Molar um málfar og miðla 1786

 

TÍU MILLJARÐA TRYGGINGASJÓÐUR

Rafn skrifaði (01.09.2015):

 ,,Sæll Eiður. Þetta varðar ekki málfar, en fréttin hér fyrir neðan kom mér verulega á óvart, svo mikið, að ég fæ ekki orða bundizt. Slitastjórnarmenn Glitnis hf. eru, að því er ég bezt veit, allir sjálfstætt starfandi lögmenn og endurskoðendur, sem sinna starfinu sem verktakar. Fyrir utan það, að verktakar bera ábyrgð gagnvart verkkaupum sínum, þá er lögmönnum og endurskoðendum skylt að kaupa starfsábyrgðartryggingu, sem ég tel, að ætti að ná yfir þær kröfur, sem aðrir kunna að eiga á hendur slitastjórnarmönnum vegna starfa þeirra í slitastjórn.

 Engu að síður gerir slitastjórnin nú, væntanlega í lokatörn slitamálsins, kröfu um, að kröfuhafar leggi evrur að jafnvirði um 10.000.000.000 kr. í sjóð til að tryggja skaðleysi slitastjórnarmanna af störfum sínum. Væntanlega ætlar slitastjórnin sjálfri sér framhaldslíf við ávöxtun viðkomandi sjóðs.
Ég vek athygli á kröfunni, sem ég tel furðulega, en ætla ekki að tjá mig um hana að öðru leyti. Fréttin er úr DV.” – Kærar þakkir , - Rafn. Þetta er furðulegt mál, - að ekki sé nú meira sagt.

Sjá:

http://www.dv.is/frettir/2015/9/1/slitastjornin-fer-fram-tiu-milljarda-tryggingasjod/

 

KOSNINGAR Í FÆREYJUM

Rétt er það sem Haraldur Bjarnason sagði á fésbók (02.09.2015) , að Ríkisútvarpið hefði mátt gera Lögþingskosningunum í Færeyjum hærra undir höfði. En ágæt frétt var í útvarpinu á miðnætti á þriðjudagskvöld, þegar úrslitin lágu fyrir. Hefði þó átt að vera fyrsta frétt, ekki koma á eftir upptuggu úr fyrri fréttatímum um skoðanakönnun á fylgi flokkanna á Íslandi. Fréttamat er auðvitað umdeilanlegt. Það veit Molaskrifari mæta vel.

 

LOFSVERT

Það er mjög lofsvert að Ríkissjónvarpið skuli annað kvöld (04.09.2015) ætla að flytja okkur í beinni útsendingu tónleika úr Eldborgarsal Hörpu þar sem Kristinn Sigmundsson syngur eftirlætisaríur sínar. Það orkar hinsvegar tvímælis, þegar þessi útsending er kynnt í dagskrárkynningu þá heyrir Molaskrifari ekki betur en þar syngi Kristinn hendingu úr ljóðaflokknum Vetrarferðinni eftir Franz Schubert. Kannski er það rangt, en Vetrarferðin verður seint kölluð óperuaría.

 

AÐ AUKA LÍFSKJÖR

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (01.09.2015) talaði fjármálaráðherram um að auka þyrfti lífskjör á Íslandi. Væntanlega átti ráðherra við að bæta þyrfti lífskjör á Íslandi.

 

TVEIR MORGUNÞÆTTIR

Nú er ekki lengur sami þátturinn á dagskrá á báðum rásum Ríkisútvarps árla á morgnana. Það er mjög til bóta. Um það skal þó fátt sagt að sinni annað en að í morgun (03.09.2015) var á sama tíma rætt um sama efni í báðum þáttum. Rætt var við tvo íþróttafréttamenn Ríkisútvarps,sem báðir voru í Hollandi. Stjórnendur ættu kannski að hafa svolítið samráð um efnisval? Hvað skyldi Ríkisútvarpið hafa sent marga fréttamenn til Hollands til að segja okkur fréttir af fótbolta? Er ekki útvarpsstjóri alltaf að segja okkur hvað fjárhagur þessarar þjóðarstofnunar sé bágur? Fjár virðist aldrei vant, þegar fótbolti er annarsvegar.

 

ÍSLENSKA EÐA ENSKA

Íslenskur háskólakennari, aðstoðarprófessor, sem titlar sig svo , skrifar á fésbók (01.09.2015): ,,Einhver sem hefur áhuga á að vera host á síðunni Kæra Eygló Harðar til að hreinsa út White-power lið sem er með hate speech? Það þarf að fylgjast með síðunni reglulega svaka gaman… ööö. “ Þessi grautur er hvorki enska né íslenska Skyldi aðstoðarprófessorinn bjóða nemendum sína upp á svona hrærigraut í fyrirlestrum ?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband