Molar um málfar og miðla 2022

ALMENNILEG ÍSLENSKA

Það kom fram í upphafi afmælisþáttar í Ríkissjónvarpinu um listir og menningu í 50 ár sl. laugardagskvöld (24.09.2016) , að ekki hefði verið töluð almennileg íslenska í sjónvarpinu fyrr en sá ágæti útvarpsmaður Arthúr Björgvin Bollason kom á skjáinn. Hann var kvaddur til viðtals við þáttarstjórnendur og sagði orðrétt: Fólk hafði ekki heyrt almennilega íslensku talaða í sjónvarpi í háa herrans tíð. Hann sagðist hafa talað kjarnyrt mál og það hefði vakið ,,gríðarlega athygli”.

 Já , alltaf er maður að læra eitthvað nýtt. Við sem lásum fréttir í sjónvarpinu fyrstu árin og stjórnuðum þar umræðuþáttum , Magnús Bjarnfreðsson, Markús Örn Antonsson, Ólafur Ragnarsson, Jón Hákon Magnússon, Svala Thorlacius og fleiri og fleiri töluðum sem sé ekki almennilega íslensku! Það var og. Gott er samt að enn til skuli til fólk sem getur stært sig af því að tala almennilega íslensku og fer ekki leynt með það. Því fólki fer sjálfsagt heldur fækkandi.

 

SIGMUNDUR MUN SIGRA KOSNINGARNAR

Haft eftir Vigdísi Hauksdóttur formanni fjárlaganefndar á mbl.is (23.09.2016): ,,Hún seg­ist ekki eiga von á öðru en að Sig­mund­ur Davíð sigri kosn­ing­arn­ar með glæsi­brag.” Sigri kosningarnar !

Það var og.

Það sigrar enginn kosningar. Það er hins vegar hægt að vinna sigur í kosningum.

 

STÍLBROT

Sigurður Sigurðarson skrifaði (20.09.2016):

 ,, Sæll,

 Ekki allir gæta að stíl í skrifum sínum í fjölmiðlum og sumir kunna það ekki. 

Í ágætri frétt eða fréttaskýringu um bílategundina Range Rover segir í upphafi:

Und­ir­ritaður man ennþá mæta­vel dag­inn þegar hann sá fyrst Range Rover og dáðist ræki­lega að. Það var dag­inn sem ég …“

Þetta er stílbrot. Ekki er hægt að byrja skrif á því að vera einhver þriðja persóna og skipta strax í næstu málsgrein og yfir í fyrstu persónu og svo skyndilega hætta að vera persónulegur það sem eftir er. Betra hefði verið að sleppa því að byrja greinina eins og höfundur gerði. Að auki hefði mátt prófarkalesa og einnig taka út leiðinlegt klif í myndatextum. Myndirnar eru með grein um Range Rover og óþarfi að skrifa það í nær öllum myndatextunum. Engin hætta er á að lesandinn ruglist.” - Þakka bréfið, Sigurður. http://www.mbl.is/bill/domar/2016/09/20/engar_malamidlanir_her/

 

RANGT

Í afmælisþætti Ríkissjónvarpsins sl. laugardagskvöld (24.09.2016) var í spjalli við Jónatan Garðarsson vikið að því, að ekki hefðu verið varðveitt fræg ummæli Halldórs Laxness úr umræðuþætti um það hvort ekki væri hægt að lyfta um,ræðunni á hærra plan. Af því tilefni sagði Eva María Jónsdóttir annar umsjónarmanna þáttarins:,, En hversvegna ekki – þetta var kannski ... þessu var eytt til að losna við þetta. Þetta var óþægilegt.” Þetta er alrangt. Þessi þáttur var í þáttaröðinni Erlend málefni. Mig minnir að þættirnir hafi verið á dagskrá vikulega yfir veturinn á upphafsárunum. Í þættinum,sem hér um ræðir, ræddu þeir saman m.a. um kommúnisma, Halldór Laxness, Jónas Árnason og Matthías Johannessen. Þátturinn snerist upp í karp milli hinna tveggja síðastnefndu. Halldór vildi að umræðan tæki aðra stefnu. Hann vildi lyfta umræðunni á hærra plan. Þátturinn var tekinn upp á tveggja þumlunga breitt myndband. Þessir þættir voru ekki geymsluefni,- oftast byggðir á erlendu fréttaefni og myndum. Þættirnir voru teknir upp og nota þurfti myndböndin aftur. Ein spóla var álíka dýr og mánaðarlaun tæknimanns. Sjónvarpið hafði takmörkuð fjárráð. Á 2-3 vikna fresti var farið yfir hvaða útsent efni skyldi geymt og hvað skyldi þurrkað út. Þessi þáttur var á efnislistanum merktur Erlend málefni, engin efnislýsing og enginn mundi þá, að þar höfðu þessi eftirminnilegu ummæli Halldórs fallið. Þátturinn var þurrkaður út eins og aðrir þættir í þessum sama flokki,- svo hægt væri að nota myndböndin aftur. Það var ekki viljaverk, að eyða ummælum Halldórs Laxness eins og umsjónarmaður beinlínis sagði. Þetta var slys. Ómaklegt og rangt að fullyrða annað.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 27. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband