Molar um málfar og miðla 1966

VANDRÆÐALEGUR VIÐTENGINGARHÁTTUR

Sumir eiga sífellt í erfiðleikum með að nota viðtengingarhátt rétt. Dæmi um þetta var í fyrirsögn á mbl.is (23.06.2016): Fóstureyðingum fjölgi um 108% Eins og verið verið að hvetja til þess að fjölga fóstureyðingum um 108%.: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/06/23/fostureydingum_fjolgi_um_108_prosent/

Svo var þó auðvitað ekki, en þetta var síðar lagfært. Villur af þessu tagi sjást of oft. Það er því miður allt of algengt að óyfirlesnar, óleiðréttar, fréttir séu birtar okkur á netmiðlum. Það er eins og netmiðlana skorti metnað til að sýna íslenskri tungu þann sóma, sem hún verðskuldar.

 

AÐ SKEMMTA SÉR

Nú er eins og allir séu hættir að skemmta sér, - að minnsta kosti heyrist það, orðalag ákaflega sjaldan í fjölmiðlum. Nú heitir það að skemmta sér að hafa gaman. Þetta eru auðvitað bein áhrif úr ensku, - to have fun, - að skemmta sér.

 

ENN OG AFTUR

Aftur og aftur hnjóta lesendur um samkynja villur í netmiðlunum. Af mbl.is (23.06.2016): ,,Fram kem­ur í frétt AFP að upp­taka af sam­tal­inu hafi verið lekið til fjöl­miðla en þar ræði ráðherr­ann við emb­ætt­is­mann í Katalón­íu-héraði ....” Upptaka af samtalinu var ekki til fjölmiðla. Upptöku af samtalinu var lekið til fjölmiðla ... Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/06/22/vilja_ad_radherrann_segi_af_ser/

 

 

FRÁ BYKO

 Nú býður byggingavöruverslunin BYKO okkur í auglýsingum að versla byggingavörur í BYKO. Auglýsingastofu,sem semur svona auglýsingu, er ekki við bjargandi. Sumir kaupa byggingavörur í BYKO, en það verslar enginn byggingavörur í BYKO.

BYKO verslar með byggingavörur. Þetta er ekkert flókið.

 

 

AÐ SKIRIFA Á ÍSLENSKU

Eftirfarandi setning er úr laxveiðifrétt á visir.is (23.06.2016): ,,Aðstæður voru hinar bestu í morgun og voru veiðimenn jafnvel að spreyta sig á að hitcha suma staðina með góðum árangri en það er taktík sem ekki er notuð mikið svona á fyrsta degi”. Molaskrifrari er ekki veiðimaður. Hann skilur þetta ekki og er þess fullviss að sama gildir um marga aðra lesendur. Sjá: http://www.visir.is/algjor-mokveidi-vid-opnun-ytri-rangar/article/2016160629453

 

ÍSLENDINGAR

Mjög góður Íslendingaþáttur Ríkissjónvarps um Steingrím Hermannson, var sýndur á miðvikudagskvöld (22.06.2016). Andrési Indriðasyni er einstaklega lagið að setja saman sjónvarpsefni úr gullkistu Ríkisútvarpsins. Þekkir til enda starfað þar í hálfa öld. Molaskrifari hafði vegna starfa erlendis ekki séð nema hluta af því efni,sem sýnt var í þættinum. Á þingmennskuárunum átti hann ævinlega gott samstarf við Steingrím Hermannsson, hvort sem var í stjórn eða stjórnarandstöðu. Steingrímur var hreint ekki óumdeildur frekar en aðrir aðsópsmiklir stjórnmálamenn. Forysta Framsóknarflokksins í dag gæti ýmislegt af verkum Steingríms og stefnu lært.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fésbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband