hins neikvæða sem felst í orðinu blika felst: óveður, illviðri.
Af fréttinni má ráða að tillögusmiðir Eyþings hafi notað orðtakið á þennan ranga hátt, óþarfi er hins vegar að endurtaka villuna í fréttum.
Þennan sama mánudag var í hádegisfréttum Bylgjunnar talað um að "tækla" e-bólu faraldur í Afríku. Er þetta ekki knattspyrnumál?
Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er annað dæmið á fáeinum dögum sem nefnt hefur verið um ranga notkun orðtaksins um að blikur séu á lofti. Virðist smitandi. Þegar blikur eru á lofti eru ótíðindi eða óveður í vændum, það er hárrétt. Málfar íþróttafréttamanna smitar líka út frá sér. Þeir nota oft sögnina að tækla, um að ná boltanum frá mótherja. Molaskrifara finnst þetta heldur ljótt orð og ætti að leyfa íþróttafréttamönnum að hafa það fyrir sig. Í almennum fréttum ætti að forðast að nota það.
Veturliði Þór Stefánsson, skrifaði (14.10.2014): ,,Sæll Eiður,
Vek athygli molaskrifara á þessari óvönduðu fyrirsögn DV (og rökleysu) í viðkvæmu máli:
Ákærð fyrir manndráp af gáleysi: Ákæruvaldið fellur frá kröfu um missi framfæranda http://www.dv.is/frettir/2014/10/13/akaerd-fyrir-manndrap-af-galeysi-akaeruvaldid-fellur-fra-krofu-um-missir-framfaeranda/
Hér bar að skrifa Ákæruvaldið fellur frá bótakröfu vegna missis framfæranda. Kærar þakkir, fyrir réttmæta ábendingu.
Rafn skrifaði (14.10.2014) og vitnaði í frétt þar sem fyrirsögnin er: Boðað til íbúðafundar vegna slæmrar stöðu bæjarsjóðs. Hann segir: ,,Hvar skyldi vera fundaaðstaða fyrir íbúðirnar?? Meginmálið talar að vísu um íbúafund, sem er öllu viðráðanlegri hlutur en íbúðafundur.
Þetta er af vef Eyjunnar. Molaskrifari þakkar Rafni bréfið.
Nýr veitingastaður auglýsti í tölvupósti (14.10.2014): ,,Einnig erum við með gott úrval af bjór og Ale.
Tólf tegundir á krana.
Happy Hour alla daga milli 16 og 19. Enskuskotið. Óvandað.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.10.2014 | 08:28
Molar um málfar og miðla 1593
Hann segir:
Það færist í vöxt að orðmyndin "tengdum" sé notuð án umhugsunar ...
"Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir almenning verða að hafa rétt til þess að kynna sér það sem IS-samstökin hafa fram að færa og því sé lokun heimasíðu tengdum samtökunum óábyrg."
Sami bréfritari bendir einnig á þetta: http://www.visir.is/ekki-nota-dropbox,-facebook-eda-google/article/2014141019643
"Síðan bjóði því enga vernd fyrir persónulegum gögnum fólks sem það hleður inn." Hann spyr: ,,Þurfum við vörn fyrir persónulegum gögnum?
Molaskrifari þakkar ábendingarnar.
Stundum er kerfið sem borgararnir verða að beygja sig undir svo yfirgengilega vitlaust að engu tali tekur. Nýleg dæmi:
1. Molaskrifari nefndi á netinu að hjá sýslumannsembættinu í Hafnarfirði er ekki hægt að greiða 1650 kr. með kreditkorti fyrir bráðabirgðaökuskírteini ( staðlað A4 blað sem tekur örfáarsekúndur að prenta). Svar: ,,Við erum innheimtustofnun og það er ekki hægt að greiða skuldir með kreditkorti. Greiðsla fyrir bráðabirgðaökuskírteini er ekki skuldargreiðsla. Greiðslan er þjónustugjald.
2. Ökuskírteini með mynd er ekki gilt persónuskilríki til skönnunar í banka , ef gildistími þess rann úr fyrir tveimur dögum. Svar: Tölvan neitar að taka þetta gilt. Einhver snillingur í kerfinu hefur skipað tölvunni að gera þetta.
3. Fáránlegasta dæmið er að finna í fínni grein Orra Páls Ormarssonar sunnudagsmogga (12.10.2014) um afhendingu vegabréfa sem eru tilbúin til afhendingar hjá þjóðskrá. Skrifstofa þjóðskrár má ekki afhenda tilbúið vegabréf (nema gegn tíu þúsund króna aukagreiðslu) . Vegabréfið verður að senda í pósti til sýslumanns í því umdæmi þar sem vegabréfsviðtakandinn býr. Enginn virðist vita hver samdi reglurnar og enginn virðist vita hversvegna þetta er svona. ,,Tölvan segir nei. Þetta er eiginlega svona ,,af því bara. Málinu lokið. Er ekki tími til kominn að svolítil heilbrigð skynsemi fái að komast að, þegar tölvum er sagt fyrir verkum ?
Í prýðilegum Vesturfaraþætti sl. sunnudag (12.10.2014) voru okkur tvívegis sýndir spænir, matskeiðar úr horni eða beini. Spænirnir voru kallaðir skeiðar, sem auðvitað er ekki rangt. Kannski deyr orðið spónn í þessari gömlu merkingu og enginn veit lengur hvað spónamatur er eða hvað það er að missa spón úr aski sínum. Um svipaða þróun eru mýmörg dæmi. Málið okkar verður alltaf ögn fátækara, þegar gömul orð og orðtök hverfa í botnlausa glatkistu tímans.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.10.2014 | 09:32
Molar um málfar og miðla 1592
Betra hefði verið: Advania lokaði fréttasíðu Íslamska ríkisins. Germynd er alltaf betri.
Allskonar lífsreynslusögur fræga fólksins eru að verða meginuppistaðan í helgarblöðum Fréttablaðsins, DV og Fréttatímans, - sem kemur reyndar aðeins út einu sinni í viku. Molaskrifari játar algjört áhugaleysi á því hvar borgarfulltrúi Framsóknarflokksins fann ástina sína. Það var uppslátturinn á forsíðu DV fyrir helgina. En sjálfsagt lesa ýmsir svona skrif.
Úr DV (10.10.2014): Tugir manns voru handteknir í hrauninu ... Betra hefði veriðað mati Molaskrifara: Tugir manna voru handteknir í hrauninu...
Hafdís bendir á frétt á fréttavef Morgunblaðsins , mbl.is (13.10.2014). Þar segir: Kalka í Helguvík flytur ösku til urðunar í Noregi.
"Ýmsum spilliefnum og sóttmenguðum úrgangi er einnig brennt í stöðinni og ..."
Er ekki réttast að segja Ýmis spilli efni og sóttmengaður úrgangur eru brennd í stöðinni? Molaskrifari er á því hvort tveggja sé ágætt orðalag, og þakkar Hafdísi bréfið.
Af vef Ríkisútvarpsins (10.10.2014) ,,Ráðuneytið virðist hafa tekið algjöra stefnubreytingu varðandi vistun ungra fanga í Háholti. Hér hefði kannski farið betur á að segja, til dæmis: Ráðuneytið virðist hafa tekið upp gjörbreytta stefnu varðandi ... , eða: Ráðuneytið hefur gjörbreytt um stefnu varðandi ... Athyglisvert yfirlit yfir hringlandann í þessu máli var í fréttum Ríkissjónvarps (10.10.2014).
Svo handfrjáls farsímabúnaður í bíl Molaskrifara gegni sínu hlutverki þarf að vera kveikt á útvarpinu. Þessvegna er oftast opið fyrir Rondó Ríkisútvarpsins. Þar er fín og oft skemmtilega blönduð, tónlist af ýmsum toga. Ekkert áreiti Sjálfsagt er það tölva sem raðar þessu saman. Þjóðsöngurinn ,,Ó, guð vors lands á hinsvegar ekki erindi í þessa blöndu. Hann var leikinn síðdegis á laugardaginn (11.10.2014). Þjóðsönginn á að leika við sérstök tækifæri. Það hlýtur að vera hægt að taka hann út úr þessu safni.
Enn einu sinni setti yfirgangur íþróttadeildar dagskrá Ríkissjónvarpsins úr skorðum í gærkveldi. Hér er ekki verið að amast við sýningu landsleiksins. Endalaust og innihaldslítið fjas að leik loknum seinkaði seinni fréttum um meira en tíu mínútur. Hversvegna mátti ekki færa fjasið á íþróttarásina og hafa t.d. Kastljós í dagskránni? Engin tilkynning í skjátexta. Engin þulartilkynning. Við upphaf tíu frétta var heldur ekki beðist afsökunar á seinkun fréttatímans. En okkur var sagt að hann yrði í lengri kantinum í kvöld vegna landsleiks Íslands og Hollands! Ríkisútvarpið ber ekki mikla virðingu fyrir viðskiptavinum sínum. Stofnunin er staurblönk, en kurteisi kostar ekki neitt.
Hve miklu fé skyldi okkar bláfátæka Ríkisútvarp verja til að kaupa og leigja sérstök tæki til knattspyrnuútsendinga til að mæta kröfum Knattspyrnusambands Evrópu? Um það fá eigendur Ríkisútvarpsins ekkert að vita.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)